2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Bylting gamlingjanna í Hollywood

  Ekki er langt síðan að bitastæðum kvenhlutverkum fækkaði mjög þegar konur náðu fertugsaldri og margar stjörnur voru hreinlega afskrifaðar eftir það. Eitthvað hefur breyst og í kvikmyndaheiminum er talað um byltingu gamlingjanna.

  Á hverju ári koma nú fram á sjónarsviðið kvikmyndir þar sem roskið og háaldrað fólk er í aðalhlutverkum. Svo virðist að mógúlar glimmerborgarinnar (tinsel town) séu farnir að átta sig á að líf er eftir bæði fertugt og fimmtugt og fólk á þeim aldri er tilbúið að fara í bíó. Í fyrra kom út falleg mynd, Our Souls at Night með Robert Redford og Jane Fonda í aðalhlutverkunum. Ef einhver hefði fullyrt fyrir ekki svo löngu síðan að kona á níræðisaldri myndi leika aðalhlutverk í stórri kvikmynd árlega, hefði sennilega verið hlegið að honum. En þannig er það því í sumar mættu svo Candice Bergen, Mary Steenburgen, Jane Fonda og Diane Keaton í The Book Club, stórskemmtilegri mynd um konur á besta aldri sem uppgötva að ástin spyr ekki um aldur. Þess má geta að á sama tíma fer Jane einnig með annað aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttunum, Grace and Frankie, en þeir njóta mikilla vinsælda á Netflix. Mótleikkona hennar í þeim þáttum, Lily Tomlin er sjötíu og níu ára.

  Diane Keaton hefur sömuleiðis ekki gengið atvinnulaus. Hún er sjötíu og tveggja ára og lék í fyrra í bresku myndinni Hampstead. Stórfín mynd um ekkju og ekkil er ná að lækna sár hvort annars og slíta fjötra fortíðar. Hún hefur líka farið með hlutverk í þáttunum The Young Pope og á næsta ári er væntanleg myndin Poms. Candice Bergen jafnaldra hennar er enn á fullu í bæði kvikmyndum og sjónvarpsþáttunum um Murphy Brown. Mary Steenburgen er yngst þeirra stalla, aðeins sextíu og fimm ára, en hún er enn í fullu starfi.

  Sé einhver að velta því fyrir sér þá nær þessi bylting gamlingjanna einnig til karla. Þeim bjóðast eins og konunum ekki bara fleiri heldur líka betri hlutverk. Á síðasta ári kom stórskemmtileg mynd um þrjá félaga er leggja til atlögu við bankann er rændi þá aleigunni, Going in Style, með þeim Morgan Freeman, Michael Caine og Alan Arkin og náði hún gríðarlegum vinsældum. Bretland hefur heldur ekki farið varhluta af þessari byltingu. Til að mynda hafa sjónvarpsþættirnir Last Tango in Halifax, um eldra par er var í sambandi á sínum yngri árum og nær saman aftur þegar makar beggja eru fallnir frá. Í upphafi átti aðeins að gera eina þáttaröð en viðtökurnar urðu til þess að þær urðu fjórar.

  Mjög margir bíóunnendur nutu þess að horfa á Dame Judy Dench, Bill Nighy, Tom Wilkinson og Maggis Smith í The Best Exotic Marigold Hotel og í framhaldsmyndinni The Second Best Exotic Marigold Hotel. Judy er áttatíu og fjögurra ára og ber aldurinn einstaklega vel. Hin óviðjafnanlega Helen Mirren er bara sjötíu og þriggja ára og enn meðal vinsælustu leikkvenna heims. Hún var bókstaflega frábær í hlutverki Söruh Winchester í fyrra og ekki færri en sex myndir með henni eru í vinnslu. Hún er vinsæl fyrirsæta og landaði í ár samningi við L’Oréal og er andlit hárvörulínu fyrirtækisins. Sennilega er það engin tilviljun því eldri konur verða æ sýnlegri í auglýsingum. Isabella Rossellini sneri til að mynda aftur á síðasta ári sem andlit Lancôme. Henni var sagt upp starfinu fjörutíu og fjögurra ára gamalli en nú sextíu og sex ára sýnir hún að snyrtivörur klæða allar konur.

  AUGLÝSING


  Ekkert lát er á útrás gamlingjanna fram á sjónarsviðið því nýlega var frumsýnd framhaldsmynd Mamma Mia! og Meryl Streep, Stellan Skarsgård, Pierce Brosnan og Colin Firth mun bregða þar fyrir þótt myndin fjalli að mestu um forsögu fyrri myndarinnar. Þau eru öll komin á sjötugsaldur nema Colin. Það er því kannski tímabært að breyta málshættinum góða í allt er sextugum fært.

  Texti: Steingerður Steinarsdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is