2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  CrossFit í rúman áratug

  Segja má að landinn sé haldinn sannkölluðu CrossFit-æði miðað við þann fjölda CrossFit-stöðva sem reknar eru um allt land en íþróttin náði hér nýjum hæðum í vinsældum þegar Annie Mist Þórisdóttir varð heimsmeistari í greininni árið 2011.

  Við fengum Hrönn Svansdóttur, framkvæmdastjóra CrossFit Reykjavíkur, og Óskar Einarsson tónlistarmann til að segja lesendum frá því hvað þeim finnst svona skemmtilegt við íþróttina, en þau hafa bæði stundað hana af miklu kappi í rúman áratug.

  CrossFit-íþróttin gengur út á fjölbreyttar æfingar sem byggja á blöndu ólympískra lyftinga og kraftlyftinga, á fimleikaæfingum og þolæfingum. Upphafsmaður CrossFit, Greg Glassman, setti á fót heimasíðuna crossfit.com árið 2001 og birti þar daglega æfingu dagsins (e. WOD, workout of the day). Íslendingur sem rakst á síðuna sýndi vinum og vandamönnum sem fóru að gera æfingarnar. Eitt leiddi af öðru og síðan þá hafa verið opnaðar fjölmargar stöðvar hér á landi.

  Með þeim fyrstu á Íslandi til að æfa CrossFit af krafti

  AUGLÝSING


  Eiginmaður Hrannar, Ívar Ísak Guðjónsson, kynnti CrossFit-íþróttina fyrir henni. „Ívar Ísak fann crossfit.com á Netinu árið 2007. Hann var með þeim fyrstu á Íslandi til að æfa CrossFit af krafti og fylgdi prógramminu á síðunni í mörg ár. Þetta heillaði Ívar Ísak strax en ég var aðeins lengur að kaupa hugmyndina,“ segir Hrönn og brosir.

  „Ég æfði með honum þegar mér leist vel á æfingarnar en eftir smátíma sá ég að það borgaði sig að taka þetta alla leið. Ég fór í framhaldinu að búa til mitt eigið prógramm út frá CrossFit- hugmyndafræðinni. Það sem mér finnst svo skemmtilegt við íþróttina er fjölbreytnin og krafturinn. Maður finnur vel hvernig líkaminn er allur virkari og að færni til ólíkra hluta eykst. Svo spilar samfélagið sem myndast á stöðinni líka mjög stórt hlutverk.“

  Stofnuðu CrossFit Reykjavík í bílskúrnum heima hjá sér

  Hrönn og Ívar Ísak stofnuðu CrossFit Reykjavík í lok árs 2009. „Fyrst vorum við með þetta heima hjá okkur í Mosfellsbænum, í bílskúrnum sem var 27 fermetrar. Áhuginn var strax mikill og margir sem komu á æfingar til okkar,“ segir Hrönn. „Þegar leið á veturinn þurftum við að finna stærra húsnæði og fengum þá Evert Víglundsson inn í þetta með okkur. CrossFit Reykjavík var opnað formlega í Skeifunni 8 þann 4. júlí 2010 og fékk þá á sig þá grunnmynd sem við höfum unnið út frá síðan og hefur skilað því kerfi sem við notum í dag.“

  „Maður finnur vel hvernig líkaminn er allur virkari og að færni til ólíkra hluta eykst. Svo spilar samfélagið sem myndast á stöðinni líka mjög stórt hlutverk.“

  Hrönn segir að stöðin hafi strax fengið góðar viðtökur og þau hafi stækkað hana ári síðar. „Vorið 2013 var svo gerður samningur um enn betra húsnæði í Faxafeni 12 og stöðin flutti þangað í ágúst sama ár. Svo barst okkur góður liðsauki í janúar 2012 þegar Annie Mist, heimsmeistari í CrossFit, bættist í eigendahópinn,“ segir Hrönn brosandi. „Núna æfa rúmlega 1500 manns hjá okkur. Ég held að vinsældirnar skýrist af árangrinum sem fólk nær, samfélaginu og því að þjálfarar stýra tímunum frá upphafi til enda með markvissum hætti og tíminn nýtist vel.“

  Hún segir margt hafa áhrif á líðan okkar og heilsu og mikilvægt sé að huga að helstu þáttum. „Hreyfing spilar þar stórt hlutverk en líka atriði eins og svefn, mataræði og að gera eitthvað skemmtilegt reglulega. Lífið verður betra þegar við vöndum alla þessa þætti.“

  Óskar Einarsson tónlistarmaður.

  Fann strax að þetta var frábær leið til að halda sér í formi

  Óskar Einarsson, tónlistarmaður, píanóleikari og kórstjóri, er með hraustustu mönnum í tónlistarbransanum og þótt víðar væri leitað. Hann segist eiginlega hafa verið byrjaður að gera CrossFit-æfingar í World Class áður en CrossFit-stöðvar voru opnaðar hér á landi. „Það var líklega árið 2006 eða 2007 sem vinur minn sagði mér frá heimasíðunni crossfit.com þar sem nýjar æfingar voru settar inn á hverjum degi og við vorum svona að leika okkur að taka þær. Ég fór svo á námskeið í CrossFit sem Evert Víglundsson, einn eigenda og yfirþjálfari í CrossFit Reykjavík, hélt árið 2008. Þetta heillaði mig strax. Ég var orðinn mjög leiður á þessum hefðbundnu tækjasölum, hlaupabrettum og einhæfu æfingum sem maður var fastur í. Ég fann strax að þetta var frábær nýjung og leið til að halda sér í formi.“

  Gaman að sjá árangurinn

  Óskar segist alltaf hafa verið viðloðandi íþróttir og hann hafi æft fótbolta, handbolta og badminton á sínum yngri árum. „Þegar ég var átján ára fór ég í hnéaðgerð sem gerði drauminn um atvinnumennsku í fótbolta að engu,“ segir Óskar og brosir. „En ég fór eitt sinn til læknis vegna þess að ég fann fyrir einhverjum óþægindum í hjarta og hann sagði að málið væri einfalt, ég ætti að hreyfa mig og stunda reglubundna líkamsrækt. Síðan hef ég reynt að halda mér í fínu formi.“

  Aðspurður hvað það sé sem heilli hann við CrossFit-íþróttina svarar Óskar að það sé fyrst og fremst fjölbreytni. „En líka það að CrossFit er hægt að stunda nánast hvar sem er og þarf ekki alltaf einhver tæki og tól við þjálfunina, þótt það sé vissulega líka stór hluti af þjálfuninni. CrossFit hefur kennt mér margar nýjar æfingar og rétta líkamsbeitingu við æfingarnar en mikil áhersla er lögð á að gera þær réttar. Síðan er það félagsskapurinn sem er frábær. Ég er og hef alltaf verið frekar mikill keppnismaður og finnst gaman að keppa við aðra, en auðvitað er þetta fyrst og fremst keppni við mann sjálfan og það er gaman að sjá þegar maður bætir sig og árangurinn.“

  Í alvöru fyrir alla

  Óskar leggur áherslu á það að allir geti stundað CrossFit þegar blaðamaður spyr vantrúaður hvort þetta sé í alvöru fyrir alla. Því það hafi ekki beint litið út fyrir það þegar undirrituð horfði á CrossFit- leikana nú nýverið. „Jú, þetta hentar öllum. Og það er einmitt það sem er svo frábært við þessa íþrótt að hún hentar öllum og á öllum aldri. Í CrossFit Reykjavík, þar sem ég æfi, eru börn að æfa, ófrískar konur, nýbakaðar mæður, fatlaðir, unglingar, eldri borgarar og allt þar á milli.  Allar æfingar er hægt að skala eins og það er kallað, þ.e. það er er hægt að breyta æfingunum svo þær henti hverjum og einum; hvort sem það er að létta á lóðum, stytta vegalengdir eða fækka endurtekningum. Hver og einn reynir sitt besta og þarf ekki að keppast við að ná sama tíma og Annie Mist eða lyfta jafnmikið og Björgvin Karl,“ segir Óskar og brosir.

   „Ég fór eitt sinn til læknis vegna þess að ég fann fyrir einhverjum óþægindum í hjarta og hann sagði að málið væri einfalt, ég ætti að hreyfa mig og stunda reglubundna líkamsrækt. Síðan hef ég reynt að halda mér í fínu formi.“

  „En það sem ég held að geri CrossFit svona vinsælt er fyrst og fremst það að æfingarnar eru mjög árangursríkar og fólk er fljótt að komast í gott form. Margir æfa í hóptímum undir leiðsögn þjálfara sem hafa mikla reynslu og þekkingu og eru reiðubúnir að leiðbeina og aðstoða á sem bestan hátt. Mér finnst líka frábært að geta gert margar þessara æfinga nánast hvar sem er og hvenær sem er; maður þarf ekki nema um það bil tvo fermetra til að gera hörkuæfingar. En til að ná fjölbreytni í æfingum er auðvitað æskilegt að hafa aðgang að lóðum, ketilbjöllum, róðravél, hjóli og ýmsum æfingatækjum sem CrossFit nýtir sér,“ segir Óskar og er þar með rokinn á æfingu.

   

   

   

   

   

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is