Draumurinn um nýtt líf breyttist í martröð

Deila

- Auglýsing -

Anna Lilja Flosadóttir og sambýlismaður hennar og barnsfaðir, Eiríkur Ingi Grétarsson, voru nýflutt til Spánar þar sem ætlunin var að hefja nýjan kafla í lífinu. Aðeins fjórum dögum eftir að þau komu út lést Eiríkur snögglega úr svokallaðri ósæðarflysjun. Dauða hans hefði ef til vill mátt koma í veg fyrir ef frekari rannsóknar hefðu verið gerðar en læknir á Íslandi sagði hann vera með magabólgur. Anna Lilja kom aftur heim til Íslands, allslaus með dætur sínar tvær og segir móttökur íslenska velferðarkerfisins ekki hafa verið upp á marga fiska.

 

„Í dag er einmitt afmælisdagurinn hans Eiríks, svo við skálum fyrir honum í kaffi,“ segir Anna Lilja þar sem hún kemur sér fyrir andspænis mér á kaffihúsi í Kópavogi. Blaðamaður á eftir að komast að raun um að þrátt fyrir allt sem hefur gengið á í lífi Önnu Lilju er hún glaðbeitt og hefur ekki tapað húmornum.

Anna Lilja og Eiríkur hittust fyrst í kokteilboði árið 1994. Leiðir þeirra lágu aftur saman ári síðar þegar hún rakst á hann fyrir tilviljun og bað hann um að aðstoða sig við markaðssetningu á vörum sem hún hafði hugsað sér að flytja inn frá Bandaríkjunum. „Ég vissi að Eiríkur væri rosalega fær í markaðsmálum og var upp með mér að hann vildi aðstoða mig við að koma rekstrinum af stað. En það sem ég var ekkert að gefa upp strax var að mér leist rosalega vel á hann, mér fannst hann alveg dásamlega fallegur og svo var hann svo indæll og elskulegur. Hann átti íbúð í Hafnarfirði og ég man að þegar hann bauð mér heim til sín í fyrsta sinn varð ég steinhissa á því hvað allt var snyrtilegt og fallega innréttað. Ég hugsaði með mér að hann hlyti að eiga konu sem héldi öllu svona huggulegu,“ segir hún og skellir upp úr. „En svo var nú ekki. Hann var bara algjör snyrtipinni.“

Anna Lilja segir að þau Eiríkur hafi hist nokkrum sinnum og ekki hafi farið á milli mála að þau hafi verið hrifin hvort af öðru. „Þetta byrjaði með smávegis viðskiptaráðgjöf en svo bauð hann mér í bíó og út að borða og í helgarferð til London. Þá vorum við nú bara búin að þekkjast í tvær vikur en ég þáði boðið. Hlutirnir gerðust frekar hratt hjá okkur Eiríki. Hann var líka ekki týpan sem var að tvínóna neitt við hlutina. Einn daginn vorum við að ganga á Oxford-stræti og ákváðum að bregða okkur inn í skartgripaverslun. Svo vorum við allt í einu búin að kaupa okkur trúlofunarhringa en af því að þetta var 1. apríl sagði ég að við myndum nú ekki setja þá upp þennan dag. Eiríkur sagði auðvitað ekki, við myndum setja þá upp um kvöldið þegar við færum út að borða,“ segir Anna Lilja og hlær.

Mynd / Unnur Magna

„Við áttum pantað borð á svakalega flottum indverskum veitingastað og fórum þangað ásamt bróður Eiríks, Jóni Páli, og mágkonu. Þeir bræður voru mikið fyrir sterkan mat en þegar ég sá svitann perla á enni Jóns Páls hugsaði ég með mér að þetta væri nú kannski svolítið sterkt. Ég var reyndar frekar viðkvæm í maganum á þessum tíma og maturinn fór ekki vel í mig svo ég þurfti að fara nokkrum sinnum afsíðis … Á meðan beið Eiríkur með hringana en það var ekki fyrr en upp úr miðnætti sem hann loksins gat farið á hnén og beðið mín, þannig að það var kominn 2. apríl þegar við trúlofuðum okkur. Sem betur fer, því annars hefði kannski alltaf verið hægt að segja að þetta væri bara aprílgabb,“ segir hún hlæjandi.

Þegar heim var komið frá London flutti Anna Lilja inn til Eiríks í íbúðina í Hafnarfirði og segir að þrátt fyrir að hlutirnir hafi gerst hratt hafi fjölskyldur þeirra tekið þessu vel. „Mamma var svo ánægð með tengdasoninn. Og allir tóku honum vel, enda var hann einstakur. Hann var svo ljúfur, einstaklega bóngóður, alltaf hress og skapgóður og með góða nærveru. Fjölskyldunum okkar kom vel saman og það var mikill og góður samgangur á milli. Pabbi hans heitinn var mikið eðalmenni, svo hlýr og góður maður og ofsalega skemmtilegur. Tengdamóðir mín, Þorgerður, er líka einstök manneskja og búin að reynast mér og dætrum mínum vel.“

„Við gerðum mikið af því að ferðast, bæði innanlands og utan, og vorum rosalega samrýmd öll fjögur. Stelpurnar voru algjörar pabbastelpur, enda var Eiríkur frábær pabbi.“

Árin liðu. Anna Lilja og Eiríkur keyptu íbúð í nýbyggingu í Laugalind í Kópavogi. Að sögn Önnu Lilju skinu listrænir hæfileikar Eiríks skært þar sem hann hannaði íbúðina og innréttaði með miklum glæsibrag. „Hann hafði ótrúlega næmt auga fyrir hönnun og skipulagi. Hann var líka mjög handlaginn og ef hann fékk einhverja hugmynd var hann búinn að framkvæma hana. Það var aldrei neitt mál.“

Eldri dóttirin, Alda Karen, fæddist árið 2000 og segir Anna Lilja að komu hennar hafi verið beðið með óþreyju. Þau Eiríkur hafi verið búin að reyna lengi að eignast barn og hamingjan hafi verið mikil þegar Alda Karen kom í heiminn. Yngri dóttirin, Unnur Gréta, fæddist svo fjórum árum síðar. Rekstur fjölskyldufyrirtækisins hafi gengið vel og fjölskyldan blómstrað. „Við gerðum mikið af því að ferðast, bæði innanlands og utan, og vorum rosalega samrýmd öll fjögur. Stelpurnar voru algjörar pabbastelpur, enda var Eiríkur frábær pabbi. Skólasystkini stelpnanna sóttu til dæmis mjög mikið í að koma heim með þeim og Eiríkur var ósjaldan spurður hvort hann vildi ekki bara vera pabbi þeirra líka,“ segir Anna Lilja og brosir að minningunni.

Brúðkaupsveislan breyttist í erfidrykkju
Árið 2003 var Anna Lilja stödd í sumarbústað tengdaforeldra sinna við Gíslholtsvatn ásamt þeim hjónum og dóttur sinni, Öldu Karen. Það var mikil tilhlökkun í loftinu, því Anna Lilja og Eiríkur voru að fara að gifta sig þremur dögum síðar. „Þetta var á miðvikudegi og það var ótrúlega fallegur dagur; sólin skein í heiði og allt var í blóma. Um hádegi segir tengdapabbi að sér líði eitthvað undarlega og sé svo heitt, hann haldi að það sé að líða yfir sig. Hann var varla búinn að sleppa orðinu þegar hann hneig niður og varð bráðkvaddur. Þannig að í staðinn fyrir að halda áfram með brúðkaupsundirbúninginn, brúðkaupsveislu aldarinnar, fórum við að undirbúa jarðarför,“ segir Anna Lilja og þagnar um stund.

„Við ákváðum að fresta brúðkaupinu en svo leið tíminn og aldrei létum við verða af því að gifta okkur. Mig langaði að hafa risastórt brúðkaup en ég var alltaf að bíða eftir rétta augnablikinu. Eins og það skipti einhverju máli hvort maður sé í stærð átta eða sextán þegar maður giftir sig, það skiptir bara ekki einu einasta máli. Það skiptir hins vegar miklu máli að hafa einhvern rétt ef maki manns fellur frá. Ég hafði búið með Eiríki í 22 ár þegar hann lést en ég fékk til dæmis engan lífeyri eftir hann eða neitt. Mér finnst mikilvægt að fólk átti sig á því að það skiptir máli að hafa öll slík mál á hreinu og þótt það sé algeng hugsun að það komi ekkert fyrir og maður hafi nægan tíma, þá getur allt gerst. Og maður hefur ekkert endilega svo mikinn tíma.“

Faðir Eiríks, Grétar Nökkvi Eiríksson, rak leikfangaverslunina Leikbæ um margra ára skeið ásamt eiginkonu sinni, Þorgerði Arnórsdóttur, og sonum. Verslunin gekk vel og var starfrækt á nokkrum stöðum víðsvegar um bæinn. Fyrirtækið var selt árið 2004 en kaupendur stóðu ekki við sinn hluta samningsins að sögn Önnu Lilju. Það hafi tekið á fjölskylduna. Eiríkur, sem alltaf vann mikið, fór að finna fyrir miklum kvíða og þunglyndi sem olli því að hann varð öryrki. „Ég vil meina að hann hafi hreinlega unnið yfir sig,“ segir Anna Lilja. „Hann varð bara lasinn. Hann hafði fundið fyrir skammdegisþunglyndi áður, farið svona aðeins niður í janúar og fram á vorið, en þarna var þetta orðið verulega slæmt og kvíðinn mjög mikill. Við fórum eitt skipti til New York og þegar við komum á hótelið treysti hann sér ekki út af hótelinu aftur. Einkennin voru þannig að mér leist ekki á blikuna svo ég hringdi á lækni. Hann ákvað að það væri ekki annað í stöðunni en að senda Eirík heim til Íslands með sjúkraflugi.“

„Um hádegi segir tengdapabbi að sér líði eitthvað undarlega og sé svo heitt, hann haldi að það sé að líða yfir sig. Hann var varla búinn að sleppa orðinu þegar hann hneig niður og varð bráðkvaddur.“

Og fjárhagsáhyggjur sem komu til í kringum fjármálahrunið voru ekki til að bæta úr. Anna Lilja segir þau hafa verið með lán hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, SPRON, sem varð gjaldþrota. Þau hafi verið ein þeirra fjölmörgu sem lenti í klónum á Dróma, sem átti að halda utan um eignir SPRON og tryggja greiðslu á innlánsskuld við Arion banka. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði meðal annars á þingfundi árið 2012 að saga Dróma væri ein sorgarsaga frá upphafi til enda og hefði komið niður á viðskiptavinum sem ekki fengu sömu fyrirgreiðslu og aðrir í bankakerfinu. Fjármálaeftirlitið hefði fengið ótal kvartanir vegna viðskipta við Dróma en það virtist engu breyta. Anna Lilja segir að lánið þeirra Eiríks hafi týnst í kerfinu og þegar það loks hafi fundist hafi það verið komið upp úr öllu valdi og þau hafi ekki sætt sig við að borga það fyrir mistök Arion banka.
„Við leituðum til Umboðsmanns skuldara og ég var þeim þakklát að ætla að aðstoða okkur í þessum málum með Dróma en það sem ég vissi ekki, var að með því að þiggja hjálp Umboðsmanns værum við eiginlega að afsala okkur öllum réttindum. Þetta var hræðilegur tími. Ég var greind með ofsakvíða sem ég tengi við þetta álag allt … Við fengum örugglega tuttugu innheimtubréf á viku og endalausar heimsóknir frá innheimtumönnum. Við misstum íbúðina til bankans en höfðum leigt íbúðina af honum þar til kom að því að leigusamningurinn rann út.“

Anna Lilja segir að þau Eiríkur hafi í níu mánuði leitað að nýju leiguhúsnæði en ekkert hafi gengið. Leiguverð hafi verið gríðarlega hátt og það húsnæði sem var á viðráðanlegu verði hafi varla verið boðlegt. „Þetta var eins og leita að nál í heystakki. Svo við Eiríkur fengum þá hugmynd að flytja til Spánar, prófa að búa þar yfir veturinn og sjá hvernig okkur líkaði. Við vorum alveg til í að skipta um umhverfi og prófa eitthvað nýtt. Unnur Gréta, yngri dóttir okkar, var strax til í að koma með okkur og var bara spennt fyrir þessu, en sú eldri var á fyrsta ári í Verslunarskólanum og ákvað að vera eftir hér og búa hjá föðurömmu sinni. Ég viðurkenni að okkur foreldrunum fannst það rosalega erfið tilhugsun en vissum að hún yrði í góðum höndum.“

Búslóðin var sett í gám og fjölskyldan sá fram á bjartari tíma. En enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

Sagður vera með magabólgur
Rétt fyrir miðnætti 20. ágúst 2017, á laugardagskvöldi, hringdi Eiríkur í Önnu Lilju, en hann var þá staddur í sumarbústaðnum við Gíslholtsvatn. Hún segir þau hafa skipst á að dvelja þar með hundinn þeirra, því hundahald var ekki leyft í fjölbýlishúsinu þar sem tengdamóðir hennar bjó.

„Hann sagðist vera með mikla verki í hálsinum, eða öndunarvegi, og kjálkanum. Ég og stelpurnar ákváðum að bruna úr bænum til hans. Við komum að bústaðnum og sáum sjúkrabíl, sem var dálítið sjokk. Þá hafði Eiríkur talað við Neyðarlínuna sem ákvað að senda strax sjúkrabíl á staðinn. Ég spurði sjúkraflutningamennina hvort þeir myndu ekki fara með hann beint niður á hjartagátt Landspítalans en þeir sögðust ætla með hann á bráðadeildina á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, HSU. Eiríkur var með meðvitund en átti ofsalega erfitt með að liggja út af. Hann var útskrifaður af spítalanum um fimmleytið um morguninn eftir að hafa fengið væg verkjalyf, Paratabs, en honum hafði verið sagt að þetta væru magabólgur.“

„Þá sá ég útundan mér að Eiríkur var lagstur á gólfið og ég heyrði þau óhugnanlegustu hljóð sem ég hef nokkurn tíma heyrt … “

Anna Lilja sótti Eirík á spítalann og þau fóru aftur upp í bústað. Eiríkur var engu betri að hennar sögn og ákvað að fara aftur á spítalann. „Þar kom ekkert nýtt í ljós, það var sama fólk á vakt, og þótti engin ástæða til að skoða hann neitt frekar. Niðurstaðan var sú sama, þetta væru magabólgur. Satt að segja er eins og læknirinn hafi ekki vitað að Eiríkur hafi kvartað yfir verkjum í kjálka og öndunarvegi við sjúkraflutningamennina. En hann var sem sagt bara útskrifaður aftur og við ákváðum að fara í bæinn þennan dag, á sunnudegi, til að pakka niður fyrir Spánarferðina.“

Þau flugu til Spánar á mánudagskvöldi og lentu seint um nótt á Alicante. Þaðan keyrðu þau til Campoamor en þar voru þau búin að taka íbúð á leigu. Næstu dagar fóru í að koma sér fyrir og Anna Lilja segir nýja lífið hafa byrjað vel og verið eins og draumi líkast. „Íbúðin var stór og rúmgóð, alveg rosalega falleg og allt umhverfið þarna í kring svo dásamlegt. Eiríkur hafði fundið fyrir einhverjum óþægindum í fluginu og reyndi að sofna án árangurs. Hann var ekkert að kvarta en ég vissi að fyrst hann væri að nefna þetta hefði honum ekki liðið alveg nógu vel.“

Föstudaginn 25. ágúst, fjórum dögum eftir að þau komu til Spánar, sagðist Eiríkur vera eitthvað slappur. Anna Lilja segir hann hafa haft litla matarlyst og hann hafi lagst fyrir í rúm um kvöldið. „Hann kallaði á mig og sagðist vera mjög hræddur. Sér liði svo ofboðslega illa. Ég sagðist verða að finna eitthvað út úr því hvað væri hægt að gera og fór fram. Þá sá ég útundan mér að Eiríkur var lagstur á gólfið og ég heyrði þau óhugnanlegustu hljóð sem ég hef nokkurn tíma heyrt … Eiríkur barðist við að ná andanum. Ég hljóp inn til hans, sneri honum yfir á bakið og athugaði púlsinn. Kallaði svo á Unni Grétu, sem þarna var þrettán ára, að koma með vatn handa pabba sínum því hann ætti erfitt með að anda.“

Anna Lilja segir leigusalann hafa verið búinn að sýna henni hvar upplýsingar um neyðarnúmer væri að finna ef eitthvað kæmi upp á svo hún gat strax hringt eftir hjálp. „Við bjuggum í lokuðu hverfi með vaktmönnum og ég hringdi í þá. Ég tala smávegis spænsku og gat einhvern veginn sagt þeim hvað væri í gangi. Þeir voru fljótir á staðinn og hringdu líka á sjúkrabíl. Ég og einn vaktmannanna gerðum endurlífgunartilraunir en ég fann alveg að það var engin svörun hjá Eiríki … Það var ekkert lífsmark.“ Anna Lilja tekur hlé á frásögninni og það er greinilegt að upprifjunin reynir á.

„Svo komu sjúkraflutningamenn og læknir sem notuðu hjartastuðtæki á Eirík en allt kom fyrir ekki. Skjárinn sem þeir höfðu tengt við hann sýndi engin viðbrögð, það var bara flöt lína og svona píptónn. Eins og maður heyrir í bíómyndunum … Við Unnur Gréta grátbáðum þá um að prófa einu sinni enn. Please, one more try, please, just one more try … Ég ríghélt í vonina um að Eiríkur myndi koma til baka, maður missir ekki vonina. En ég vissi að um leið og þeir myndu hætta endurlífgunartilraununum væri það staðfest að þetta væri búið. Og þeir litu bara á okkur og sögðu að því miður væri ekki hægt að gera meira. Þetta væri búið.“

Hér tökum við Anna Lilja okkur smáhlé og pöntum okkur annan kaffibolla. Þessi minning tekur á.

Erfiðast að hringja heim og segja dótturinni tíðindin
Hún segir íbúðina skyndilega hafa fyllst af fólki. Lögreglan hafi mætt á svæðið. Og aðilar frá spænskri útfararþjónustu. „Þeir voru samt ekkert að flýta sér að fara með Eirík. Hann var orðinn alveg ískaldur þegar þeir fóru með hann. Kannski er þetta eitthvað öðruvísi þarna úti, ég veit það ekki. Ég fékk að liggja aðeins hjá honum og kveðja hann, ég sagði honum að ég myndi passa upp á stelpurnar okkar. Það var gott að fá smátíma með honum, þetta hafði allt gerst svo hratt. Unnur Gréta var svo ótrúlega dugleg og sterk að ég á eiginlega ekki til orð yfir það. Hún tók af honum hringinn hans og hálsmenið sem ég hefði örugglega ekki fattað að gera sjálf. Hún hugsaði fyrir því og ég er svo þakklát fyrir það. Svo beið mín það erfiðasta … Að hringja heim til Íslands og segja eldri dóttur minni að pabbi hennar væri dáinn. Og segja tengdamömmu minni að sonur hennar væri dáinn. Þetta var alveg hræðilegt.“

Mynd / Unnur Magna

Anna Lilja þekkir föðurmissi af eigin raun en faðir hennar lést úr krabbameini árið 1990, þegar Anna Lilja var fimmtán ára. „Svo ég veit hvernig þetta er. Ég fékk að vísu smávegis aðdraganda og tíma til að kveðja pabba því maður vissi auðvitað að hverju stefndi. En dætur mínar misstu pabba sinn svo skyndilega, það var enginn tími til að undirbúa sig og kveðja.“

Anna Lilja segist standa í mikilli þakkarskuld við Rósu frænku sína sem kom til þeirra mæðgna strax um morguninn. „Hún býr þarna úti en einhver heima hafði haft samband við hana og hún kom strax yfir til okkar. Hún hélt vel utan um okkur og hjálpaði okkur alveg ofboðslega mikið. Hún hafði líka samband við konu sem heitir Ágústa og hefur búið þarna úti í meira en tuttugu ár, sem var okkur óendanlega mikil hjálp. Ágústa aðstoðaði okkur mjög mikið í samskiptunum við útfararþjónustuna og eins þegar kom að krufningunni. Ég var strax ákveðin í að það yrði að kryfja Eirík því ég fann á mér að það var eitthvað bogið við þetta allt saman.“

„Ég fékk að liggja aðeins hjá honum og kveðja hann, ég sagði honum að ég myndi passa upp á stelpurnar okkar. Það var gott að fá smátíma með honum, þetta hafði allt gerst svo hratt.“

Anna Lilja komst í samband við spænskan réttarmeinalækni á Alicante sem fenginn var til að sjá um krufninguna. „Það tók ekki langan tíma, um fjóra daga, og svo fengum við að hafa svolitla kistulagningu. Þá voru Alda Karen, tengdamamma og mágur minn kominn út og við héldum fallega, látlausa athöfn. Ég hafði talið mér trú um að þetta yrði ekki svo erfitt fyrir mig, ég væri búin að sjá hann. Ég hafði meiri áhyggjur af stelpunum, tengdamömmu og bróður hans Eiríks. En þetta var mun erfiðara en ég hafði búist við. Ég viðurkenni að mig langaði ekkert endilega að fara á fætur á morgnana og halda lífinu áfram en maður gerir það sem þarf að gera. Ég held að allir í þessum aðstæðum geri það. Maður verður líka að halda áfram fyrir börnin sín. Mér fannst líka mamma hans Eiríks alveg ótrúleg í þessum aðstæðum, hún hjálpaði mér að velja á hann föt fyrir kistulagninguna. Það var vissulega skrýtið að fara með fötin hans og ferðatöskuna í útfararþjónustuna.“

Þrátt fyrir að upprifjunin taki á er greinilegt að Anna Lilja er með húmorinn að vopni í þessu öllu saman. „Það var til dæmis svolítið vandamál að finna kistu sem passaði, því hann elsku Eiríkur minn var tæpir tveir metrar á hæð og Spánverjarnir auðvitað svo litlir. Svo það var smávesen að fá kistu í réttri stærð. En það tókst nú. Svo söng ég fyrir hann í kistulagningunni, en hljóðkerfið bilaði í miðri athöfn svo ég söng bara lágt. Það var kannski líka bara best fyrir alla,“ segir hún og hlær létt.

Tveimur vikum seinna flaug fjölskyldan heim. „Ég vildi ekki fara fyrr en Eiríkur væri farinn heim,“ segir Anna Lilja lágt. Á Íslandi var haldin önnur kistulagning og Eiríkur var jarðsettur í Háteigskirkju 15. september 2017. Anna Lilja segist standa í mikilli þakkarskuld við alla þá sem gerðu henni kleift að jarða manninn sinn.

„Ég kem til Íslands og stend uppi heimilislaus, og allslaus, með dætur mínar. Við vorum svo heppnar að geta flutt inn til tengdamömmu minnar, sem bjó í þriggja herbergja íbúð og leyfði okkur að búa í öðru herberginu. En auðvitað var þetta erfitt. Það er ekki hægt að lýsa því hvað tengdamamma mín býr yfir miklum styrk, hún var ofboðslega góð við okkur. Hún er einstök. Ef ég hefði ekki átt hana að þá hefði ég örugglega lent á götunni með dætur mínar. Ég sótti strax um félagslega íbúð hjá Kópavogsbæ en mátti bíða eftir henni í tíu mánuði. Við fengum enga áfallahjálp og kerfið bauð ekki upp á neina aðstoð fyrir okkur, því var bara skítsama.“

Anna Lilja segir þó að hún hafi fengið hjálp frá mörgu góðu fólki og án þess hefði hún til dæmis ekki getað veitt Eiríki sómasamlega útför. „Svo reyndist Guðmundur Karl Brynjarsson, sóknarprestur í Lindakirkju í Kópavogi, mér alveg einstaklega vel. Hann er dásamlegur maður. Hann hringdi til dæmis í mig til að athuga hvernig ég hefði það og bjargaði eiginlega jólunum með því bara að sýna umhyggju. Mig langar að þakka honum sérstaklega ásamt öllu því góða fólki sem gerði mér kleift að jarða Eirík minn. Og hjálpaði mér að kaupa rúm handa okkur stelpunum og aðrar nauðsynjar þegar við loksins fengum íbúð hjá Kópavogsbæ. Rósa systir mín, mamma, systkini og fyrrverandi nágrannar okkar í Laugalind reyndust okkur líka vel og námsráðgjafarnir í Versló.“

Og Anna Lilja segist þakklát fyrir að vera komin með íbúð og húsaskjól fyrir dætur sínar. „Það skiptir máli fyrir öll börn að eiga öruggt heimili, góða fjölskyldu og gott tengslanet. Ég er alveg ofboðslega stolt af dætrum mínum, þær veita mér innblástur alla daga. Þeim hefur gengið vel í skólanum, Alda Karen útskrifaðist til dæmis úr Versló án þess að falla í einum einasta áfanga þrátt fyrir að missa pabba sinn. Þær eiga yndislega og trausta vini og dásamlega kærasta sem hafa reynst þeim svo vel.“

Reið yfir örlögum Eiríks
Við réttarkrufningu sem framkvæmd var á Spáni kom í ljós að Eiríkur hefði látist úr svokallaðri ósæðarflysjun, sem er tiltölulega sjaldgæfur en lífshættulegur sjúkdómur og krefst bráðrar skurðaðgerðar. Erfitt getur verið að greina og meðhöndla ósæðarflysjun en Anna Lilja segir að með frekari rannsóknum hefði líklega verið hægt að sjúkdómsgreina Eirík rétt. Og hann hefði ekki þurft að deyja.

Anna Lilja sendi erindi til Embættis landlæknis sem laut að meintri vanrækslu og mistökum „við veitingu heilbrigðisþjónustu og ótilhlýðilegri framkomu við veitingu heilbrigðisþjónustu“ eftir að Eiríkur var fluttur með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, HSU. „Landlæknir komst að þeirri niðurstöðu að læknar á bráðamóttöku HSU hefðu gert mistök þegar þeim mistókst að greina ósæðarflysjunina en þótt fram komi í svari Landlæknis að það hafi verið langsótt að brjóstverkirnir sem Eiríkur var með hefðu stafað af meltingarfæraóþægindum, taldi hann ekki tilefni til frekari aðgerða af hálfu Embættisins.“

Hún viðurkennir að hún sé reið yfir örlögum Eiríks. „Hann ætti að vera á lífi. Ef hann hefði verið rannsakaður almennilega þegar hann fór fyrst upp á spítala þá hefði komið í ljós að hann væri ekki með magabólgur. Fyrstu mánuðina eftir að Eiríkur dó fannst mér ég vera stödd í martröð sem tæki engan enda. Þetta er aðeins betra í dag. Ég tek bara einn dag í einu. Þótt ég hafi misst ástina í lífi mínu er ég samt svo þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa þessa ást. Það eru ekki allir svo lánsamir.“

Í svari Embættis landlæknis við erindi Önnu Lilju, dags. 29. nóvember 2018 segir meðal annars:
„Einkenni sjúklings voru talin stafa af óþægindum frá efri meltingarvegi, enda hefði Eiríkur haft fyrri sögu um slíkt. Hann var útskrifaður með vægum verkjatöflum. […] Þegar gögn eru skoðuð nú eftirá verður að álíta að einkenni sjúklings við komu á bráðamóttöku hafi verið alvarleg og að þau hafi getað bent til sjaldgæfs sjúkdóms, svo sem ósæðarflysjun er. Sjúklingur hafi verið með sára verki fyrir brjósti, leiðandi upp í kjálka og ekki önnur meltingarfæraeinkenni. Verði því að telja nokkuð langsótt að kenna sjúkdómi í efri meltingarvegum um þessi einkenni.“

Myndir // Unnur Magna
Förðun // Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi
Föt // Cosmo

- Advertisement -

Athugasemdir