2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Draumurinn breyttist í martröð

  Anna Lilja Flosadóttir og sambýlismaður hennar og barnsfaðir, Eiríkur Ingi Grétarsson, voru nýflutt til Spánar þar sem ætlunin var að hefja nýjan kafla í lífinu. Aðeins fjórum dögum eftir að þau komu út lést Eiríkur snögglega úr svokallaðri ósæðarflysjun.

  Dauða Eiríks hefði ef til vill mátt koma í veg fyrir ef frekari rannsóknar hefðu verið gerðar, að sögn Önnu Lilju, en læknir á Íslandi sagði hann vera með magabólgur. Nokkrum dögum áður en þau flugu til Spánar hafi Eiríkur hringt á sjúkrabíl vegna mikilla verkja í hálsinum, eða öndunarvegi og kjálkanum. Þá var hann staddur í sumarbústað fyrir austan.

  „Ég spurði sjúkraflutningamennina hvort þeir myndu ekki fara með hann beint niður á hjartagátt Landspítalans en þeir sögðust ætla með hann á bráðadeildina á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, HSU. Eiríkur var með meðvitund en átti ofsalega erfitt með að liggja út af. Hann var útskrifaður af spítalanum um fimmleytið um morguninn eftir að hafa fengið væg verkjalyf, Paratabs, en honum hafði verið sagt að þetta væru magabólgur.“

  Föstudaginn 25. ágúst, fjórum dögum eftir að þau komu til Spánar, sagðist Eiríkur vera eitthvað slappur. Anna Lilja segir hann hafa haft litla matarlyst og hann hafi lagst fyrir í rúm um kvöldið. „Hann kallaði á mig og sagðist vera mjög hræddur. Sér liði svo ofboðslega illa. Ég sagðist verða að finna eitthvað út úr því hvað væri hægt að gera og fór fram. Þá sá ég útundan mér að Eiríkur var lagstur á gólfið og ég heyrði þau óhugnanlegustu hljóð sem ég hef nokkurn tíma heyrt. Eiríkur barðist við að ná andanum. Ég hljóp inn til hans, sneri honum yfir á bakið og athugaði púlsinn. Kallaði svo á Unni Grétu, sem þarna var þrettán ára, að koma með vatn handa pabba sínum því hann ætti erfitt með að anda,“ segir Anna Lilja meðal annars í forsíðuviðtali Vikunnar.

  „Fyrstu mánuðina eftir að Eiríkur dó fannst mér ég vera stödd í martröð.“

  Anna Lilja viðurkennir að hún sé reið yfir örlögum Eiríks. „Hann ætti að vera á lífi. Ef hann hefði verið rannsakaður almennilega þegar hann fór fyrst upp á spítala þá hefði komið í ljós að hann væri ekki með magabólgur. Fyrstu mánuðina eftir að Eiríkur dó fannst mér ég vera stödd í martröð sem tæki engan enda.“

  AUGLÝSING


  Viðtalið í heild sinni má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar sem kemur í verslanir í dag.

  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Anna Lilja er á forsíðu nýjustu Vikunnar. Forsíðumyndina tók Unnur Magna.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is