Drottning hreingerninganna

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hefur skrifað greinar og bækur um hreingerningar og er þekkt undir heitinu „drottning hreingerninganna.

Drottning hreingerningakvenna í Bandaríkjunum heitir Linda Cobb. Hún hefur gefið út bækur um þetta efni, skrifað greinar og er þekkt undir heitinu Queen of Clean. Hús Lindu ljómaði af hreinlæti jafnt innandyra sem utan og hún á sannarlega mörg góð ráð handa fólki sem vilja hafa hreint í kringum sig.

Linda Cobb er sögð vera drottning hreingerningakvenna.

Vaskinn á baðherberginu og baðkerið hreinsar Linda með hvítvínsediki og bóraxdufti. Hún dreifir bóraxduftinu yfir vaskinn, úðar ediki yfir úr brúsa og strýkur yfir með hreinsiklút.

Krómið í blöndunartækjunum þrífur hún með mýkingarefnaklútum fyrir þurrkara. Ekki er víst að þeir fáist hér á landi en klútar vættir með örlitlu mýkingarefni fyrir þvottavélar gera sama gagn og eins notar hún gjarnan mýkingarefni þegar hún þvær sturtuna því þannig nær hún öllum sápuklessum og skýjum á flísunum. Glerið í sturtuklefanum glansar einnig einstaklega fallega að sögn Lindu ef ofurlítið mýkingarefni er sett í vatnið sem notað er til að þrífa það.

Krómið í blöndunartækjunum þrífur hún með mýkingarefnaklútum fyrir þurrkara. Ekki er víst að þeir fáist hér á landi en klútar vættir með örlitlu mýkingarefni fyrir þvottavélar gera sama gagn.

Klósettið verður skínandi hreint og hvítt ef sett er ein tafla af gervitannahreinsi í skálina.

Tárhreinir gluggar

Gluggana pússar Linda með blöndu af hreinu hreinsispritti og vatni. Blandað er til helminga, blöndunni úðað á rúðuna og pússað yfir með klút. Að lokum er strokið yfir gluggana með púða sem notaður er til að strjúka af krítartöflum en það segir Linda að eyði öllum „helgidögum“.

Te er til margra hluta nytsamlegt en Linda Cobb notar það til að gefa tréhúsgögnunum sínum glansandi og fallega áferð. Hún setur tvo tepoka í lítra af vatni, kælir það og þvær síðan húsgögnin upp úr teinu. Cobb heitir því að húsgögnin muni gljá eins og pússaður spegill eftir þessa meðferð. Annar einstaklega góður húsgagnaáburður er að hennar mati ólífuolía og borðedik. Þá er blandað einum bolla af ólífuolíu á móti ¼ bolla af ediki og borið á húsgögnin með mjúkum klút og pússað vel yfir á eftir.

Stályfirborð ísskápa og eldavéla pússar hún með ofurlítilli barnaolíu eða steinefnaolíu. Yfirborð stálsins glansar sem aldrei fyrr og að auki telur Linda þetta ágæta vörn gegn rispum.

Derhúfur í uppþvottavélina

Cobb notar mikið moppuna sína og segir að trefjamottan, sem tengja má við moppuskaftið, sé uppáhaldsverkfærið sitt. Hún renni þessu yfir flísarnar, parketið og dúklagt gólf og allt rusl hverfi eins og fyrir galdur. Þegar hreinsuninni sé lokið þurfi ekki annað að gera en taka mottuna af skaftinu og henda henni í þvottavélina.

Gluggana pússar Linda með blöndu af hreinu hreinsispritti og vatni. Blandað er til helminga, blöndunni úðað á rúðuna og pússað yfir með klút.

Eiginmaður Lindu á, að hennar sögn, margar og margvíslegar derhúfur sem eru í miklu uppáhaldi hjá honum. Húfurnar eiga það til að óhreinkast og þegar það gerist tekur drottningin þær og setur í efstu grind uppþvottavélarinnar og húfurnar verða eins og nýjar þegar uppþvottavélin hefur lokið sínu verki.

Eitt af mörgum frábærum húsráðum Lindu er að nota brauðsneið til að ná upp smæstu glerbrotum. Ef glas eða eitthvað annað brotnar segist hún ævinlega ryksuga upp stærstu brotin en leggja síðan brauðsneið yfir svæðið, þrýsta ofan á hana og henda svo. Þetta segir hún að taki allra smæstu brotin sem ellegar gætu stungist upp í fætur fólks sem leið á um rýmið. Hún notar einnig tannkrem til að pússa silfur og sparar sér þar með kaup á rándýru hreinsiefni sem hún segir lykta illa.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira