2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Drungi og dulúð

  Steingerður Steinarsdóttir fjallar um bókmenntir.

  Fyrsta bók finnska höfundarins Max Seeck, Englar Hammúrabís er vel unninn og fléttan úthugsuð.

  Áhugaverð flétta 
  Nýlega kom út á íslensku fyrsta bók finnska höfundarins Max Seeck, Englar Hammúrabís. Hann hefur starfað að markaðsmálum til þessa en hafði ástríðu fyrir sakamálasögum, einkum norrænum. Hann ákvað að reyna sjálfur að setja saman eina slíka og fléttan er úthugsuð og vel unnin. Sagan hefst þegar finnskur sendráðsstarfsmaður, Jare Westerlund, hverfur í Zagreb. Málið vekur mikla athygli heima í Finnland og stjórnvöld eru sökuð um að gæta ekki nægilega vel að starfsmönnum sínum. Það verður til þess að Daniel Kuisma, yfirmaður í leynilögreglu hersins og Annika Lehto, starfsmaður utanríkisráðuneytisins, eru send af stað til að rannsaka málið. Þá kemur í ljós að það teygir sig lengra aftur í fortíðina en menn gerðu sér grein fyrir og á upptök sín í stríðinu í Júgóslavíu. Hópur er kallar sig Engla Hammúrabís virðist tengjast málinu en hverjir eru þeir og hvers vegna eru þeir drepnir einn af öðrum? Hammúrabí var sjötti konungur Babýlon og helst þekktur vegna lagabálka sína er ritaðir voru á dulmáli á steina. Vísindamönnum tókst að leysa gátuna en lögmálið um auga skuli koma fyrir auga og tönn fyrir tönn er frá Hammúrabí komið. Útg. JPV.

  Í Gleðilega fæðingu eru greinagóðar upplýsingar settar fram á aðgengilegan og skemmtilegan hátt.

  Sannleikurinn um meðgöngu og fæðingu
  Eftir að fæðingar færðust út af heimilunum og inn á sjúkrahús urðu þær sveipaðar einhvers konar dulúð. Fæðingarstofan var heimur kvenna og feður ekki velkomnir. Aðeins ljósmæður og annað heilbrigðisstarfsfólk var innvígt og ungar konur höfðu því fæstar neina raunsanna mynd af hvað biði þeirra eftir fjörutíu vikna meðgöngu. Vissulega hefur þetta breyst en enn eru margar konur illa undirbúnar þegar kemur að fæðingunni. Þeim hefur vissulega verið sagt að mikill sársauki fylgi og erfiði við að koma barninu í heiminn. Fæstar eiga þó von á öllu því er yfir gengur. Þess vegna ber að fagna útkomu bókar Aðalbjörns Þorsteinssonar, Hildar Harðardóttur og Þorbjargar Marinósdóttur, Gleðilega fæðingu. Hér eru greinagóðar upplýsingar settar fram á aðgengilegan og skemmtilegan hátt. Það kemur áreiðanlega mörgum á óvart hve fjölbreytileg þjónusta er í boði þegar kemur að fæðingunni og að konur geti linað verkina með margvíslegum aðferðum. Þetta er flott og fræðandi bók sem allir verðandi foreldrar ættu að kynna sér en sérstaklega þeir sem vænta fyrsta barns. Útg. Vaka-Helgafell.

  AUGLÝSING


  Góður stuðningur 
  Edda Björgvinsdóttir leikkona er þekkt fyrir jákvætt viðhorf sitt til lífsins og gleðina sem ævinlega fylgir henni. En lífskrafturinn sprettur ekki fram fyrirhafnarlaust. Edda þekkir margar leiðir til að rækta hann og viðhalda bjartsýni og vongleði. Hún hefur miðlað þeim til annarra á námskeiðum og í fyrirlestrum og nú hefur hún fundið frumlega og skemmtilega leið til að koma boðskapnum víðar. Styrkleikakort Eddu eru falleg og til þess fallin að opna augu notenda fyrir hinu smáa og góða í lífinu. Framhlið hvers korts tiltekur einn eiginleika, á borð við þrautseigju, útgeislun, samkennd og sjálfsþekkingu. Bakhliðin lýsir því svo hvað felst í þessum góða kosti og hvernig hægt sé að nýta hann. Kortin eru tilvalin til að læra af þeim, styrkja sig í trúnni á sjálfan sig og einnig að skoða þá og hvernig hægt sé að tileinka sér meira þakklæti, kærleika og auðmýkt. Að auki er örugglega gaman að velta fyrir sér kortunum með vinum og vandamönnum og ræða það sem þar er sett fram. Edda mælir einnig með að fólk velji sér þrjú kort og skýri hvers vegna þeir hafi kosið einmitt þessa tilteknu eiginleika. Allt er þetta vel til þess fallið að auka sjálfsþekkingu og skýra betur í huganum hvaða gildi viðkomandi einstaklingur metur mest. Frekari upplýsingar er að finna á www.styrkleikar.is

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is