2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Ef þú leitar að hamingjunni í veraldlegu hlutunum þá finnurðu hana aldrei“

  Við sjávarsíðuna í Skerjafirði stendur leikskólinn Sælukot í rauðu, fallegu húsi. Þar stunda börnin jóga og hugleiðslu og borða einungis grænmetisfæði. Leikskólinn þótti afar framúrstefnulegur þegar hann var stofnaður fyrir rúmum fjörutíu árum enda var jóga og grænmetisfæði ekki orðið jafnsjálfsagt á Íslandi þá og það er í dag.

  Á móti mér tekur Didi Ananda Kaostubha Acarya sem hefur verið rekstraraðili og ný-húmanískur leikskólastjóri Sælukots frá árinu 2010.

  „Kallaðu mig bara Didi,“ segir hún brosandi og útskýrir að Didi sé indverska og þýði systir. „Allar nunnur í Ananda Marga fá nafnið Didi og ég man varla nafnið sem mér var gefið við fæðingu. Ég þarf að kíkja í vegabréfið mitt til að rifja það upp,“ segir hún og hlær.

  Hún vísar mér upp á efri hæðina, inn í stórt herbergi þar sem við komum okkur fyrir í þægilegum sófa. „Hér fá börnin kennslu í jóga og hugleiðslu,“ segir Didi. „Við leggjum líka mikla áherslu á frjálsan leik sem leið til menntunar og þroska.“

  Leikskólinn Sælukot var stofnaður á Íslandi árið 1977 af félögum úr jógahreyfingunni Ananda Marga. Hann er ný-húmanískur og einn af fjölmörgum leikskólum sem hreyfingin rekur um allan heim og sá fyrsti sem stofnaður var í Evrópu. Hann hefur verið í Skerjafirði frá árinu 1985 og búið er að stækka húsið frá því það var byggt fyrst.

  AUGLÝSING


  „Nú eru 36 börn í leikskólanum, sem tekur við börnum á aldrinum átján mánaða til sex ára en nýlega fengum við leyfi til að bæta við þrjátíu börnum, sem er mikið gleðiefni,“ segir Didi. Hún bætir við að flest börnin búi í Reykjavík en einhver búi í Mosfellsbæ, Kópavogi og Hafnarfirði.

  „Við höfum mannúðarhyggju að leiðarljósi og kennum börnunum að sýna náungakærleik og ást á öllu sköpunarverkinu, hvort sem það eru menn, dýr eða plöntur. Við kennum þeim til dæmis að við getum ekki lifað án plantnanna þótt þær geti lifað án okkar. Þær gefa okkur súrefni. Við setjum niður fræ í moldina og segjum börnunum frá því hvaðan fræið kemur. Svo fylgjumst við með fræinu verða að plöntu og lærum um hana. Svo kennum við þeim um pappírinn sem við fáum frá plöntunum eða trjánum og börnin læra að nota allan pappír í hófi. Þau fá að nota allt eins og þau þurfa en læra að nota ekki meira en það. Ekki nota meira en þú þarft. Það þurfa allir að læra. Líka fullorðna fólkið.“

  Allur matur eldaður frá grunni

  Indæl matarlykt berst til okkar, enda undirbúningur fyrir hádegismatinn í fullum gangi. Didi segir að kokkurinn eldi allan mat frá grunni en einungis sé boðið upp á grænmetisfæði.

  „Við gætum þess að nota bara fyrsta flokks hráefni og allt er ferskt. Við kaupum aldrei neitt frosið eða tilbúið. Við erum með lítinn grænmetisgarð þar sem við ræktum grænmeti eins og kartöflur og kál. Við búum líka til okkar eigin mjólk úr möndlum og höfrum. Og notum banana til að gefa sætubragð í stað sykurs.“

  Didi segir að hún hafi byrjað að búa til mjólkina sjálf fyrir nokkrum árum.

  „Heimspeki Ananda Marga leyfir kúamjólk, þrátt fyrir grænmetisfæðið, því á Indlandi eru kýrnar mikils metnar og vel hugsað um þær. Það er farið með þær eins og mæður. Þar er helmingurinn af mjólkinni notaður fyrir mannfólkið, en hinn helmingurinn geymdur fyrir kálfana. Árið 2014 fór ég í sveitaferð með Sælukoti og börnunum og ég fékk áfall við að sjá hvernig farið var með dýrin. Þetta var bara hræðilegt. Þarna áttaði ég mig líka á því að ég væri ekki að gefa börnunum mjólk heldur hormóna og það er ekki heilsusamlegt.

  „Árið 2014 fór ég í sveitaferð með Sælukoti og börnunum og ég fékk áfall við að sjá hvernig farið var með dýrin. Þetta var bara hræðilegt.“

  Heimspeki Ananda Marga gengur út á að skaða engan svo mér fannst það ekki samræmast okkar stefnu að bjóða upp á kúamjólk eftir að hafa séð hvernig farið var með dýrin. Ég ræddi þetta því á fundi með foreldrafélaginu og þar voru allir sammála um að virða stefnu samtakanna. Svo við keyptum bara góðan blandara og búum til mjólk á staðnum.

  Hún segir að þetta hafi verið svolítil viðbrigði fyrir börnin til að byrja með. „En svo vandist þetta og ég bý til um það bil átta lítra af mjólk á hverjum degi,“ segir Didi og brosir.

  Nú hlaupa nokkur börn inn í herbergið og það er mikið fjör. Þau hlaupa hlæjandi og skríkjandi hring eftir hring, enda nóg gólfpláss í aðstöðunni sem notuð er undir jógakennsluna. Didi brosir og segir að þau fái eðlilega hálfgert víðáttubrjálæði við að koma þarna inn. Hún stendur upp og gengur til barnanna og þarf engin öskur eða læti til að fá börnin til að hætta hlaupunum og setjast á gólfið hjá sér. Börnin sýna blaðamanni og ljósmyndara nokkrar jógastöður og leyfa ljósmyndaranum að taka myndir eins og þau hafi ekki gert annað um ævina.

  Henrý skellti sér í jógastöðuna Brú fyrir ljósmyndara. Börnin á Sælukoti stunda jóga og hugleiðslu á hverjum degi.

  Eftir að börnin hafa kvatt setjumst við Didi aftur niður og ég bið hana um að segja mér aðeins frá sjálfri sér.

  Beðið um kraftaverk

  Didi fæddist á Indlandi árið 1972 en henni var ekki hugað líf þar sem lifrin í henni var ónýt. Læknarnir sögðu foreldrum hennar að biðja til Guðs um kraftaverk en þau yrðu ekki bænheyrð.

  „Mamma og pabbi fengu að fara með mig heim af spítalanum þegar ég var nokkurra mánaða og ákváðu að prófa að fara með mig til náttúrulæknis. Hann sagði að þau hefðu engu að tapa og gætu alveg eins hlustað á það sem hann hefði að segja, ég væri hvort eð er alltaf búin að fá þennan dauðadóm. Hann sagði þeim að gefa mér kúahland að drekka og eftir tvo, þrjá pela af því fór lifrin í mér aftur að virka. Og hér er ég í dag. Og verð aldrei veik.“

  Didi mælir þó ekki með því að fólk noti þetta ráð nema viðkomandi kýr sé fullkomlega heilbrigð og segir ekki hægt að drekka hland frá kúm sem borða hormónaríkt fóður.

  Didi segist hafa verið ákveðin í því allt frá því hún var lítil stúlka að tileinka líf sitt Ananda Marga-hreyfingunni.

  „Ég var sextán ára þegar ég ákvað að verða nunna og gekk til liðs við hreyfinguna. Ég þekkti umhverfið og starfið vel, en foreldrar mínir stunduðu Ananda Marga-hugleiðslu á hverjum sunnudegi. Mér fannst þetta heillandi og óeigingjarnt líf sem bræður og systur í hreyfingunni lifðu. Þau unnu svo fallegt starf og settu aðra en sig sjálf í fyrsta sæti og þurftu ekki að hafa neinar áhyggjur. Svo finnst mér þetta einfalda líf bara yndislegt. Ég þarf bara eina tösku undir dótið mitt og ef samtökin vilja að ég flytji eitthvert annað á morgun þá geri ég það. Mér líkar þetta líf vel, mjög vel.“

  „Ég var sextán ára þegar ég ákvað að verða nunna og gekk til liðs við hreyfinguna.“

  Föður minn langaði að verða munkur en foreldrar hans studdu ekki þá ósk hans og hann ákvað að virða skoðanir þeirra. Foreldrar mínir reyndu ekki að stoppa mig en þau vildu að ég biði þangað til ég væri búin að ljúka námi. Ég hins vegar var alveg ákveðin í því að vilja taka þetta skref og flutti að heiman sextán ára til að undirbúa mig fyrir starfið hjá Ananda Marga.“

  Við tók tveggja ára þjálfun þar sem Didi lærði það sem þurfti til að verða sjálfboðaliði hjá hreyfingunni en allt starfið er unnið í sjálfboðavinnu. Auk þess lauk hún háskólanámi nokkrum árum síðar en hún er menntaður kennari.

  Hefur ekkert með trú að gera

  Didi hefur búið í rúmlega fjörutíu löndum og segir að sér finnist hún jafnvel ekki svo mikill Indverji í sér lengur.

  „Ég fór frá Indlandi þegar ég var 23 ára svo ég hef verið lengi í burtu. Ég fer þó á ráðstefnu Ananda Marga sem haldin er á Indlandi á hverju ári og hitti fjölskylduna mína við hugleiðsluna á sunnudegi.“

  Ananda Marga hefur mannúðarhyggju og þjónustu við heiminn að leiðarljósi sem hefur ekkert með trú að gera að sögn Didiar.

  „Trú veldur togstreitu milli ólíkra trúarhópa og fólk er alltaf að rífast um trú. Ég er nunna fyrir mig persónulega, ekki fyrir samfélagið. Ég lifi eðlilegu lífi og geri alla venjulega hluti, fyrir utan það að ég er ekki í sambandi við karlmenn. Þá á ég við að ég er einhleyp; ég tala alveg við karlmenn,“ segir Didi og hlær.

  „En ég á hvorki kærasta né mann. Það er líklega það eina sem ég á sameiginlegt með þessum hefðbundnu nunnum sem búa í klaustri.“

  Varð að betla fyrir mat handa börnunum

  Didi segist ekki geta annað en brosað þegar fólk segir að hún viti ekkert um barnauppeldi af því að hún eigi ekki börn sjálf.

  „Ég rak heimili á vegum Ananda Marga á Indlandi þar sem voru rúmlega fjörutíu munaðarlaus börn. Lögreglan kom á öllum tímum sólarhringsins, oftar en ekki um miðja nótt, með lítil börn sem höfðu fundist og áttu engan að.“ Didi er minnistæður lítill drengur sem lögreglan kom með á heimilið.

  „Hann grét svo mikið og kallaði endalaust á foreldra sína. Hann skildi ekki af hverju þeir komu ekki að sækja hann. Hann var alveg óhuggandi og ég var orðin ráðþrota. Ég varð að gera eitthvað. Það endaði með því að ég fór yfir til nágranna minna og spurði þau hjónin hvort þau gætu tekið að sér hlutverk foreldranna. Ekki á pappírum, heldur bara í orði. Ég bauðst jafnvel til að borga þeim en þau vildu það ekki. Þetta var yndislegt fólk sem vildi hjálpa og á hverju kvöldi komu þau yfir til okkar og spjölluðu við drenginn. Þau útskýrðu fyrir honum að hann væri hjá mér til að fá góða menntun en alltaf komu þau í heimsókn. Og þetta virkaði. Þegar hann var orðinn tíu ára settist ég niður með honum og útskýrði málið. Þá var hann orðinn nógu þroskaður til að skilja þetta. Ég er enn í góðu sambandi við hann og heyrði í honum fyrir stuttu. Hann á gott líf og er nýbúinn að gifta sig.“

  Didi hafði marga sjálfboðaliða sem aðstoðuðu hana með heimilið en hún segir þetta oft hafa verið mjög erfitt.

  „Við fengum engin laun, þetta var sjálfboðavinna, og ég varð oft að betla fyrir mat handa börnunum. En sem betur fer voru margir tilbúnir að hjálpa.“

  Hamingjan er ekki í veraldlegum hlutum

  Didi segist lifa mjög heilsusamlegu líferni, enda sé það uppálagt í fræðum Ananda Marga.

  „Við fáum kennslu í að lifa heilsusamlega; borða hollt og fasta reglulega. Við stundum líka jóga og hugleiðslu sem er mjög gott fyrir heilsuna, bæði líkamlega og andlega. Guð, hver svo sem hann er, sem stjórnar þessari veröld, gefur okkur líkamann og með honum kemur handbók sem við lesum aldrei. En ef þú kaupir þér til dæmis nýjan síma þá lestu handbókina til að læra á símann. Við eigum þennan ótrúlega líkama sem við notum á hverjum degi án þess að vita hvernig nákvæmlega við eigum að nota hann. Ef við kunnum að nota hann, þá getum við gert svo ótal margt.“

  Didi leiðbeinir Asthi í svokallaðri tré-stöðu. Á myndinni eru einnig Luna Rós, Erica, Gunnar, Oddný María, Henrý og Sonja.

  Til að finna handbókina segir Didi að nauðsynlegt sé að loka augunum og útiloka allar ytri aðstæður til að geta horft inn á við og hlusta á líkamann.

  „Við eigum þennan ótrúlega líkama sem við notum á hverjum degi án þess að vita hvernig nákvæmlega við eigum að nota hann“

  „Þannig finnurðu aðalorkustöðvarnar sjö í líkamanum, sem á sanskrít kallast chakra og raða sér upp í línu við hrygginn. Orkustöðvarnar safna orku, umbreyta henni og dreifa um líkamann en hver orkustöð hefur áhrif á mismunandi kirtla og ólíka líkamshluta. Til dæmis þegar okkur líður illa og eigum erfitt með að tjá okkur þá fáum við kökk í hálsinn þar sem hálsstöðin er. Þessar orkustöðvar eru handbókin okkar,“ segir Didi og brosir.

  „Ef ég er ánægð inni í mér þá sé ég allt með jákvæðum augum. Ef ekki, þá sé ég allt á neikvæðan hátt. Svo getur fólk haft stjórn á sér fyrir framan annað fólk, til dæmis yfirmanninn sinn, en tekið alla reiðina út þegar heim er komið því það leyfir sér að taka reiðina út á einhverjum valdaminni, til dæmis börnunum sínum. Jóga og hugleiðsla getur hjálpað til við að ná tökum á þessu. Og hjálpað fólki að einblína frekar á það jákvæða. Ekki einblína á vandann, einblíndu á lausnina. Finndu hamingjuna innra með þér. Ef þú leitar að hamingjunni í veraldlegu hlutunum þá finnurðu hana aldrei. Hún er ekki þar.“

  Sumt þótti skrýtið og framúrstefnulegt

  Ragnheiður Þormar starfar á leikskólanum Sælukot. Hún kynntist Ananda Marga-hreyfingunni þegar hún bjó í Danmörku fyrir rúmum þrjátíu árum.

  Ragnheiður Þormar.

  „Dóttir mín var í leikskóla úti, bara svona hefðbundnum dönskum leikskóla, sem var mjög góður og ég var mjög ánægð með hann. En svo kynntist ég fólki sem var með börnin sín í leikskóla Ananda Marga og við foreldrarnir ákváðum að færa dóttur okkar yfir í hann þegar hún var fjögurra ára.“

  Ragnheiður segist hafa séð ótrúlegan mun á dóttur sinni. „Ég líki þessu við það að setja plöntu inn í gróðurhús. Það varð svo mikil breyting á dóttur minni. Henni fannst hún komin í öruggt umhverfi og hún var svo hamingjusöm. Ég man að hún tók upp á því að bulla, hún var samt altalandi, en bullaði bara eitthvað og ég spurði af hverju hún talaði svona. Þá sagðist hún bara vera svo glöð; hún gæti ekki lýst því með orðum og yrði að gera það svona. Hún var bara svo hamingjusöm og gat ekki tjáð sig öðruvísi. Ég sá bara svart á hvítu hvað þetta gerði henni gott. Og hún man sjálf eftir þessum umskiptum þótt hún hafi verið svona ung.“

  Eftir að fjölskyldan flutti heim til Íslands hóf Ragnheiður störf á leikskólanum Sælukoti. „Ég hef unnið hér 100% síðastliðin tíu ár en hef verið hér lengur með hléum. Ég á sjálf mörg börn og hef verið viðloðandi staðinn, bæði sem foreldri og starfsmaður.“

  Ragnheiður segir að það hafi þótt framúrstefnulegt að bjóða leikskólabörnunum eingöngu upp á grænmetisfæði og láta þau stunda jóga og hugleiðslu. Vissulega hafi sumum þótt þetta skrýtið.

  „En nú þykir þetta sjálfsagt enda er mikið talað um mikilvægi þess að tengjast sjálfum sér. Ekki bara fylla mann af eintómum fróðleik og fóðra börnin endalaust á einhverjum upplýsingum. Börnin læra hér í gegnum hugleiðsluna og upplifa margt sem er öðruvísi en svo fallegt.“

  Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is