2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Ég bar sjálf ábyrgð á ástandinu“

  Fyrir þremur árum var Anna María Þorvaldsdóttir í hópi þeirra sem flestir myndu lýsa sem ofurkonu. Hún henti marga bolta á lofti og greip þá alla. Vissulega var mikið að gera en að eigin mati höndlaði hún það ágætlega, allt þar til hún brotnaði niður dag nokkurn í vinnunni og fann að hún var gersamlega þrotin kröftum.

  Hún hafði náð botni og algjör kulnun átt sér stað. En hvað tekur við eftir slíkt niðurbrot og er leið upp? „Já, svo sannarlega,” segir Anna María. Hún var mannauðsstjóri í tvö hundruð og fimmtíu manna fyrirtæki, formaður í stórum fagsamtökum, með skiptinema á heimilinu og sá um heilsuveilan föður, fyrir utan að halda heimili með eiginmanni sínum og þremur börnum. „Lífið eftir kulnun er nefnilega þrælgott líf.“

  Anna María var í viðtali við Fréttablaðið nýlega og lýsti þar aðdragandanum að veikindunum. Hún hafði fundið fyrir mikilli andlegri og líkamlegri þreytu og vanlíðan. Dag einn mætti hún til vinnu og að henni setti óstöðvandi grát við skrifborðið. Þá áttaði hún sig á því að eitthvað yrði hún að gera í sínum málum.

  En fyrst til að byrja með skynjaði hún bara erfið einkenni án þess að vita hvað ylli þeim. „Ég vissi ekki hvað var að mér. Ég upplifði kvíða, depurð, tómleika og líkamlegan sársauka. Ég hafði aldrei pælt í hvað kulnun væri og það var svolítið óþægilegt að vera í þessari ringulreið og fullkominni óvissu.“

  Lífið eftir kulnun er nefnilega þrælgott líf.

  Notaði Netið sér til hjálpar

  AUGLÝSING


  Hvað með fagmenn, gátu þeir leiðbeint þér? „Ég fór að lokum til heimilislæknisins míns og hann hlustaði á einkennin og sagði: „Mér finnst þetta vera klassísk kulnun. Þú ferð bara í veikindaleyfi.“ Ég byrjaði á að reyna að panta tíma hjá Kvíðameðferðarmiðstöðinni og fleira en alls staðar var bið eftir tíma. Ég byrjaði þess vegna að gúgla og fann alls konar greinar, myndbönd á YouTube og fleira. Ég las og las. Það var rosalega gott. Fyrir mér var mjög mikilvægt að skilja hvað þetta var og vita við hvað væri að eiga. Ég upplifði svo mörg einkenni og í byrjun fannst mér nefnilega mjög óþægilegt að vita ekkert.“

  Anna María talar um ferlið í nýjasta tölublaði Vikunnar.

  Anna María leitaði margra leiða til að ná bata og talar um ferlið í nýjasta tölublaði Vikunnar. Þar segir hún meðal annars: „Og þá kemur að þriðja þættinum í ferlinu og það er taka ábyrgð á eigin lífi. Fæstir sjá þegar þeir eru komnir svona langt niður að þeir áttu sjálfir sök á ástandinu. Afneitun er partur af stigunum tólf, algjör afneitun á vandamálinu.

  Ég sá ekki minn þátt í ferlinu. Þetta var allt öðrum að kenna og maður spíralast hægt og rólega niður án þess að taka eftir því. Þá er verkefnið að taka ábyrgð og setja mörk, sjálfum sér og öðrum. Þess vegna er mjög mikilvægt að skoða og ákveða hvernig maður fer að því. Ég held að allir þeir sem hafa gengið í gegnum svona gífurlegan andlegan sársauka passi sig að fara ekki þangað aftur. Það finnst mér munurinn á þeim og hinum að þeir vilja fremur stíga á einhverjar tær og missa nokkra kunningja en enda þar aftur. Ég ætla aldrei aftur þangað niður, þetta var svo djúpstæð reynsla. Ég hélt að ekki væri hægt að upplifa svona mikinn andlegan og líkamlegan sársauka.

  Ég held að allir þeir sem hafa gengið í gegnum svona gífurlegan andlegan sársauka passi sig að fara ekki þangað aftur.

  Þetta var erfitt skref og það var stór uppgötvun þegar ég áttaði mig á því löngu seinna að ég bar ábyrgð á þessu. Eins fáránlega og það nú hljómar. Ég pældi ekkert í því á niðurleið að það væri mitt að hafa áhrif á þessa þætti lífs míns. Eftir að mitt fyrsta niðurbrot varð í desember, nánar tiltekið á Þorláksmessu 2016, úthýsti ég mörgum verkefnum.

  Nú eiga allir heimilismeðlimir sinn dag í eldhúsinu, ég sé um þvottinn fyrir mig, manninn minn og yngsta barnið, aðrir sjá um sig og það kemur kona og þrífur tvisvar í mánuði. Þess á milli er skýrt að á fimmtudögum er tekið til og allir leggja sitt af mörkum. Þar með er ég hætt að gera ráð fyrir að aðrir lesi hugsanir mínar og viti að þeir eigi nú að taka til hendinni líka. Um helgar útdeili ég svo verkum; nú tekur þú til í eldhúsinu með mér og þú ferð í þetta og þú í hitt. Þetta var mikill léttir, að finnast ég ekki eiga og verða að gera allt á heimilinu af því ég var móðirin.

  Ég slakaði nokkuð á kröfunum um þrif og annað sem tilheyrir að halda heimili en áður. Þetta var líka mín leið til að fá meiri tíma og setja sjálfri mér og öðrum mörk. Nú hugsa ég gjarnan: Þarf þetta? Jú, ef það þarf. Hver getur þá gert það? Ekki bara ákveða fyrirfram að það sé mitt hlutverk. Taka ábyrgð á eigin líðan og setja mörk og þegar það er komið nokkurn veginn í réttan farveg þá tekur við fjórði þátturinn, að halda áfram að læra að þekkja sjálfan sig og það skemmtilega við það er að því verkefni lýkur aldrei.

  Ég slakaði nokkuð á kröfunum um þrif og annað sem tilheyrir að halda heimili en áður.

  Að takast á við lífið eftir kulnun er vissulega hugarleikfimi líka. Þegar maður er í svona ástandi er maður oft að dansa við djöfla í huganum. Mjög misjafnt er hvað hjálpar fólki. Eitt af því sem hjálpaði mér mjög mikið er að ég hef alltaf verið með græna fingur. Ég vissi svo sem ekki hvað rak mig af stað en ég leitaði mikið í moldina og var komin í blómin, eitthvað að gera og græja, áður en ég vissi af. Svo las ég sænska rannsókn sem sýndi að mikill lækningamáttur var fólginn í því að vera innan um blóm og jurtir.

  Búið er að koma upp gróðurhúsi við eitt háskólasjúkrahúsið. Þar fær veikt fólk að vinna og rækta. Menn geta verið þarna allt frá nokkrum dögum upp í sex mánuði. Mér finnst kvótið: „Engir tveir eru eins og það er til græðandi garður fyrir hvern og einn“ eiga vel við. Hver og einn ræktar garðinn sinn. Þetta getur haft stórkostleg áhrif á vellíðan í heiminum verði niðurstöðurnar notaðar víðar.“

  En þótt Anna María hafi lært margt af þessu ferli er stærsta lexían sennilega sú að hún þarf að vera meðvituð um að halda jafnvæginu. „Ég velti alltaf fyrir mér þegar ég vakna á morgnana hver ég ætli að vera í dag. Stóra-Anna María ætlar að mæta í vinnuna. Í huganum sé þær fyrir mér inni í svona búbblum og ég vel hvaða persónuleiki hentar á hverjum tíma. Ómögulega-Anna María fær að vera heima og litla-Anna María í frí. Ég ýti þeim burtu og leyfi stóru-Önnu Maríu að njóta sín. Og með því að gæta að þessum fjórum grunnþáttum, að sofa vel, borða reglulega, hreyfa sig og fá andlega næringu eru henni allir vegir færir,“ segir Anna María brosandi og nokkuð augljóst hvaða búbbla var valin í morgun.

  Viðtalið við Önnu má lesa í heild sinni í 7. tölublaði Vikunnar.

  Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is