• Orðrómur

„Svo lést vinur minn um haustið, hann svipti sig lífi“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Berglind Elva Tryggvadóttir hefur mætt mörgum hindrunum á leið sinni í gegnum lífið sem hún hefur ekki látið stoppa sig heldur haldið ótrauð áfram. Það hefur þó ekki verið alltaf verið auðvelt og nauðgun af hendi nákomins ættingja, dauðsfall vinar, fíknivandi sonar hennar og alvarlegt slys þar sem faðir hennar lamaðist frá hálsi og niður hafa vissulega verið stór og erfið verkefni. Berglind var að því komin að gefast endanlega upp í fyrrahaust þegar sjálfsvíg vinar hennar kveikti í henni lífsviljann aftur og nú er hún staðráðin í að lifa lífi sínu til fulls.

„Eftir allt sem ég hef gengið í gegn um er þetta mál hans pabba, og það hvernig komið var fram við hann, það erfiðasta,“ segir Berglind. „Ég hélt að það ætti ekkert eftir að láta mér líða verr en þegar sonur minn var í neyslu eða þegar mér var nauðgað af nákomnum ættingja. En þar skjátlaðist mér.“

Þar sem blaðamaður situr gegnt Berglindi í fundarherbergi Birtíngs og hlustar á sögu hennar þykir honum ljóst að Berglind hefur mátt reyna margt í lífinu. Jafnvel meira en margir en það er þó alltaf stutt í húmorinn og hláturinn hjá henni. En stundum skyggir aðeins yfir og það er greinilegt að sumt hefur haft djúpstæð áhrif á hana, en líklega einna mest það þegar föður hennar var óvænt meinaður aðgangur að hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli þar sem hann átti sitt heimili í tæp ellefu ár eftir sviplegt slys.

- Auglýsing -

Með lágt sjálfsmat og hrædd um að verða að athlægi

Berglind er fædd og uppalin á Hvolsvelli og segir hafa verið gott að alast þar upp. „Að mörgu leyti var lífið áhyggjulaust og skemmtilegt. Foreldrar mínir voru duglegir að ferðast með okkur systkinin um allt land, við fórum í útilegur og á fjöll og ég man að mér fannst það alveg æðislegt. En samt leið mér ekki alltaf vel. Ég þurfti alltaf að hafa svolitla stjórn á hlutunum og mér leið ekki vel ef ég vissi ekki hvað var framundan. Ég áttaði mig auðvitað engan veginn á því að ég væri að glíma við kvíða en þegar ég lít til baka sé ég greinileg merki hans. Til dæmis man ég vel eftir því að í tónlistarskólanum, þar sem ég var að læra á hljóðfæri, þurftu nemendur að spila reglulega á svokölluðum músíkfundum fyrir framan áhorfendur og ég varð bara lasin af því að ég þorði þessu ekki. Ég var vissulega feimin en ég var líka með ofboðslega lágt sjálfsmat og alltaf hrædd um að gera einhverja vitleysu og verða að athlægi. Ég myndi segja að þetta lága sjálfsmat hafi fylgt mér frá því snemma í grunnskóla, þótt mér hafi gengið vel að læra, og það hefur komið fram í rosalega mörgum þáttum í lífi mínu, meðal annars í samböndum við hitt kynið.“

Berglind flutti til Reykjavíkur árið 1997 með tæplega ársgamlan son sinn. „Ekkert húsnæði var að hafa á Hvolsvelli á þessum tíma,“ segir hún, „og mér fannst tími til kominn að komast úr foreldrahúsum Ég fékk mig flutta til í starfi hjá Sláturfélagi Suðurlands, SS og fór fljótlega að vinna við sölumennsku eftir að ég kom í bæinn.“

- Auglýsing -

„Allar líkur á að pabbi myndi ekki lifa lengi“

Laugardaginn fyrir páska, 15. apríl, árið 2006 fór faðir Berglindar, Tryggvi Ingólfsson, í útreiðartúr ásamt stórum hópi fólks. Berglind segir föður sinn hafa verið þrælvanan hestamann og með hjálm þegar hesturinn kastaði honum skyndilega af baki.

„Ég var að keyra austur þar sem ég ætlaði að vera hjá mömmu og pabba fram yfir páska og var komin í Flóann þegar bróðir minn hringir í mig og segir mér að pabbi hafi dottið af hestbaki, þyrlan sé komin og það sé verið að flytja hann í bæinn. Eftir smáumhugsun ákvað ég að keyra á Hvolsvöll þar sem ég hitti fjölskylduna og svo fórum við saman í bæinn og upp á spítala.“

- Auglýsing -

Tryggva var haldið sofandi um nóttina og Berglind segir læknana ekki hafa verið bjartsýna á framhaldið. Tryggvi hafði hálsbrotnað og staðan var mjög alvarleg. „Læknirinn sem talaði við okkur á laugardagskvöldinu sagði að allar líkur væru á að pabbi myndi ekki lifa lengi. Það var auðvitað gríðarlegt áfall að fá þessar fréttir og svo var þetta líka nýtt fyrir læknunum því svona skaði eins og pabbi varð fyrir var það alvarlegur að hann einfaldlega var ekki þekktur hérna heima. Hann var sá fyrsti sem hafði komist lifandi á sjúkrahús með svo mikinn mænuskaða. Það hafði bjargað lífi pabba að ein frænka mín sem var í þessum útreiðartúr og ein af þeim sem fyrst kom að honum eftir slysið náði að halda lífi í pabba með því að blása í hann. Pabbi lamaðist frá hálsi og niður og getur ekki andað sjálfur. Hann þarf því alltaf að vera tengdur við öndunarvél og það tók töluverðan tíma að finna öndunarvél við hæfi, því það voru ekki til öndunarvélar sem hægt var að ferðast með. Það hafðist þó að lokum en fram að því var pabbi í raun fastur á gjörgæsludeildinni.“

Að sögn Berglindar lá faðir hennar á gjörgæsludeild í þrjá og hálfan mánuð og einn mánuð á lungnadeild en þaðan fór hann svo á Grensás þar sem hann var í eitt ár. Árið 2007 flutti hann á hjúkrunar- og dvalarheimilið Kirkjuhvol á Hvolsvelli þar sem hann bjó næstu tæpu ellefu árin.

Áfall að faðir hennar fékk ekki að flytja aftur heim á Kirkjuhvol

Rúmu ári eftir slysið segir Berglind föður sinn hafa farið í aðgerð þar sem fjögur rafskaut voru grædd í þind hans til að líkja eftir hefðbundinni öndun. Hann hafi svo fljótlega losnað við öndunarvélina. Árið 2017 hafi hann verið farinn að finna að eitthvað væri að og ellefta desember það ár hafi hann verið lagður inn á lungnadeild Landspítalans við Hringbraut þar sem hann dvaldi næstu mánuði. Í mars 2018 hafi hann farið í aðgerð þar sem ný rafskaut voru sett í þind hans.

Nokkrum dögum síðar var loks komið að útskrift af spítalanum og daginn fyrir hana fóru læknir Tryggva og hjúkrunarfræðingur austur á Hvolsvöll til að undirbúa starfsfólkið fyrir heimkomuna. Á miðri leið hringdi forstöðukona Kirkjuhvols til að tjá þeim að þau þyrftu ekki að koma þar sem Tryggvi gæti ekki flutt aftur heim. Það var mikið áfall fyrir alla fjölskylduna.

„Sárindin eru auðvitað ofboðslega mikil fyrir pabba fyrst og fremst, því þetta er fólk sem var nálægt honum og honum þykir vænt um.“

„Pabbi átti mjög gott líf á Kirkjuhvoli,“ segir Berglind. „Það var ofboðslega vel hugsað um hann og honum leið vel þar. Þar fékk hann til dæmis aldrei legusár, sem hann fékk alltaf á spítalanum. Það var líka stutt á milli hans og mömmu, sem býr enn á Hvolsvelli, og pabbi gat farið heim nánast um hverja helgi. Hann fékk líka margar heimsóknir og átti vini á Kirkjuhvoli. Ástæðan fyrir því að hann fékk ekki að flytja aftur heim á Kirkjuhvol var sögð vera sú að leit að faglærðum hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum hefði ekki borið árangur og því ljóst að ekki væri hægt að manna umræddar stöður til að tryggja öryggi og þjónustu við Tryggva á Kirkjuhvoli. Starfsfólkið setti sig upp á móti komu hans og tólf þeirra hótuðu að ganga frá störfum sínum ef hann kæmi aftur á hjúkrunarheimilið sökum álags sem það sagði hann valda.“

Nú býr faðir hennar á Selfossi. „Það var ofboðslegur léttir þegar hann gat flutt þangað, því hann var þá alla vega kominn af spítalanum. Mér fannst náttúrlega bara hræðilegt að vita af pabba þar, föstum inni í litlu herbergi. Þetta var ekkert heimilislegt en starfsfólkið reyndi eins og það gat; til dæmis áttum við ótrúlega mögnuð jól þarna á lungnadeildinni. Það var búið að setja upp skilrúm fyrir okkur frammi á aðfangadagskvöld og setja jólatréð fram; við komum með heitan mat og þetta var bara virkilega notalegt. Maður sér alltaf eitthvað gott í öllum aðstæðum.“

Löngu sorgarferli loks lokið

Berglind segir ekkert hafa gefið til kynna að óánægja væri með dvöl föður hennar á Kirkjuhvoli. „Við höfðum til dæmis aldrei verið kölluð á fund vegna einhverra stórra vandamála og aldrei minnst einu orði á eitthvað slíkt. Og í rauninni höfum við aldrei fengið nein fullnægjandi svör hvers vegna hann fékk ekki að snúa þangað aftur. Við höfum svo sem fengið að heyra alls konar skýringar eins og til dæmis að pabbi væri ómögulegur en þú átt samt rétt á umönnun og mannlegri reisn. Þetta snerist kannski meira um vaktaálag og að búið væri að magna upp einhverja spennu sem við vissum ekkert af. Fyrir mér er þetta fyrst og fremst stjórnunarvandi,“ segir Berglind og þagnar um stund.

„Sárindin eru auðvitað ofboðslega mikil fyrir pabba fyrst og fremst, því þetta er fólk sem var nálægt honum og honum þykir vænt um. Þess vegna var þetta svo óskiljanlegt … Það var ofboðslega erfitt að sjá það að samfélagið á Hvolsvelli, sem hafði til dæmis tekið sig saman og stutt pabba og sýnt mikinn samhug þegar hann lenti í slysinu, væri allt í einu orðið svona. Það var eins og það væri eitthvað gruggugt og skítugt undir yfirborðinu sem mætti ekki líta dagsins ljós. Auðvitað heyrði maður örugglega meira af neikvæðu röddunum en í svona aðstæðum er það alltaf þetta versta sem hittir mann fyrir. Svo var líka erfitt að sjá það að gamlir og góðir vinir tóku þátt í þessu … Það sveið undan því.“

Ertu reið út í þetta fólk?
„Ég er hætt að vera reið,“ svarar Berglind eftir stutta umhugsun. „Ég var kannski reið á einhverjum tímapunkti, en samt eiginlega ekki … Ég var alltaf að reyna að skilja þetta. Það sem var erfiðast í þessu öllu var að horfa á hvern fjölskyldumeðliminn á fætur öðrum gjörsamlega brotna saman og ég veit að það hefur líka tekið mikið á pabba að horfa á fjölskylduna líða svona illa. Ég get eiginlega ekki útskýrt hvernig tilfinningar maður er að berjast við en þetta var alveg ofboðsleg vanlíðan. Samfélagið á Hvolsvelli hefur alltaf verið mér kært og svo er bara eins og eitthvað traust brotni. Ég fer ekki oft til Hvolsvallar lengur, ég er ekkert hrædd við að fara þangað en ég viðurkenni að ég er ekki mjög spennt fyrir því heldur, að fara á æskuslóðirnar … Þetta breytti mér.“

Mynd / Unnur Magna

Hún segist þó ekki vera bitur út í samfélagið á Hvolsvelli. „Ég er hætt því. Mér fannst stundum að þeir sem sögðu eitthvað væru þeir sem stæðu með okkur en þeir sem þögðu væru þeir sem væru á móti. Í dag hef ég áttað mig á því að í meðvirku samfélagi á fólk erfitt með að tjá sig. En það er ekki mitt að dæma fólk. Ég trúi því að fólk verði dæmt af gjörðum sínum þegar þar að kemur.“

Berglind þagnar um stund. „Þetta var ofboðslega langt sorgarferli í rauninni, alveg frá því pabbi lenti í slysinu. Í svona aðstæðum verður nefnilega aldrei neitt uppgjör, aldrei nein lokun því staðan breytist aldrei. Það er ekki andlát þannig að maður nái að kveðja en samt er maður að syrgja. Sorgarferlið er í raun síendurtekið en eftir því sem árin líða fer að líða lengri tími á milli. Í dag finnst mér ég geta sagt að sorgarferlið sé búið hjá mér, en það tók ótrúlega langan tíma að sætta sig við orðinn hlut.“

Kom að því að hún sigldi í strand

Berglind segir að það að föður hennar hafi verið meinað að snúa aftur heim til Kirkjuhvols hafi hrært upp í öllum tilfinningum og tíminn sem það tók að fá nýtt heimili fyrir hann hafi tekið gríðarlega á andlega. Fjölskyldunni hafi þó boðist að hitta sálfræðing og Berglind ákvað að segja sálfræðingnum frá því sem væri að hrærast um í henni.

„Á þessum tíma var ég flutt til Selfoss og keyrði reglulega til vinnu í Reykjavík. Ég var farin að hugsa töluvert um það að keyra fram af,“ segir Berglind og gerir stutt hlé á máli sínu „Ég sagði sálfræðingnum á spítalanum að ég væri með bullandi sjálfsvígshugsanir en sálfræðingurinn sagði ekki neitt við því,“ heldur hún áfram, „sagði bara að hún væri að fara að hætta og einhver annar myndi taka við af sér. Ég varð hissa á því. En mín lausn var að hætta að keyra á milli og fara að taka strætó. Það var mín lausn til að fara ekki sjálfri mér að voða. En svo þurfti ég að komast yfir það svo ég fór til annars sálfræðings sem hjálpaði mér heilmikið. Það kom samt að því að ég hreinlega sigldi í strand og gat ekki meir. Ég hringdi því í Píeta-samtökin, sem hreinlega komu mér til bjargar. Og þegar ég fór að tala við sálfræðing þar áttaði ég mig á því að áfallasaga mín er mjög mikil og stór. Og sjálfsvígstilraunirnar hafa verið nokkrar.“

„Það sem var erfiðast í þessu öllu var að horfa á hvern fjölskyldumeðliminn á fætur öðrum gjörsamlega brotna saman.“

Berglind segir að sorgin hafi fyrst bankað upp á fyrir alvöru þegar hún var nýfermd og afi hennar, sem var henni mjög kær, hafi látist. „Ég fór í einhvern algjöran baklás. Á þessum tíma var ekki mikil umræða um börn og sorgarviðbrögð og ekkert verið að tala við mann um sorgina eða neitt slíkt. Ég gat ekki talað við neinn en var ofboðslega sorgmædd og saknaði afa mikið. Unglingsárin eru auðvitað líka erfið en þarna var svo mikil angist og sársaukinn svo mikill að ég gerði mína fyrstu sjálfsvígstilraun. Það voru að vísu engin lyf til heima hjá mér sem hefðu getað drepið mig en ég tók það sem var til og vaknaði svo bara næsta dag. Það var dálítið sjokk en ég sagði engum frá þessu. Þarna kviknaði á einhverri vanlíðan. Og líklega jókst hún alltaf smám saman eftir því sem árin liðu og áföllunum fjölgaði.“

Nauðgað af nákomnum ættingja á ættarmóti

Árið 1992 fór Berglind á ættarmót. Hún fór ein þar sem foreldrar hennar voru heima með nýfædda systur hennar. Um kvöldið bauð því nákominn ættingi Berglindar henni að gista í tjaldinu hans og hún þáði það. Berglind hafði verið að drekka áfengi og lagðist til hvílu í tjaldinu en vaknaði við það að þessi nákomni ættingi hennar var að nauðga henni. Hún segist hafa verið sem lömuð og ekkert getað gert og engum hafa sagt frá því sem gerðist.

„Ég skammaðist mín lengi á eftir fyrir að hafa sofnað áfengisdauða í tjaldinu hans, í kuldagallanum sem eldri bróðir minn lánaði mér, því mér fannst þetta vera mér að kenna þar sem ég hafði verið svo drukkin. Og ég man að þegar ég skilaði bróður mínum kuldagallanum gat ég ekki útskýrt hvers vegna rennilásarnir á gallanum voru ónýtir.“

Berglind segir þennan ættingja sinn hafa verið í miklu uppáhaldi hjá sér. „Hann átti yndislega konu sem mér þótti mjög vænt um, en hún var látin, og mér þótti líka ofboðslega vænt um börnin hans. Það var líka hluti ástæðunnar fyrir því að ég talaði ekki um þetta við neinn; ég vildi vernda börnin hans og vernda mömmu sem var honum náin. Ég hitti hann auðvitað í fjölskylduboðum og við fleiri tækifæri en ég dró mig svolítið út úr öllu til að forðast hann. Ég man að í einni hestaferð sem ég fór í með móðurfjölskyldunni minni var gist í skála þar sem tveir til þrír lágu saman í rúmi og það þótti tilvalið að ég myndi liggja við hliðina á þessum manni. Ég þorði ekki að sofna af ótta við að hann myndi gera eitthvað en svo sofnaði ég í stutta stund og vaknaði við það að hann var að káfa á mér. Þá varð mælirinn fullur og eftir þetta gerði ég nokkrar tilraunir til að svipta mig lífi, sem tókust sem betur fer ekki. Ég sagði ekki frá þessu fyrr en tuttugu árum síðar, þegar ég fór á Reykjalund í undirbúning fyrir hjáveituaðgerð, og þá fór ég loksins að sjá að þetta var ekki mér að kenna. Sem betur fer hef ég haft vit á að leita mér aðstoðar og hef ekki verið hrædd við það.“

Þekkti ekki son sinn fyrir sama dreng

Ljósið í lífi Berglindar hefur alltaf verið sonur hennar, Róbert Sindri, sem nú er rétt rúmlega tvítugur. Hún var einstæð móðir og segir að þau mæðginin hafi alla tíð verið afar náin. „Ég er ofboðslega þakklát fyrir son minn og það góða samband sem við eigum. Það liggur við að séum meira eins og systkini en mæðgin,“ segir hún og skellir létt upp úr.

„Ég er svo stolt af syni mínum,“ heldur hún áfram. „Hann var kominn út á hála braut þar sem hann var kominn í fíkniefnaneyslu en sem betur fer náði hann sér út úr henni og honum gengur alveg rosalega vel í dag. Og ég er mjög þakklát líka fyrir að hafa fengið drenginn minn til baka því á tímabili hreinlega þekkti ég hann ekki fyrir sama dreng. Hann sýndi mikið áhugaleysi á öllu og svo missti hann allt samband við gamla vinahópinn og var kominn í algjörlega nýjan hóp. En hann hefur lokað á það allt saman og er búinn að taka sig svakalega mikið á, bæði andlega og líkamlega og er bara alveg ofsalega duglegur.“

Berglind segir að sig hafi langað að eignast fleiri börn en það hafi því miður ekki gengið. Hún giftist árið 2014 og missti þrisvar sinnum fóstur. „Við Binni kynntumst árið 2012 og vorum bara búin að vera saman í tvo mánuði og tíu daga þegar við trúlofuðum okkur. Svo giftum við okkur tveimur árum síðar. Það gerðist allt mjög hratt hjá okkur, við vorum staðráðin í að láta hlutina ganga. En því miður var mikill feluleikur með áfengisneyslu í spilinu, traustið fór og hjónabandið gekk ekki upp. Við gerðum nokkrar tilraunir til að láta það ganga en við náðum ekki að vinna úr því. Því fór sem fór og ég er stolt af að hafa staðið á mínu og sætta mig ekki við hvað sem er. En þetta var ekkert auðvelt og það tók mig tæpt ár að vinna mig tilfinningalega út úr hjónabandinu.“

Sjálfsvíg vinar opnaði augu hennar

Í júlí í fyrra fór Berglind í gönguferð með hundinn sinn og skyndilega fannst henni sjónsviðið þrengjast, hjartslátturinn verða hraðari og puttarnir dofna. „Ég stóð bara þarna úti á miðri götu og fór að grenja,“ segir Berglind. „Ég vissi ekkert hvað var í gangi og varð dauðhrædd. Mér leið eins og ég væri að deyja, ég væri að fá hjartaáfall. Svo leið þetta hjá en þetta gerðist alltaf reglulega, tvisvar til þrisvar í viku. Síðar var þetta skilgreint sem ofsakvíði. Á þessum tíma var ég frekar langt niðri en var ekki komin aftur með sjálfsvígshugsanir en ég var farin að spotta út sniðuga staði … Sem er auðvitað ekki góðs viti. Svo lést vinur minn um haustið, hann svipti sig lífi og þá vissi ég að ég þyrfti bara virkilega … að ég ætlaði ekki sömu leið og hann. Það var rosalega erfitt að horfa á eftir honum fara þessa leið,“ segir Berglind og tárin trítla niður kinnarnar. Við tökum okkur stutt hlé.

„Í dag finnst mér ég geta sagt að sorgarferlið sé búið hjá mér, en það tók ótrúlega langan tíma að sætta sig við orðinn hlut.“

„Við kynntumst í kennaranáminu þar sem við vorum í litlum hópi nemenda á okkar kjörsviði og hópurinn varð afar náinn,“ heldur hún svo áfram þar sem frá var horfið. „Ég hitti hann ekkert svo löngu áður en hann dó og honum var alltaf svo umhugað um mann. Þetta var alveg rosalegt áfall. Ég hef verið að hlusta rosalega mikið á tónlistina hans og hef notað hana til að veita mér kraft og innblástur. Ég vil meina að hann hafi gefið mér það að ég ákvað að fara ekki þessa sömu leið og hann, það var svo ofboðslega erfitt að sjá fjölskylduna hans og vini í sárum og vakti mig til vitundar að þetta væri ekki það sem ég virkilega vildi. Svo ég hringdi í Píeta-samtökin og hef fengið sérlega mikla og góða hjálp hjá þeim. Ég get varla lagt nógu mikla áherslu á það hvað þessi samtök vinna gott starf.“

Mynd / Unnur Magna

Berglind hafði verið að vinna hjá Heilsuborg en hætti þar í fyrrahaust. Hún segist í fyrstu hafa verið með samviskubit yfir því að vera hætt að vinna. „Maður er svo vanur því að harka bara af sér og halda ótrauður áfram, sama hvað. En andleg veikindi eru veikindi. Ég ákvað því í fyrra að ég yrði að ná mér vel á strik, koma sjálfri mér í lag. Ég get hvorki boðið sjálfri mér né öðrum upp á að vera í svona slæmu andlegu ástandi endalaust. Það er ekkert líf að vera alltaf í einhverri andlegri vanlíðan. Og eins og ég segi, þá er ég búin að fara í gegnum nokkrar meðferðir og er vön að vinna sjálfsvinnuna og geri alltaf það sem mér er sagt að gera. Bara til að vera virkilega virk í batanum. Í dag er það þannig að þótt það komi niðursveifla, sem kemur vissulega og líka hjá þeim sem eru alheilbrigðir, þá tækla ég það allt öðruvísi núna. Og ég hugsa stundum að hefði ég verið búin með þessa meðferð þá hefði ég tæklað ýmislegt með öðrum hætti. En það þýðir ekkert að spá í það núna, þetta er bara ein af lexíum lífsins. Ég horfi alla vega björtum augum fram á veginn núna.“

Hjáveituaðgerð er ekki létta leiðin

Árið 2012 ákvað Berglind að fara í hjáveituaðgerð. „Ég hafði reyndar aldrei hugsað mér að fara í þessa aðgerð; ég ætlaði bara í gegnum prógrammið á Reykjalundi og láta það gott heita. Ég hafði alltaf stundað líkamsrækt og borðað hollt en samt sátu kílóin föst, þótt ég væri orðin hraustari og sterkari og brúnin hafi lést. En í fræðslunni á Reykjalundi kom fram að tölfræði sýndi fram á að aðeins 1-5% þeirra sem ná árangri upp á eigin spýtur haldi honum til frambúðar en 85-90% þeirra sem fari í hjáveituaðgerð. Það sannfærði mig um að ég ætti að fara í aðgerðina og ég gæti ekki verið sáttari; þetta er nýtt líf og lífsgæði mín eru orðin svo miklu betri.“

Mynd / Unnur Magna

Berglind segir að hún hafi þó ekki treyst sér til að segja frá því að hún hefði farið í hjáveituaðgerð þar sem viðhorf fólks til slíkra aðgerða sé oft að þær séu auðvelda leiðin út úr ofþyngdinni, en þannig sé því alls ekki farið. „Ég get sagt það með fullvissu að þetta er ekki þægileg leið. Ég þarf enn þá að hugsa um hvað ég set ofan í mig og einn daginn get ég borðað eitthvað sem ég get ekki borðað næsta dag. Og þótt maður sé kominn með minna magamál verður ekki breyting í kollinum á manni nema maður vinni í sjálfum sér. Ég myndi segja að það mikilvægasta í öllu ferlinu við svona aðgerð sé að takast á við hausinn á sér og leita sér faglegrar aðstoðar. Maginn getur stækkað aftur ef maður tekst ekki á við hausinn. Það er nefnilega margt mjög flókið í þessu og þótt ég sé búin að missa helling af kílóum sé ég mig stundum eins og ég var þegar ég var enn að burðast með þau. Þetta er eilífðarbarátta og verður það alltaf.“

Aðspurð um hvað sé fram undan segist Berglind ætla að halda áfram að vinna í sjálfri sér. Hún sé auk þess að vinna með hópi að stofnun samtaka fyrir einstaklinga sem lifa með sjúkdómnum offitu. „Ég vann hjá Heilsuborg í sjö ár og síðastliðið vor bauðst mér að fara á offituráðstefnu í Glasgow með samstarfsfólki mínu og var spurð hvort ég vildi ekki vera einn af fulltrúum Íslands í ECPO, Evrópusamtökum einstaklinga sem lifa með sjúkdómnum offitu, en samtökin voru formlega stofnuð á þessari ráðstefnu. Ég sendi þeim umsókn og hóf mitt starf með þeim í október síðastliðnum þegar ég hitti aðra meðlimi í Barcelona. Vinnan sem verið er að vinna þarna er mögnuð og það verður fróðlegt að sjá hvað aðrar Evrópuþjóðir eru að gera. Sumar þjóðanna eru komnar langt en aðrar styttra. Í Portúgal eru þeir komnir einna lengst í sinni vinnu. Til dæmis býðst þeim sem fara í hjáveituaðgerð þar líka aðstoð við húðaðgerðir, því það er oft stór vandi eftir að fólk hefur grennst mikið.“

Berglind segir samtökunum ætlað að vernda réttindi einstaklinga sem lifa með offitu og auka vitundarvakningu meðal heilbrigðisstarfsfólks. „Mér finnst ofboðslega mikilvægt að við reynum að stuðla að því að offita sé viðurkennd sem sjúkdómur en einnig að við getum staðið vörð um ýmis réttindi og barist gegn fituskömm og þessari mýtu að feitt fólk borði bara of mikið og nenni ekki að hreyfa sig. Það var mjög ánægjulegt að sjá á Læknadögum nú í janúar kynningu landlæknis á klínískum leiðbeiningum fyrir einstaklinga sem lifa með offitu og hægt er að lesa sér til um á heimasíðu landlæknis. Auðvitað er það álag á kerfið að vera of þungur en það er samt hægt að vera hraustur þótt maður sé feitur. Ég er mjög spennt fyrir þessari vinnu. Svo langar mig að huga svolítið að því hvað mig langar að gera,“ segir Berglind brosandi og leggur áherslu á orðið „mig“.

„Ég stofnaði Facebook-síðuna Ég vil lifa og stefni líka á að blogga meira á síðunni minni, berglindelva.com. Svo er ég farin að gera eitt og annað sem ég hef hingað til ekki haft trú á að ég geti gert vegna lágs sjálfsmats. Ég er búin með jógakennaranám hjá Jóga- og blómadropaskóla Kristbjargar en það hafði verið draumur minn um nokkurn tíma. Það er magnað nám og í gegnum það öðlaðist ég mikinn styrk til að standa með sjálfri mér. Áfallið sem ég varð fyrir í mars 2018 þegar pabba var neitað að komast aftur heim til sín á Kirkjuhvol var svo ótrúlega mikið að ég náði ekki að tengja við jógað eða önnur bjargráð sem ég hafði tileinkað mér síðustu ár. Ég stefni á að koma því í lag á þessu ári 2020 þar sem ég er byrjuð að spyrna mér frá botninum, þetta verður ár bjargráðanna ásamt því að klára meðferð hjá Píetasamtökunum og VIRK starfsendurhæfingu. Ég vil ítreka það að skömm og sektarkennd við það að hafa farið í veikindaleyfi vegna örmögnunar er erfiður baggi að bera. Þetta er engin óskastaða hjá neinum sem gengur í gegnum slíkt. Ég er stolt af því að hafa staðið með sjálfri mér og ætla mér á vinnumarkað aftur og þá tilbúin í síðari helming starfsævinnar þar sem ég fæ aftur tækifæri til að blómstra. Ég hlakka til að sjá árangur þessa árs en reyni að fara ekki fram úr mér og tek einn dag í einu. Æðruleysisbænin virkar vel í þeim tilfellum.“

Þarfnast þú hjálpar?
Hjálparsími Rauða krossins, 1717, er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis eða sjálfsvígshugsana. Þar er fagfólk sem getur líka hjálpað ef þú ert í brýnni þörf að geta tala við einhvern. Píeta samtökin eru til húsa að Baldursgötu 7 í Reykjavík. Til þeirra geta leitað einstaklingar og aðstandendur sem vilja fá hjálp og viðtal hjá fagfólki og meðferðin er skjólstæðingum að öllu gjaldfrjáls. Símanúmer samtakanna er 552-2218 og netfangið er [email protected] Á heimasíðu samtakanna, www.pieta.is, má finna margvíslegar upplýsingar og fræðsluefni.

Myndir / Unnur Magna
Förðun / Hildur Emilsdóttir, förðunarfræðingur hjá Urban Decay
Hár / Emilía Tómasdóttir, hárgreiðslumeistari hjá Emóra hárgreiðslustofu
Fatnaður / Kjólar & konfekt

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Samfélagsleg sóun á hæfileikum kvenna

Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé er einn eigenda ráðgjafarfyrirtækisins Empower sem sérhæfir sig í jafnréttismálum. Fyrirtækið hefur m.a. þróað...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -