„Ég er þó glöð yfir því að þau séu saman þarna hinum megin, hvar sem það nú er“

Deila

- Auglýsing -

„Maður sér eftir því að hafa ekki knúsað meira eða sagt eitthvað annað eða meira, en maður getur engu breytt,“ segir Sara Dís Gunnarsdóttir sem missti eldri systur sína og föður með aðeins þriggja mánaða millibili árið 2017. Hún hefur glímt við mikinn kvíða síðan þá en segir að þessi sára reynsla hafi gefið sér breytta sýn á lífið og hún vilji lifa því til fulls með jákvæðni að leiðarljósi. Sara Dís prýðir forsíðu Vikunnar að þessu sinni.

 

Daginn sem við Sara Dís hittumst eru akkúrat þrjú ár liðin frá því Ester Eva lést. Sara segir að þótt sér finnist eins og það hafi gerst í gær, bæði að systir hennar dó og pabbi hennar, þá finnist henni eins og sér hafi liðið illa í mörg ár. „Þetta er svo ógeðslega sárt. Svo hugsar maður alls konar hugsanir, eins og að börnin mín, þegar ég eignast þau, muni ekki geta hitt móðurafa sinn og móðursystur sína. Það vakna líka alls konar spurningar, örugglega hjá öllum, maður sér eftir því að hafa ekki knúsað meira eða sagt eitthvað annað eða meira, en maður getur engu breytt. Ég reyni reyndar að líta á það þannig að ég er þó glöð yfir því að þau séu saman þarna hinum megin, hvar sem það nú er. En svo veit maður aldrei hvað gerist þegar maður deyr …“ Hún þagnar um stund.

„Þegar ég hugsa um það hvort þau séu einhvers staðar að fylgjast með mér og þeim sem elskuðu þau svo mikið,“ heldur hún áfram, „þá vona ég að þau séu að því og ég ætla að trúa því.“

„Nokkrum dögum áður en pabbi dó lenti hann í rosalega alvarlegu bílslysi og það var í raun ótrúlegt að hann skyldi lifa það af. Við vorum öll í sjokki, ég hef aldrei séð svona ónýtan bíl og eftir þetta varð ég alveg ofboðslega bílhrædd og lífhrædd. Kvíðaköstin fóru að koma eftir að Ester Eva dó en ég hafði aldrei fengið svoleiðis köst áður.“

Hafðirðu samt fundið fyrir kvíða áður en öll þessi ósköp dundu yfir?
„Já, ég hef alltaf verið stressuð og kvíðin, en ég held að það hafi bara verið af því að ég hef aldrei haft neitt sjálfstraust. Ég hef verið stressuð út af því og alltaf að pæla í hvað öðrum finnst um mig. Ég er farin að vinna í því á fullu að auka sjálfstraustið. En kvíðaköstin fóru að koma þegar Ester Eva dó og ágerðust svo þegar pabbi dó. Ég byrgði þetta allt líka svolítið innra með mér því ég vildi lengi vel ekki tala um þetta. Ég hugsaði bara að ef ég væri að tala um þetta við einhvern þá væri ég í raun bara alltaf að ýfa upp sárin og mér liði þá bara verr. En auðvitað er nauðsynlegt að tala um þetta, ég sé það í dag. Ég viðurkenni að ég hef líka oft hugsað hvað ég hafi gert til að eiga þetta skilið. Var ég eitthvað leiðinleg við einhvern eða vond til að verðskulda þetta? En ég veit að allir geta lent í þessu, ég hef bara verið frekar óheppin. Einu og hálfu ári eftir að pabbi dó horfði ég upp á kærasta mömmu minnar fá alvarlegt hjartaáfall. Það mátti litlu muna en það fór sem betur fer vel. Hálfu ári síðar dó bróðursonur mömmu en hann varð bráðkvaddur aðeins 37 ára frá fjórum ungum börnum. Það var svona dálítið dropinn sem fyllti mælinn, þá fannst mér nú nóg komið.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

Myndir // Hallur Karlsson
Förðun // Elín Hanna, förðunarfræðingur fyrir Urban Decay

- Advertisement -

Athugasemdir