„Ég fann að ástríða mín er í leikhúsinu“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Vala Fannell hefur sett mark sitt á menningarlíf Akureyringa síðan hún flutti þangað fyrir þremur árum. Eftir að hafa komið að uppbyggingu sviðslistabrautar Menntaskólans á Akureyri, ásamt því að leikstýra víða um Norðurland, leikstýrir hún nú sýningu á fjölskyldusöngleiknum Benedikt búálfi. Vala segist hafa reynt að afneita leikhúsbakteríunni á unglingsárum, en ástríðan hafi loksins leitt sig á rétta braut.

„Foreldrar mínir voru leikhúsgagnrýnandi og leikari þannig að ég fæddist bara inn í þennan heim. Ég byrjaði að leika sem krakki og hef alltaf verið einhvern veginn viðloðandi leikhúsið, en ætlaði aldrei að vinna þar sjálf. En þegar maður er með bakteríuna þá er ekkert sem maður getur gert í því. Þetta er bara svona mitt heimili,“ segir Vala.

Hópurinn sem tendur að Benedikt búálfi á söngæfingu: Björgvin Franz Gíslason, Kristinn Óli (Króli), Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Birna Pétursdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson, Árni Beinteinn Árnason og Vala Guðnadóttir. Þorvaldur Bjarni svo fremstur. Mynd / Aðunn Níelsson

Móðir hennar, Súsanna Svavarsdóttir, starfaði sem ritstjóri menningarblaðs Morgunblaðsins og segir Vala að hún hafi tekið hana og systkini hennar með sér víða. „Hún dró okkur á listasýningar, ballett, óperur og leiksýningar. Hún var einstætt foreldri svo að hún var kannski ekki endilega alltaf með pössun, þannig að við vorum mikið í menningarlífinu.“

Þegar Vala var barn langaði hana í leiklistina, en þegar unglingsárin tóku við fór hugurinn yfir í læknisfræði eða sálfræði. Vala byrjaði í sálfræðinámi, sem henni gekk vel í. Þegar henni bauðst að fara til London í leiklistarprufur, ákvað hún að slá til og segir hún foreldra sína hafa hvatt sig til að fara.

„Ég var mjög mikið að sannfæra sjálfa mig um að þetta ætti ekkert við mig. En ákvað að fara til reynslu í eitt ár, svo ég gæti sagt að ég væri búin að reyna. Faðir minn ýtti svolítið á mig að fara svo ég myndi ekki sjá eftir því seinna á ævinni að hafa ekki reynt. Svo komst ég inn en var samt efins, mér gekk vel í sálfræðinni og velti fyrir mér hvort ég ætti ekki að halda áfram í henni. En í grunninn var löngunin alltaf í leikhúsinu,“ útskýrir Vala og segir að það hafi ekki verið nein pressa af hálfu foreldra sinna að klára fyrst háskólanám áður en reynt yrði við leiklistargyðjuna. „Þau ræddu það alltaf við mig og gerðu mér sterklega grein fyrir að þetta væri samt ekki auðveld leið sem ég væri að velja. En ég fann að ástríða mín er í leikhúsinu. Sálfræðin er alltaf kennd og ég get byrjað aftur í henni ef og þegar ég vil, enda kannski auðveldara að byrja að læra sálfræði seinna á ævinni en að byrja þá í leiklist.“

Lestu viðtalið við Völu í heild sinni í Vikunni sem fæst á öllum betri sölustöðum og í áskrift.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -