2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Ég get ekki lifað bara fyrir ykkur“

  Sigurveig Þórarinsdóttir var stórglæsileg, ung kona, læknir á leið í sérnám í öldrunarlækningum. Þeir sem ekki þekktu til hennar hafa sjálfsagt haldið að lífið brosti við henni. Sem það gerði vissulega. En hún sá það ekki. Og brosti sjálf ekki við lífinu. „Þið verðið að skilja að ég get ekki lifað bara fyrir ykkur. Ég hef gert það meira en ykkur grunar. Ég elska ykkur meira en ykkur grunar – en ég er vansælli en þið getið skilið“ skrifaði Sigurveig til fjölskyldu sinnar í bréfi dagsettu 9. júní 2013. Tæpu ári síðar var hún látin.

   

  Sigurveig starfaði sem læknir á Landspítalanum þegar hún lést.

  Þriðjudaginn 4. mars 2014 mætti Sigurveig til vinnu á Landspítalanum í Fossvogi. Þegar hún kvaddi vinnufélagana í lok dags benti ekkert til þess að hún ætlaði sér ekki að mæta í vinnuna næsta morgun. Móðir Sigurveigar, María Loftsdóttir, segist hafa hringt í Sigurveigu um fimmleytið og það hafi legið vel á henni. „Hún var svo kát að ég hugsaði að hún hlyti að vera að fara að gera eitthvað skemmtilegt. Það hvarflaði að mér að kannski væri hún bara að fara á stefnumót,“ segir María. „En þá var hún greinilega búin að ákveða að kveðja þetta líf. Hún kláraði þennan vinnudag og engan grunaði neitt. Hún gekk frá öllum sínum verkefnum og fór svo heim. Stúlkan sem leigði með henni á þessum tíma sagði okkur seinna að Sigurveig hefði tekið sig til, málað sig og gert sig svo fína. En hún sagðist hafa spurt Sigurveigu hvort hún ætlaði virkilega að fara bara út í joggingbuxunum.“

  „Já, því hún var uppstríluð en bara í þægilegu jogginbuxunum sínum. Það passaði einhvern veginn ekki alveg,“ segir Sigrún, systir Sigurveigar. „Svo keyrði hún austur í sumarbústað, sem amma okkar átti, og var greinilega búin að undirbúa sig vel. Hún var til dæmis búin að segja að hún ætti ekki að mæta snemma til vinnu næsta dag og myndi því sofa út. Í bústaðnum var hún svo örugg með það að enginn nákominn myndi koma að henni og bjarga henni.“

  AUGLÝSING


  Næsta dag, þegar Sigurveig svaraði ekki símhringingu frá föður sínum grunaði hann strax að eitthvað væri að. „Sigurveig var svo nákvæm,“ segir María. „Ef hún sagðist ætla að hringja, þá hringdi hún. Og þegar hún svaraði ekki og hringdi ekki til baka þá var eitthvað ekki eins og það átti að vera.“ María ákvað því að tala strax við lögregluna. „Þeir sögðust vanalega ekki gera neitt í svona málum fyrr en eftir vissan tíma en ég útskýrði aðstæður og sagði þeim að það væri líklegt að dóttir mín væri farin eitthvað með mikið magn af lyfjum. Þeir ákváðu því að miða út símann hennar Sigurveigar.“

  Vissi að eitthvað alvarlegt væri að

  Sigrún, sem bjó á þessum tíma á Austfjörðum, segir að það hafi verið erfitt að fá tíðindin af hvarfi Sigurveigar verandi svona langt í burtu frá fjölskyldunni. „Þarna var ýmislegt búið að ganga á með systur mína og þegar mamma hringdi þá vissi ég að það væri eitthvað alvarlegt í þetta sinn. Mamma er auðvitað alveg mögnuð manneskja og ég skil ekki í dag hvernig hún náði að vera svona róleg yfir þessu öllu saman. En hún eiginlega sagði mér hreint út að það væri líklegt að Sigurveig væri ekki að fara að koma til baka. Svolitlu seinna hringdi mamma aftur og sagði að lögreglan hefði fundið út að síminn hennar Sigurveigar hefði síðast verið tengdur á svæðinu í kringum Laugarvatn og þá vissi ég bara að hún væri dáin. Það helltist líka yfir mig sjálfsásökun; af hverju ég hefði ekki fattað að hún hefði farið þangað. Eins og það hefði einhverju breytt; ég hinum megin á landinu og mamma í Grafarvogi … Við hefðum ekki getað brunað austur að Laugarvatni til að bjarga henni.“

  „Það hefði ekki verið hægt að bjarga henni,“ segir María. „Hún vissi alveg hvað hún var að gera og hvað hún þyrfti að gera til að þetta gengi allt upp. Hún var greinilega ákveðin í að kveðja á þessum tíma. Ég held að það hefði verið sama hvað maður hefði reynt; hún sá bara ekki aðra leið út úr sinni vanlíðan.“

  „Þegar hún svaraði ekki og hringdi ekki til baka þá var eitthvað ekki eins og það átti að vera.“

  Blaðamanni finnst ljóst að þær mæðgur eru fullar æðruleysis og aðspurð segir María að það þurfi æðruleysi til að halda áfram. „Ég verð að sætta mig við að þetta var hennar val og virða það. Það þýðir ekkert að verða reið yfir þessari ákvörðun hennar. Það hljómar kannski kaldlynt en það var hennar réttur að ráða yfir sínu lífi. Sigurveig var fullorðin manneskja sem réði yfir sjálfri sér og þótt ég hefði farið og sótt hana í vinnuna þennan dag þá hefði það engu breytt. Þetta var hennar ákvörðun og hennar leið út úr sinni miklu vanlíðan.“

  „Þetta var hennar endastöð“

  Sigrún tekur undir með móður sinni: „Þetta var hennar endastöð. Sigurveig dó úr sínum fíknisjúkdómi. Við sjáum það þegar við lesum minningargreinar um fólk sem hefur verið að berjast við þessa viðurkenndu líkamlegu sjúkdóma, eins og til dæmis krabbamein, að það er gjarnan skrifað að fólk hafi háð hetjulega baráttu og barist til hins ýtrasta … Það var nákvæmlega eins með Sigurveigu. Hún barðist, féll, steig aftur upp og hélt áfram að berjast og svo framvegis. Og á sama tíma og maður hefði auðvitað ekki viljað neitt meira en að hún væri hér enn, þá hefði maður ekki viljað að hún hefði haldið áfram að lifa í svona hræðilegri vanlíðan.“ Sigrún gerir hlé á máli sínu, lítur á móður sína og augun fyllast tárum. „Heyrirðu lagið, mamma?“ Blaðamaður leggur við hlustir en það er erfitt að heyra um hvaða lag ræðir þar sem tónlistin er ekki hátt stillt á kaffihúsinu og allt í kring er skvaldur í öðrum kaffihúsagestum. Smám saman er þó eins og styrkur tónlistarinnar hækki og blaðamaður heyrir að verið er að spila lagið Halo í flutningi hljómsveitarinnar Hjaltalín. „Þetta er lagið hennar Sigurveigar,“ segir María.

  „Á sama tíma og mig dreymdi þennan draum var systir mín að kveðja þessa jarðvist.“

  Við gefum okkur smátíma til að hlusta á lagið og þerra tárin sem trítla niður kinnarnar á þessu ótrúlega augnabliki. „Vá, hugsaðu þér, þetta lag nefnilega …“ segir Sigrún og dæsir létt. „Við skoðuðum tölvuna hennar Sigurveigar eftir að hún fór og þetta lag hafði verið á „repeat“ að kvöldi 4. mars á meðan hún undirbjó sig fyrir að kveðja þetta líf. Ég veit að fólk segir að maður geti lesið tilviljanir og tákn úr öllu en þetta lag hef ég ekki heyrt spilað rosalega lengi. Það kemur samt stundum á svona sérstökum augnablikum.“

  „Sigurveig er að láta okkur vita að hún er hérna með okkur,“ segir María. „Stundum hafa komið svona tilviljanir, sem eru bara eins og til að láta okkur vita að Sigurveig sé hjá okkur. Og þetta lag var spilað við jarðarförina. Okkur fannst það verða að vera.“

  Sigrún og Sigurveig voru alla tíð mjög nánar, þótt veikindi Sigurveigar hafi sett strik í reikninginn undir það síðasta. Aðfaranótt miðvikudagsins 5. mars dreymdi Sigrúnu draum og hún segist velta því fyrir sér hvort draumurinn hafi verið hughrif frá Sigurveigu sem var þá um nóttina að sofna svefninum langa við sumarbústaðinn fyrir austan. „Ég vaknaði um miðja nótt, eftir að hafa dreymt alveg hræðilega illa. Ég fór fram í eldhús og ákvað að skrifa niður drauminn og senda sjálfri mér hann í tölvupósti til að gleyma honum ekki. Í draumnum var ég umvafin vatni og í miklum öldugangi. Ég skrifaði að mér hefði verið svolítið kalt en ég hefði ekki verið hrædd. Nú hugsa ég að á sama tíma og mig dreymdi þennan draum var systir mín að kveðja þessa jarðvist.“

  Var ákveðin í að verða læknir

  Sigurveig fæddist í Reykjavík 29. október 1978, hálftíma á undan Sigrúnu tvíburasystur sinni. Sigrún segir að fólk hafi oft orðið hissa á því að þær væru tvíburar. „Við vorum svo ólíkar í útliti, enda tvíeggja. Önnur stór og rauðhærð en hin lítil og ljóshærð. Við höfðum líka ólíka skapgerð. Sigurveig var mikill dundari og gat dundað sér endalaust á meðan ég varð alltaf að vera á ferðinni. „Ég var óþekka systirin en Sigurveig sú stillta.“

  „Sigurveig byrjaði að teikna um fjögurra ára aldurinn og var alltaf teiknandi á meðan Sigrún hoppaði um allt,“ segir María. „Ég spurði hana oft hvort hún vildi ekki verða listakona þegar hún yrði stór en það vildi hún alls ekki. Hún sá ekki fyrir sér að geta lifað af því. Hún var harðákveðin í að verða læknir. En hún hefði orðið frábær listamaður og hefði getað lagt fyrir sig myndlistina eða fatahönnun hefði hún viljað.“

  Mynd eftir Sigurveigu. Hún var mjög listræn og hefði vel getað lagt fyrir sig myndlistana hefði hún viljað, að sögn móður hennar.

  Aðspurð hvernig karakter Sigurveig hafi verið segja þær mæðgur að hún hafi verið einstaklega ljúf og góð og alltaf tilbúin að rétta fram hjálparhönd. „Hún var fyrst á staðinn ef einhver þurfti á hjálp að halda en hjálpaði sjálfri sér minnst,“ segir Sigrún. „En Sigurveig var svona týpísk ung kona sem elskaði að hafa sig til og gera skemmtilega hluti. Hún hafði svartan húmor og fannst mjög gaman að stríða manni. Hún var uppátækjasöm og átti til dæmis hugmyndina að því þegar við vorum fimm ára og bjuggum í Svíþjóð, að klæða okkur um miðja nótt í bleiku sparikjólana, sem mamma hafði saumað, til að fara út á róló og leika. Þá var hún orðin leið á öllum flugunum í herberginu okkar og vildi komast út.“

  „Sem betur fer skiluðu þær sér nú heim heilar á húfi,“ segir María og brosir til dóttur sinnar. En Sigurveig var ofboðslega metnaðarfull og gerði svakalegar kröfur til sjálfrar sín. Hún var góður námsmaður, dugleg að læra og afar samviskusöm.“

  „Að því leytinu vorum við systur mjög ólíkar. Ég var miklu kærulausari, án þess að vera í einhverju rugli eða vitleysu. Ég fór í próf og þegar mamma og pabbi spurðu hvernig mér hefði gengið svaraði ég að það hefði gengið rosalega vel en náði kannski með herkjum,“ segir Sigrún og skellir upp úr. „Svo kom Sigurveig heim úr prófi, skellti hurðum og var hrikalega pirruð af því að henni fannst sér hafa gengið illa en fékk svo níu í einkunn. Hún gerði rosalegar kröfur til sín.“

  Ætlaði aldrei að drekka vín

  Eftir grunnskólagöngu fór Sigurveig á náttúrufræðibraut í Menntaskólanum í Reykjavík og María segir að á þeim tíma hafi hún verið orðin mjög kvíðin. „Hún fékk mjög góðar einkunnir en var sjálf aldrei ánægð með frammistöðu sína. Henni fannst hún alltaf geta gert betur og að hennar mati voru einkunnirnar hennar, sem voru háar, aldrei nógu háar.“ Eftir útskrift úr menntaskólanum hafi hún svo farið í inntökupróf í læknisfræði í Háskóla Íslands. Hún var nálægt því að komast í gegnum klásusinn og tók mjög nærri sér að það skyldi ekki takast. „Það komust inn 40 nemendur eftir inntökuprófið og Sigurveig var númer 41. Hún reyndi tvisvar við prófið en eftir seinna inntökuprófið ákvað hún að fara til Ungverjalands að læra læknisfræði.“

  „Ég man enn eftir því þegar hún fór í fyrra skiptið,“ segir Sigrún. „Hún sat hágrátandi á gólfinu, í kvíðakasti því henni fannst hún verða að ná. Ég skildi þetta ekki, enda var þetta svo ólíkt mér. En svo fór hún út til Ungverjalands og var ánægð í náminu þar. Hún kom heim í fríum og ég sá að hún breyttist smám saman. Við höfðum alltaf haft gaman af því að mála okkur og gera okkur fínar en þarna var hún að breytast í einhverja ofurskvísu, einhverja allt aðra týpu sem ég þekkti ekki, og sýndi takta sem ég hafði ekki séð áður. Hún var farin að djamma mjög mikið og grenntist líka alveg rosalega.“

  Sigrún segir að þær Sigurveig hafi ekki byrjað að drekka áfengi fyrr en eftir tvítugt, það hafi verið sameiginleg ákvörðun þeirra systra. „Reyndar ætlaði Sigurveig aldrei að drekka vín,“ segir María. „En hún hafði fíknigenið í sér og það er sagt að það sé oft þannig að fólk með fíknigen ánetjist frá og með fyrsta skiptinu.“ Sigrún kinkar kolli og segist bókstaflega hafa séð það gerast hjá Sigurveigu. „Við fórum í sumarbústað ásamt fleira fólki og vorum þá rétt rúmlega tvítugar. Þarna tók Sigurveig fyrsta vínsopann og ég sá bara strax hvernig hún breyttist. Ég man að ég hugsaði að hún væri alveg eins og nákominn ættingi okkar sem er alkóhólisti og ég hafði margoft séð drukkinn.“

  Sigrún (t.v.) og Sigurveig (t.h.) voru alla tíð nánar þótt veikindi Sigurveigar hafi sett strik í reikninginn undir það síðasta. Sigrún segir að stundum hellist yfir sig tilhugsunin um að hún sé búin að missa tvíburasystur sína.

  Drykkjan ágerðist hjá Sigurveigu á næstu árum. Hún kom heim frá Ungverjalandi til að vinna kandidatsárið sitt á Landspítalanum. Hún fór á þeim tíma í sína fyrstu áfengismeðferð og María segir að allir hafi verið mjög bjartsýnir á framhaldið. Sigurveig hafi verið í ágætum bata í svolítinn tíma eftir meðferðina en hún hefði glímt við mikinn kvíða. „Svo ágerist kvíðinn með árunum og hún fór nokkrum sinnum inn á geðdeild. Bataferillinn hófst þegar Sigurveig fékk loksins sálfræðiviðtöl. Í framhaldi af þeim fór hún á Hvíta bandið og var þar í fjóra mánuði í dagprógrammi. Þá náði hún sér á strik og var bara svolítið eins og ný manneskja.“

  Gerði tilraun til sjálfsvígs

  Haustið 2010 gerði Sigurveig tilraun til sjálfsvígs. María og Sigrún segja að það hafi í raun ekki mátt tæpara standa. Henni hafi verið haldið sofandi í öndunarvél í sólarhring og hún hafi legið á gjörgæsludeild í nokkra daga.

  „Það var alveg ótrúlegt að hún skyldi sleppa frá þessu ósködduð og ekki fá heilaskaða,“ segir Sigrún og hristir höfuðið. „Hún kom út úr þessu eins og ekkert hefði í skorist. Ég bjó á þessum tíma úti á landi en kom strax í bæinn og man að mamma og pabbi tóku á móti mér á spítalanum og spurðu hvort ég hefði einhvern tíma áður séð manneskju í öndunarvél. Það hafði ég ekki gert og það var mikið áfall að sjá systur mína í þessu ástandi. Maður er auðvitað oft búinn að sjá svona atriði í sjónvarpsþáttum og bíómyndum en það var rosalega óraunverulegt að upplifa þetta í raun og veru. Þetta var hræðilegur tími og Sigurveig var miður sín eftir þetta. Hún var svo einlæg þegar hún sagðist aldrei ætla að leggja þetta á okkur aftur. Ég virkilega trúði því að hún myndi aldrei gera aðra tilraun til að taka líf sitt.“ María segir að við hafi tekið góður og langur bataferill hjá Sigurveigu. En svo hafi kvíðinn farið að læðast að henni aftur. Hún hafi átt erfitt með svefn og farið að taka svefnlyf til að geta sofið og kvíðalyf til að halda kvíðanum niðri.

  „Ég virkilega trúði því að hún myndi aldrei gera aðra tilraun til að taka líf sitt.“

  „Þessi fíkn er auðvitað bara heilasjúkdómur sem triggerast strax og Sigurveig tekur fyrsta sopann þarna í sumarbústaðnum rúmlega tvítug,“ segir Sigrún. „Og síðustu árin, í hennar mestu veikindum, sá maður að þessi ömurlegu lyf voru alveg að fara með hana. Þau gjörbreyttu henni. Hún gerði sér alveg grein fyrir því og sagði sjálf að ef hún mætti ráða þá myndi hún vilja taka róandi lyf á hverjum degi, en þá væri líka gamla Sigurveig farin. Hún vildi taka lyfin af því að hún var með svo mikinn kvíða en vissi að þau breyttu henni og hún væri ekki hún sjálf þegar hún tók þau. Við sem þekktum hana best heyrðum það strax á henni til dæmis í símanum ef hún hafði tekið eitthvað inn. Ekki af því að hún væri þvoglumælt eða neitt svoleiðis, heldur heyrði maður bara hvernig karakterinn hennar gjörbreyttist.“

  Vanlíðanin sést ekki utan á fólki

  Sigurveig fór nokkrum sinnum inn á geðdeild og María segir að þótt hún vilji ekki tala illa um geðdeildina hrópi hún ekki húrra fyrir henni. Þegar kom að útskrift þaðan stóð Sigurveigu engin frekari þjónusta til boða. „Ég spurði hvort hún gæti ekki allavega fengið sálfræðitíma en hún hefði þá þurft að bíða eftir honum í að minnsta kosti hálfan mánuð. Og hún svona veik eins og hún var gat ekki beðið eftir því.“

  „Það vinnur ótrúlega flott fólk á öllum stigum í heilbrigðisgeiranum og allir eru að reyna að gera sitt besta,“ segir Sigrún. „En aðstandendur eiga ekki að þurfa að útvega hjálpina. Það eiga ekki allir slíkt bakland. Í eitt skipti þurfti mamma bókstaflega að neita því að yfirgefa deildina fyrr en eitthvað yrði gert fyrir Sigurveigu.“

  María og Sigrún segja að fólk hafi ef til vill ekki gert sér grein fyrir því hvað Sigurveig var í rauninni orðin veik undir það síðasta.

  „Ég man að í síðasta skipti sem Sigurveig var á geðdeildinni sagði hún með mikilli áherslu: „Ég ætla aldrei að koma hingað aftur. Og þangað fór hún aldrei aftur,“ segir María.

  María og Sigrún segja að fólk hafi ef til vill ekki gert sér grein fyrir því hvað Sigurveig var í rauninni orðin veik undir það síðasta. Sérstaklega þeir sem stóðu henni ekki nærri og höfðu jafnvel ekki hugmynd um að Sigurveig væri búin að glíma við fíknivanda. „Hún hafði grennst alveg svakalega,“ segir Sigrún. „Hún var skelfilega lasin. En hún stundaði alltaf sína vinnu og var alltaf hress og kát, að minnsta kosti út á við. Þess vegna áttaði fólk sig kannski ekki á því hvað ástandið var alvarlegt og hvað hún var langt leidd í sínum sjúkdómi.“ María tekur undir það og bætir við: „Svo horfði fólk á hana, þessa glæsilegu ungu konu sem framtíðin virtist brosa við. Það var ekki að sjá á henni að hún væri mölbrotin inni í sér og sæi enga von í svartnættinu sem hún var stödd í. Og það er málið með þessi andlegu veikindi. Manneskjan sem situr hér á næsta borði við okkur á kaffihúsi virðist kannski kát og glöð og með allt sitt á hreinu en líður kannski hræðilega. Fólk ber þetta ekki utan á sér.“

  Hafði allt en sá ekkert ljós

  Sem fyrr segir var Sigurveig mjög listræn og deildi myndlistaráhuganum með móður sinni. María er sjálf listakona og hefur haldið sýningar á myndum sínum, bæði hér heima og erlendis. Hún segir að Sigurveig hafi skilið eftir sig margar fallegar myndir og fljótlega eftir andlát dóttur sinnar hafi hún ákveðið að halda sýningu á verkum hennar. „Ég var búin að ganga með hugmyndina að þessari sýningu frá því Sigurveig fór en fannst það einhvern veginn ekki tímabært fyrr en nú. Og þetta er ekki bara sýning á myndunum hennar heldur viljum við sem stóðum henni næst líka opna umræðuna um sjálfsvíg kvenna. Sigurveig hafði alla þessa hæfileika, var dugleg að læra, leit vel út, hafði góð laun, góða menntun … Hún hafði í rauninni allt. En samt leið henni svona illa inni í sér og sá ekkert ljós.“

  „Það var ekki að sjá á henni að hún væri mölbrotin inni í sér og sæi enga von.“

  Sigrún segir að sér virðist sem umræðan um sjálfsvíg kvenna sé svolítið feimnismál. „Það hefur verið mikil umræða um sjálfsvíg ungra karla en staðreyndin er sú að eldri menn fremja líka sjálfsvíg rétt eins og ungar konur og eldri konur.“ Hún þagnar augnablik og bætir svo við að mikilvægt sé að umræðan um sjálfsvíg einkennist ekki af skömm. „Við ákváðum strax að vera opinská um þetta, án þess að fara í einhver smáatriði. Maður fann að fyrst var fólk svolítið á tánum og vissi ekki alveg hvernig það ætti að haga sér en af því að við ræddum hlutina tiltölulega opinskátt þá létti það svolítið á. Fólk var jafnvel að spyrja okkur, áður en kom að jarðarförinni, hvort Sigurveig yrði jörðuð í kyrrþey. Maður verður auðvitað að virða það ef fólk vill ekki ræða dánarorsök sinna nánustu en það má ekki verða þannig gagnvart okkur sem lifum af að hafa misst einstaklinga úr sjálfsvígi að það megi ekki ræða það. Eftirlifendur eiga ekki að sitja uppi með einhverja skömm.“

  Mynd eftir Sigurveigu.

  „Við höfum líka verið dugleg að tala um Sigurveigu þótt hún sé farin af jörðinni,“ segir María. „Hún er alltaf með okkur og við hugsum mikið um hana, án þess þó að festast þar. Ég var stöðugt að hugsa til hennar fyrsta árið eftir að hún fór. En það er svo mikilvægt að halda áfram.“

  „Það skiptir svo miklu máli að það megi tala um manneskjuna þótt hún sé látin,“ bætir Sigrún við. „Þessi 35 ár hennar Sigurveigar verða ekki þurrkuð burt.“

  „Og ég er sko þakklát fyrir að hafa fengið að hafa hana í 35 ár,“ segir María. „Það er ekkert sjálfgefið. Fyrir mig, til þess að ná bata í þessu öllu saman, er mikilvægt að vera þakklát fyrir að hafa fengið að hafa hana og eiginlega byggja svolítið ofan á það. Sumir verða bitrir og leggjast jafnvel í veikindi eftir svona lífsreynslu. Lífið heldur auðvitað áfram.“

  „Ég þoldi ekki þessa setningu, lífið heldur áfram, fyrst eftir að Sigurveig fór,“ segir Sigrún. „Ég man eftir því að hafa séð fólk segja frá því á Facebook að það væri að fara í afmælisveislu eða partí og það fauk eiginlega í mig. Var fólk í alvöru bara að skemmta sér, brosa og hlæja? Og Sigurveig nýdáin? Svo áttaði ég mig á því að minn veruleiki var ekki veruleiki þess. Fólk var auðvitað bara að gera sitt og lifa lífinu þótt ég væri að undirbúa jarðarför systur minnar. Lífið heldur auðvitað áfram. Vissulega tekur maður daga inn á milli þar sem maður er ekki vel stemmdur en það er gott að reyna að halda rútínunni og hugsa hvað Sigurveig hefði viljað. Ég veit að hún hefði viljað að við héldum okkar striki.“

  „Hún er alltaf með okkur og við hugsum mikið um hana, án þess þó að festast þar.“

  Þær María og Sigrún segja ekkert geta undirbúið mann fyrir svona lífsreynslu. María segist þó hafa búið vel að reynslu sinni sem sjúkraliði en hún starfaði í mörg ár á Sjúkrahúsinu Vogi. „Það hjálpaði mér því eftirfylgnin var engin eftir að presturinn og lögreglan höfðu tilkynnt mér að Sigurveig hefði fundist látin. Það væri gott fyrir eftirlifendur að fá einhverja leiðsögn um framhaldið. Ég veit að sumir foreldrar hafa hreinlega orðið alvarlega veikir eftir að missa barnið sitt svona snögglega. Ég vissi bara að ég þyrfti að fá mér hjálp. Ég var búin að vinna með mjög veiku fólki í mörg ár og horfa upp á alls konar hluti í mínu starfi svo ég vissi að ég þyrfti að leita mér hjálpar í sorgarferlinu. Ég vissi líka alveg að Sigurveig mín hafði ekki tekið þessa ákvörðun sína til að skaða mig.“

  María leitaði líka í stuðningshóp sem Ný dögun var að byrja með á þessum tíma fyrir fólk sem hafði misst náinn aðila úr sjálfsvígi. Hún segir að það hafi hjálpað mikið að geta talað við einhvern sem hafði staðið í sömu eða svipuðum sporum. Þá hafi hún ákveðið að fara fljótlega að vinna, það hafi hjálpað mikið að hitta vinnufélagana og komast í rútínu. „Ég átti svo góða vinnufélaga sem skildu þetta vel því við vorum svo oft að hugsa um mjög veika sjúklinga og nálægðin við dauðann var oft mikil.“

  Tvíburalaus tvíburi

  Sigrún og Sigurveig voru alla tíð nánar þótt veikindi Sigurveigar hafi sett strik í reikninginn undir það síðasta. Sigrún segir að stundum hellist yfir sig tilhugsunin um að hún sé búin að missa tvíburasystur sína. „Það eru ákveðnir triggerar sem koma tilfinningunum á fullt, eins og dánardagurinn hennar en alveg frá því hún dó hef ég verið í fríi í kringum hann. Það getur líka verið nóg að finna ilmvatnslyktina sem hún notaði alltaf. Svo er svolítið nýr veruleiki að eiga afmæli í dag …“ Röddin brestur.

  „Svo horfði fólk á hana, þessa glæsilegu ungu konu sem framtíðin virtist brosa við. Það var ekki að sjá á henni að hún væri mölbrotin inni í sér og sæi enga von í svartnættinu sem hún var stödd í,“ segir María, móðir Sigurveigar.

  María tekur utan um dóttur sína. „Já, af því að þið voruð tvíburar og það var alltaf þessi sérstaka tenging.“ Eftir stutta þögn bætir María við að Sigrún hafi fundið alþjóðleg samtök tvíburalausra tvíbura á Facebook, Twinless Twins. Sigrún segir marga í þeim hópi hafa misst sinn tvíbura úr sjálfsvígi. „Þetta er mjög gott stuðningsnet og það er gott að geta fengið speglun á einhverju sem kannski enginn annar skilur. Það hlýtur óneitanlega að vera öðruvísi að missa tvíbura en venjulegt systkini því það var alltaf við eða þið, en svo ertu bara allt í einu þú. Bræður mínir, Davíð og Loftur, syrgja samt auðvitað systur okkar líka.“

  Það er kominn tími til að kveðja þær mæðgur. Kaffihúsið er að fyllast af ferðamönnum sem eru komnir til að næra sig og njóta fallegs útsýnisins út um glugga Perlunnar. Að lokum rifja María og Sigrún upp atvik sem gerðist þegar Sigurveig og Sigrún voru litlar. „Við vorum kannski sjö, átta ára þegar við læddumst út um miðja nótt þar sem við vorum í sumarbústað við Laugarvatn með mömmu og pabba. Það var þarna opinn gluggi sem við náðum að lauma okkur út um á meðan mamma og pabbi sváfu. Okkur langaði bara að fara niður að vatni að leika. Svo laumuðumst við inn um gluggann aftur,“ segir Sigrún og brosir létt að minningunni.

  „Presturinn nefndi þetta í minningarorðunum um hana í jarðarförinni, manstu,“ segir María og lítur á dóttur sína.

  „Það var svo fallegt hvernig hann orðaði þetta,“ heldur hún áfram. „Hann sagði að Sigurveig hefði farið út um gluggann en það hefði ekki verið í okkar valdi að loka honum til að passa það að hún kæmist ekki út. Þannig að hún kom ekki inn aftur.

  Myndir // Hákon Davíð Björnsson
  Förðun // Helga Sæunn Þorkelsdóttir

  Þarfnast þú hjálpar?

  Píeta samtökin eru til húsa að Baldursgötu 7 í Reykjavík. Til þeirra geta leitað einstaklingar og aðstandendur sem vilja fá hjálp og viðtal hjá fagfólki og meðferðin er skjólstæðingum að öllu gjaldfrjáls. Símanúmer Píeta samtakanna er 552-2218 og netfangið er [email protected] Á heimasíðu samtakanna, www.pieta.is, má finna margvíslegar upplýsingar og fræðsluefni. Hjálparsími Rauða krossins, 1717, er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis eða sjálfsvígshugsana. Þar er fagfólk sem getur líka hjálpað ef þú ert í brýnni þörf að geta tala við einhvern.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is