2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Ég lít svolítið á kúlurnar eins og lítil jólalistaverk“

  Myndlistarkonunni Lindu Björk Óladóttur er margt til lista lagt. Undanfarin ár hefur hún málað á jólakúlur sem hún hefur selt fyrir jólin og jólakúla ársins 2019 ber heitið Fjöður.

   

  Frá árinu 2007 hefur Linda málað á jólakúlur og selt en hún segist hafa heillast af jólakúlum frá því hún var barn.

  „Við hjónin byrjuðum að safna jólakúlum þegar við kynntumst, löngu áður en við eignuðumst jólatré. Við völdum eina kúlu á ári, stundum fleiri, en alltaf að minnsta kosti eina, svo jólatréð færi ekki í jólaköttinn. Ég fór svo að búa til jólakúlur og gefa í jólagjafir upp úr tvítugu og árið 2007 fór ég að selja þær.“

  Hún segir enga sérstaka stefnu hafa verið í jólakúlunum til að byrja með. Hún hafi alltaf gert eina hönnun á ári og gert hana í mismunandi litasamsetningum.

  AUGLÝSING


  „Áhuginn á kúlunum jókst eftir að ég opnaði vinnustofuna mína í Hafnarstræti og árið 2016 ákvað ég að gera alvöru úr þessu áhugamáli mínu og byrja á nýrri línu; gera handgerða hönnun sem hægt væri að safna. Nú hanna ég og handmála eitt hringmunstur á ári. Það er virkilega gaman að sjá munstrið öðlast nýtt líf í hverri kúlu og það fullnægir kannski sköpunarþörf minni að einhverju leyti. Ég mála allar kúlurnar með sama munstri en engar tvær í sömu litasamsetningu. Það má segja að þetta sé ekki ólíkt því að hanna lopapeysumunstur sem væri svo aldrei prjónað tvisvar í sömu litasamsetningu.“

  Með þessu móti segist Linda ná því að gera hverja kúlu einstaka. „Og ég verð ekki leið á að mála þær. Ég lít svolítið á kúlurnar eins og lítil jólalistaverk. Þær eru allar undirritaðar með ártali en upplag hvers árs er takmarkað því ég mála allar kúlurnar sjálf og hef auðvitað takmarkaða framleiðslugetu.“

  „Jólakúlurnar mínar eru gott dæmi um það hvernig eitthvað vex og dafnar ef maður hlúir að því.“

  Linda segir fjórða munstrið, sem kallast Fjöður, vera komið út en fyrstu kúlurnar í því munstri hafi litið dagsins ljós í júní síðastliðnum og farið í sölu í ágúst. „Ég hef aldrei byrjað svona snemma og næ vonandi að anna eftirspurn í ár; kúlur fyrri ára eru allar uppseldar. Kannski mun ég bæta í árin við hátíðleg tilefni í framtíðinni. Jólakúlurnar mínar eru gott dæmi um það hvernig eitthvað vex og dafnar ef maður hlúir að því.“

  jólakúla ársins 2019 ber heitið Fjöður.

  Lestu viðtalið við Lindu í heild sinni í jólablaði Vikunnar.

  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Myndir / Auðunn Níelsson og Helga Hrönn Óladóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is