2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Ég sagði að mér þætti frekar fyndið að deyja kannski úr þessu“

  Kynni þeirra Evu Bjargar Guðlaugsdóttur og Guðbjörns Jóhanns Kjartanssonar, Bubba, urðu til eins og í ævintýrabók, eins og þau segja sjálf. Þau hafa ólíka lífsreynslu að baki en hafa það að markmiði að vinna sig í gegnum hana saman. Bróðir Evu, Gunnar Steinn, lést úr krabbameini árið 2016 og Bubbi greindist með illkynja krabbamein árið 2018. Hann er hættur að trúa á tilviljanir og skyldi engan undra.

  Eftir stóra og erfiða aðgerð í Indianapolis í Bandaríkjunum þar sem krabbameinsæxlið var fjarlægt ákváðu Bubbi og vinur hans, Sindri, sem hafði fylgt honum út og staðið eins og klettur við hlið hans, að fara í bíltúr um Bandaríkin. „Við ætluðum upphaflega að keyra aftur upp til Chicago og svo alveg vestur. Síðan ætluðum við að taka Suðurríkin til baka og enda í Graceland. En áður en við gengum frá þessu þá fékk ég eitthvert hugboð um að við ættum að fara hina leiðina frekar og taka öfugan hring, sem við og gerðum. Það var mjög heppilegt því þegar við vorum búnir að keyra í fjóra eða fimm daga kom bakslag hjá mér. Það var kominn mikill vökvi í gollurhúsið, pokann sem umlykur hjartað, svo hann var farinn að þrengja að hjartanu. Ég var því orðinn alveg rosalega orkulaus og slappur, átti erfitt með andardrátt og gang.“

  „Þeim fannst ég nú svolítið bilaður að hlæja að þessu…“

  Það var svo á leiðinni til Denver sem líkami Bubba sagði stopp. „Það var 35 stiga hiti úti en ég var með teppi yfir mér í bílnum því ég var að frjósa úr kulda og svo var alltaf að líða yfir mig.“ Að lokum, loksins, hringdi Bubbi á spítalann í Indianapolis en þar var búið að loka. Bubbi hafði ekki áttað sig á tímamismuninum á milli ríkjanna. Hann hringdi þá í aðila á vegum tryggingafélagsins síns sem sagði Bubba að miðað við lýsingarnar á einkennum þyrfti hann að komast undir læknishendur sem fyrst. Svo það var ekki annað að gera en gúggla næsta sjúkrahús og þangað brunuðu þeir Sindri.

  „Þeim fannst ég nú svolítið bilaður að hlæja að þessu þar sem ég lá þarna á bekknum og spurðu hvernig ég gæti eiginlega legið þarna, nær dauða en lífi og hlegið að því. Ég sagði sem var að mér þætti frekar fyndið að deyja kannski úr þessu, orðinn laus við krabbameinið … Það væri svolítið hallærislegt.“

  AUGLÝSING


  Tilviljun … eða ekki

  Eva og Bubbi kynntust síðla árs 2018 í jöklaferð sem farin var á vegum Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur. Bubbi hafði verið duglegur í félaginu en ætlaði þó ekki að fara í ferðina sem hann hafði séð auglýsta. Hann hafi svo ákveðið að skella sér eftir stutta umhugsun og fyrsta manneskjan sem hann sá þegar hann steig upp í bílinn sem flutti hópinn upp á jökul var Eva.

  Viðtalið við Evu og Bubba í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

  Eva var nýbúin að skrá sig í Kraft á þessum tíma en hún hafði verið með bróður sínum, Gunnari Steini, í SKB, Styrktarfélagi Krabbameinssjúkra barna. Eftir að hann lést árið 2016 hafi hún ákveðið að skrá sig í Kraft.

  „Ég sá þessa jöklaferð auglýsta og þar sem ég elska útivist og hreyfingu, sem hefur komið mér í gegnum margt, ætlaði ég að skrá mig í ferðina en þá var orðið fullbókað,“ segir Eva. „Svo fékk ég bara að vita með stuttum fyrirvara að það hefði losnað pláss svo ég kæmist með. Þetta var geggjuð ferð í alla staði og mér leist strax vel á Bubba, hann var svo hrikalega skemmtilegur. Þannig að þetta var frábær tilviljun.“

  „Eða ekki tilviljun,“ segja þau næstum einum rómi og líta hvort á annað.

  Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

  Kaupa blað í vefverslun

  Myndir / Hákon Davíð Björnsson
  Förðun / Elín Hanna, förðunarfræðingur fyrir Urban Decay

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is