• Orðrómur

Ég var minn versti óvinur

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni: 

Öll eigum við mjög auðvelt ráðleggja öðrum og leysa þeirra vandamál en þegar kemur að okkar eigin er lausnin aldrei jafneinföld. Ég er engin undantekning frá þessu en það þurfti óvenjulega hreinskilna vinkonu til að opna augu mín fyrir því að ég var sjálf minn versti óvinur.

Ég ólst upp til tólf ára aldurs hjá yndislegum hjónum sem ég hélt lengi að væru foreldrar mínir. En þegar móðir mín greindist með krabbamein sagði hún mér að hún hefði tekið mig í fóstur. Blóðmóðir mín hafði þá skilið við pabba minn. Hún stóð uppi ein með fjögur börn og ég var á leiðinni. Fósturforeldrar mínir bjuggu í sama húsi og hún. Þau höfðu árum saman þráð að eignast börn en ekki getað og það varð að samkomulagi þeirra á milli að þau tækju mig þegar ég fæddist. Fyrstu tvö árin var sambýlið hins vegar óbreytt þannig að ég var á brjósti fyrstu mánuðina og umgekkst systkini mín. Mömmu bauðst þá ráðskonustaða í sveit og fljótlega tókust ástir með henni og bóndanum. Hún hafði komið nokkrum sinnum í heimsókn og ég hitt hana en ég mundi ekkert sérstaklega eftir henni. Ég hafði ekki tekið eftir henni frekar en mörgum öðrum gestum á heimilinu.

- Auglýsing -

Þetta var gríðarlegt áfall og við bættist að fósturmömmu minni versnaði hratt. Það var rosalega erfitt að horfa upp á hana þjást. Við pabbi reyndum að styrkja hvort annað en vorum eiginlega bæði jafntýnd þegar hún dó. Ég býst við að það hafi orðið til þess að ég leitaði uppi blóðmóður mína og systkini. Okkar fyrstu fundir voru rosalega vandræðalegir. Ég fékk að koma í heimsókn í sveitina til þeirra og vera í nokkrar vikur. Mamma mín hafði sektarkennd gagnvart mér og vissi ekki hvernig hún ætti að koma fram við mig, eldri systkini mín höfðu lítinn áhuga á mér á þessu tímabili, enda var ég aðeins þrettán og þau unglingar upptekin af eigin lífi.

Alein í heiminum

Ég fór aftur í bæinn og fannst ég hafa misst enn meira fyrst þetta hafði ekki gengið. Pabbi minn var líka óskaplega brotinn og það var eins og hann hefði misst fótanna eftir að mamma dó. Ég býst við að hann hafi gert sitt besta til að halda heimili fyrir mig en við vorum eins og tvö reköld á leið hvort í sína áttina. Ég fór í menntaskóla vegna þess að mamma hafði ætlað mér að læra en ég fann lítinn áhuga á því sem ég var að gera og engan metnaði. Á síðasta ári mínu í menntaskóla hafði systir mín samband við mig. Hún var þá flutt í bæinn, átti kærasta og litla stelpu og það hafði kveikt áhuga hennar á að kynnast mér. Ég varð mjög fegin og smátt og smátt náðum við vel saman. Í gegnum hana kynntist ég bræðrum mínum og þótt þeir væru lokaðri fann ég að smátt og smátt mynduðust einhver bönd á milli  okkar.

„Blóðfaðir minn drakk sig í hel nokkrum árum eftir að mamma fór frá honum. Hann hafði þó haft tíma til að eignast son með konu sem hann kynntist stuttu eftir skilnaðinn.“

- Auglýsing -

Þetta hjálpaði mér að ná nokkrum áttum. Mér fannst ég ekki eins ein og yfirgefin sérstaklega vegna þess að samband okkar pabba varð stöðugt minna. Hann tók saman við aðra konu skömmu eftir að ég byrjaði í háskólanum og áfram gekk mér illa að finna einhverja lífslöngun eða ástríðu fyrir því sem var að gerast í kringum mig. Þegar ég kynntist Ásgeiri var ég leidd áfram af sama stefnuleysi og hálfvelgju. Samband okkar þróaðist hratt og fyrr en varði vorum við farin að búa saman. Ég var aldrei viss um mínar tilfinningar til hans en fannst dásamlegt að hann væri ástfanginn af mér. Í mínum huga sýndi það að ég væri einhvers virði. En var ekki sérstaklega góður grunnur undir ástarsamband, enda fór fljótlega að bera á erfiðleikum í samskiptum okkar.

Þegar upp úr því slitnaði fann ég fyrir ákveðinni depurð en ekki beinlínis sorg. Lengi taldi ég mér samt trú um það og bjó til umtalsvert drama í kringum þetta aðallega til að fá samúð vinkvennanna. Þegar ég lít til baka til þessara ára sé ég að ég var að leita mér að samastað í tilverunni. Langaði að tilheyra einhverjum hópi eða fjölskyldu en fannst ég standa utangarðs alls staðar. Var líka alltaf eins og dofin. Allar tilfinningar voru á yfirborðinu og ristu ekki djúpt.

Áframhaldandi doði

- Auglýsing -

Lífið hélt áfram að ganga sinn gang. Ég lauk námi, slagaði aðeins yfir meðallagið, fékk vinnu og stóð mig þokkalega. Kynntist öðrum mönnum en hafði aðeins takmarkaðann áhuga á þeim. Þegar ég var tuttugu og átta ára dó pabbi minn. Ég hafði aldrei kynnst stjúpu minni neitt að ráði og einsemdartilfinningin jókst enn. Að vísu átti ég ágætt samband við flest systkini mín en samt var ævinlega eins og eitthvað vantaði upp á. Þau áttu sameiginlegar minningar bæði um tímann sem blóðforeldrar okkur voru saman og árin á bóndabænum.  Mamma átti tvö börn með bóndanum og eldri systkinin höfðu passað þau og sinnt þeim frá því þau fæddust. Í mínum huga voru þau ókunnugt fólk.

Blóðfaðir minn drakk sig í hel nokkrum árum eftir að mamma fór frá honum. Hann hafði þó haft tíma til að eignast son með konu sem hann kynntist stuttu eftir skilnaðinn. Við höfðum hitt þann dreng nokkrum sinnum en ég get varla sagt að við þekktum hann. Fjölskyldan var því flókin, laustengd og tveir bræðra minna áttu þar að auki í sömu vandræðum og pabbi með vín. Elsta systir mín var gift alkóhólista, átti með honum tvö börn og var í eilífu basli. Ég hélt hins vegar áfram að fljóta með straumnum án þess að leiða nokkurn tímann hugann að þvi hvað mig langaði sjálfri að gera og hver ég væri.

„Þú þarft sjálf að ákveða hver þú ert og hvert þú vilt fara. Það getur engin fjölskylda sagt þér sama hversu samheldin hún er.“

Um þetta leyti kynntist ég Baldri og við tókum saman. Líkt og í sambandi mínu við Ásgeir var ég aldrei alveg viss um hvort ég væri ástfangin eða ekki. Ég kunni vel við Baldur, hann var góður maður og ég gat borið virðingu fyrir mörgu í hans fari. Eftir nærri tveggja ára sambúð var Baldur farinn að tala um brúðkaup og barneignir en ég vissi ekki hvað ég vildi. Í gegnum allt þetta ferli fylgdi mér trúnaðarvinkona mín allt frá æsku, Sigrún.

Þegar við vorum litlar vorum við alltaf saman. Hún bjó í næsta húsi við mig allan minn uppvöxt og átti stóra bráðskemmtilega fjölskyldu. Ég var alltaf velkomin heima hjá henni og fannst algjörlega dásamlegt að fá að vera með í öllu því sem þau gerðu saman. Þar var spilað á spil, leikið á hljóðfæri, rifist um bækur, farið í ferðalög og alltaf nóg af ástúð og umhyggju. Ég öfundaði hana af fjölskyldunni en hún mig af rónni sem ríkti heima hjá mér, eindrægninni í hjónabandi foreldra minna sem aldrei rifust og því að ég fékk mun meira af fötum og leikföngum en hún. En þegar áfallið reið yfir fékk hún að heyra um allar mínar efasemdir, hversu áhugalaus ég var í raun um það sem fram fór í kringum mig, einmanakenndina og hve oft allt og allir fóru í taugarnar á mér.

Dag nokkurn sat ég í eldhúsinu hjá henni og kvartaði undan því að ég væri ekki viss um hvort ég vildi vera með Baldri, hvort mig langaði í barn og hvort brúðkaup væri tímabært. Hún setti hendurnar á borðið og horfði í augun á mér og sagði: „Þú þarft sjálf að ákveða hver þú ert og hvert þú vilt fara. Það getur engin fjölskylda sagt þér sama hversu samheldin hún er. Nú leitar þú þér hjálpar og finnur út úr þessu.“ Ég fór að hennar ráðum og sé ekki eftir því. Ég leitaði til sálfræðings og komst að því að ég hafði aldrei unnið úr áfallinu þegar ég komst að því að foreldrar mínir voru ekki blóðskyld mér og móðir mín dó. Smátt og smátt er veröldin að fá lit aftur og ég vildi að ég hefði gert þetta fyrir löngu.

Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur í Vikunni. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Bera og Hjörtur eiga von á barni

Kærustuparið Bera Tryggvadóttir og Hjörtur Hermannsson, fótboltamaður, eiga von á sínu fyrsta barni.„Draumurinn okkar að rætast. Verðandi...

Halla og Víkingur eignast son

Hjónin Halla Oddný Magnúsdóttir, viðburða-og skipulagsstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari, eignuðust son í síðustu...

Þórhildur og Sævar skírðu soninn

Þórhildur Fjóla Stefánsdóttir, hugbúnaðarsérfræðingur, og Sæ­var Helgi Braga­son, stjörnu­fræðingur og vísinda­miðlari, gáfu syni sínum nafn um helgina.Son­ur­inn...

Gríma og Skúli eiga von á öðru barni

Gríma Björg Thor­ar­en­sen, inn­an­húss­hönnuður, og Skúli Mo­gensen, fyrr­ver­andi for­stjóri WOW Air, eiga von á barni í september.„Litli...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -