„Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta ótrúlega sárt“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Ég hef oft heyrt það frá fólki sem hefur kynnst mér í seinni tíð að það hafi haldið að ég væri alveg rosalega merkileg með mig og hefði jafnvel ekki dottið í hug að tala við mig því það var búið að gefa sér fyrirfram einhverja mynd af mér,“ segir Heiðrún Sigurðardóttir sem á að baki glæstan feril í fitnessheiminum en hún vann fjölmarga titla í greininni, bæði hér heima og erlendis. Í dag starfar hún á auglýsingadeildinni hjá N4 á Akureyri, ræktar grænmeti og dreymir um að verða áhugagrænmetisbóndi.

Heiðrún svarar játandi þegar blaðamaður spyr hvort ekki hafi verið erfitt að vita að allir væru með skoðun á henni. „Það var samt auðvitað meira hér áður þegar maður var að keppa og var frekar áberandi. Auðvitað hefur það minnkað en samt heyri ég enn að fólk haldi að ég sé frekar upptekin af sjálfri mér og góð með mig. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta ótrúlega sárt, það á ekki að dæma fólk út frá útlitinu og það er það síðasta sem mér myndi sjálfri detta í hug.“

„Það á ekki að dæma fólk út frá útlitinu og það er það síðasta sem mér myndi sjálfri detta í hug.“

Mynd/Auðunn Níelsson

Hún segist líka viðurkenna að þegar hún hafi verið að æfa hafi sér ekki liðið sérstaklega vel þegar hún fann að fólk var að fylgjast með henni. „Mér líður vel þegar ég æfi, en fannst svolítið óþægilegt þegar ég tók eftir því að fólk var að pæla í mér þegar styttist í mót. Á þessum tíma voru ekki eins margir að keppa og í dag og fólk tók meira eftir þeim sem kepptu. Þá byrjaði ég að æfa í langermabolum. Þegar ég horfi til baka sé ég hvað óöryggið var mikið. Í stað þess að vera stolt af forminu sem ég var í kaus ég að fela það. Ég æfði til dæmis alltaf, og geri reyndar enn í dag, í langermabolum. Ég fór líka helst ekki út að skemmta mér í stuttermaflíkum. Þegar maður var sem mest að keppa var fólk, auðvitað helst drukkið, að grípa í handleggina á mér, þukla á þeim, biðja mann um að koma í sjómann og spyrja hvað maður tæki í bekk sem er auðvitað pikköpplína sem steinliggur,“ segir Heiðrún og hlær.

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

Myndir // Auðunn Níelsson
Förðun // Harpa Lind Þrastardóttir

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira