2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Eiga hjól fyrir hvert tilefni

  Hjónin Edda S. Holmberg og Jón Birgir Gunnarsson eru haldin hjólabakteríunni. Þau hjóla hins vegar ekki í öllum veðrum eins og Ísland býður svo gjarnan upp á heldur njóta þess frekar að hjóla í sól og blíðu, helst erlendis.

  Þau Edda og Jón segja að það sem þeim þyki skemmtilegt við hjólreiðarnar sé útiveran, frelsið og hreyfingin. „Þegar við höfum verið að hjóla erlendis heimsækir maður sveitir, þorp og staði sem maður myndi aldrei sjá keyrandi eftir hraðbrautum,“ segir Jón. „Svo hittir maður margt fólk og eignast vini með sama áhugamál.“

  .

  Aðspurð hvort þau hjóli hvernig sem viðrar svara þau neitandi. „Við eigum ekki vatnsheld hjól,“ segir Edda og hlær, „nei, við nennum bara ekki að hjóla í leiðinlegu veðri og hjólum lítið úti yfir vetrartímann.“

  AUGLÝSING


  „Við erum nýbúin að bæta trainerum í græjusafnið svo við getum hjólað inni heima og förum þá í sýndarferðir út í heim á þessum tímum sóttkvíar,“ skýtur Jón að.

  Króatía einstaklega falleg

  Fyrstu hjólaferðina til útlanda fóru þau hjónin í árið 2015 og hjóluðu þá frá Feneyjum á Ítalíu til Poréc í Króatíu. „Þetta var ofboðslega falleg leið og skemmtileg,“ segir Edda. „Alls staðar á leiðinni hittum við yndislegt fólk og þorpin og staðirnir voru hvert öðru fallegra. Við vorum sérstaklega hrifin af Króatíu sem okkur finnst einstaklega fallegt land og fórum því aftur þangað árið 2017 og hjóluðum þar í viku.“

  „Það er eins og með öll áhugamál að þeim fylgja alls konar græjur.“

  Árið 2018 fóru Edda og Jón Birgir í hjólaferð til Bandaríkjanna sem þau skipulögðu sjálf að öllu leyti. Þau segjast hafa verið búin að plana leiðina sem þau ætluðu að hjóla og hvar væri best að stoppa. Í fyrrasumar fóru þau til San Francisco í viku með hjólin og hjóluðu í borginni og nágrenni.

  „Ef það er ekki á Strava þá gerðist það ekki“

  Blaðamaður spyr hvort ekki sé nauðsynlegt að græja sig upp áður en maður byrjar að hjóla út um allar trissur en Edda og Jón segja að í raun þurfi ekkert nema góða skapið og eitt hjól. „Þannig byrjuðum við, en í dag myndi ég ekki vilja vera án hjólatölvu, því ef það er ekki á Strava þá gerðist það ekki,“ segir Jón brosandi. „Við eigum hjól fyrir hvert tilefni. Mest notum við götuhjólin en svo eigum við ferðahjól sem eru sterkari til að bera farangur og með léttari gíra. Síðast en ekki síst eigum við svo fjallahjól til að fara út að leika.“

  „Það vantar alltaf fleiri og flottari týpur fyrir græjukarla eins og Jón,“ segir Edda kímin. „En jújú, allar þessar græjur eru nauðsynlegar. Hjólaföt og -skór og hjálmur og svo ef maður er að ferðast þá eru sérstakar hjólatöskur fyrir farangurinn ómissandi. Og mismunandi hjól eftir því hvar og hvert maður er að fara. En það er eins og með öll áhugamál að þeim fylgja alls konar græjur, sem er bara skemmtilegt. Við byrjuðum bara nett með eitt hjól og svo hefur bæst við eftir því sem áhugmálið verður meira og skemmtilegra.“

  .

  Hvað mynduð þið ráðleggja byrjendum sem langar að hjóla meira en bara í götunni heima?

  „Að byrja á að hjóla hérna heima,“ segir Edda. „Hér á höfuðborgarsvæðinu og í kringum það eru frábærir hjólastígar út um allt og lítið mál að renna inn í Mosfellsbæ eða Hafnarfjörð eða taka Reykjavíkurhring á hjólastígum. Ef löngun er til að hjóla erlendis myndi ég benda fólki á að fara í skipulagða ferð; það er hægt að finna hjólaferðir um alla Evrópu, bæði auðveldar og erfiðar, allt eftir getu og áhuga.“

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is