2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Einfætti spæjarinn og aðstoðarkona hans

  Hvað gerir vinsæll barnabókahöfundur sem langar að skrifa glæpasögur? Jú, hann finnur upp dulnefni og býr til skemmtilegt tvíeyki fatlaðs fyrrum lögreglumanns og greindrar konu er vilja sjá réttlætið ná fram að ganga. Robert Galbraith er höfundarnafn J.K. Rowling og spæjararnir eru Cormoran Strike og Robin Ellacott. Á síðasta ári kom út fjórða bókin um þau tvö, Lethal White.

   

  J.K. Rowling ætlaði að leyna því hver stæði að baki Roberts Galbraith til að sakamálasögurnar fengju sanngjarna dóma sem ekki lituðust af viðhorfum fólks til höfundar Harry Potter-bókanna. En einhver hjá útgáfufyrirtækinu kjaftaði. Þess vegna er upphafssetning fyrsta kafla Lethal White einstaklega áhugaverð eða: „Slík er hin almenna þrá eftir frægð að þeir sem öðlast hana fyrir slysni eða nauðugir munu bíða árangurslaust eftir samúð.“

  J.K. Rowling ætlaði að leyna því hver stæði að baki Roberts Galbraith.

  Cormoran er fyrrum lögreglumaður í konunglegu bresku herlögreglunni og einfættur eftir að hafa lent í sprengjuárás í Afganistan. Upphaf kynna þeirra Robin eru þau að hún er send af ráðningarskrifstofu til að taka að sér að vera ritari hans tímabundið. Hún reynist hins vegar bæði skipulögð og einstaklega útsjónarsöm og að lokum slá þessi tvö saman í félag um rekstur einkaspæjarastofunnar. Þau eiga bæði að baki erfiða reynslu.

  AUGLÝSING


  Cormoran er sonur frægs rokkara og þekktrar grúppíu en hefur nánast ekkert samband haft við föður sinn. Þeir hafa aðeins hist tvisvar og faðirinn viðurkenndi hann ekki fyrr en niðurstöður DNA-prófs lágu fyrir. Robin var í háskólanámi í sálfræði þegar ráðist var á hana og henni nauðgað.

  Eftir það áfall hætti hún í skólanum og hefur ekki fundið fjölina sína fyrr en hún kemur til starfa hjá Cormoran. Bækurnar eru orðnar fjórar og þær eru allar langar. Sú fyrsta heitir The Cuckoo’s Calling, önnur The Silkworm, sú þriðja Career of Evil og svo að lokum Lethal White.

  Hjónabandið endar við altarið

  Sagan byrjar á formála um brúðkaup Robin og lesandinn gerir sér fljótt ljóst að hjónaband hennar er dæmt til mistakast í raun áður en það byrjar. En meðan hún reynir að finna leið til að skapa einhvern grundvöll til að bæta samband sitt og Matt kemur mjög veikur ungur maður inn á skrifstofu Cormorans. Hann segist hafa orðið vitni að því að barn hafi verið kyrkt og síðan grafið rétt við æskuheimili sitt. Cormoran veit að þótt fólk sé veikt er það ekki endilega lygarar og margt úr minningabankanum getur valdið sársauka síðar.

  Hann fer af stað til að kanna málið og þá setur þekktur stjórnmálamaður sig í samband við hann og biður hann að grafa upp hneykslismál um pólitískan andstæðing til að tryggja að sá geti ekki kúgað út úr honum fé.

  Á síðasta ári kom út fjórða bókin um þau tvö, Lethal White.

  Bækurnar um Cormoran Strike og Robin Ellacott eru ekki síður vel skrifaðar en Harry Potter-sögurnar. Þær eru spennandi og fléttan bæði flókin og forvitnileg. Persónusköpunin er frábær. Hver hefur ekki áhuga á einkalífi fremur þéttvaxins fyrrum boxara sem gekk í herinn í leit að öryggi en missti útlim vegna þeirrar þrár og ungrar konu að brjótast úr viðjum væntinga annarra til skapa sér eigin stefnu og líf á sínum forsendum. Þótt Lethal White sé 649 síður heldur hún lesandanum við efnið allt til enda.

  Margt fléttast inn í söguna, meðal annars pólitískur hráskinnaleikur, spilling, tilfinningaleysi og skortur á meðlíðan í öllum stéttum og ófyrirleitni fólks sem hikar ekki við að gera hvað sem er til að ná fram vilja sínum. Titillinn vísar til banvæns afbrigðileika í hrossum en folöldin fæðast alhvít en svo illa sködduð að þau lifa ekki lengi. J.K. Rowling hefur sagt í viðtölum að hún láti lesendum eftir að túlka hvernig titillinn endurspeglar samhengi sögunnar.

  BBC hefur gert sjónvarpsþætti eftir bókunum og fara Tom Burke og Holliday Grainger með hlutverk tvíeykisins og gera þeim góð skil.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is