Einmanaleiki er faraldur

Deila

- Auglýsing -

 Ný tækni gefur fólki færi á að tengjast á margvíslegri vegu en nokkru sinni fyrr hefur verið mögulegt. Höf og lönd eru engin fyrirstaða, tölvur gera þér kleift að horfa á og tala við ástvini hvar sem þeir eru staddir í heiminum. Þrátt fyrir þetta fer einmanaleiki vaxandi á Vesturlöndum og margt bendir til að hann sé undirrót ýmissa heilsufarsvandamála bæði andlegra og líkamlegra.

Áður en kórónuvírusinn setti allt úr skorðum voru ferðalög auðveld og helgarferð til einhverrar stórborgar í Evrópu ekki meira mál en að fara frá Reykjavík til Egilsstaða. Þess vegna var líka auðvelt að kíkja í heimsókn ef einhver nákominn var þar búsettur. Nú er vissulega margt breytt en ekkert bendir til að ferðalög leggist af eða að þau verði erfiðari en áður. Hvers vegna finna þá svo margir fyrir einmanaleika?

Það er erfitt að útskýra en margir tala um rofin tengsl milli fólks, að sumir eigi erfitt með að finna sér hlutverk, finnist þeir jafnvel engan tilgang hafa, engum til gagns og að enginn hafi áhuga á að umgangast þá. Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir hjúkrunarfræðingur hefur rannsakað einmanaleika á Íslandi en áður hafa verið gerðar nokkrar íslenskar rannsóknir á einmanaleika og tengslaleysi aldraðra. Hún kom fram í Landanum um daginn og sagði þar að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafi skilgreint einmanaleika sem faraldur og að sérstakur ráðherra einmanaleika hafi verið skipaður í Bretlandi. Þar í landi er talið að þriðjungur þjóðarinnar sé einmana og í Bandaríkjunum er talan 22 prósent. Á Íslandi segja tölurnar að einn af hverjum fimm finni fyrir þessari sáru tilfinningu.

Þótt einmanaleiki aldraðra hafi helst verið rannsakaður er þessi erfiða tilfinning ekki einskorðuð við eldri borgara. Flest eldra fólk talar um að tilfinningin hafi mikið með það að gera að finnast þeir gleymdir, hafi ekki stöðu innan fjölskyldunnar og samfélagsins lengur. Því einangraðri sem manneskjunni finnst hún vera því líklegri er hún til að þróa með sér heilsufarsvandamál af þeim sökum. Líkamlegar afleiðingar eru m.a. hækkaður blóðþrýstingur, veikara ónæmiskerfi og aukin tíðni bólgusjúkdóma. Andlegir fylgikvillar eru hins vegar þunglyndi, depurð, kvíði og neikvæðar hugsanir. Margt bendir til að svo innbyggð sé þörfin fyrir að tilheyra í manninum að einmanaleiki sé einfaldlega lífshættulegur.

Einmanaleiki fylgir ekki endilega bara þeim sem umgangast fáa. Margt fólk er stóran hluta úr deginum innan um aðra en finnst það standa utangarðs, vera einangrað og einmanaleikinn er stundum sárari þegar það er umkringt fólki en þegar það er eitt. Þetta er erfið tilfinning að glíma við og ekkert eitt ráð sem dugar. Þó hafa læknar og sálfræðingar lagt til nokkrar aðferðir til að yfirvinna vanlíðan af þessu tagi og finna leið til að tengjast öðrum betur.

Baldvin 18 ára heimilislaus strákur

1. Kallaðu tilfinninguna réttu nafni og viðurkenndu að hún sé til staðar

Að segja öðrum að þú sért einmana getur verið ógnvekjandi tilhugsun. Það fylgir einhver skammartilfinning því að vera einmana og mörgum finnst það til marks um að eitthvað sé að þeim og þeir vilja ógjarnan láta aðra vita af því. En að láta tilfinningar sínar í ljós er alltaf fyrsta skrefið til að styrkja böndin milli fólks. Að tala um vandann er góð leið til að losa um hnútinn fyrir brjóstinu og yfirvinna tilfinninguna. Þegar einmanaleiki er orðinn jafnalgengur og raun ber vitni er fullkomlega óhætt að fullyrða að það séu ekki bara sérvitringar og félagslega vanhæfir einstaklingar sem finna fyrir honum.

 

2. Veltu fyrir þér þeim tengslum sem þú hefur við fólk

Stundum nær einmanaleikinn tökum á fólki og það gleymir því sem er beint fyrir framan nefið á því. Væntingar geta verið óraunsæjar, bæði gagnvart vinum og nánustu fjölskyldu. Umhyggjusemi er hægt að sýna á margan hátt og þótt menn tali ekki saman eða hittist á hverjum degi er ekki þar með sagt að ástúð sé ekki til staðar. Að rifja upp atvik þegar fólkið þitt sýndi síðast að því væri ekki sama um þig getur breytt þeirri sýn að þú skiptir ekki máli. Fékkstu til dæmis hjálp við að flytja? Kom einhver með mat meðan þú varst veik/ur síðast? Er einhver alltaf tilbúinn að spjalla við þig eða koma ef þú kallar?

3. Ræktaðu með þér forvitni

Sumir virðast alltaf hafa nóg að gera. Þeir hafa raunverulegan áhuga á svo mörgu og finna til mikillar ánægju þegar þeir ástunda það. Að reyna eitthvað nýtt, takast á við áskoranir og leyfa þér að njóta þess að gera eitthvað skemmtilegt vinnur gegn kvíða og þunglyndi. Allir finna einhvern tíma fyrir einmanaleika Í leit sinni að nýrri þekkingu eða við að miðla því sem menn hafa uppgötvað finna margir leið til að mynda ný tengsl, eignast vini og finnast þeir skipta máli.

4. Gefðu þér tíma og hægðu á þegar þú þarft á að halda

Nútímalífi fylgir álag og streita. Mjög margir eru ákaflega uppteknir. Þeir vinna mikið, hafa margvíslegar skyldur sem kalla og eiga erfitt með að taka frí. Þegar verkefnin eru svo mörg getur það verið yfirþyrmandi og fólki finnist það standa eitt og hvergi sé nokkra aðstoð að fá. Þá er hætta á að menn einangri sig og í stað þess að leita til annarra dragi það sig í hlé og berjist eitt við erfiðar tilfinningar. Með því að gæta þess að taka frá tíma til slökunar á hverjum degi er hægt að koma í veg fyrir að vinnan hreinlega kaffæri fólk.

5. Sýndu sjálfri þér ástúð og umhyggju

Í amstri dagsins er auðvelt að missa sjónar á sjálfum sér. Margir vakna upp og finnst þeir ekki vita lengur hverjir þeir eru, hvað veiti þeim ánægju og hvað þeir vilji raunverulega fá út úr lífinu. Með því að draga úr streitu og gefa sér tíma til slökunar er hægt að komast aftur í tengsl við drauma sína og langanir. Finna aftur það sem gefur þér orku og gleði. Það er mjög algengt að menn tali sjálfa sig niður og sýni mistökum sínum mikla dómhörku. Hluti af því að sýna sjálfum sér umhyggju er að byggja sig upp fremur en að tala niður og sýna því skilning að allir gera mistök.

6. Sælla er að gefa en þiggja

Í Biblíunni segir að sælla sé að gefa en þiggja og það er staðreynd að margir finna tilgang og gleði í að gera eitthvað fyrir aðra. Margar leiðir eru opnar til þess. Sjálfboðaliðastarf góðgerðafélaga er góð leið til að gefa af sér en einnig að setja sér að gleðja einhvern í nærumhverfinu t.d. vikulega. Er nágranni þinn í vandræðum? Réttu honum þá hjálparhönd. Er barn í fjölskyldunni að glíma við erfiðleika? Athugaðu hvort þú getir ekki komið að gagni. Nú og svo getur verið frábært að færa makanum gjöf eða elda uppáhaldsmat heimilisfólksins. Hugsanlega verður það til þess að það sýni þér hversu mikils þau meta þig. Æfðu þig í að taka eftir hlýju og góðmennsku annarra. Brosi afgreiðslustúlkunnar í búðinni, þakklæti gömlu konunnar á efri hæðinni ef þú heldur á pokunum hennar upp stigann, liðleika iðnaðarmannsins sem fórnaði helgarfríinu sínu til að bjarga biluninni í þvottavélinni þinni.

7. Taktu þátt í samfélaginu

Samfélagið samanstendur af mörgum litlum einingum. Innan þíns vinnustaðar, hverfis eða borgarhluta eru ótal einingar sem vinna að margvíslegum endurbótum og verkefnum sem snúa að því að bæta samfélagið í heild. Með því að taka þátt í slíku getur fólk eflt þá tilfinningu að það hafi tilgang, sé til gagns og tilheyri ekki bara þessu þjóðfélagi heldur nærumhverfi sínu líka. Foreldrafélög skólanna, kirkjan í hverfinu, félagsmiðstöð aldraðra og margt fleira gefur færi á að sinna slíkum störfum. Kosturinn við það er einnig sá að þar með hefur fólk ástæðu fyrir að fara út og vera innan um aðra. Það getur rofið einangrun og hjálpað til við að skapa og efla félagslegan styrk fólks.

8. Gakktu í klúbb eða stofnaðu þinn eigin

Þegar fólk hefur áhuga á einhverju er algengt að það sameinist um að ástunda hugðarefni sín í hópum. Það getur verið bæði gefandi og skemmtilegt að taka þátt í slíku. Margir eru í kór, tilheyra golfklúbbi, hlaupahópi, lestrarfélagi eða saumaklúbbi. Hvað sem þitt áhugamál er ættir þú að geta fundið leið til að rækta það með öðrum. Nú ef ekki þá er bara að stofna sinn eigin. Það er alltaf þörf fyrir nýja klúbba og jafnvel þótt þitt áhugamál sé mjög sérstætt er nokkuð víst að einhvers staðar leynist einhver sem deilir því.

9. Líkamleg snerting

Þegar fólk snertist eykst framleiðsla vellíðunarboðefna og þau flæða um líkamann og veita slökun og gleðitilfinningu. Allt frá barnæsku erum við vanin við að snertingin eigi að hugga, sýna umhyggju og tengja okkur við hópinn. Skortur á snertingu getur ýtt undir einmanakennd. Í nútímasamfélagi hefur það færst í vöxt að manneskjur búi einar. Í sumum tilfellum upplifir það fólk sjaldan snertingu annarra. Ein leið til að upplifa þann heilsufarslega ávinning sem snerting veitir er að fara reglulega í nudd. Það mælir heldur ekkert gegn því að nudda sig sjálfur. Margar konur njóta þess að bera á sig „body lotion“ og það gefur góða raun.

10. Njóttu þess að skapa

Sköpun veitir ánægju. Allar manneskjur hafa þörf fyrir að skapa og að njóta þess að horfa á vel unnið verk sitt. Að finnast maður hafa búið til eitthvað gott eða fallegt er ein besta tilfinning sem til er. Teiknaðu, málaðu, prjónaðu, saumaðu, bakaðu eldaðu, smíðaðu, það skiptir ekki máli hvaða leið þú velur til að skapa, ávinningurinn er sá sami. Það getur líka verið ómetanlegt að fara á námskeið og deila sköpunarferlinu með fleirum.

11. Taktu að þér dýr

Nýlegar rannsóknir sýna að tengsl milli manna og dýra geta verið bæði djúpstæð og gefandi. Gæludýraeigendur eru ólíklegri til að finna til sárrar einmanakenndar og þeir upplifa ótalmargt í gegnum dýrin sín sem vinnur gegn erfiðum tilfinningum. Að strjúka mjúkan feld dýra örvar framleiðslu vellíðunarboðefna og gefur sömu tilfinningu og þegar menn upplifa snertingu. Allir gæludýraeigendur segjast í könnunum tala við dýrin sín og telja þau tjá sig til baka. Þeir segjast finna væntumþykju frá dýrunum og að þau kunni að meta þá umhyggju sem þeim er veitt. Það að sinna dýrinu og þörfum þess skapar auk þess oft tengsl við aðra, t.d. þegar farið er út með hundinn og þú mætir öðrum hundaeigendum, í útreiðatúra með öðrum hestamönnum eða þegar kötturinn þinn heillar börn nágrannans.

12. Skoðaðu hvernig þú notar samfélagsmiðla

Sumar rannsóknir benda til að notkun samfélagsmiðla geti ýtt undir einmanakennd fólks og skapað minnimáttarkennd. Þess vegna er skynsamlegt að skoða reglulega hvernig maður notar slíka miðla og hvort þeir hafi valdið einhvers konar tilfinningalegu uppnámi hjá manni nýlega. Ertu of upptekin af því sem aðrir eru að gera? Berðu þig of oft saman við aðra út frá færslum þeirra á samfélagsmiðlum? Er tölvan og síminn að hindra þig í að eiga í beinum samskiptum við fólk? Ef þú svarar einhverri þessara spurninga játandi getur verið kominn tími til að taka sér frí frá samfélagsmiðlum um tíma.

13. Skoðaðu svefninn

Einmanakennd helst oft í hendur með öðrum andlegum vandamálum eins og kvíða, depurð og þunglyndi. Þegar svo er ættu menn ávallt að leita fyrst af öllu til fagfólks og fá ráð. En samhliða meðferð er gott að skoða lífsmynstur sitt. Til dæmis er gott að gæta þess að fá nægan svefn. Með því að fara alltaf á sama tíma í rúmið á kvöldin og vakna á sama tíma. Þótt illa gangi að sofna skiptir máli að halda í rútínuna sína. Allir hafa líka gott af því að hreyfa sig og gæta þess að borða hollt.

14. Láttu reyna á þolmörk þín

Að stíga út fyrir þægindaramman og láta reyna á þolmörk sín er öllum hollt. Það eykur sjálfstraustið að finna að maður ráði við aðstæður og geti unnið úr því sem mistekst. Sumir kunna því vel að reyna á sig líkamlega meðan aðrir kjósa að stunda hugarleikfimi. Að reyna sig við nýja hluti eða eitthvað sem maður hefur ekki neina sérstaka löngun til að gera getur breytt hugarfarinu varanlega.

15. Að leita sér hjálpar

Að leita sér hjálpar getur verið erfitt skref en fagfólk hefur yfirsýn og þekkir ótal leiðir til að hjálpa mönnum að breyta aðstæðum sínum og líðan. Félagsleg einangrun er hættulegasti fylgifiskur einmanaleika og því lengur sem hún varir því erfiðara verður að rjúfa hana. Menn hafa tilhneigingu til að leita skýringa á aðstæðum sínum og kenna sjálfum sér um ef illa fer. Þess vegna er algengt að fólk kenni sér um vanlíðan sína og telji sig jafnvel eiga skilið að vera eitt. Þann vítahring þarf að rjúfa og hugræn atferlisfræði getur hjálpað til. Meðferð hjá fagaðila er ákaflega gagnleg til að breyta hugsanaferlum sem halda aftur af fólki.

Myndir: Heiða Helgadóttir

- Advertisement -

Athugasemdir