Einn sá umdeildasti

Deila

- Auglýsing -

Ian McEwan er án efa meðal bestu núlifandi rithöfunda Breta en jafnframt er hann einn sá umdeildasti. Fyrstu bækur hans voru dimmar og óhugnanlegar og hann var ófeiminn að fjalla um margvísleg kynferðisleg afbrigði, m.a. barnagirnd, sifjaspell og ofbeldi. Þessi umfjöllunarefni fóru ekki vel í alla en gagnrýnendur voru yfir sig hrifnir af frásagnargáfu hans og fallegum stíl. Fyrir ekki löngu heimsótti hann Ísland og tók við bókmenntaverðlaunum Halldórs Laxness. Í tilefni að því kom út bók hans Vélar eins og ég.

 

Fyrsta bók hans The Cement Garden kom út árið 1978. Þar er sögð saga fjögurra systkina sem missa foreldra sína með stuttu millibili. Til þess að komast hjá því að vera send í fóstur fela þau lík móður sinnar í kjallaranum og reyna síðan að bjarga sér eftir bestu getu upp á eigin spýtur. Jack, sá elsti, segir söguna og lýsir hvernig hann og eldri systir hans, Julie, fóru í „læknisleiki“ með yngri systur sína, Sue þegar þau voru börn. Hann dreymir um að gera það sama við Julie og gert var við Sue en hún bannar honum það. Ákveðin kynferðisleg spenna byggist upp milli systkinanna og nær hámarki í lok sögunnar. Það er óþarfi að spilla endinum fyrir væntanlegum lesendum.

„Það kemur mönnum ævinlega í opna skjöldu að horfast í augu við ógnir ofbeldisins og því hversu óverðskuldaðar þjáningarnar sem það veldur eru.“

Þremur árum síðar kom svo The Comfort of Strangers, saga af breskum hjónum á ferð í ókunnri borg sem minnir um margt á Feneyjar. Þau kynnast dularfullum manni, Robert að nafni og hann býður þeim heim. Þar er kona hans, Caroline, fötluð og augljóst að sadismi og masókismi einkenna samband hjónanna. Robert endar á að drepa gesti sína en kynni fórnarlambanna af heillandi morðingja sínum eru rakin. Í mörgum fleiri bókum hans skoðar hann viðbrögð fólks við ofbeldi. Það kemur mönnum ævinlega í opna skjöldu að horfast í augu við ógnir ofbeldisins og því hversu óverðskuldaðar þjáningarnar sem það veldur eru.

Ógnir ofbeldisins

The Child in Time fjallar til að mynda um barnabókahöfund sem fer með dóttur sína í stórmarkaðinn á laugardagsmorgni og meðan hann er annars hugar er barninu rænt. Þessi skelfilegi atburður markar upp frá því allt hans líf, hjónaband hans, viðhorf, vinnu og jafnvel tímann sjálfan. Hann vann Whitebread Novel-verðlaunin fyrir þá mögnuðu bók.

Næst kom út The Innocent en það er ástarsaga sem gerist í Berlín í stríðslok og hann er á svipuðum slóðum í Black Dogs því þar skoðar hann sögu Evrópu allt frá voðverkum nasista í fangabúðum til falls Berlínarmúrsins. Fyrir Amsterdam fékk hann sín fyrstu Booker-verðlaun. Hún fjallar um tvo menn, Vernon og Clive, sem hittast í jarðarför fyrrum ástkonu þeirra og gera með sér samkomulag um að veikist annar hvor þeirra af ólæknandi sjúkdómi muni hinn hjálpa honum að deyja áður en sjúkdómurinn nái að svipta hann sjálfsvirðingunni. Vernon þarf síðar að taka ákvörðun um hvort hann birtir ósiðlegar myndir af þriðja elskhuga konunnar sem dó og fundust meðal þess sem hún lét eftir sig. Clive er upptekinn við að semja tónverk og vinslit verða á milli þeirra vegna deilna sem spretta út af myndunum. Endirinn er síðan fyllilega í anda McEwans.

Í Friðþægingu kynnumst við þrenns konar ofbeldi, þá misskiptingu sem stéttaskipting veldur, sviðanum af því að verða fyrir óréttmætri ásökun án þess að geta rönd við reist og hörmungum stríðs. Sagan fékk einnig Booker-verðlaun og er sú bóka hans sem hefur notið mestra vinsælda. Brúðkaupsnóttin heitir On Chesil Beach á frummálinu og fjallar um brúðkaupsnótt pars sem farið hefur eftir því sem samfélagið boðaði og geymt mey- og sveindóminn fram að giftingu.

Nýjasta saga hans er svo Vélar eins og ég. Þar er skoðað hvernig breskt samfélag hefði orðið í kringum 1980 ef Bretar hefðu tapað Falklandseyjastríðinu og Alan Turing, sá snillingur væri enn á lífi. Charlie er ástfangin af Miröndu, gáfaðri og sterkri konu. Hann kaupir vélmennið Adam, eitt af fyrstu nánast fullkomnu útgáfum sinnar tegundar. Saman móta þau Miranda og Charlie persónuleika vélmennisins og milli þeirra skapast flókinn ástarþríhyrningur. Hér er kafað ofan í tilhneigingu fólks til að vilja móta viðföng ástar sinnar og stjórna ástvinum sínum. Þema sem er mjög vel þekkt úr bókmenntum t.d. Pygmalion Georges Bernards Shaw. Vélar eins og ég er snilldarlega skrifuð og knýr lesandann til að líta í spegilinn og skoða eigin framkomu.

 

 

- Advertisement -

Athugasemdir