Einstök upplifun í Japan

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Guðrún Erla Geirsdóttir er listakona og með MA-gráðu í menningarmiðlun. Hún hélt ásamt manni sínum af stað í ævintýraferð til Japans í mars. Engan óraði fyrir að veira myndi taka upp á hrella heimsbyggðina þegar ferðin var pöntuð og margir vina þeirra lögðu að þeim að hætta við. Þau ákváðu að halda sínu striki og öllum að óvörum var ferðin jafnvel enn áhrifaríkri og betri fyrir vikið.

Guðrún Erla er vel þekkt undir listamannsnafninu G. Erla. Á Facebook hefur hún mjög oft dreift myndum af spennandi listaverkum af söfnum hér og þar um heiminn. Það lá því beinast við að grennslast fyrir um hvort hún hefði heimsótt alla þessa staði og hvernig stóð á ferðum hennar um Japan? „Ferð til Japans hafði verið á óskalistanum í áratugi hjá mér og manninnum mínum og nær ár síðan við fórum að leggja drög að henni, til dæmis með því að spyrjast fyrir um land og þjóð hjá vinum og kunningjum sem höfðu búið þar eða nýlega ferðast um landið. Það verður að segjast að fimm vikna ferðalag á tímum kórónuveirunnar var allt annað en það sem við höfðum undirbúið. Við lögðum af stað í byrjun mars, eða nokkru eftir að veiran greindist í Japan. Margir hvöttu okkur til að hætta við ferðina. Sem betur fer fórum við ekki að þeirra ráðum, enda gerði veiran það að verkum að við vorum oft nær ein á stöðum sem alla jafna eru þéttskipaðir innlendum og erlendum ferðamönnum.

Yfirvöld í Japan höfðu beðið fólk að vera sem minnst á ferðinni og vinna heima. Þau höfðu lokað skólum og nær öllum opinberum byggingum, t.d. söfnum, en flestar verslanir og veitingahús voru opin. Handabönd og faðmlög eru ekki venja hjá Japönum og þeir eru sérlega kurteisir og tillitssamir sem lýsir sér m.a. í að ef þeir eru með kvef eða aðra slíka kvilla ganga þeir með andlitsgrímur til að smita ekki aðra. Þar sem veiran hefur langan meðgöngutíma getur fólk verið með hana án þess að vita af því og smitað aðra. Það gerði að verkum að nánast allir voru með grímur, t.d. vorum við eitt sinn í lestarvagni með sautján manns og þar af voru sextán með grímur,“ segir Guðrún Erla.

Kirsuberjablómin tákn um hringrás lífsins

Japönsk menning er um margt sérstæð, einkum vegna þess að landið samanstendur af 6.852 eyjum og er ákaflega þéttbýlt. Nafnið er sagt þýða land hinnar rísandi sólar og þarna hefur búið fólk frá árdaga mannkyns. Hvað er eftirminnilegast frá ferðinni til Japans? „Við völdum að fara til Japan að vori þannig við gætum notið kirsuberjatrjánna í blóma. Í Japan eru blómin táknmynd fyrir hringrás lífsins og hve lífið er hverfult og tengist því búddisma, en meirihluti Japana er búddatrúar. Kirsuberjablóm eru eins konar þjóðartákn og mikið notuð í listum og listhandverki. Blómgun trjánna merkir upphaf japanska sumarsins. Ýmsar hefðir og venjur fylgja þessu svo sem að fjölskyldur hittast í pikknikk við kirsuberjatré sem þær hafa eignað sér. Japanir búa þröngt og ekki mikið um einkagarða og því eru þessi tré oftast í almenningsgörðum eða annars staðar í almannarýminu.

„Í strandborginni Kamakura komum við að hofi sem helgað er börnum sem fæddust látin eða dóu í móðurkviði. Í hofgarðinum voru hundruð lítilla styttna sem tákna sálir barna sem ekki litu dagsins ljós. Vitneskjan um það fékk mig til að tárast.“

Fjölskylduboð í almannarýminu sáum við einnig fyrir um einum og hálfum áratug þegar við vorum í Hong Kong um jól. Í miðborg Hong Kong er mikið um gangstéttir ofar göturýminu og er við gengum þar um á jóladag urðum við vitni að fjöldamörgum jólaboðum. Fjölskyldur afmörkuðu sér rými með því að koma fyrir teppum, stórum dúkum eða jafnvel pappakassahornum. Þangað komu svo ættingjar og vinir – þáðu veitingar, fólk skiptist á gjöfum, spjallaði og tók í spil. Þetta kom okkur skemmtilega spánskt fyrir sjónir, en var skiljanlegt þegar haft var í huga að í Hong Kong býr fólk yfirleitt mjög þröngt og því ekki í möguleiki á fjölmennum boðum heima við.

Vegna veirunnar höfðu japönsk yfirvöld beðið fólk að safnast ekki saman og  fjölskylduhittingar undir blómstrandi kirsuberjatrjám var eitt af því sem ekki var í boði. Annan sið sem tengist blómgun trjánna höfðu yfirvöld ekki gert sér grein fyrir að þyrfti að setja á válista. Það er að fara í hofgarð til að njóta blómanna klæddur kimano. Kimono er þjóðbúningur Japana, en mun meira notaður en þjóðbúningar flestra annarra landa, og t.d. er ekki óalgengt að vera í þeim við brúðkaup og jarðarfarir. Á síðari árum hefur færst í vöxt að ungt fók klæðist þeim á tyllidögum og hjá hluta kvenna eru þeir aftur orðnir sparifatnaður sem t.d. er notaður á sumarhátíðum. Fágætt er að fólk sé dags daglega í kimono nema þá helst eldri konur sem ólustu upp við að ganga í þeim, geisur og glímukappar en þeim ber skylda til að vera í þeim á almannafæri og dómara í glímukeppnum,“ segir hún.

Ýmist ættargripir eða nýir

„Við sáum nokkrar slíkar keppnir í sjónvarpi og voru kimonoar dómaranna gífurlega fjölbreyttir og fallegir. Kimonoar eru ýmist ættargripir eða nýir, en einnig er hægt að leigja þá. Aðallega er það ungt fólk sem notfærir sér leigurnar, t.d. ástfangin pör og vinahópar sem þá leigja sér allt sem þarf; kimono, innanundir kimono, skó, sokka, veski eða töskupoka, hárskraut, skratgripi og stór belti, sem hjá konunum eru skrautlega bundin á bakinu og jafnvel með eins konar púðum, oft útsumuðum. Að klæðast þessu er ekki einfalt og á leigum fær fólk hjálp við að skrýðast. Síðan er haldið að næsta hofi, gengið um hofgarða og komið við á kaffi- eða veitingahúsum og dagurinn skjalfestur með því að taka myndir í gríð og erg og þá að sjálfsögðu án andlitsgrímu. Þetta gerði að verkum að smitum fjölgaði og yfirvöld brugðust við með því að hóta útivistarbanni ef fólk léti ekki af þessari hegðun. Nokkru síðar hertu þau enn á reglunum, en þá vorum við komin aftur hingað heim.

Nýr kimono kostar frá nokkrum tugum þúsunda íslenskra króna og upp í nokkrar milljónir. Þeir dýrustu eru listaverk, saumaðir úr handofnu silki, sumir bæði handmálaðir og útsaumaðir. Margir eru litaðir með sérstakri tækni sem nefnist Shibori og er meira en þúsund ára gömul. Hægt er að finna heilmikinn fróðleik um Shibori á netinu. Þar sem ég er menntuð í listrænum textíl og sem búningahöfundur leitaði ég uppi safn í Kýótó sem helgað er Shibori, en þar er einnig vinnustofa rekin af fólki sem leggur sitt af mörkum til að viðhalda þessari ævafornu listgrein. Vegna veirunnar var ég eini gestur safnsins og fékk því einkaleiðsögn og skilmerkilegar útskýringar á mismunandi gerðum Shibori, ásamt því að vera kynnt fyrir tveim eldri mönnum sem voru að undirbúa Shibori-litun á silki í kimono. Í borginni sáum við einnig mjög skemmtilegt listaverk sem samanstóð af upplýstum súlum með munsturum sem sótt voru í kimono-textíl.

 „Frá 794 og til 1869 var hún aðsetur keisara og hirðar og í upphafi skipulögð út frá kínverskum Feng Shui-reglum, t.d. varðandi staðsetningu og skipulag keisarahallarinnar. Kýótó er ein helsta menningarborg landsins og mikilvæg háskólaborg.“

Nokkuð er um verslanir sem selja eldri kimonoa og til að lífga upp á gráan veiruhversdaginn keypti ég kimonoa og kimono-jakka fyrir nokkrar þeirra kvenna sem mér þykir vænt um og færði þeim þegar heim kom. Kimano-áhugi minn er ekki nýr. Á níunda ártugnum gerði ég leikmynd og búninga fyrir leikrit sem nefnist Klassapíur (Top girls eftir Caryl Churchill) og fjallar um hvort þær fórnir sem nútímakonan þarf að færa til að ná frama séu þær sömu og kvenna fyrr á öldum. Ein persóna leikritsins er japönsk hjákona (ambátt) Japanskeisara sem hann gefur leyfi til að ganga í margföldum kimano með mjög löngum ermum, en það var annars aðeins heimilt þeim sem tilheyrðu keisarafjölskyldunni og merkti að þau þyrftu aldrei að ,,dýfa hendi í kalt vatn“. Þegar ég gerði kimono fyrir leikritið kynnti ég mér hefðir við gerð þeirra en þeir komu fyrst fram á 4. öld og eiga ættir að rekja til Kína. Þetta er T-laga flík, sem enn í dag er yfirleitt handsaumuð með silkiþræði, úr rúmlega 12 metra löngum 40 cm breiðum sérofnum renning (fóðruð á sérstakan hátt). Sett saman á miðju bakinu og að framan og er vinstri boðungur lagður yfir þann hægri. Ég hef einnig í tvígang skapað kimano sem grunn að myndlistargerningum sem ég framkvæmdi,“ segir Guðrún Erla.

Í 3000 metra hæð

Setti veiran þá ekkert strik í reikninginn hjá ykkur? „Þegar við plönuðum ferðina ætluðum við að ferðast meira um Japan en raunin varð. Sökum veirunnar ákváðum við að láta nægja að fara til þriggja helstu borga landsins; Tókýó, Ósaka og Kýótó, en auk þess ferðuðumst við upp í japönsku Alpana. Fórum upp í um 3000 metra hæð til Takýama, vel varðveittrar eldri borgar og Hida-Takýama, þorps (eins konar Árbæjarsafn) með byggingum frá fyrri tímum. Við tókum rútu frá Tókýó og ferðin, sem tók rúma sex tíma, var einstök upplifun. Sökum lítillar mengunar vegna veirufaraldursins höfðum við getað notið þess að sjá glitta í Fújí-fjall í morgunbirtu frá hótelherbergi okkar í Tókýó og einnig baðað kvöldsól er við fórum dagsferð niður að strönd. Rútan keyrði ekki langt frá fjallinu og því gafst okkur færi á að skoða þetta einstaka fjall sem er eitt helsta þjóðartákn Japans í meira návígi. Á ferðum okkar erlendis tökum við gjarnan rútu, enda gefst þá oft betra færi á að sjá landslag og bæi en út um lestarglugga og er að auki mun ódýrari ferðamáti en lestar. Fryst hafði í fjöllunum nóttina áður þannig að þegar sólin fór að skína sáust ískristallar á trjám og öðrum gróðri og að viðbættri þokuslæðu varð landslagið einn glitrandi undraheimur. Við vorum líka heppin morguninn eftir þegar við lögðum leið okkar í þorpið með gömlu húsunum. Snjóað hafði um nóttina og því lá þunn snæbreiða yfir öllu, en eftir því sem leið á bráðnaði hún og í tærri birtunni var allt ævintýralega fallegt. Við nutum þess að ganga um, skoða mismunandi byggingarstíla og gamla sérstæða muni, en sökum veirunnar voru þarna aðeins örfáir gestir.

Frá Takýma lá leiðin til Ósaka, aðalviðskiptaborgar Japans. Hún varð mjög illa úti í  sprengjuárasum í síðari heimsstyrjöldinni og er því að stórum hluta með nýjum byggingum. Af þessum sökum höfðum við ekki mjög miklar væntingar til að borgin væri sérlega áhugaverð. Annað kom á daginn og við hrifumst af því sem við upplifðum þar. Í Ósaka sáum við mun fleira ungt fólk en í hinum borgunum sem við heimsóttum og t.d. voru þar hverfi með fjörugu og skemmtilegu götulífi og spennandi verslunum og veitingastöðum. Einnig eru þar áhugaverð hof og hofgarðar sem og framúrstefnulegar byggingar frá síðustu áratugum. Í Ósaka er mikið um útilistaverk og þar sá ég áhugaverða sýningu á fatnaði, töskum og ljósmyndum frá Dior. Fatnaðurinn, sem var frá löngu tímabili í sögu hönnunarhússins, var að meira og minna leyti undir japönskum áhrifum svo sem vorkomu með blómstrandi kirsuberjatrjám. Nokkrar flíkanna voru meira í ætt við ævintýralega textílskúlptúra en fatnað til að ganga í,“ segir hún.

 „Safn á dag kemur skapinu í lag“

Þú hefur ákaflega næmt auga fyrir listum og fegurð eins og myndirnar sem þú deildir bera með sér. Varstu beinlínis í leit að listaverkum? „Myndlist og hönnun hefur ekki bara verið stór hluti af starfi mínu gegnum árin heldur eiginlega mitt eina áhugamál og ég ferðast mikið til að skoða söfn og sýningar. Börnin mín sögðu eitt sinn að hjá mér væri það ,,safn á dag kemur skapinu í lag“. Að sjálfsögðu var ætlunin að njóta þess að skoða þau fjölmörgu söfn sem eru í Japan. Sökum veirunnar voru öll opinber söfn og mikið af einkasöfnum lokuð. Mér tókst þó að finna örfá sérsöfn til að skoða t.d. lítið Samurai-safn í Tókýó. Þar voru ekki bara til sýnis tugir samurai-alklæðnaða og sverð heldur sýndu einnig tveir vel þjálfaðir samurai-kappar dæmi um bardaglist þeirra. Að klæðast búning samurai-kappa með öllum fylgihlutum er svo margbrotið og flókið að það er sagt illmögulegt án aðstoðar og taki um tvær klukkustundir.

Maðurinn minn er kokkur og starfaði á tímbili við sushi-gerð. Eins og væntanlega flestir matreiðslumenn hefur hann áhuga á ólíkum ,,eldhúsum“ og því var ein af ástæðum ferðarinnar að fá smjörþefinn af japanskri matargerð. Ósaka er kölluð eldhús Japans og fyrsta kvöldið þar héldum við á sushi-stað í nágrenni við gistiheimilið sem við dvöldum á. Veitingastaðurinn var í þjóðlegum stíl en þar talaði enginn ensku, sem er sjaldgæft í Japan og því var handapat og látbragð notað við samskiptin. Við fengum hinn besta kvöldverð og það sama var uppi á teningnum annars staðar sem við borðuðum, enda leggja Japanir mikið upp úr fersku og góðu hráefni. Þar sem við sóttumst eftir að borða þjóðlegan mat voru réttirnir að sjálfsögðu stundum dálítið frábrugnir því sem við eigum að venjast til dæmis skreyttir með blómum og blóm fljótandi í súpum. Við borðuðum á nokkrum mjög gömlum veitingahúsum meðal annars við hof og að hefðbundnum sið fórum við þá úr skónum við innganginn og sátum á gólfinu. Okkur hafði verið bent á að í kjallara vöruhúsa (department stores) væri hægt að finna fjölbreytt úrval tilbúinna rétta til að taka heim. Við notfærðum okkur það öðru hvoru í ferðinni og urðum ekki fyrir vonbrigðum með gæðin.“

Hof helgað börnum er látast í móðurkviði

Hefur þú ferðast víðar í þeim tilgangi að kynna þér beinlínis list og hönnun? „Okkur finnst mjög gaman að skoða borgir og þá ekki bara ferðamannastaði heldur ekki síður að rölta um og skoða íbúðahverfi og vílum ekki fyrir okkur að vera á göngu nær allan daginn. Að venju lásum við okkur til og skipulögðum í grófum dráttum hvað við ætluðum að skoða hvern dag,“ segir Guðrún Erla. „Vegna veirunnar forðuðumst við að ferðast með almenningssamgöngutækjum á annatímum og fórum því ekki af stað fyrr en eftir klukkan10 á morgnana og komum til baka um 8 á kvöldin. Þar sem flest söfn voru lokuð gafst góður tími til að skoða annað, t.d. heimsóttum við fjölmarga garða sem um margt voru ólíkir því sem við höfum áður séð. Margir þeirra tilheyrðu hofum og voru nokkur hundruð ára gamlir. Ótrúleg natni var lögð við fjölbreyttan gróðurinn. Sumstaðar var ræktun mosa í fyrirrúmi og í öðrum hafði ljósum smásteinum verið rakað í munstur, oft eins konar öldur og í einum þeirra hafði gulum, rauðum, grænum og bláum lit verið sáldrað í munstrin sem mynduð voru í mölina.

 „Veitingastaðurinn var í þjóðlegum stíl en þar talaði enginn ensku, sem er sjaldgæft í Japan og því var handapat og látbragð notað við samskiptin. Við fengum hinn besta kvöldverð og það sama var uppi á teningnum annars staðar sem við borðuðum, enda leggja Japanir mikið upp úr fersku og góðu hráefni.“

Algengt er að í hofgörðunum séu vötn eða tjarnir með skrautfiskum og einnig eru þar litlir lækir. Garðarnir eru manngerðir en þar sem þeir eru mjög gamlir fær maður á tilfinninguna að landslagið og annað sé frá náttúrunnar hendi. Nokkrir garðanna státuðu af stórum og merkilegum búddastyttum og öðrum skúlptúrum. Í strandborginni Kamakura komum við að hofi sem helgað er börnum sem fæddust látin eða dóu í móðurkviði. Í hofgarðinum voru hundruð lítilla styttna sem tákna sálir barna sem ekki litu dagsins ljós. Vitneskjan um það fékk mig til að tárast.

Bambus vex á mörgum stöðum í Japan og við hrifumst af því hvernig hann var nýttur á fjölbreyttan hátt, til dæmis í húsbúnað og húsgögn og í hofgörðum sáum við hann notaðan í  vatnsrennur, skjólgarða, til að styðja við tré og sem hluta af byggingum. Búddahofin, sem sum eru ævaforn, eru í hefðbundnum japönskum byggingarstíl. Sum þeirra höfðu eyðilagst, meðal annars í eldsvoðum, en verið endurbyggð nákvæmlega eins og þau voru áður. Þetta er raunin með hið þekkta Gullna hof í Kýótó, sem var byggt sem höll á 14. öld, en það var brennt til grunna af ungum munki, sem ekki þoldi fegurð þess, um miðja síðustu öld. Það var endurbyggt og er nú meðal fjölsóttari ferðamannastaða landsins og á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna, eins og mörg önnur hof í borginni.“

Menningarminjar á heimsminjaskrá

„Kýótó er ein þeirra borga í heiminum sem státar af fjölmörgum stöðum á heimsminjaskrá. Borgin fór ekki illa út úr styrjöldinni og því eru eldri hverfin með tiltölulega mikið af hefðbundum húsum almennings sem gaman er að virða fyrir sér. Einnig eru þar sérkennilegar nýjar byggingar, t.d. er aðaljárnbrautastöðin á lista yfir merkustu nútímabyggingar heims. Í Kýótó búa um 1,5 milljón og borgin á sér langa og merkilega sögu. Frá 794 og til 1869 var hún aðsetur keisara og hirðar og í upphafi skipulögð út frá kínverskum Feng Shui-reglum til dæmis varðandi staðsetningu og skipulag keisarahallarinnar. Kýótó er ein helsta menningarborg landsins og mikilvæg háskólaborg. Sökum kórónuveirunnar vorum við nánast ein við keisarahallirnar í Kýótó, Ósaka og Tókýó sem og á öðrum merkum stöðum sem við skoðuðum. Margir áratugir eru síðan svo fáir hafa verið á ferli á þessum stöðum og því var upplifun okkar einstök.

Á ferðum mínum tek ég mikið af ljósmyndum af því sem fangar augað og vekur áhuga minn og hef síðustu árin haldið eins konar myndadagbók á fésbókarsíðu minni. Tilgangurinn er í og með að vekja áhuga Facebook-vina á að fara sjálfir og upplifa það sem myndirnar sýna, enda allt annað að sjá með eigin augum en skoða myndir af hlutum og stöðum. Ekki var vandamál að finna áhugaverð myndefni í Japan og setja daglega myndasyrpur inn á síðuna. Í fyrri ferðum mínum hafa myndir af listaverkum á söfnum skipað stóran sess í fésbókardagbókarfærslunum, en lítið færi gafst til þess í þetta sinn því eins og fram hefur komið voru nær öll söfn lokuð. Meðal annar er það ástæða þess okkur dreymir um að fara aftur til Japan,“ segir Guðrún Erla að lokum og hér geta lesendur Vikunnar notið hluta þeirra ljósmynda sem hún tók í ferðinni.

Myndir: Guðrún Erla Geirsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Lilja Ósk nýr formaður SÍK

Lilja Ósk Snorradóttir, framkvæmdastjóri og meðeigandi kvikmyndaframleiðslufyrirtækisins Pegasus var á fimmtudag kjörin formaður stjórnar Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda,...