2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Einstök upplifun

  Það er vert að heimsækja San Francisco Museum of Art.

  Flestir hafa gaman af að heimsækja söfn og telja það nauðsynlegan hluta af ferðalögum. Söfn eiga að fræða, skemmta og hræra við tilfinningum gesta. SFMOMA uppfyllir sannarlega þessar kröfur en þar væri með góðu móti hægt að verja heilum degi og leiðast ekki eina mínútu.

  The San Francisco Museum of Art opnaði fyrst dyr sínar 18. janúar árið 1935. Stofnandi þess, Grace McCann Morley, var listfræðingur og ákaflega framsýn og merkileg kona. Safnið rúmaðist þá á einni hæð en uppistaðan í því voru verk sem Albert M. Bender hafði gefið. Þessi rausnarlega gjöf samanstóð af um það bil 1100 gripum og meðal þeirra voru verk eftir Fridu Kahlo og Diego Rivera. Einnig var umtalsvert safn af ljósmyndum en Grace var meðal þeirra sem sáu það fyrir að ljósmyndun væri listform. Á þessum tíma var myndavélin á bernsku- eða unglingsárum sínum og þótti fínt tæki til að fanga fólk og byggingar en fáum sem datt í hug að útkoman hefði skírskotun umfram það. Enn í dag er hluti safnsins tileinkaður ljósmyndum og við ljósmyndagalleríið er aðstaða þar sem safngestir geta með aðstoð safnvarða skoðað muninn á ljósmyndun og að taka mynd.

  „Svalirnar eru því ekki aðeins komnar til vegna þess hve gaman er að njóta listar utandyra heldur einnig vegna þess að safnið er í miðri borg og ýmsar byggingar þrengja að því á alla vegu.“

  Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan safnið þurfti aðeins eina hæð og í dag er það stærsta nútímalistaverkasafn í heimi. Árið 2013 var hafist handa við að byggja ofan á gömlu bygginguna sem hýsti það, sex nýjar hæðir. Norska arkitektafyrirtækið Snjóhetta sigraði samkeppni um útlit og hönnun viðbyggingarinnar og allir sem ganga um salina skilja hvers vegna. Stórir gluggar eru á hverri hæð sem veita birtu um rýmið en einnig athvarf fyrir þreytta gesti til að tylla sér og vinna úr áhrifum listarinnar eða njóta umhverfisins. Gluggakisturnar eru nefnilega stórir þægilegir bekkir, kjörnir til að sitja í. Gólfin eru úr ljósum hlyn, hlýjum og fallegum viði og stigarnir milli hæða mjókka upp. Arkitektinn sá fyrir sér að fólk rækist hvert á annað efst í stiganum og gæti notað það sem átyllu til að spjalla um þau verk sem helst hefðu heillað.

  Inni í borg og hluti af borg

  AUGLÝSING


  Arkitektateymið hjá Snjóhettu lagði sig fram um að sníða viðbygginguna að umhverfinu. Svalirnar eru því ekki aðeins komnar til vegna þess hve gaman er að njóta listar utandyra heldur einnig vegna þess að safnið er í miðri borg og ýmsar byggingar þrengja að því á alla vegu. Þær eru því snjöll leið til að skapa meira rými en taka tillit til þeirra mannvirkja sem eru í kringum safnið. Veggirnir eru úr styrktu fíberplastefni sem er ótrúlega sterkt en einnig gætt þeim eiginleikum að geta sveigst og bognað sem er nauðsynlegt á jarðskjálftasvæði. Það er mótað í bylgjur sem minna á hvernig jörðin getur gengið í bylgjum í jarðskjálfta, hæðir og ása Kaliforníufylkis og eitt af verkum safnsins, Loopy Doopy eftir Sol LeWitt. Fíberplastið er blandað leir úr Monterey-flóa sem enn og aftur tengir húsið sterkari böndum við umhverfi sitt.

  The San Francisco Museum of Art opnaði fyrst dyr sínar 18. janúar árið 1935.

  Sama hugmynd og réð mestu um útlit Hörpu var höfð að leiðarljósi við hönnun viðbyggingarinnar, nefnilega að borgin og byggingin rynnu saman í eitt. Hvar sem gestir eru staddir í húsinu eru þeir hluti af borginni og tengjast henni á nýjan máta á hverri hæð. Þetta er ótrúlega skemmtileg hugmynd og virkar sérlega vel. Kaffistofan á fimmtu hæð opnast út á stórar svalir og þar er hægt að njóta þess að skoða sérstæða veggi nýbyggingarinnar um leið og veitinganna. Hér er einnig gert ráð fyrir að gestir noti tækifærið til að spjalla saman og deila eigin túlkunum og upplifunum. Á fyrstu hæðinni er hins vegar veitingastaðurinn In Situ en þar stjórnar frægur kokkur, Corey Lee, eldhúsinu. Hann leitaði til yfir áttatíu frábærra matreiðslumanna um allan heim og fékk frá þeim uppskrift að þeim rétti sem þeir töldu bestan á veitingastað sínum. Hann aðlagði réttina síðan að San Francisco og þessi alþjóðlega ævintýraveisla fyrir bragðlaukana er svo vinsæl að panta verður með nokkurra mánaða fyrirvara borð á In Situ. Corey Lee vildi með þessu skapa eigin listaverk úr mat og endurspegla að listin á sér engin landamæri og verk eftir listamenn alls staðar að úr heiminum er að finna í safninu.

  Lifandi veggur

  Á hverri hæð er hægt að ganga út á svalir og njóta útilistaverka en þær stærstu eru töfrum líkastar því þar gnæfir yfir veggur þakinn 19.000 plöntum. Hann er síbreytilegur því plönturnar blómstra á misjöfnum tímum og renna sitt æviskeið eins og aðrar lifandi verur. Veggurinn nýtur aðeins um einnar klukkustundar af samfelldu sólskini yfir daginn þannig að leitað var að jurtum sem þrifust við slík skilyrði og ákveðið að endurspegla skógarbotn í rauðviðarskógi en þar eru einmitt þannig lífsskilyrði. Veggurinn er einstaklega fallegur og þar eru teknar fleiri selfie’s en á nokkrum öðrum stað í safninu.

  Líkt og í öðrum söfnum eru fastar sýningar í sumum rýmum en breytilegar í öðrum. Sumar bækur bjóða lesendurna velkomna um leið og þeir opna og stafirnir taka að dansa fyrir augunum á þeim en aðrar eru hreinasta torf að komast í gegnum óháð efninu. Menn ættu að kíkja betur á stafagerðina næst þegar þeir velta fyrir sér hvers vegna illa gengur að einbeita sér að bók.

  Doris og Donald Fisher, stofnendur GAP, voru miklir listunnendur og söfnuðu nútímalistaverkum allt sitt líf. Ef þau heilluðust af einhverjum listamanni keyptu þau gjarnan öll verk hans sem þau komust yfir svo á SFMOMA má skoða yfirgripsmiklar sýningar á list þeirra og þannig fá dýpri skilning á sögu þess tiltekna listamanns sem er til sýnis hverju sinni og þróun verka hans. Þetta er eitt af því sem gerir þetta safn óvenjulega verðmætt og áhugavert. Fleiri auðmenn hafa gefið stórgjafir til safnsins og nefna má að Pitzker-fjölskyldan gerði safninu kleift að setja upp sérstakt gallerí með ljósmyndum en það á um 17.800 ljósmyndir.

  Á hverri hæð er hægt að ganga út á svalir og njóta útilistaverka en þær stærstu eru töfrum líkastar því þar gnæfir yfir veggur þakinn 19.000 plöntum.

  „Doris og Donald Fisher, stofnendur GAP, voru miklir listunnendur og söfnuðu nútímalistaverkum allt sitt líf.“

  Hluti safnsins er opinn og ekki þarf að greiða fyrir að fá að skoða þá sali en þótt safnið njóti ekki ríkisstyrkja og þurfi þess vegna að fjármagna starfsemina upp á eigin spýtur var ákveðið að hafa þetta svona til að leggja rækt við þá stefnu að leyfa öllum að njóta listar. Markmið safnsins er að opna augu fólks, skapa nýja sýn á heiminn, listina og þau margvíslegu sjónarhorn sem saman móta veröldina sem við búum í. SFMOMA er einnig þekkt fyrir að gefa frumlegum, nýjum listamönnum tækifæri til að sýna verk sín. Meðal þeirra sem hafa fengið einkasýningu þar eru Jackson Pollock, Jeff Koons, Sigmar Polke, William Kooning og Ólafur Elíasson. En meðal þeirra fjölmörgu sem eiga föst verk á safninu eru Roy Lichtenstein, Alexander Kalder, Brice Marden, Agnes Martin, Richard Serra og Cy Twomby. Þekkt verk á safninu eru hins vegar Femme au Chapeau eftir Matisse, Forever Free eftir Sargent Johnson, Fiðlan og kertastjakinn eftir Georges Braque og Andi ber fram lítinn morgunverð eftir Paul Klee. Margt fleira heillandi er að sjá og njóta í þessu einstaka safni og ef menn leggja leið sína til San Francisco ættu þeir ekki að láta hjá líða að verja góðum tíma á nútímalistasafninu SFMOMA.

  Texti / Steingerður Steinarsdóttir

  Ekki missa af þessum

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is