2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Eitruð fegurð – Sláandi heimildarmynd um aukaefni í snyrtivörum

  Heimildamyndin, Eitruð fegurð eða Toxic Beauty hefur vakið mikla athygli erlendis. Þar er fjallað um margvísleg aukefni í snyrtivörum og hvernig þau fara með húðina. Meðal þess sem þar kemur fram er að efni í sumum snyrtivörum bókstaflega eyði húðfrumum.

   

  Mikil vitundarvakning hefur orðið um bæði hvernig framleiðslu í snyrtivöruiðnaðnum er háttað og hvers konar efni eru notuð í þær vörur sem bornar eru á andlit, hendur og líkama.

  Í byrjun kvikmyndarinnar Eitruð fegurð segir Phyllis Ellis, förðunarfræðingur og framleiðandi grænna snyrtivara, frá því að hún hafi eitt sinn hitt efnafræðing sem vann fyrir einn af stóru risunum í þessum iðnaði og hann hafi hrósað henni fyrir það sem hún var að gera. Í framhaldinu hafi hann svo sagt: „Þú veist að snyrtivörur eyða húðfrumum kvenna“. Hún segist bókstaflega hafa gapað af undrun. Hún spurði hann hvers vegna hann gerði ekkert og svarið var að hann gæti ekki tekið þá áhættu. Hann þyrfti á starfi sínu að halda.

  Phyllis er þekkt fyrir að vera fylgjandi náttúrulegu útliti og einkunnarorð hennar eru: Bare Face – Bold Lips. En það vísar til þess að hún kýs að mála konur þannig að farðinn sé lítt áberandi nema varirnar sem oftast eru í sterkum, djörfum litum.Að baki heimildarmyndinni Eitruð fegurð liggur þriggja ára rannsóknarvinna kvikmyndagerðarmannanna.

  AUGLÝSING


  Þeir benda á að fá lög og reglugerðir gilda um snyrtivöruiðnaðinn. Mjög fá lönd hafa sett bann við tilraunum á dýrum og enn eru í snyrtivörum notuð efni sem valda óþoli, ofnæmi og eru krabbameinsvaldar þótt flestir þessir hvatar séu vel þekktir. Einnig geta þekkt innihaldsefni í snyrtivörum valdið truflun á starfsemi innkirtla en það þýðir að langvarandi notkun getur dregið úr virkni nánast alls hormónakerfis líkamans. Meðal förðunarfræðinga og snyrtifræðinga er til að mynda þekkt að þeir fái atvinnusjúkdóma á borð við krónísk útbrot, exem, hæga starfsemi í skjaldkirtli og húðkrabbamein.

  Breyttu ekki vörunni þrátt fyrir málsókn

  Í Eitruð fegurð er til dæmis sögð sú saga að nýlega hafi verið gerð hópmálsókn gegn Johnson&Johnson vegna barnapúðursins þeirra. Meira en 15.000 konur sem höfðu notað þá vöru árum saman til að þurrka og bæta lykt á kynfærasvæði og fengið í kjölfarið eggjastokkakrabbamein. Þær tengdu sjúkdóminn við púðrið. Fyrirtækið tapaði málinu og var dæmt til að greiða konunum bætur. Í myndinni kemur hins vegar í ljós að þeir vissu um hættuna frá árinu 1982 þegar bandaríski húðlæknirinn, Dr. Cramer birti niðurstöður rannsókna sinna á notkun púðurs á húðina. En þrátt fyrir málsóknina og neikvæða umfjöllun í kjölfarið breyttu þeir ekki vörunni en sá krabbameinsvaldur sem leynist þar er sá sami og er í asbesti.

  Margt fleira áhugavert er að finna í þessari merkilegu mynd og full ástæða til að lesa vel innihaldslýsingar á snyrtivörum rétt eins og á matvöru. Mjög margar konur hafa nú þegar breytt neyslumynstri sínu hvað varðar slíkar vörur og kosið vegan sé þess kostur. Nú eru á markaði grænar vörur þar sem vönduð úrvinnsla tryggir að engin hættuleg innihaldsefni sé þar að finna. Þær vörur hafa styttri virknitíma en vel þess virði að kynna sér þá kosti.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is