Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

„Ekkert hættulegt að segja börnum að elska þann sem þau elska“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir segja að það sé ekkert hættulegt að segja börnum að þau megi vera eins og þau eru, hafa áhuga á því sem þau hafa áhuga á, elska þann sem þau elska og klæða sig eins og þau vilja klæða sig.

Ingileif og María Rut sem hafa meðal annars vakið athygli fyrir fræðsluvettvanginn Hinseginleikann og hlaðvarpsþáttinn Raunveruleikann, gefa í næstu viku út barnabókina Vertu þú sem beinir sjónum að fjölbreytileikanum. Þær segja ætlunina ekki vera að innræta börnum eitt eða neitt, heldur að skapa samræðugrundvöll enda sé það ekki smitandi að vera svona eða hinsegin.

„Það er oft mikill ótti við það hjá sumu fólki að börn fái fræðslu um fjölbreytileikann, en það er svo ótrúlega tilhæfulaus ótti. Það er ekki smitandi að vera svona eða hinsegin og ætlunin er ekki að innræta börnum eitt eða neitt,“ segir Ingileif.

„Við erum bara að segja þeim að það er allt í lagi að vera alls konar,“ bætir María Rut við og brosir.

Í næstu viku kemur út bók þeirra Vertu þú. Undirtitillinn Litríkar sögur af fjölbreytileikanum lýsir vel viðfangsefninu. „Þetta er bók tileinkuð fjölbreytileikanum,“ útskýrir María Rut. „Hún fjallar ekki bara um fjölskyldur eða hinsegin veruleika. Hún fjallar um það að við eigum að vera eins og við viljum vera. Við erum öll ólík og það er gott. Í bókinni spyrjum við lesandann hver hann er, hver áhugamálin hans eru og fáum hann til að pæla í fjölbreytileikanum.“

„En bókin er samt sem áður líka óður til Hinseginleikans,“ skýtur Ingileif inn, „þar sem við byggjum líka á raunverulegum sögum af góðkunningum Hinseginleikans meðal annars í bland við skáldaðar.“

„Það er ekki smitandi að vera svona eða hinsegin og ætlunin er ekki að innræta börnum eitt eða neitt.“

- Auglýsing -

Hvernig gekk eiginlega að viða að sér reynslusögum í bókina, var ekkert mál að fá fólk til að taka þátt?
„Nei, það var ekkert mál,“ svarar María Rut. „Eins og við segjum eru raunverulegar sögur í bókinni í bland við skáldaðar og ein af þeim raunverulegu er saga Ronju Sifjar Magnúsdóttur sem sló í gegn á Hinseginleikanum á sínum tíma ásamt foreldrum sínum, en hún var þá fimm ára gömul trans stelpa.“

„Okkur þykir mjög vænt um að fá að segja hennar sögu í bókinni,“ segir Ingileif með áherslu, „enda ekki til margar fyrirmyndir fyrir trans börn til að spegla sig í.“

„Okkar reynsla er sú að börn eru fordómalaus“

- Auglýsing -

Þetta er fyrsta bók Ingileifar og Maríu Rutar en þær segjast báðar hafa átt sér þann draumi í laumi að skrifa bækur. En hvað varð til þess að þær ákváðu loksins að láta verða af því og af hverju varð þetta viðfangsefni fyrir valinu?
„Við höfum alltaf lagt mikið upp úr því að lesa fyrir börnin okkar og eiga gæðastundir með þeim hætti,“ svarar María Rut. „En höfum því miður rekið okkur á að ekki margar bækur fanga fjölbreytileika okkar eigin fjölskyldu, né almennt þann fjölbreytileika sem okkur langar að sýna okkar börnum.“

Ingileif kinkar kolli. „Okkur fannst mikill skortur á bókum fyrir börn sem sýna fram á það hvað við erum öll alls konar; hvort sem það varðar fjölbreytt fjölskylduform, bakgrunn, útlit, áhugamál eða annan fjölbreytileika,“ segir hún.

„Og þó svo að það sé til eitthvað efni um fjölbreytileika, sem er frábært, þá er ekki nóg að vera bara með einn eða tvo valmöguleika fyrir fólk sem kýs að fræða um fjölbreytileikann fyrir börnin sín, á meðan að það er til aragrúi af efni og bókum um „normal“ fjölskyldur. Við ákváðum því að leggja okkar af mörkum til að fjölga valmöguleikum á markaðnum með því að skrifa þessa bók, enda eru barnabækur svo ótrúlega dýrmæt og mikilvæg leið til að eiga samtöl við börnin okkar um allt milli himins og jarðar,“ bendir María Rut á.

„Við lögðum einmitt upp með að þessi bók yrði skemmtileg og byði upp á alls konar umræður á milli barnsins og þess sem les bókina fyrir barnið. Það er nefnilega ekkert hættulegt að segja börnum að þau megi vera eins og þau eru, hafa áhuga á því sem þau hafa áhuga á, elska þann sem þau elska og klæða sig eins og þau vilja klæða sig. Okkar reynsla er sú að börn eru fordómalaus,“ segir Ingileif. „Þau læra svo af okkur fullorðna fólkinu hvað þykir „skrýtið“ og „óeðlilegt“.

„Fordómar byggjast á fáfræði,“ bætir María Rut við, „og við trúum því af einlægni að með því að byrja snemma og tala um það við börnin okkar að við séum ólík þá getum við búið til pláss fyrir alla til að vera nákvæmlega eins og þeir eru.“

Skemmtilegast að skapa hluti saman

Að sögn Ingileifar og Maríu Rutar kom hugmyndin að bókinni fyrst upp árið 2016, þegar þær voru nýlega búnar að stofna Hinseginleikann, en fyrir þá sem ekki vita er Hinseginleikinn fræðsluvettvangur á samfélagsmiðlum um fjölbreytileikann, þar sem ólíkir einstaklingar fá vettvang til að miðla sinni reynslu og um leið brjóta niður ákveðnar staðalmyndir sem hafa viðgengist um hinsegin fólk allt of lengi. Þær segjast fljótlega hafa áttað sig á því að þær vildu að fræðslan og hugmyndafræðin væru líka aðgengileg fyrir yngri börn.

„Það var svo ekki fyrr en fyrir rúmlega ári síðan sem við settumst almennilega yfir þetta og ákváðum að við vildum gera þetta að veruleika. Í kjölfarið funduðum við með snillingunum hjá Sölku forlagi, sem voru tilbúnar að taka sénsinn og stökkva á þetta með okkur,“ segir María Rut glaðlega.

„Þannig að þetta hefur verið langt ferli, en við erum ótrúlega ánægðar með bókina,“ segir Ingileif stolt.
Nú hafið þið spreytt ykkur á gerð hlaðvarpsþátta, tónlistar, sjónvarpsefnis og hvaðeina, hvernig gekk að gera bók saman? „Þetta var bara skemmtilegt. Við elskum að ögra sjálfum okkur og prófa nýja hluti,“ segir María Rut og kímir.

„Já, við erum svolítið týpurnar sem látum bara vaða,“ tekur Ingileif undir með henni og hlær. „Við erum oft með allt of mörg járn í eldinum en við hreinlega bara settumst niður, pældum í því hvernig við gætum látið þetta ganga og fundum svo leiðir til að tryggja að svo yrði og þetta var bara mjög skemmtilegt ferli.“

Hvernig unnuð þið bókina, var einhver verkaskipting? „Svolítið eins og við vinnum flestallt,“ svarar María Rut. „Ég kem sterk inn í hugmyndavinnunni og rammanum, en Ingileif tekur svo boltann og lætur hlutina gerast.“

„Ég var ekki bundin við ákveðin verkefni á þessum tíma þannig að ég skrifaði fyrsta uppkastið. Svo unnum við saman að því að betrumbæta það með útgefandanum og pældum í því hvernig þetta myndi allt smella,“ útskýrir Ingileif. „Við vinnum sem betur fer mjög vel saman og erum gott teymi.“

María lítur á hana. „Já, það er það allra skemmtilegasta sem ég geri – að skapa hluti með Ingileif.“

Bók sem á alltaf erindi

Er þetta bók sem þið hefðuð viljað geta nálgast þegar þið voruð sjálfar krakkar? „Já, vá, algjörlega,“ segja þær í kór.

„Það hefði opnað augun mín fyrr fyrir því sem er raunverulegt. Að við erum alls konar. Það þarf ekki að fela það fyrir börnum. Það er líka svo skemmtilegt að vera alls konar,“ segir María Rut.

„Ég held ég geti fullyrt fyrir okkur báðar að það hefði sannarlega sparað okkur mörg ár af efasemdum um sjálfar okkur,“ segir Ingileif og dæsir. „Bara það eitt og sér að búa til plássið fyrir börn til að vera nákvæmlega eins og þau eru eyðir út svo mikilli pressu af því að falla ekki inn í þetta svokallaða „norm“. Þannig að þessi bók hefði því átt fullt erindi þegar við vorum krakkar, hún hefði líka átt erindi fyrir 50 árum og hún á sannarlega erindi í dag.“

„Já, nú sem aldrei fyrr,“ segir María Rut. „Það skiptir máli að það sé til góð flóra af góðum og fræðandi barnabókum. Og ekki er það nú verra ef þær eru litríkar og skemmtilegar.“

„Okkar reynsla er sú að börn eru fordómalaus. Þau læra svo af okkur fullorðna fólkinu hvað þykir „skrýtið“ og „óeðlilegt“.

„Það má líka segja að hugmyndafræði Vertu þú rammi bara svolítið inn hverjar við erum og hvernig við vinnum. Fyrir hvað við stöndum,“ heldur Ingileif áfram. „Það eina sem við viljum er að gera gagn. Brjóta múra og búa til farveg fyrir það að það sé í lagi að vera alls konar. Svona og hinsegin.“

Fjölbreytileikinn er til umfjöllunar í nýju barnabókinni Vertu þú.

„Þetta er bók sem er hugsuð fyrir alla þá sem vilja stuðla að uppeldi barna sem byggt er á víðsýni og fjölbreytileika. Að við séum öll eins og við erum og að það sé fallegt,“ segir María Rut.

„En bókin er ekki bara skrifuð með hinsegin fjölskyldur í huga,“ tekur hún fram. „Við vonum auðvitað að hún muni höfða til allra.“

„Þannig að við vonum að fullorðna fólkið taki líka bókinni okkar með opnum hug,“ segir Ingileif og brosir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -