2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Ekkert væl lengur“

  Bríet Kristý Gunnarsdóttir hafði engan áhuga á hjólreiðum þegar hún fékk notað götuhjól að gjöf fyrir nokkrum árum síðan. Eftir að hjólið hafði staðið í bílskúrnum í um það bil níu mánuði ákvað Bríet að prófa það og fékk strax hjóladelluna. Hún sagði frammistöðukvíðanum stríð á hendur og fór fljótlega að keppa í hjólreiðum með góðum árangri. Nú er hún komin í landsliðshóp Íslands í hjólreiðum og púslar saman æfingum, vinnu og fjölskyldulífinu.

  „Með hjólreiðunum fann ég loksins það sem ég hafði leitað að í tíu ár. Ég sleit krossband í hné þegar ég var sautján ára en hafði þá æft fótbolta frá því ég var smástelpa,“ segir Bríet. „Ég elskaði fótbolta og var ekkert að fara að hætta; ég ætlaði mér stóra hluti í boltanum. Ég byrjaði því aftur að æfa þegar ég var komin með grænt ljós eftir endurhæfingu og sjúkraþjálfun en ég fann að ég treysti ekki hnénu, var of smeyk við að gefa allt í þetta og var alltaf á bremsunni. Það endaði með því að ég gafst upp og hætti að æfa. Það voru gríðarleg vonbrigði að þurfa að hætta og tók mig mörg ár að jafna mig á því.

  Ég prófaði alls kyns íþróttir eftir það; fór í CrossFit og Boot Camp og hljóp hálft og heilt maraþon, hvort tveggja reyndar án nokkurs undirbúnings sem er svolítið einkennandi fyrir mig en ég mæli ekkert endilega með því. Þegar ég prófaði svo að hjóla fann ég að það angraði hnéð ekkert; þetta er þannig hreyfing. Á hjólinu gat ég loksins gefið allt í botn, fengið útrás fyrir alla hreyfiþörfina og verið úti á meðan, sem er það besta við það.“

  Bríet Kristý hefur alltaf verið með mikið keppnisskap og tók þátt í fyrstu hjólreiðakeppninni fljótlega eftir að hún byrjaði að æfa hjólreiðar. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  „Blessað keppnisskapið“
  Bríet segist hafa fundið fljótlega að hjólreiðarnar ættu vel við hana. „Ég hafði í raun verið að leita í tíu ár að einhverju sem mér fannst ég eiga möguleika á að verða góð í. Ég hef alltaf verið algjört íþróttafrík og með svakalega mikið keppniskap, stundum óþolandi,“ segir hún og skellir upp úr.

  AUGLÝSING


  „Eftir að ég útskrifaðist úr lögfræði árið 2016 byrjaði ég að vinna hjá KPMG og á sama tíma var WOW Cyclothon-hjólreiðakeppnin að hefjast. KPMG var með lið skráð til leiks og ég var alveg ferlega svekkt yfir því að geta ekki verið með, en liðið var auðvitað fyrir löngu orðið fullmannað. Ég var dugleg að hjóla það sumar, ég skráði mig í KIA-Gullhringinn þar sem voru þrjár vegalengdir í boði; 48, 65 og 106 kílómetrar. Það var alveg dæmigert fyrir mig að skrá mig bara strax í lengstu vegalengdina. Þarna var ég nýbyrjuð að hjóla og hafði ekkert í hana að gera, en kláraði keppnina nú samt. Í ársbyrjun 2017 ákvað ég að taka hjólreiðarnar enn fastari tökum. Ég hafði verið mest í hjólatúrum með vinkonum, sem eru auðvitað algjör snilld og nauðsynlegir, en fann að ég vildi meira. Ég byrjaði að æfa hjá Maríu Ögn og Hafsteini Ægi í Hjólaþjálfun og keppti svo með liði KPMG í WOW Cyclothon sumarið 2017 sem er klárlega eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert.“

  Þótt Bríet hafi mikið keppnisskap segist hún hafa glímt við frammistöðukvíða sem hamlaði henni að taka þátt í keppnum. „Mig langaði alltaf svo mikið að keppa; en ég vildi líka vera best. Blessað keppnisskapið. Ég var í þessu stríði allt sumarið 2017 og keppti þar af leiðandi ekkert að ráði. Í janúar 2018 ákvað ég að segja kvíðanum stríð á hendur. Nú skyldi ég æfa enn þá meira og skrá mig í keppnir í ELITE-flokki kvenna. Ekkert væl lengur. Í september 2018 hafði ég tekið þátt í um það bil fimmtán keppnum, bæði á götu- og fjallahjóli. Þar á meðal hafði ég farið í Bláa lóns-fjallahjólakeppnina þar sem ég náði þriðja sæti í kvennaflokki. Það var rosalega stórt skref fyrir mig. Með hverri keppninni sem ég tók þátt í lærði ég meira, bæði á götu- og fjallahjólinu. Það er endalaust hægt að bæta tæknina og getuna við að hjóla í hóp. Þar er mikilvægt að vera öruggur upp á slysahættu og annað, því það eru jú margir aðrir að hjóla með þér.“

  „Vandamál í sambandi okkar Jóns Arnars lýtur að því hvort okkar komist út að hjóla og það er bara mjög gott vandamál.“

  Líka skemmtilegt að fylgjast með
  Í lok sumars 2018 tók Bríet þátt í KIA-hringnum sem var þá þriðja bikarmót hennar í fjallahjólreiðum. „Það er öðruvísi keppni en til dæmis Bláa lóns þrautin þar sem hjólaðir eru um 50 kílómetrar. Bikarmótið var stuttur fimm kílómetra hringur sem var hjólaður fjórum til fimm sinnum í tæknilega erfiðri braut,“ segir Bríet sem hafnaði í öðru sæti í keppninni og segist þá hafa séð að hún hafi verið búin að komast yfir frammistöðukvíðann.

  „Keppnin fór fram í ágúst, í algjöru skítaveðri og ég hafði ekki einu sinni leikið mér á fjallahjóli í svona braut. Fínt að prófa það bara í keppni,“ segir hún kankvís. „Fjallahjólreiðar eru tæknileg íþrótt og öðruvísi en götuhjólið. En þarna hugsaði ég bara um að þetta yrði gaman. Ég veit að það eru margar stelpur í þessari stöðu sem ég var í; þær langar að keppa en láta ekki verða af því af ótta við að standa sig ekki nægilega vel. Auðvitað ýtir það undir sjálfstraustið þegar vel gengur og ég vissi að ég hafði staðið mig vel; en sjálfstraustið kemur ekki nema maður ýti sér af stað. Bara vera með. Maður þarf ekki að vera með til að vinna. Það er líka bara til þess að hafa gaman, njóta og vera úti. Það er svo skemmtileg stemning í kringum hjólreiðarnar sem fleiri ættu að reyna að vera hluti af; þó ekki nema væri bara til að koma og horfa á keppnir. Það er mjög skemmtilegt að fylgjast með.“

  Strax í sumarbyrjun 2018, þegar aðeins tveimur keppnum var lokið, var haft samband við Bríeti og henni boðið að koma á úrtaksæfingu fyrir landslið Íslands. Bríet ákvað að slá til og segir að mestu viðbrigðin hafi verið æfingaálagið. Hún hafi áttað sig á því að það þótti ekki mikið að hjóla þrisvar til fjórum sinnum í viku, 45 mínútur í senn, eins og hún hafði gert til að undirbúa sig fyrir keppnir. Hefðbundið æfingaálag væri tíu til fimmtán klukkustundir á viku.

  Bríet Kristý segir að hjólreiðar séu fyrir alla. Það eina sem þurfi sé hjól og hjálmur. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Það sem heillar við hjólreiðarnar segir Bríet að sé fyrst og fremst útiveran. „Það gefur manni svo mikla vellíðan að fá bæði hreyfinguna og útiveruna. En þetta er auðvitað tímafrekt og krefst þess að maður skipuleggi sig vel. Það getur verið erfitt í krefjandi starfi og með þrjú börn. Sambýlismaður minn, Jón Arnar, deilir hins vegar þessu áhugamáli með mér. Það er frábært að geta verið í þessu saman og það auðveldar skipulag. Hann fórnar ýmsu svo ég geti æft, svo ég get ekki kvartað. Þegar umfangið er orðið svona mikið er nauðsynlegt að það sé gagnkvæmur skilningur og stuðningur á heimilinu. Vandamál í sambandi okkar Jóns Arnars lýtur að því hvort okkar komist út að hjóla og það er bara mjög gott vandamál,“ segir Bríet og hlær.

  Tilvalið fjölskyldusport
  Aðspurð hvort hún hjóli á göngustígum eða götum svarar Bríet að aðstaða fyrir hjólreiðfólk gæti verið betri. „Við erum eiginlega hvergi velkomin. Bílstjórar vilja ekki hafa okkur á götunni, þótt lögum samkvæmt eigum við að vera þar. Einhver bót hefur orðið á hjólastígum en það er stundum eins og það sé ekki alveg nægilega útpælt. Til dæmis var Hofsvallagatan þrengd til að rýma fyrir hjólastíg að gatnamótum Hringbrautar en hann hallar allur niður að kantsteini og það eru holræsi út um allt. Það er ekki sérlega þægilegt að hjóla þar, hvað þá með börn. Hjólreiðastígar og göngustígar eru eitthvað sem ekki á að tvinna saman heldur þurfa að vera hvor í sínu lagi. Það er mikil togstreita milli gangandi vegfarenda og ökumanna og svo hjólreiðafólks. Mér finnst það oft gleymast að það er ekki bara hjólreiðamaðurinn sem lýtur einhverjum lögmálum í umferðinni; heldur líka ökumenn og gangandi vegfarendur.“

  „Ég veit að það eru margar stelpur í þessari stöðu sem ég var í; þær langar að keppa en láta ekki verða af því af ótta við að standa sig ekki nægilega vel.“

  Bríet er afar sannfærandi þegar hún segir að hjólreiðar séu fyrir alla. Það eina sem þurfi sé hjól og hjálmur. Það sé tilvalið að skella sér í einn Reykjavíkurhring eða fara upp í Heiðmörk. Ekki þurfi að eyða aleigunni í hjólagræjur eða veðsetja húsið. „Vissulega er hægt að fara alla leið í þessu áhugamáli eins og öðrum og kaupa sér dýrustu græjurnar en það er ekki nauðsynlegt; þótt það sé gaman,“ segir hún og brosir. „Fyrir fólk sem getur ekki hjólað nema takmarkað, til dæmis heilsunnar vegna, verða rafmagnshjól alltaf vinsælli og vinsælli. Ég verð mikið vör við þau þegar ég er úti að hjóla. Ég blóta þeim reyndar alltaf þegar þau fara fram úr mér í brekkum og ég að andast úr þreytu. En það eru ekki bara þeir sem eru slæmir til heilsunnar sem nota slík hjól. Fólk skiptir út bifreiðum fyrir rafmagnshjól sem samgöngutæki og notar þau allt árið. Ég, til dæmis, væri alveg til í að fara á rafmagnshjóli í vinnuna og mæta ekki rennandi sveitt, en fersk eftir útiveru. Ég er frekar lengi að vakna á morgnana. Maður getur líka stjórnað því hvenær maður notar rafmagnið og hvenær ekki. Þannig að þegar maður sér götuhjólreiðamann að taka interval-æfingar upp brekku, þá virðist vera tilvalið að kveikja á rafmagninu og spýta sér fram úr viðkomandi upp brekkuna.

  En burtséð frá því hvaða leið fólk velur sér í hjólreiðunum er alla vega um að gera að byrja á því að skella á sig hjálminum og setjast á hnakkinn. Hjólreiðar eru tilvalið fjölskyldusport og mjög góð leið til að sameina fjölskylduna í frábærri útiveru.“

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is