2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Ekki biðjast afsökunar á því að vera eins og þú ert“

  „Ekki biðjast afsökunar á því að vera eins og þú ert. Allir verðskulda að vera til í rýminu sem þeir taka án athugasemda annarra,“ segir Sædís Karen Stefánsdóttir Walker.

   

  Í 27. tölublaði Vikunnar ræddu fimm konur um líkamsímynd, sjálfstraust og fleira því tengt. Þær sögðu meðal annars frá því hvað þær gera til að líða vel í eigin skinni og hvað þeim finnst felast í góðri sjálfsmynd, sjálfstrausti og heilsu. Sædís Karen Stefánsdóttir Walker, 26 ára, öryggisvörður í vopnaleit Keflavíkurflugvallar var ein þeirra.

  Fimm konur prýddu forsíðu 27. tölublaðs Vikunnar og ræddu m.a. óviðeigandi athugasemdir um vaxtarlag.

  „Fyrir mér snýst heilbrigði um að gera það sem lætur manni líða vel, andlega og líkamlega. Mér líður hvorki vel á líkama né sál ef ég borða ruslmat, hreyfi mig ekkert eða sleppi hugleiðslunni minni, svo ég sinni þessum atriðum eftir bestu getu, ásamt því að sofa nóg. Það hefur haldið mér frekar heilbrigðri, a.m.k. amar ekkert að mér í dag. Öll gildi eru í lagi og það kemur læknum alltaf á óvart að ég sé með fullkominn blóðþrýsting og blóðsykur af því ég er feit. Heilbrigði er óháð þyngd og stærð. Ég elska allt við sjálfa mig, sérstaklega hvað ég er jákvæð, hress og tilfinningarík þótt ég hafi gengið í gegnum margt drulluerfitt. Mér finnst mikilvægt að minna sig daglega á það sem maður er ánægður með í eigin fari og sætta sig við að vera eins og maður er. Það er líka mikilvægt að gera breytingar fyrir sjálfan sig, ekki af því að samfélagið segi manni að líta út á ákveðinn hátt. Eina sem skiptir máli er að vera góð manneskja; talan á vigtinni skiptir engu,“ segir Sædís.

  AUGLÝSING


  „Jákvæð líkamsímynd felst í að sjá sjálfan sig og tala við sig eins og maður gerir við þann sem maður elskar. Þú þarft að elska þig. Ekki biðjast afsökunar á því að vera eins og þú ert. Allir verðskulda að vera til í rýminu sem þeir taka án athugasemda annarra.“

  Í viðtalinu segir Sædís þá frá því að í gegnum ævina hefur hún reglulega fengið athugasemdir um holdafar sitt.

  „Ég var lögð í mikið einelti í grunnskóla fyrir að vera feit og lærði fljótt að fyrst ég væri feit hlyti ég að vera minna mikilvægur einstaklingur í samfélaginu, ég skipti ekki jafnmiklu máli og hinir sem voru ekki feitir. Ég er enn þá feit og finn enn fyrir þessum fordómum. Ég get varla leitað til læknis út af einhverju algjörlega ótengdu holdafari mínu án þess að vera minnt á að hreyfa mig og borða hollt. Sem ég geri þótt ég sé feit, ótrúlegt en satt,“ útskýrir hún.

  „Ég get varla leitað til læknis út af einhverju algjörlega ótengdu holdafari mínu án þess að vera minnt á að hreyfa mig og borða hollt.“

  Þegar blaðamaður spyr hvort hún haldi að fólk komi frekar með athugasemdir við holdafar þeirra sem eru holdmeiri en grannir eða öfugt segir Sædís: „Ég tek meira eftir því hjá þeim sem eru feitir af því að það er það sem ég upplifi en ég veit líka um grannt fólk sem hefur fengið athugasemdir. Ég fæ mjög reglulega komment frá bekkjarfélögum, vinum og þeirra fjölskyldum og mínum eigin ættingjum meira að segja. Ég hef oft fengið þá athugasemd frá ættingjum og vinum að ég væri nú svakalega falleg ef ég væri ekki svona feit.“

  Umfjöllunin í heild sinni er í 27. tbl. Vikunnar og einnig var rætt við Birnu Írisi Jónsdóttur, Evu Ružu Miljevic, Katrínu Þóru Sigurbjörnsdóttur og Valentínu Tinganelli.
  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Sjá einnig: Fimm á forsíðu ræða líkamsímynd og sjálfstraust

  Myndir / Hákon Davíð Björnsson og Unnur Magna
  Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi, og Sigurlín Ósk Hrafnsdóttir
  Föt / Vero Moda og Vila í Kringlunni

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is