2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Ekki sammála því að fegurðarsamkeppnir séu tímaskekkja“

  Fegurðarsamkeppnir hafa verið gagnrýndar í gegnum árin, sjálfsagt allt frá upphafi þeirra. Enda er vissulega erfitt að keppa í fegurð því sitt sýnist hverjum um hvað telst fallegt og hvað ekki og mælikvarði á fegurð er líklega frekar huglægur heldur en hlutlægur. Margir hafa jafnvel talað um að slíkar keppnir séu tímaskekkja og þær eigi að leggja niður.

   

  Nýlega fór fram fegurðarsamkeppnin Miss Universe Iceland þar sem þrjár drottningar voru krýndar. Drottningarnar þrjár, Birta Abiba Þórhallsdóttir, Hulda Vigdísardóttir og Hugrún Birta Egilsdóttir, sem prýða forsíðu Vikunnar að þessu sinni eru hvergi bangnar. Þær segjast líta á þátttökuna sem lærdóm og tækifæri og að þátttakan sé lærdómsríkur tími sem komi til með að lifa í minningunni.

  „Það eru til ótalmargar keppnir í heiminum með ólíkar áherslur og það er nauðsynlegt að kynna sér keppnina vel áður en maður skráir sig til leiks. Keppnin hér heima, og þær keppnir sem við Hugrún og Birta förum í úti, geta þó að mínu mati ekki talist tímaskekkjur því það að fylgjast vel með heimsfréttum, æfa framkomu, læra meiri ensku, hugsa vel um eigin heilsu, eignast nýja vini, fá aukið sjálfstraust og láta gott af sér leiða verður seint úrelt. Hins vegar finnst mér heitið fegurðarsamkeppni ekki lýsa þessu ferli nógu vel og ég hef stundum velt því fyrir mér hvort það sé ekki ein ástæða þess að fólk sem ekki þekkir til af eigin raun gagnrýni slíkar keppnir.“

  „Svona keppnir geta hjálpað stelpum, til dæmis með því að gefa þeim meira sjálfstraust.“

  „Ég persónulega er ekki sammála því að fegurðarsamkeppnir séu tímaskekkja,“ segir Birta. „Svona keppnir geta hjálpað stelpum, til dæmis með því að gefa þeim meira sjálfstraust. Þetta er líka risastór vettvangur til að tala um það sem skiptir þær máli og það felast fullt af tækifærum í þátttökunni.“

  AUGLÝSING


  Hugrún kinkar kolli og segir alla hafa rétt á sinni skoðun. „Það er val einstaklingsins sem fer þá leið að taka þátt í keppni sem þessari og það geta verið margar ástæður fyrir því að stelpur og ungar konur taka ákvörðun um að taka þátt. Ferlið er þroskandi, krefjandi og styrkjandi auk þess sem við kynnumst margar hverjar vinkonum til framtíðar.“

  Viðtalið í heild sinni má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar sem kemur á sölustaði í dag, fimmtudag.

  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Ljósmyndari / Unnur Magna
  Förðun / Arna Sif Eyberg Viðarsdóttir og Guðrún Edda Reynisdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is