2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Ella Magg er flugstjóri í eigin lífi, ekki farþegi

  Ella Magg er þekkt fyrir að hafa gaman af að láta reyna á ýmis mörk. Hún fer sínar eigin leiðir í lífinu og fyrri þó nokkru uppgötvaði hún hversu gott það er að vera maður sjálfur, stjórna örlögum sínum og láta aðra um að um að ráða fram úr sínu.

  „Ég er flugstjóri í mínu lífi, ekki farþegi,“ segir hún. „Ég er sterk og mjúk í senn, og veit hvað ég vil. Í sjö ár var ég einstæð móðir heima á Íslandi en eiginmanni mínum kynntist ég í Þórsmörk árið 1994. Ég fór fjallaferð með Útivist í febrúar til að aðstoða við undirbúning fyrir komu hóps Austurríkismanna, sem var á leið á skíðum yfir Fimmvörðuháls.  Ég neytti ekki áfengis þá og gat því vel fylgst með hvernig hitnaði í mannskapnum. Rudi kom til mín þetta kvöld, kynnti sig og sagði. „Ég heiti Rudi, ert þú gift? Eins og gerist og gengur leiddi brátt eitt af öðru, hann féll á hnén í snjóinn á fullu tungli í -17° C frosti og sagði við mig: „Ég er ítalskur, viltu kyssa mig?“ Ég gat ekki staðist þá freistingu. En allt gott endar einhvern tíma, hópurinn flaug aftur heim og ég sat eftir vitandi að lítið yrði úr þessu tæki ég ekki til minna ráða.“

  Ella er úrræðagóð og fann leið til að halda sambandinu gangandi og úr varð farsælt hjónaband. Hún býr nú í Austurríki þar sem hún hefur hannað heimili sitt frá gólfi upp í rjáfur. Allt í kringum húsið er gróskumikill garður sem hún hefur sömuleiðis skipulagt eftir eigin höfði. Þar sem garðinum sleppir tekur svo við skógurinn og þangað sækir Ella ró og innblástur. Ella er lærður hönnuður og málar og segir listina vera eins og hugleiðslu. Að eigin sögn málar hún léttar og ljúfar senur úr svefnherberginu og sér að auki algjörlega um alla endurnýjun í fataskápnum. „Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á tísku, sauma mikið sjálf og hannað meðal annars föt og hatta fyrir sjálfa mig. Ég get þess vegna klæðst akkúrat því sem mér passar og mér finnst flott hverju sinni með svolítið persónulegum sjarma. Ég er svo lánsöm að eiga góða vinkonu sem er algjör fagmanneskja í fatahönnun, tískuhönnuður að menntun. www.edithkaufmann.com. Hún teiknar nákvæm snið sem passa fyrir mig, ég legg þau bara á efnið og klippi, kápur og kjóla, allt sem hugurinn girnist og úti hef ég aðgang að mjög flottum og góðum efnum, til dæmis ull og silki.“

  Ella er hefur þegar fengið hugmynd að stórri sýningu sem hún er að vinna að og hyggst halda hér á landi. Nokkur verka hennar eru fáanleg í Artótekinu í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu og margt má sjá inn á heimsíðunni www.ellamagg.com. En þeir sem hafa áhuga á að kynnast frekar þessari skrautlegu og skemmtilegu konu og lesa um baráttu hennar við alkóhólisma og ástríðufullan áhuga á skot- og stangveiði ættu að grípa nýjustu Vikuna en þar er finna ýtarlegt viðtal við Elínu Magnúsdóttur sem tók sér listamannsnafnið Ella Magg.

  Ekki missa af þessum

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is