Endurnýjun og orka innanhúss 

Deila

- Auglýsing -

Umhverfi og innréttingar heimilisins hafa mikil áhrif á íbúana.

Litir, form og annað útlit setur manneskjur í ákveðnar stellingar. Flestir verða til að mynda hátíðlegir í fasi og framkomu þegar þeir stíga á marmaraflísar eða setjast undir kristalsljósakrónu. Það er hægt að ráða miklu um hvernig líðan heimilisfólks er með því að huga vel að hvernig efni eru valin og sett saman.

Gott er að gera ráð fyrir rými og aðstöðu til að hægt sé að stunda áhugamál sín þegar íbúðin er skipulögð. Handavinna, matreiðsla, tónlistariðkun eða hlustun, lestur, áhorf á kvikmyndir og söfnun eru bara nokkur dæmi um tómstundagaman fólks.

Endurnýting
Það er gaman að gefa gömlum munum nýtt líf eða breytt hlutverk. Með því að mála gömul húsgögn eða húsmuni er hægt að fá fram annað yfirbragð og hressa við hluti sem hafa verið orðnir slitnir og ljótir. Það má líka grípa til þess að nýta til annars en upphaflega hlutverk þeirra var. Gamlar kommóður og skápar verða oft glæsileg vaskainnrétting á baðherbergjum. Skúffurnar úr þeim geta líka orðið skemmtilegar hillur í barnaherbergi. Hægt er að mála þær og annað hvort snúa handfanginu upp eða niður og nýta það sem snaga. Skúffulausa grindina má síðan mála í sama lit, setja púða í botninn og nýta sem þægilegt sæti fyrir börnin. Gamlir tréstigar eru einnig til margra hluta nytsamlegir. Þeim má stilla upp við vegg eða festa þá og nota til að hengja á handklæði, blómapotta, tímarit og blöð, barnaleikföng, föt eða hvað annað sem hentar.

Litaval
Litir hafa mikil áhrif á skap og líðan manna. Margvíslegar vísindarannsóknir hafa verið gerðar á þessu og litafræði fjölbreytt fræðigrein. Áður en valdir eru litir á veggina er ágætt að kynna sér áhrif þeirra og velja með tilliti til þess. Það þykir ekki heppilegt að mála svefnherbergi í örvandi litum né heldur að blanda saman litatónum sem hafa andstæð áhrif þ.e. örvandi og slakandi.

Gamlar kommóður og skápar verða oft glæsileg vaskainnrétting á baðherbergjum. Skúffurnar úr þeim geta líka orðið skemmtilegar hillur í barnaherbergi.

Barnaherbergi
Í barnaherberginu er hægt að leika sér með samsetningar og form. Þessum íverustöðum er bæði ætlað að vera vinnurými og svefnherbergi. Þess vegna er hægt að leyfa sér að velja liti, myndir og húsgögn sem örva ímyndunarafl barnanna og hvetja þau til leikja. Húsgögn sem gegna margþættu hlutverki, eru t.d. bæði geymsla og sæti, eiga einkar vel við börn. Veggmyndir eru líka skemmtileg leið til að skapa líf og fjör í kringum börnin en sumir foreldrar kjósa að mála fremur loftið og notfæra sér þannig róandi áhrif lita og forma þegar barnið leggst út af til að sofna. Nú er líka til mikið úrval ljósa sem skapa vinalegt andrúmsloft og hlýju í barnaherberginu.

Gæludýraeigendum er ráðlagt að skapa einkarými rými fyrir dýrin. Tryggja að þau geti farið í búrið sitt, bælið eða eitthvert horn hússins og verið þar óáreitt.

Að skapa einkarými
Öll fjölskyldan á heimilið sameiginlega og þar er gott að njóta þess að vera saman. Allir fjölskyldumeðlimir þurfa þó sitt einkarými, stað þar sem hægt er að draga sig í hlé þegar viðkomandi þarf á að halda. Gæludýraeigendum er ráðlagt að skapa slíkt rými fyrir dýrin. Tryggja að þau geti farið í búrið sitt, bælið eða eitthvert horn hússins og verið þar óáreitt. Til að mennskir íbúar fái notið þess sama er hægt að setja upp lokrekkjur. Í gamla daga var þungum tjöldunum ætlað að halda hita en í dag nægja létt ógagnsæ tjöld til þess að hægt er að skapa sér algjöra kyrrð. Innitjöld geta gert sama gagn eða fataskápar með auðu gólfplássi. Það er ekkert því til fyrirstöðu að fullorðnir skapi sér samskonar var innan heimilisins annað hvort með eigin lokrekkju eða vinnuherbergi þar sem ekki má trufla nema nauðsyn beri til.

Að endurspegla áhugamál sín
Heimilið er griðastaður en þar fer einnig fram mikil sköpun. Þess vegna er gott að gera ráð fyrir rými og aðstöðu til að hægt sé að stunda áhugamál sín þegar íbúðin er skipulögð. Handavinna, matreiðsla, tónlistariðkun eða hlustun, lestur, áhorf á kvikmyndir og söfnun eru bara nokkur dæmi um tómstundagaman fólks. Það er gott að gefa slíku pláss innan veggja heimilisins og sjá til þess að auðvelt sé að grípa í þau verkfæri sem nauðsynleg eru til að stunda þá iðju sem gefur manni ánægju.

Það þykir ekki heppilegt að mála svefnherbergi í örvandi litum.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

 

 

- Advertisement -

Athugasemdir