Enginn á að skipta sér af holdafari annarra

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Sjálfsmynd og sjálfstraust haldast í hendur,“ segir Birna Íris Jónsdóttir, ein þeirra fimm kvenna sem eru í forsíðuviðtali Vikunnar. „Til að hafa gott sjálfstraust verður sjálfsmyndin að vera góð.“

Birna segir að sér finnist sjálfstraust felast í því að treysta á sjálfa sig í öllum aðstæðum, vera ánægð með sjálfa sig og elska sig af öllum lífs- og sálarkröftum.

„Það er alls ekki það að finnast þú yfir aðra hafin, heldur þvert á móti að vera með það góða sjálfsmynd að þú treystir þér til að mæta öllum og eiga samskipti við alla sem á vegi þínum verða af virðingu.“

Í viðtalinu ræða þær Birna Íris, Eva Ruža Miljevic, Katrín Þóra Sigurbjörnsdóttir, Sædís Karen Stefánsdóttir Walker og Valentína Tinganelli líkamsímynd, sjálfstraust og fleira því tengt.

Eva Ruža segir það dýrmæta tilfinningu að vera sátt við sjálfa sig. „Í dag er ég ótrúlega ánægð með mig og ekkert feimin við að viðurkenna það. Ekki af því að mér finnst ég svo sæt og vel vaxin heldur finnst mér ég komin á þann stað að vera loksins ánægð, sem er ótrúlega góð tilfinning. […] Ég er hrikalega ánægð að geta sagt þetta í dag, ég hefði ekki getað það fyrir nokkrum árum.“

„Það á bara enginn að skipta sér af holdafari annarra.“

Eva Ruža Miljevic, Birna Íris, Katrín Þóra Sigurbjörnsdóttir, Valentína Tinganelli og Sædís Karen Stefánsdóttir Walker.

Einkaþjálfarinn Katrín Þóra segir það augljóst að fólk líti neikvæðari augum á feitt fólk. Hún barðist sjálf við anorexíu og segir fólk hafa sagt hana heppna að geta klætt sig í þau föt sem hún vildi, jafnvel þótt greinilegt væri að hún væri óheilbrigð, 25 kílóum léttari þá en hún er í dag. Valentína segist halda að það sé kommentað meira á holdafar feitra þar sem það sé frekar samþykkt af samfélaginu að vera grannur.

„Það á bara enginn að skipta sér af holdafari annarra,“ segir Sædís. „Það hefur engin persónuleg áhrif á líf þeirra hvort þú ert feitur eða mjór, stuttur eða stór.“ Viðtalið má lesa í heild í nýjasta tölublaði Vikunnar sem kemur á sölustaði í dag, fimmtudag.

Sjá einnig: Fimm á forsíðu ræða líkamsímynd og sjálfstraust

Mynd / Unnur Magna

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira