2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Englarnir passa alltaf upp á mig“

  Fallhlífarstökkskóli, kafarapróf, vikulöng skoðunarferð um stærsta helli í heimi og píranafiskaveiðar í Amazon frumskóginum eru aðeins lítið brot af þeim ævintýrum sem Helga Bergmann hefur ratað í. Hún fer gjarnan ótroðnar slóðir á ferðalögum sínum og lætur ekkert stoppa sig.

   

  Blaðamaður segist vita að Helga sé eiginlega með annan fótinn í útlöndum og fari gjarnan ótroðnar slóðir á ferðalögum sínum. Helga kinkar brosandi kolli og segist ekki geta neitað því. „Ég skildi við eiginmann minn og barnsföður árið 2007. Við höfðum farið í ferðalög með börnin okkar en það voru að mestu hefðbundnar sólarlandaferðir. Fyrrverandi maðurinn minn rak eigið fyrirtæki svo það var ekki auðvelt að fara mikið í burtu og það var ekki heldur alltaf til aukapeningur til að ferðast. Eftir skilnaðinn má segja að ég hafi fengið ferðabakteríuna.“ Hún þagnar um stund.

  „Ég vildi ekkert endilega skilja,“ heldur hún áfram. „Auðvitað hefði verið besti kosturinn að halda fjölskyldunni saman. En við vorum alla vega búin að reyna allt sem við gátum. Ég er svo heppin að eiga fyrrverandi mann sem hugsar vel um börnin og þau eru ofsalega dugleg og sjálfstæð. Ég hef samt oft verið með samviskubit og hugsað að ég geti ekki farið frá þeim og hvað fólki muni eiginlega finnast. Ég ræddi þetta einu sinni við kennara barnanna minna sem er yndisleg kona. Ég var þá að fara til Víetnam og Laos og þegar ég sagði henni frá áhyggjum mínum sagði hún að ég vissi ekki hvað þetta væru mikil forréttindi, bæði fyrir mig og börnin. Þetta væri einstakt tækifæri til að læra og þroskast. Og börnin mín væru sterk og lærðu mikið af þessu auk þess sem ég væri mikil fyrirmynd fyrir þau og sýndi að maður geti allt ef viljinn er fyrir hendi. Ég hef haft það hugfast síðan.“

  Hélt að aftökusveit væri mætt
  Eftir skilnaðinn kynntist Helga íslenskum manni sem var nýkominn úr Suður-Ameríku reisu. „Korteri eftir fjármálahrunið 2008 fórum við saman til Indlands, Bhutan og Nepal. Það var kannski ekki alveg besta tímasetningin,“ segir Helga og skellir upp úr. „En ég segi nú stundum að ég sé heppnasta kona Íslands því hlutirnir hafa einhverja ótrúlega tilhneigingu til að reddast hjá mér. Við vorum sem betur fer búin að borga ferðina áður en hrunið skall á.“

  AUGLÝSING


  Þau skötuhjú ferðuðust um Indland og fóru yfir til Bhutan sem Helga segir að hafi verið einstök upplifun því Bhutan hafi lengið verið lokað land og fáir ferðamenn sem fengu að fara þangað. „Mér fundust það mikil forréttindi að fá þetta tækifæri og ferðin var mikið ævintýri frá byrjun til enda. Þessi þáverandi kærasti minn hafði kynnst Indverja sem hann hafði farið með í fjallgöngu á Indlandi og hjálpað honum að setja upp ferðaþjónustufyrirtæki. Þessi indverski vinur hans ferðaðist með okkur víða um Indland sem var alveg einstök upplifun.“

  Meðal annars ferðuðust þau til Sikkim sem Helga segir hafa krafist heilmikillar pappírsvinnu. Þar hafi verið tekið á móti þeim með rauðum dregli sem var þó ekki ætlaður þeim upphaflega. „Það átti að taka átta eða níu klukkutíma að keyra upp í Sikkim frá sléttum Indlands og ég hugsaði með mér að það hlyti að vera auðveldari leið. Ég fór því að skoða aðrar kosti til að komast þangað og fann ódýra þyrluferð. Og þyrluferðin var stórkostleg. Það var magnað að fljúga yfir Himalayafjöllin og sjá húsin sem eru byggð í snarbrattar hlíðarnar. Maður trúir því bara ekki að það sé hægt að byggja þarna; þetta er svo ótrúlegt. En með okkur í þyrlunni var ókunnugur maður sem var bara farþegi eins og við. Þegar við lentum svo í Sikkim sáum við að það var búið að leggja að rauðan dregil og meðfram honum stóðu alvopnaðir hermenn. Við vissum ekkert hvað var í gangi og ég man að ég fékk dúndrandi hjartslátt og óttaðist helst að þetta væri aftökusveit,“ segir Helga og skellir upp úr.

  „En þá var þessi maður í þyrlunni landbúnaðarráðherra Indlands og þess vegna var allur þessi viðbúnaður. Það var ansi skondið að sjá svo mynd af okkur Íslendingunum á forsíðu dagblaðsins í Sikkim næsta dag.“

  Eins og hún væri í kvikmynd með Indiana Jones
  Indverski vinur þeirra skötuhjúa fór með þau í gönguferð í dal sem liggur upp af Sikkim. Sérstakt leyfi þurfti til að fara inn í dalinn frá konungi dalsins en indverski leiðsögumaðurinn var vinur hans og þau skruppu því bara í kaffi til sonar hans þar sem gengið var frá leyfinu. Helga segir að þau hafi þó þurft að fara á skrifstofuna til að skrifa undir pappíra sem staðfestu að þau væru gestir í þorpinu og hún segir að það hafi verið afar frumstætt. „Það voru pappírar í öllum skúmaskotum, í öllum hillum og út um allt gólf. Og allt handskrifað á pappírana. Maður skildi ekki hvernig hægt var að leita í þessu öllu saman, og hvað þá að finna nokkuð.“

  Í dalnum í Sikkim er ævagamalt hof með yfir þrjú þúsund ára gömlum handritum, fatnaði og öðru slíku sem er vel varðveitt í þessu hofi að sögn Helgu. „Okkur var boðið að gista í sumarhúsi konungs dalsins, sem hljómaði mjög vel. En fyrstu nóttina gistum við í munkaskóla sem konungurinn hafði stofnað fyrir drengina í dalnum. Það var afskaplega frumstæð aðstaða og eftir þá upplifun minnkuðu nú væntingarnar til þessa sumarhúss,“ segir hún og hlær.

  Mynd/Hallur Karlsson

  „Við sváfum á hálmdýnum á gólfinu og það var alveg skelfilega kalt, enda vorum við komin hátt upp í fjöllin. Við vorum þarna við rætur fjallsins Kanchenjunga sem er þriðja hæsta fjall í heimi. Þetta er eiginlega sumarhúsaaðstaða þeirra sem búa í dalnum því þar hitnar svo gríðarlega á sumrin að íbúarnir þar fara upp í fjöllin til að kæla sig. Allt var mjög frumstætt þarna; en einstakt að fá að fylgjast með námi munkanna upprennandi. Það versta var samt olíulyktin, sem notuð er til kyndingar. Stækjan var svo mikil að ég varð að sofa með buff fyrir vitunum en gat samt varla andað. Næsta dag héldum við svo upp í hofið og það tók allan daginn. Þessi ganga var stórkostleg upplifun. Þarna voru engir nema við tvö, leiðsögumaðurinn okkar, kokkur, aðstoðurmaður hans og þrír burðarmenn. Þar var búið að leggja í gegnum aldirnar stíg með handlögðum steinvölum upp allan dalinn; við fórum yfir handgerðar hengibrýr og þarna héngu bænaflögg um allt. Svo þurftum við bara að ýta frá köngulóarvefjum til að geta gengið eftir stígunum. Mér leið eins og ég væri stödd í bíómynd með Indiana Jones og beið eftir að risastór steinn kæmi rúllandi á móti okkur ef við stigum á vitlausa steinvölu,“ segir Helga brosandi.

  Þegar í hofið var komið tók á móti þeim munkur sem gætti þess ásamt eiginkonu sinni. Hann heilsaði þeim en vildi ekki láta taka mynd af sér. „Hann sagðist alltaf veikjast eftir myndatökur en gerði sér ekki grein fyrir því að bakteríurnar smitast með handabandi. En þau hjónin voru einstaklega gestrisin og tóku vel á móti okkur. Sumarhús konungsins var kofi á stultum með timburgólfi sem var búið til úr trjánum í kring og maður horfði bara niður í jörðina fyrir neðan sig í gegnum raufarnar í gólfinu. Aftur sváfum við á hálmdýnum og þótt ég hafi klætt mig í föðurland, ullarfatnað og öll þau föt sem ég hafði meðferðis skalf ég úr kulda alla nóttina. En það var svo sannarlega þess virði. Ég mun aldrei gleyma því þegar við sátum úti um kvöldið og horfðum á sólina setjast niður yfir Himalayafjöllunum. Svo var ferðin til Bhutan líka ógleymanleg.“

  Síðasta himnaríki á jörðu
  Bhutan, sem stundum er talað um sem síðasta stóra konungsveldi Himalayafjallanna (e. the last great Himalayan kingdom) og oft kallað The Last Shangri-la, eða síðasta himnaríki á jörðu, er ekki beinlínis hefðbundinn ferðamannastaður og hefur haft það orð á sér að þangað fái bara heppnir og vel stæðir ferðamenn að fara. Helga segir að sér finnist hún ekki að ástæðulausu hafa verið heppnasta kona Íslands þegar hún fékk tækifæri til að heimsækja Bhutan.

  Mynd/Hallur Karlsson

  „Eina leiðin til að fá að heimsækja landið var með því að fara í gegnum aðila frá Bhutan. Við keyptum ferð í gegnum ferðaskrifstofu þar og þurftum líka að leigja bíl og bílstjóra og fararstjóra frá Bhutan. Annars fær maður ekki að koma inn í landið. Við þurftum líka að ferðast eftir fyrirfram ákveðinni ferðalýsingu; þeir loka bara af stöðum og héruðum eins og þeim sýnist og maður fær ekki að fara hvert sem mann dettur í hug. Til að komast inn til Bhutan þurfti að fara í gegnum hlið þar sem skórnir okkar og dekkin á bílnum voru sprautuð með sótthreinsandi vökva. Og ströng viðurlög eru við því að henda rusli á götu úti. Svo voru allir ofboðslega kurteisir og almennilegir þarna. Þetta var stórkostleg upplifun að öllu leyti. Það er varla hægt að lýsa því hvernig það var til dæmis að keyra þarna, umvafin Himalayafjöllunum, í þessari dásamlega fallegu og hreinu náttúru.“

  Helga segir að upphaflega hafi þau bara ætlað að ferðast um Indland og Bhutan en eftir smávegis eftirgrennslan hafi hún séð að þau gætu stoppað í Katmandu þar sem var millilent á heimleiðinni til Íslands. „Svo mér fannst engin spurning að stoppa þar og fara til Nepal í leiðinni, fyrst við vorum nú komin alla þessa leið hvort eð var,“ segir Helga brosandi. „Ég er ofboðslega þakklát fyrir það í dag því ég fékk tækifæri til að sjá mörg ævaforn og ómetanleg menningarverðmæti sem eru núna ónýt eftir að hafa eyðilagst í stórum jarðskjálfta sem reið yfir þetta hérað í Nepal fyrir nokkrum árum.“

  „Bingó! Þarna var merkið komið“
  Helga segir þessa ferð til Indlands, Bhutan og Nepal líklega vera eftirminnilegasta af þeim fjölmörgu ferðum sem hún hefur farið frá árinu 2007. Ef til vill vegna þess að þetta var fyrsta ævintýraferðin og hún hafi orðið upphafið að mörgum slíkum síðan. Helga hefur líka verið óhrædd við að ferðast ein og árið 2014 fór hún einsömul í fimm vikna ferð til Víetnam og Laos eftir að hafa rekist á grein á netinu um stærsta helli í heimi, Son Doong, sem 286 ferðamönnum stæði til boða að skoða í sérstökum ferðum það árið.

  „Myndirnar sem fylgdu greinininni voru gjörsamlega sturlaðar, þær voru svo flottar,“ segir Helga. „Ég var eiginlega friðlaus; mig langaði svo að fara í þessa vikulöngu skoðunarferð sem var verið að auglýsa. Ég þurfti samt að hugsa mig aðeins um; þetta var auðvitað rándýrt og svo var ég líka aðeins að velta fyrir mér hvort ég ætti að fara ein. Ég var nýbyrjuð í gönguhóp á þessum tíma og ákvað að prófa að setja inn auglýsingu á Facebook-síðu hópsins og spyrja hvort einhver þar vildi koma með mér en fólk þekkti mig ekki nógu vel til að fara með í fimm vikna ferð. Svo var þessi ferð líka í lok ágúst og fólk löngu búið að ráðstafa sumarfríinu sínu. Þannig að eftir smá umhugsun ákvað ég bara að skella mér ein.“

  „Ég hugsaði með mér að ég yrði að fá eitthvað merki og sagði í huganum; Guð, gefðu mér merki.“

  En það var ekki sjálfgefið að Helga fengi að fara í þessa hellaferð. Hún segist hafa verið búin að finna ferðaskrifstofuna sem sá um ferðina og hún hafi strax sent inn umsókn þar sem hún þurfti að svara fjölmörgum spurningum og gera grein fyrir því hvers vegna hún teldi sig hæfa til að fara í þessa ferð. „Það var tekið skýrt fram að þessi ferð myndi reyna mikið á líkamlegt atgervi og þol þátttakenda,“ segir Helga.

  „Ég týndi til allt sem ég var búin að vera að gera; fara í fjölmargar göngur, fjallaferðir, vera á skíðum, að ég væri með köfunarpróf og fallhlífarstökkspróf. Og umsóknin mín var samþykkt. En þegar kom að því að borga staðfestingargjaldið man ég að ég sat við tölvuna og hugsaði hvort ég væri virkilega að fara ein í þessa ferð. Svo ég hugsaði með mér að ég yrði að fá eitthvað merki og sagði í huganum; Guð, gefðu mér merki. Á ég að fara eða ekki? Svo sit ég við tölvuskjáinn og er að fletta niður eftir Facebook og þá poppar þar upp grein um tíu ástæður þess að ferðast einn,“ segir Helga og skellir upp úr. „Bingó! Þarna fannst mér merkið vera komið og ég gekk frá staðfestingargjaldinu.“

  Helga segist hafa verið ákveðin í að undirbúa sig vel fyrir ferðina þar sem mikil áhersla var lögð á að þátttakendur væru í góðu líkamlegu formi. „Ég undirbjó mig til dæmis með því að ganga mjög reglulega á Esjuna. Ég veit að það sést ekki utan á mér en ég er með mjög slæma liðagigt og þarf að taka gigtarlyf vegna hennar, það koma dagar þar sem ég þarf að hvíla mig vel. Svo ég vissi að þetta yrði alveg átak fyrir mig. Ég óttaðist að verða eftirbátur hinna og ráða ekki við þetta en ég hélt svo alveg í við alla. Það var tekið fram í umsóknarferlinu að fararstjórarnir mættu senda mann til baka ef þeir myndu meta það sem svo að maður réði ekki við álagið. Og einn þátttakandi var sendur til baka eftir hálftíma göngu í frumskóginum.“

  Vosbúðin var þess virði
  Ferðin var farin frá Víetnam í lok ágúst, þegar regntímabilið var að hefjast. Helga segist ekki hafa áttað sig á því þegar hún ákvað að fara í síðustu skoðunarferðina sem var í boði. „Þegar ég fattaði það þá hugsaði ég með mér að mig langaði að fá smá sól í leiðinni svo ég pantaði mér flug viku áður en skoðunarferðin átti að hefjast. Sem var mikil heppni því ég vandist hitanum og ég var sú eina af þessum hóp sem fann ekkert fyrir honum en hinir þátttakendurnir, sem komu deginum áður en skoðunarferðin hófst, voru að bugast vegna hans. Það var hátt í fjörutíu stiga hiti allan tímann og rakinn eftir því.“

  Helga við hellismunna Son Doong, stærsta hellis í heimi.

  Ferðin hófst á tveggja daga göngu í frumskóginum þar sem gengið var eftir árfarvegi mest allan tímann og gist í hellum á leiðinni. „Jú, þetta var vosbúð,“ svarar Helga þegar blaðamaður spyr hvort svo hafi ekki verið. „Við vorum blaut í fæturna allan tímann og það þornar ekkert í þessum raka. Ekki heldur í hellunum því þar er alveg sami rakinn. En maður var fljótur að gleyma því. Það er ekki hægt að lýsa því með orðum hvað þetta var stórbrotið og mikilfenglegt. Og upplifunin ótrúleg.“

  Þegar hópurinn kom að hellisopi stóra hellisins varð að síga niður tvö hundruð metra til að komast í hellinn. „Við vorum með hjálm og höfuðljós og í sigbelti og sigum niður í svartamyrkri. Svo þurftum við að vaða upp að mitti yfir á sem rennur í gegnum hellinn; þess vegna er hellirinn bara fær þegar ekki er regntímabil,“ segir Helga þar sem áin fyllir hellinn á þeim tíma.

  „Hellirinn er allur neðanjarðar og alveg risa stór svo það var ekki möguleiki að komast yfir að skoða allt sem í honum er. Við sáum meðal annars mörg þúsund ára steingervinga, hellaperlur, sjötíu metra háa dropasteina, alls konar smádýr og gróður sem finnst hvergi annars staðar í heiminum, örmjó tré sem eru að teygja sig upp í sólina þar sem hellaloftið hefur hrunið niður og myndað smá glætu. Við klöngruðumst yfir hæðir og hóla, urð og grjót og þetta tók alveg á. Þarna eru „strendur“ þar sem settar voru upp tjaldbúðir þar sem við gistum. Þarna var auðvitað ekkert símasamband og ekkert utanaðkomandi sem gat truflað. Við fengum geggjaðan mat sem var eldaður á staðnum og við borðuðum við varðeld. Svo horfði maður upp í gegnum hellisopið og upp í stjörnubjartan himininn. Það var eins og maður væri algjörlega einn í heiminum í hyldýpi jarðar,“ segir Helga og það er augljóst á svipnum sem færist yfir andlitið að hún skrökvar engu um einstaka upplifunina.

  Hasar í háloftunum
  Aðspurð hvort áhugamálin tengist öll ferðalögum svarar Helga að þau tengist útivist og hreyfingu. Hún fari mikið á skíði, fjallaskíði og í göngur auk þess sem hún hjóli talsvert. Auk þess hefur hún lokið prófi í köfun og fallhlífarstökki.

  Er ekkert sem þú þorir ekki að prófa?
  „Ég er búin að læra það að láta ekkert stoppa mig. Mér finnst gott að ögra sjálfri mér og fara út fyrir boxið og er stanslaust að því. Ég ákvað samt að ég myndi alltaf taka köfunina fram yfir fallhlífarstökkið því stökkið miðast allt út frá vindi. Það er jafnvel hægt að eyða heilum degi við flugbrautina án þess að komast í loftið og það finnst mér svo mikil tímasóun. Það er ekki alveg ég að sitja bara og bíða,“ segir Helga og hlær. „Ég vil alltaf fara, gera og græja strax. Mig langar ekki að bíða. En fallhlífarstökkið er líklega stærsta skrefið sem ég hef tekið út fyrir þægindarammann.“

  Mynd/Hallur Karlsson

  Aðspurð hvernig það hafi komið til að hún hafi ákveðið að prófa fallhlífarstökk svarar Helga að hún hafi á sínum tíma kynnst manni frá Lúxemborg sem var mjög efnaður og bauð henni oft að hitta sig hér og þar í heiminum. „Við deituðum í svolítinn tíma. Hann sendi mér bara flugmiða og ég fór að hitta hann og var dekruð eins og drottning. Hann hafði dreymt um að læra fallhlífarstökk og spurði hvort ég væri ekki til í að fara með honum í fallhlífarstökkskóla á Spáni í hans boði. Ég sló bara til og þótt þetta hafi verið brjálæðislega gaman þá varð ég vissulega ansi hrædd þegar ég stóð þarna í opinni flugvél í fimmtán þúsund feta hæð og horfði niður á jörðina sem virtist agnarsmá í órafjarlægð. En ég lét mig nú samt hafa það. Fyrsta stökkið var með kennara, þar sem maður er í raun festur framan á hann, og ég var svo heppin að skólastjóri flugstökkskólans vildi hafa mig með sér, líklega af því að ég er svo lítil og létt og meðfærileg,“ segir Helga og skellir upp úr.

  „Daginn eftir átti maður svo að stökkva einn og ég viðurkenni að það fannst mér brjálæðislega hættulegt. Það var búið að sýna okkur á myndum flugbrautina sem við áttum að lenda á, en raunveruleikinn er allt annar. Ég óttaðist að átta mig ekki á því hvar ég ætti að lenda og bara hvernig ég ætti að fara að þessu. En ég var svo heppin að daginn sem við áttum að stökkva var svo mikill vindur að allir sem voru með færri en fimm hundruð stökk að baki máttu ekki stökkva einir. Kennararnir buðu þeim sem vildu að fara annað stökk með kennara og ég ákvað að gera það því mér fannst best að fara bara strax annað stökk. Ég spurði reyndar hvort ég mætti stýra sjálf til að fá tilfinninguna fyrir því og það gekk svo vel að það efldi sjálfstraustið. Svo kom að því að stökkva í þriðja sinn og þá var veðrið í fínu lagi. Ég stökk út með tvo kennara mér við hlið í frjálsu falli en þegar þeir ætluðu að grípa í frauðlínuna sem á að vera innan í búningnum, svo þeir geti gripið í nemandann og haldið í hann, kom smá fát á þá því frauðlínuna vantaði. Það var bara ekkert hald á búningnum og þeir gátu ekki haldið í mig nema með því að grípa með annarri hendi í fótinn á mér og hinni í handlegginn. Ekki besta gripið og í raun mjög erfitt fyrir þá.“

  „Ég hef fundið það frá því ég var krakki að ég hef alltaf verið með rosalega sterka vernd; það vaka yfir mér englar og ég bið þá oft að vaka yfir mér.“

  Helga segist ekki hafa áttað sig á þessu fyrr en hún var lent. „Sem betur fer, því það hefði getað komið á mig panikk sem hefði getað farið illa. Ég hef séð upptöku af þessu og það er greinilegt að kennararnir máttu hafa sig alla við til að bjarga málunum. En ég var sú síðasta sem stökk og þetta var alveg magnað; mér fannst ég alein í heiminum. Ég ætlaði ekki að vilja fara niður. Það er nefnilega svo ótrúlegt að þegar maður er kominn niður í sjö þúsund fet og getur opnað fallhlífina þá dettur maður í algjöra þögn. Ég hef aldrei upplifað svona mikla þögn. Maður heyrir ekki í fuglum, maður heyrir ekki í neinu. Það er bara eins og þú sért einhvers staðar úti í geimi,“ segir Helga, greinilega uppveðruð af minningunni, jafnvel þótt ástandið í háloftunum hefði getað orðið mjög alvarlegt.

  Ertu ekki hrædd við neitt?
  „Ég hef einu sinni áður verið spurð að því hvort ég hræðist ekkert og það fékk mig til að hugsa. Og jú, það er eitt sem ég er hrædd við; að börnin mín fari á undan mér. Get ekki ímyndað mér að neitt í heiminum sé verra en það. Mjög margir hafa sagt við mig að það væri ekki hægt að fá þá til að stökkva út úr flugvél nema kannski til að bjarga lífi sínu. Og ég skil það svo sem, þetta er alveg örugglega mesta hræðslutilfinning sem ég hef fundið fyrir. Ég þurfti mörgum sinnum að kyngja hræðslukögglinum í hálsinum og segja við sjálfa mig að ég ætlaði ekki að hætta við. Ég þurfti hreinlega að neyða mig út úr flugvélinni. En ég var ákveðin í að gefast ekki upp; ég er ekki týpan til að hætta við. Ég er þrjósk og hef komist í gegnum alls konar hindranir á lífsleiðinni svo ég læt ekki smávegis hræðslu stoppa mig í að gera það sem ég ætla mér.“

  Magapest í miðjum Amazon frumskóginum
  Það er augljóst af því að tala við Helgu að hún á endalausar ævintýrasögur í pokahorninu. Þegar blaðamaður spyr hvað sé eftirminnilegast segir hún það vera ferðina til Indlands, Bhutan og Nepal. „Líklega af því að það var fyrsta svona ævintýraferðin. En viltu heyra um það neyðarlegasta sem fyrir mig hefur komið?“ spyr Helga hlæjandi og blaðamaður kinkar kolli.

  „Ég var mest hrædd um að píranafiskarnir kæmu æðandi upp úr ánni á eftir mér eins og maður sér í teiknimyndunum.“

  „Neyðarlegasta atvikið sem ég hef lent í á mínum ferðalögum, eða bara á ævi minni, var þegar ég fór með vinkonu minni í þriggja mánaða reisu um Suður-Ameríku. Við heimsóttum Kúbu, Kólumbíu, Ekvador, Galapagos, Chile, Páskaeyju, Argentínu og Perú. Við fórum í mjög ævintýralega ferð inn í Amazon frumskóginn og meðal annars í siglingu á Amazon þar sem átti að veiða píranafiska. Ég fékk einhverja magapest daginn sem sú sigling var farin og var búin að vera á kamrinum allan morguninn. Ég vildi auðvitað ekki missa af þessari siglingu og vonaði að magapestin væri bara búin og lét mig hafa það að fara. Siglingin var farin í litlum, opnum trébát með sjö farþegum. Fljótlega eftir að búið var að kasta veiðarfærunum út fann ég að mér var farið að líða hræðilega illa í maganum og það voru góð ráð dýr. Við vorum þarna inni í sefi í miðjum Amazon frumskóginum og ekkert hægt að fara eða stoppa. Svo ég bað stýrimanninn um að skipta við mig því ég yrði að ná að hægja mér. Þannig að ég hentist þarna aftur í og stakk rassinum út fyrir borðstokkinn og já, rest is history,“ segir Helga og skellihlær.

  „Það fór auðvitað ekki framhjá neinum þarna um borð hvað væri í gangi en auðvitað var ekkert annað í stöðunni en afgreiða málið svona. Og þetta var ekkert bara einu sinni. Nei nei, þetta gerðist aftur og aftur. Ég var mest hrædd um að píranafiskarnir kæmu æðandi upp úr ánni á eftir mér eins og maður sér í teiknimyndunum en það gerðist nú sem betur fer ekki. Versta var að það átti svo að borða fenginn sem veiddist þarna í ánni, við höfðum nú ekki lyst á því en enginn annar matur var á boðstólum. Svo við færðum okkur um set. Á þessum tíma gat ég auðvitað ekki hlegið en eftir á að hyggja var þetta bara brjálæðislega fyndið.“

  Eftir að blaðamaður hefur jafnað sig á hláturkastinu spyr hann hver mesta upplifunin við ferðalögin hafi verið. „Það er rosalega erfitt að nefna bara eitthvað eitt,“ segir Helga. „Ég myndi segja að mesta upplifunin væri að finna hjálpsemina og kærleikann frá fólki. Allir staðir hafa sinn sjarma en bara það að finna þennan kærleik og hjálpsemi alls staðar í heiminum er ómetanlegt. Og það er ekkert mál að vera kona og ferðast ein. Ef maður sjálfur sýnir velvild, brosir, tekur fólki fagnandi, er opinn og spjallar og er með opinn huga þá er manni tekið opnum örmum. Ef maður er neikvæður þá kemur maður að lokuðum dyrum. Auðvitað þarf maður að vera á varðbergi og ana ekki út í hættulegar aðstæður en mér finnst mikilvægt að ferðast með opinn huga og vera jákvæð fyrir góðmennsku mannfólksins. Mér finnst fólk alls staðar vera tilbúið að hjálpa ef maður lendir í aðstæðum þar sem maður þarf aðstoð. Ég hef líka verið dugleg að leggja ferðalögin mín svolítið í hendur almættisins. Ég hef fundið það frá því ég var krakki að ég hef alltaf verið með rosalega sterka vernd; það vaka yfir mér englar og ég bið þá oft að vaka yfir mér. Og það bregst ekki að jafnvel þótt ég sé komin í aðstæður þar sem mér hefur kannski ekki alveg litist á blikuna, þá hef ég beðið englana um að passa upp á mig. Og englarnir passa alltaf upp á mig.“

  Myndir // Hallur Karlsson
  Förðun // Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is