2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Er búin að fyrirgefa eineltið

  „Það opnast bara sárin hjá manni þegar maður er í svona ferli og allt sem er gamalt og óuppgert brýst út,“ segir Olga Björt Þórðardóttir sem dag einn fékk taugaáfall í hádegishléinu í vinnunni eftir mikið álag. Í dag ritstýrir hún og rekur bæjarblað og finnst mikilvægt að flytja jákvæðar fréttir og segja frá því góða í fólki.

  Olga Björt fæddist í Reykjavík en ólst upp í Njarðvík. Hún flutti í Hafnarfjörð fyrir tíu árum og segist kalla sig Hafnfirðing, þrátt fyrir að vera ekki borin og barnfædd í bænum. „Ég kalla mig Hafnfirðing, læt engan segja mér neitt annað, því ég bý hér,“ segir hún og brosir. „Þegar ég bjó í Njarðvík var ég Njarðvíkingur, þegar ég bjó í Reykjavík var ég Reykvíkingur og nú er ég Hafnfirðingur. Og það er brot af þessu öllu í mér sem manneskju.“ Hún segist afar ánægð með að hafa flutt til Hafnarfjarðar. „Á þessum tíu árum hef ég uppgötvað hvað þetta er magnaður bær. Ég var ekki byrjuð í námi í blaða- og fréttamennsku þegar ég flutti hingað og ekki farin að fara um bæinn sem blaðamaður, svo það er ekki það. Hafnarfjörður er bara ótrúlega fallegur bær og það er svo margt búið að gerast hér á örfáum árum. Ég sé mikla breytingu á bænum frá því ég flutti hingað, sérstaklega hvað menninguna varðar en hún blómstrar.“

  Búin að fyrirgefa eineltið
  Olga bjó í Njarðvík til 22 ára aldurs og segir það gott samfélag og að þar sé gott að alast upp. Hún er sjálf alin upp á kærleiksríku heimili yndislegra foreldra. Pabbi hennar býr þar enn svo hún fer þangað reglulega og líður alltaf vel þar. Þannig var það þó ekki alltaf.
  Frá átta ára aldri var Olga lögð í einelti af skólasystrum sínum og eineltið stóð meira og minna yfir næstu átta árin. „Það var verið að gera lítið úr mér fyrir framan aðra og ég var útilokuð úr hópnum, var höfð að aðhlátursefni einhverra hluta vegna. Ég átti auðvelt með nám en gekk illa félagslega í skólanum. Svo var ég mjög grönn og með stórar tennur. Dálítið eins og ljóti andarunginn sem fríkkaði svo og vann fegurðarsamkeppni sautján ára,“ segir Olga og brosir út í annað. „Ég lá kannski vel við höggi því ég átti erfitt með að svara fyrir mig. Ég fór bara heim eftir skóla og grét þar og kveið fyrir því að fara í skólann á næstum hverjum degi.“

  Olga segist ekki finna til biturðar í garð þeirra sem lögðu hana í einelti. „Ég er búin að fyrirgefa þeim og hef líka áttað mig á því að krakkar eiga alls konar samskipti. Kannski fannst þeim sjálfum þetta ekki vera einelti. Og af því að ég sagði aldrei neitt, heldur labbaði bara út úr aðstæðunum og grét afsíðis, þá áttaði sig kannski enginn á því að það væri verið að særa mig. Ég er viss um að í mörgum árgöngum voru einhverjir sem áttuðu sig engan veginn á því hvaða áhrif þeir höfðu á aðra með sinni hegðun af því að enginn sagði neitt. Ég er samt ekki að segja að fólk bjóði upp á það að vera lagt í einelti. Ég bara gat ekki staðið með sjálfri mér.“

  Þáttur þeirra sem standa hjá og eru ekki gerendur segir Olga að sé mikilvægur, sérstaklega ef þolendur eiga sjálfir erfitt með að svara fyrir sig og setja mörk. „Það er undir okkur foreldrunum komið að innleiða hjá börnunum hvernig á að koma fram við aðra. Og það er gott að hafa það í huga að það hvernig þú kemur fram við einhvern strax í grunnskóla getur haft áhrif á fullorðinsárunum. Tengslanetið mitt er til dæmis mjög sterkt og nær alveg aftur til grunnskólaáranna. Manneskjur sem ég kynntist á þeim árum og ég kom alltaf vel fram við eru mikilvægar í mínu tengslaneti í dag. Foreldrar mínir kenndu mér og systkinum mínum það strax í æsku að koma alltaf vel fram við aðra en kannski áttuðu þau sig ekki alveg á því hvernig mér leið til að kenna mér hvernig ég ætti að láta aðra koma fram við mig.“

  AUGLÝSING


  Furðuleg drottningartíð
  Þegar Olga var sextán ára fór hún á tískufyrirsætunámskeið hjá Gústaf Guðmundssyni ljósmyndara og hann tók af henni ljósmyndir sem heppnuðust vel. „Ég veit ekki hvað gerðist þarna upp úr fimmtán ára aldrinum en ég fríkkaði heilmikið. Var eins og ljóti andarunginn sem gjörbreyttist. Einhver benti á mig fyrir fegurðarsamkeppnina Ungfrú Suðurnes svo ég lét konuna sem sá um þá keppni fá þessar myndir og var tekin inn í keppnina. Þetta var alveg nýtt fyrir mér. Það hafði aldrei neinn gefið neitt út á það að ég væri eitthvað sæt og mér fannst ég ekkert spes,“ segir Olga og skellir upp úr. „Ég var ómáluð í íþróttagalla fram eftir aldri. Svo fór ég í þessa keppni, þegar ég var sautján að verða átján, lærði að farða mig og ganga á háum hælum, sem ég hafði aldrei gert áður, og fór að ganga í öðruvísi fötum. Þetta var heilmikil reynsla og jú, upphefð líka. Mér fannst ég nú hvorki þétt né feit áður en mér var samt sagt að létta mig og ég grennti mig um tólf kíló. Ég man að ég bjóst alls ekki við að vinna, það var svo fjarri mér. Svo ég varð steinhissa á að vera valin ungfrú Suðurnes og svo var ég líka kosin ljósmyndafyrirsæta Suðurnesja.“

  „Þessir fjórtán mánuðir mínir sem ég bar titilinn voru furðuleg drottningartíð“

  Olga komst ekki í úrslit í aðalkeppninni, Ungfrú Ísland, og segir að Suðurnesjabúar hafi ekki verið á eitt sáttir við úrslitin. „Það voru óvenju margir þátttakendur þetta árið og í fyrsta sinn, og eina held ég, voru tíu stúlkur valdar í úrslit. Einhverra hluta vegna var ákveðið að engin sautján ára stúlka færi í úrslitin, hún ætti bara að koma aftur seinna. Einn dómaranna benti mér á að koma aftur eftir tvö ár en ég hafði ekki áhuga á því. Það var sérstakur tíðarandi á þessum tíma og Suðurnesjamenn voru ekkert ánægðir með að það skyldi vera búið að upphefja mig sem manneskjuna sem ætti eftir að ná langt í Ungfrú Ísland en komst svo ekki í úrslit. Sem einhver dómnefnd ákvað auðvitað bara. Við vorum þrjár frá Suðurnesjunum sem tókum þátt en ég held að vonbrigði Suðurnesjamanna hafi einna helst bitnað á mér. Þessir fjórtán mánuðir mínir sem ég bar titilinn voru furðuleg drottningartíð,“ segir Olga hugsi og þagnar um stund.

  Fáir vissu alla söguna
  Örfáum vikum áður en Olga átti að krýna arftaka sinn sem ungfrú Suðurnes, árið 1991, fór Olga í partí með vinkonu sinni í einu sveitarfélagi á Suðurnesjum. Þar var aðallega staddur hópur stráka sem einhverra hluta vegna voru búnir að krúnuraka hver annan og sumbla mikið. Á einhverjum tímapunkti sagði einn þeirra: „Hey, klippum Olgu!“
  „Ég hélt að þeir væru að grínast en svo sá ég einn þeirra taka sér stór saumaskæri í hönd og ég hljóp inn í næsta herbergi og reyndi að loka að mér en tókst það ekki. Tveir strákar héldu mér niðri á bedda í herbergi á meðan sá þriðji klippti stóran hluta af hári mínu hægra megin. Ég fékk áfall og vikurnar á eftir var ég dofin og döpur. Ég kenndi sjálfri mér um og hataði sjálfa mig fyrir að hafa verið þarna og lent í þessu.“

  Olga segir þetta hafa verið fljótt að fréttast í litla samfélaginu og ýmsar útgáfur af atburðinum hafi farið á kreik. Hún hafi til dæmis heyrt sögur af því hvernig hún gæti sjálfri sér um kennt fyrir að hafa farið í þetta partí, hún hlyti að hafa boðið upp á þetta. „Ég lagði inn kæru og ég man enn mótlætið sem fylgdi því að standa með sjálfri mér. En ég varð að halda mínu striki því ég átti að fara að krýna arftaka minn innan örfárra vikna. Á krýningarkvöldinu var hárið á mér greitt þannig að áverkarnir sáust merkilega lítið. Kórónan var þung og stór og það þurfti margar spennur til að halda henni. Þegar kom svo að því að krýna arftaka minn náði ég ekki kórónunni af mér því ég fann ekki síðustu spennuna. Rödd kynnisins ómaði í hátalarakerfinu þegar hann sagði hátt og snjallt að það gæti verið erfitt að láta af völdum og allur salurinn hló. Ég brosti í gegnum afturkreist tárin og komst einhvern veginn í gegnum það að klára krýninguna.“

  Á þessum tíma voru tvö bæjarblöð á Suðurnesjum, Víkurfréttir og Suðurnesjafréttir. Á forsíðu næsta tölublaðs þess síðarnefnda eftir krýningarkvöldið stóð fyrirsögnin: „Kórónan sat föst á höfði Olgu“ ásamt mynd af henni að krýna. „Þetta blað fór inn á öll heimili og fyrirtæki á Suðurnesjum,“ segir Olga, „en örfáir vissu alla söguna. Þarna var ég nítján ára. Suma daga langaði mig að deyja. Aðrir dagar voru betri. En þetta atvik, þessi forsíða og þetta ár urðu stærstu ástæður þess að ég flutti á endanum frá Suðurnesjum. Mér fannst ég óvelkomin þar, eins og ég væri ekki nóg og hefði brugðist.“

  Olga flutti til Reykjavíkur árið 1994. „Ég var samt týnd því maður tekur alltaf sjálfan sig með sér hvert sem er, þótt maður fari úr aðstæðunum. Ég hafði verið í Menntaskólanum í Reykjavík í tvö ár en hætti og fór að vinna.“ Olga segir að þrátt fyrir að hún hafi verið brotin og glímt við þessa tilfinningu að vera ekki nóg, hafi hún alltaf staðið sig vel í vinnu og náð góðum árangri. „En ég stóð voða lítið með mér og það fylgdi mér langt fram á fullorðinsár að finnast ég ekki eiga neitt betra skilið, alveg sama hvaða ákvarðanir ég tók.“

  Ætlaði að verða prestur
  Lengi vel segist Olga hafa ætlað sér að verða prestur því hún hafi haft mikinn áhuga á sálgæslu. „Þegar ég var um þrítugt hugsaði ég að ég yrði að klára stúdentinn til að komast í háskóla og ákvað að fara í Fjölbrautaskólann í Breiðholti, FB, þar sem ég bjó í hverfinu. Og ætlaði svo að fara í Háskóla Íslands að læra guðfræði. Í FB kynntist ég fjölmiðlafræði og kolféll fyrir henni. Ég tók alla áfanga sem ég gat sem tengdust henni og gekk mjög vel. Ég fann að þetta var eitthvað sem mig langaði að gera og annar kennaranna sem kenndu mér fjölmiðlafræðina sagði að ég ætti örugglega eftir að njóta mín betur í fjölmiðlum en í guðfræði.“

  Lokaverkefni Olgu í fjölmiðlafræði í FB fjallaði um fyrirmyndir þar sem hún tók viðtöl við feðga, feðgin og mæðgin sem höfðu valið sama starfsvettvang í lífinu. Ein af þeim sem hún ræddi við var Jóna Hrönn Bolladóttir prestur. „Ég nefndi við hana að mig langaði að verða sálgæsluaðili en þá benti Jóna Hrönn mér á að ég gæti vel stundað sálgæslu í gegnum fjölmiðlun með því að hafa áhrif á samfélagið og draga inn í minn fjölmiðil það sem mig langaði að koma áleiðis frekar en að vera maður á mann.“
  Olga ákvað að fara í áframhaldandi fjölmiðlanám. „Mig langaði að fara í BA-nám við Háskólann á Akureyri en gat það ekki aðstæðna vegna svo að ég ákvað að byrja á að fara í BA-nám í íslensku við HÍ með fjölmiðlafræði sem aukagrein. Mér fannst íslenskan vera góður grunnur og það er auðvitað alltaf dýrmætt að reyna að hafa sem best málfar. Svo fór ég í meistaranám við Háskóla Íslands í blaða- og fréttamennsku sem ég mæli eindregið með því það er svo ótal margt sem maður lærir þar. Það er svo mikilvægt að prófa sem mest og finna hvað manni finnst spennandi og hvað ekki. Og eins að finna styrkleika sína og veikleika; það er nefnilega líka mikilvægt að finna hvar maður sökkar,“ segir Olga og skellir upp úr.

  Fékk taugaáfall í hádegishléinu
  Eftir tveggja mánaða atvinnuleysi að útskrift lokinni úr meistaranáminu árið 2013 fékk Olga starf sem blaðamaður hjá Víkurfréttum. Það var stór áskorun fyrir hana að snúa aftur til Suðurnesja, álagið var mikið og sífelldar ferðir um Reykjanesbrautina. Olga var einstæð með tvær ungar dætur, í krefjandi starfi og í stormasömu sambandi árið 2015 þegar móðir hennar lést úr krabbameini.

  „Mamma lést í júní og á þeim tíma voru sumarfrí hjá Víkurfréttum og ég varð að standa mína plikt. Tveimur dögum eftir að mamma dó var ég mætt í vinnuna. Dag einn í júlí var ég í vinnunni og fann að ég var byrjuð að dofna í öllum útlimum og var með svima. Ég ákvað að fara í hádegismat til vinkonu minnar sem bjó í Keflavík. Þegar hún opnaði dyrnar fyrir mér hrundi ég í fangið á henni og hágrét. Hún lét mig leggjast inn í sófa og hlúði að mér og hringdi svo í vinnuveitandann minn til að láta vita að ég hefði verið að fá áfall. Það var ekki annað í boði en að mæta aftur í vinnuna og klára verkefnin svo ég fór þangað aftur eftir að hafa reynt að jafna mig eins og hægt var. Mér fannst ég ekki mæta miklum skilningi hjá vinnuveitandanum. Ég var síðan skikkuð í leyfi af lækninum mínum um miðjan júlí. Það kemur bara að því að líkaminn segir stopp. Og það sem tekur við er taugaáfall, kulnun, brotlending, eða hvað sem fólk kýs að kalla það. Og maður getur ekki bent á eitthvað eitt sem olli því. Það er bara margt sem er búið að gerast og safnast upp og líkaminn getur ekki meir.“

  „Kulnun er grafarlegt mál. Við höfum bara þetta eina taugakerfi og það er mjög alvarlegt ef það laskast því það“

  Olga segir mikilvægt að fólk sé vakandi fyrir einkennum kulnunar og vinnuveitendur hlúi að starfsfólki sínu. „Það eru fordómar í garð kulnunar, bæði hjá mörgum eigendum fyrirtækja og fólki sjálfu. Það er talað um að fimmta hver manneskja finni fyrir einkennum kulnunar en samt segja margir nei, þetta kemur aldrei fyrir mig. En fólk verður að átta sig á því að kulnun er grafalvarlegt mál. Við höfum bara þetta eina taugakerfi og það er mjög alvarlegt ef það laskast því það jafnvel verður aldrei samt aftur.“

  Við tók sjö mánaða veikindaleyfi og Olga er mjög þakklát Blaðamannafélagi Íslands fyrir það. Hún svarar aðspurð um það hvort hún hafi verið búin að finna fyrir einkennum, hafa hugsað með sér að hún þyrfti á fríi að halda áður en áfallið skall á en sér hafi fundist hún verða að halda áfram og harka af sér. „Ég held að dætur mínar tvær hafi mest fundið fyrir því hvað ég var komin nálægt því að krassa. Maður er verstur við sína nánustu og streitueinkennin eru þannig að maður áttar sig ekkert á því hvaða áhrif maður hefur á fólkið í kringum sig,“ segir Olga. Hún kemst við og gerir stutt hlé á máli sínu.

  „Ég segi stundum að þær hafi beðið eftir Bangsamömmu úr Dýrunum í Hálsaskógi en fengið Soffíu frænku úr Kardemommubænum þegar ég kom heim. Ég er að reyna að sýna þeim í dag að þetta var ekki ég, ekki heilbrigða Olga Björt, sem var þarna mamman að reyna sitt besta í erfiðum aðstæðum. Vonandi skilja þær mig seinna meir. Það getur komið fyrir alla foreldra að ganga í gegnum erfið tímabil þar sem þeir geta ekki sýnt sínar bestu hliðar. En ég er svo heppin að dætur mínar eiga yndislega feður sem hafa reynst mér og stelpunum vel.“

  Olga leitaði sér aðstoðar sálfræðings og hjá honum segist hún hafa gert upp líf sitt. „Þetta er búið að vera heilmikil vinna. Það opnast bara sárin hjá manni þegar maður er í svona ferli og allt gamalt og óuppgert brýst út. Það kom mér til dæmis mjög á óvart að átta mig á því að ég hafði í raun ekki gert upp þetta eineltistímabil frá grunnskólaárunum. En þetta áfall var bara sambland af svo ofboðslega mörgu. Ég hefði þurft að fá einhverja greiningardeild til að skoða bara hvað var að koma upp á yfirborðið,“ segir Olga og skellir upp úr. „En það er magnað hvað hefur gerst í lífi mínu frá árinu 2017, þegar ég var atvinnulaus og vissi ekkert hvort ég ætti fyrir reikningunum um mánaðamót og hvar ég er stödd í dag miðað við það hvar ég var stödd árið 2015.“ jafnvel verður aldrei samt aftur.

  Einstæða móðirin sem eignaðist fjölmiðil
  Í janúar 2017 var Olga atvinnulaus eftir að hafa tekið að sér tilfallandi verkefni frá því hún hætti á Víkurfréttum 2015. Dag einn, eftir að hafa flett í gegnum Fjarðarpóstinn yfir kaffibollanum, ákvað hún að senda þáverandi ritstjóra blaðsins, Ólafi Má Svavarssyni, skilaboð á Facebook og þakka fyrir gott blað. „Hann svaraði og þakkaði mér fyrir og ég sagði honum að ef hann vantaði penna, einhvern til að skrifa pistil eða eitthvað, þá mætti hann hafa mig í huga. Stuttu seinna hafði hann samband og spurði hvort ég væri til í að koma aðeins inn í þetta með sér og skrifa greinar og svona. Ég sló til. Svo þegar Ólafur og fjölskylda ákváðu að flytja til Þýskalands í eitt ár bað hann mig um að leysa sig af í ritstjórastarfinu. Ég tók því fegins hendi, vitandi að ég hefði þá allavega fastar tekjur í eitt ár. Þegar Ólafur flutti svo aftur heim spurði hann mig hvort ég vildi ekki bara taka við keflinu þar sem hann hefði nóg að gera í starfi sínu sem ljósmyndari. Og aftur sló ég til.“

  Olga segir það hafa legið í loftinu að eigandi Fjarðarpóstsins, sem hafði átt blaðið frá árinu 2001, vildi selja það. „Hann var orðinn sjötugur og langaði bara að fara að njóta lífsins eins og fólk vill eðlilega gera á þessum árum. Hann vildi sem sagt hætta í þessum rekstri og ég vildi ekki að þetta 36 ára bæjarblað myndi hætta. Ég, miðaldra, einstæða móðirin í blokkaríbúð og með námslán á bakinu, ákvað því bara að leggja allt í þetta og taka við rekstri blaðsins. Þetta er auðvitað dálítið strembið en ég hef haft gott af þessu og þetta hefur verið mikill skóli. Og nú er enn mikilvægara fyrir mig að standa með mér og setja skýr mörk. Og líka að ganga ekki of nærri mér því ég er mjög opin persóna og get auðveldlega misst orkuna.“

  Hún segir að fyrirtækin í Hafnarfirði séu smám saman að átta sig á því hver eigi Fjarðarpóstinn. „Ég er svo oft kölluð stelpan með myndavélina frá Fjarðarpóstinum þegar er til dæmis verið að tilkynna að ég sé mætt á fundi. Ég leiðrétti það stundum og bendi á að ég sé reyndar eigandinn. Það er stundum svolítið krúttlegt.“

  Mótvægi við neikvæðnina
  Sem eigandi og ritstjóri bæjarblaðs segist Olga oft hafa hugsað til reynslu sinnar frá fegurðarsamkeppninni fyrir 29 árum og því sem hún upplifði þegar hún var að krýna arftaka sinn. „Ég gæti ekki fyrir mitt litla líf skellt á forsíðu einhverju sem vegur að reisn eða æru fólks, því ég myndi örugglega ekki vita alla söguna. Þess vegna er ég ekki í hörðu málunum. Aðrir miðlar eru betri í því. Ég vil móta uppbyggilega og jákvæða ritstjórnarstefnu sem er mótvægi við neikvæðar fréttir. Maður sér það bara á samfélagsmiðlum og í kommentakerfunum hvað vægi neikvæðra frétta er mikið og öll þessi neikvæðni hefur áhrif á sálarlífið okkar. Þannig að ég vil frekar skrifa eitthvað sem hefur góð áhrif, er uppbyggilegt og gefur fólki trú á hvað hægt er að gera með því að gefa þeim góðar fyrirmyndir. Þarna kemur sálgæsluaðilinn í mér fram,“ segir hún og brosir.

  Blaðamanni finnst auðheyrt að Olga sé á góðum stað í dag. „Já, ég er það. Ég veit að ég þarf að gefa mér meiri tíma í sjálfs- og líkamsrækt núna eftir að það varð allt í einu alveg brjálað að gera hjá mér og það verður líklega eilífðarverkefni að hlúa að mér og lífsstílnum mínum. En ég og Olgurnar frá öllum tímabilum í lífi mínu erum að verða góðar vinkonur. Þær gerðu mig að þessari Olgu sem ég er í dag. Ég er reyndar enn að finna grímulausu Olguna í mér. Þessa sem er með eiginleikana og hæfileikana til að geta sinnt hlutverkum sínum; að vera móðir, ritstjóri og blaðamaður. Ég hætti ekki fyrr en ég verð búin að finna Olguna sem tekur niður allar grímurnar og veit hvað hún vill í raun, ekki út frá væntingum annarra og ekki út frá væntingum samfélagsins hverju sinni, heldur algjörlega út frá eigin innsæi. Ég hlusta líka miklu meira á það núna heldur en ég hef nokkurn tíma gert. Það er svo mikilvægt að læra að setja og virða mörk. Látum engan koma þannig fram við okkur að við séum ekki nóg, hvort sem það eru lífsförunautar sem leita á önnur mið, vinnuveitendur sem greiða lág laun, vinir sem kunna ekki að meta okkur eða bara fólk yfirleitt sem ber ekki virðingu fyrir tíma okkar eða orku.“

  Ætli við þurfum ekki öll að finna Olguna í okkur, þótt hún heiti eitthvað annað.

  Viðtalið birtist upphaflega í 15. tbl. Vikunnar 2019.

   

   

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is