Er einfætt en hjólar um fjöll og dali

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Mikið hjólaæði hefur gripið landann og ólíklegasta fólk sést orðið í spandexgalla á fleygiferð um hjólastíga höfuðborgarsvæðisins. Í þeim hópi er Anna Linda Sigurgeirsdóttir, íklædd rauðum búningi Víkings og stígur pedalana af krafti þótt hún sé einfætt.

Anna Linda prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Vikunnar.

„Eftir að ég misst fótinn hélt ég að beygjan væri svo mikil í liðnum við að hjóla að ég prófaði ekki einu sinni,“ segir Anna Linda.

„Vorið 2016 fór ég að prófa eldgamla Mongoose-hjólið mitt, byrjaði bara í hverfinu. Maðurinn minn var farinn að hjóla með Fjölni í Grafarvogi, þar sem við búum, og ég fór að prófa að hjóla með þeim á sunnudögum því ég vissi að það voru rólegar ferðir. Ég hjólaði fjórtán kílómetra í einum túrnum og fannst svo til um það að ég setti það á Facebook og út um allt. Bara vá, fjórtán kílómetrar. Nú fer maður varla út fyrir minna en sextíu til sjötíu kílómetra.“

Anna Linda skellihlær. „En mér fannst þetta bara svo skemmtilegt. Að fara út, hjóla og hreinsa hugann. Það var líka svo gaman að finna hvernig maður varð alltaf öflugri og öflugri. Þolið og úthaldið eykst nefnilega mjög fljótt. Í apríl 2016 fékk ég svo hjól í afmælisgjöf, þótt afmælisdagurinn sé reyndar í júlí, langaði ekkert í það, fannst gamla bara fínt en ég átti eftir að éta það ofan í mig, munurinn er mikill að fara yfir á léttara hjól með racer look. Upp úr því kviknaði áhuginn og ég fór að hjóla mjög mikið um sumarið og tók þátt í minni fyrstu keppni sem var uppsveitarhringurinn.“

Brotnaði á vinstra fæti

Þótt Anna Linda hafi haldið í bjartsýnina eftir að hún missti fótinn og horft til alls þess sem hún gat gert fremur en að einblína á hitt fór ekki hjá því að þetta breytti ýmsu.

„Eitt af því sem ég óttaðist alltaf var að eitthvað kæmi fyrir hinn fótinn. Það er svo erfitt að treysta á gervifót sem aðalfót. Þess vegna þorði ég aldrei á skíði eða hjóla. Ég tók enga áhættu hvað þetta varðaði en núna fimmtán árum síðar braut ég mig.

Önnu Lindu hefur tekist að halda í bjartsýnina eftir að hún missti fótinn.

Var að sippa með einhverjum kaðli, var ekki einu sinni að gera neitt alvarlegt. Ég sem er búin að vera á fjallahjóli í alls konar umhverfi og hefði kannski getað búist við að þá kæmi eitthvað fyrir. Í stað þess steig ég á kaðalinn, féll við og braut ristina. Þess vegna hef ég lítið getað hjólað úti í vetur en var hins vegar mikið á ferðinni í fyrravetur og það er ekkert mál. Maður setur bara nagladekk undir fjallahjól og heldur af stað. Á sumrin hjóla ég á „racer“.

Allir geta hreyft sig eitthvað

Er jafnvel auðveldara fyrir þig að hjóla en ganga?

„Já, að sumu leyti. Þetta er allt annars konar álag á stúfinn og þótt ég hafi verið með verki að undanförnu hefur okkur ekki alveg tekist að komast að því hvað veldur. Vöðvinn stækkar en svo geta líka einhverjar taugaskemmdir verið undirrótin. Ég hef átt í þessu undanfarið ár en mér versnaði eftir að ég brotnaði því álagið jókst. Það er vonandi að við finnum út úr þessu sem fyrst því það er leiðinlegt að vera alltaf að stoppa, sérstaklega þegar hjólað er í hópi. Ég fór til læknisins sem tók fótinn áður en ég fór út til Noregs og hann sprautaði steradeyfilyfi í stúfinn og það getur vel verið að það hafi hjálpað. Við héldum að þetta væri nefrómi en þá er mjög sárt að ýta á tiltekinn blett.

En ég hef prófað að ganga á fjöll og finnst erfitt að ganga á Úlfarsfell en veit að margir er misst hafa fót hafa farið í fjallgöngur og njóta þess. Ég þekki eina sem hefur misst báða fætur en hún er á rafmagnshjóli og getur farið hvert sem hún vill á því. Þetta er svo mikið frelsi. Að geta farið út og hjólað af stað eftir vinnu og þótt maður ætli sér ekki langt í upphafi eru að baki 50-60 km áður en maður veit af. Ég vil líka taka fram að það er fjölbreyttur hópur sem hjólar. Margir hafa áhyggjur af þyngdinni en manneskja í ofþyngd sýnir oft ekki síðri takta en hinir og græðir jafnvel á þyngdinni. Það eru nefnilega kostir og gallar, ef þú ert of þungur ferðu ótrúlega hratt niður brekkurnar og margir nýta sér mjög vel kraftinn sem þyngdin gefur.

Ég hef reyndar átt nokkuð erfitt með að finna mér áhugamál. Byrjaði gjarnan í einhverju en hætti fljótt aftur. Þegar eitthvað kemur upp á eins og ég varð fyrir að missa fótinn þá breytast viðhorfin. Margt fer að skipta mun meira máli en áður. Eins og þegar ég uppgötvaði að ég gæti enn verið á hælaháum stígvélum þá keypti ég mér þónokkur slík og naut þess að ganga á þeim. Fólk á ekki að láta neitt stoppa sig. Kannski kemur það með þroskanum og þess vegna svona margir fullorðnir hjólreiðamenn í Víkingi.

Það þarf ekki að kaupa dýrt hjól strax, byrja frekar á lánshjóli.

Ég hvet alla til að mæta bara og prófa. Það þarf ekki að kaupa dýrt hjól strax, byrja frekar á lánshjóli. Á mínu heimili erum við reyndar farin að metast um þyngd hjólanna okkar eins var í Áramótaskaupinu hér einu sinni. Á sumrin rennur af manni lýsið því þetta tekur á en er samt svo gaman. Auk þess brjótum við oft upp stóra hópinn. Við búum gjarnan til lítinn hóp og förum svo saman nokkrar konur og hjólum eitthvað. Það er auðvitað ákveðinn munur á krafti karla og kvenna og þess vegna sniðugt að geta komið okkur saman. Konur á öllum aldri eru komnar inn í Víking og svo er bara að byrja,“ segir Anna Linda að lokum.

Myndir / Hallur Karlsson og úr einkasafni
Förðun / Björg Alfreðsdóttir Alþjóðlegur förðunarmeistari Yves Saint Laurent á Íslandi

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira