Er hægt að deyja úr sorg?

Deila

- Auglýsing -

Þeir sem gengið hafa í gegnum sorg kunna ef til vill að hafa velt því fyrir sér hvort hún gæti dregið þá til dauða. Það er ekki að ástæðulausu því fátt veldur jafnmikilli streitu og vanlíðan og sorg.

 

Líkamleg viðbrögð við sorg

Dauða fylgir mikil streita. Vísindamenn vita að streita veikir ónæmiskerfið og þess vegna er algengt að ýmsir veikleikar blossi upp í kjölfar streitutímabila í lífi fólks. Fólk er viðkvæmara fyrir sýkingum þegar þannig stendur á og vitað er að krabbameinsfrumur fjölga sér enn hraðar ef fólk er undir álagi.

Fyrst eftir mikið áfall finnur fólk fyrir tilfinningaleysi og doða. Það er utan við sig,  gleymið og á í erfiðleikum með að einbeita sér. Auk þess er algengt að fólk finni fyrir mæði, þrengslum í hálsi og erfitt getur verið að anda. Sumir anda ótt og títt en aðrir verða að draga andann hægt og þungt. Margir geta ekki sofið eftir áfall en aðrir geta sofið nánast allan sólarhringinn. Nokkuð algengt er að menn missi matarlystina. Þrengsli í hálsinum gera það að verkum að erfitt er að tyggja og renna niður bitunum og harður kvíðahnútur í maganum veldur því að menn langar ekki í mat.

Eftir að fyrsta bylgja sorgar og vanlíðunar gengur yfir er ekki óalgengt að fólki finni fyrir miklu orkuleysi. Margir segja þetta einna líkast því að  líkaminn hafi verið gersamlega rúinn öllu afli. Fólk lýsir ástandinu oft þannig að það sé gersamlega tómt eða eins og sprungnar blöðrur. Ef makinn hefur átt við langvarandi veikindi að stríða er sá sem eftir lifir í mörgum tilfellum útkeyrður af þreytu. Umönnunarhlutverkið krefst mikils af fólki og vökunætur geta tekið sinn toll af heilsu fullhraustra einstaklinga.

Rannsóknir hafa sýnt að samband er milli hjartasjúkdóma, krabbameins, drykkjusýki og sorgar. Þeir sem orðið hafa fyrir sorg eru líklegri en aðrir til að finna fyrir þessum sjúkdómum 12-24 mánuðum eftir áfallið. Þetta samband milli sorgar og sjúkdóma er þó erfitt að sanna fyllilega því sumir virðast hafa innbyggða hæfni til að takast á við áföll af þessu tagi og tíðnin er þess vegna mismunandi há eftir rannsóknum.

Andleg viðbrögð við sorg

Við dauða maka eða skilnað finnst mörgum þeir ekki aðeins missa félaga sinn heldur einnig tengsl við fortíðina. Í flestum tilfellum man makinn  lengra aftur en börnin og stundum finnst fólki það ekki lengur hafa neinn til að tala við um sín ungdómsár. Þetta á einkum við um fullorðið fólk sem hefur verið saman lengi. Hjúkrunarfólk hefur oft orðið fyrir því að þetta fólk segist vilja fylgja maka sínum í dauðann því nú sé ekkert eftir.

Sorgin getur einnig leitt til þess að fólk eigi erfiðara með að einbeita sér en áður og lendi því í ýmiss konar slysum. Andlát maka getur líka í sumum tilfellum valdið því að ótti við dauðann aukist hjá þeim sem eftir lifir. Hann upplifir jafnvel sömu sjúkdómseinkenni og makinn gerði og leitar læknis aftur og aftur vegna ýmissa kvilla. Aðrir missa allt traust til heilbrigðisstétta vegna þess að fagfólkið reyndist ófært um að hjálpa makanum. Þetta fólk kann því að draga það að leita sér lækninga þótt það hafi fundið fyrir vanlíðan lengi.

Eftir langvarandi og erfið veikindi getur fólk stundum upplifað dauðann sem ákveðna lausn. Eftir fyrstu bylgju sorgar og saknaðar finnur fólk þá jafnvel fyrir feginleika. Á þessu tímabili sækja að alls konar hugsanir. Sektarkennd er algeng og menn leita að sök hjá sjálfum sér á því hvernig fór eða ásaka sig fyrir að hafa ekki nýtt tímann betur með ástvininum. Reiði í garð hins látna er einnig algeng á þessu tímabili og iðulega sveiflast fólk milli reiði og saknaðar. Depurð, ótti og kvíði fyrir framtíðinni getur líka sest að í sálinni.

Flestir eiga erfitt með að höndla breytingar og stundum finnur fólk fyrir ákveðnum þrýstingi því vinir og ættingjar ætlast oft til þess að sorgarferlið taki einhvern tiltekinn tíma eða falli að einhverju mynstri sem þeim þykir eðlilegt. Sorgin er hins vegar einstaklingsbundin og setningar eins og „tíminn læknar öll sár“, „þetta lagast“ eða „honum líður vel þar sem hann er“, hugga engan. Þær eru jafnvel frekar til þess fallnar að ergja fólk í sorg.

- Advertisement -

Athugasemdir