2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Er hægt að komast yfir framhjáhald?

  Í langtímasamböndum er traust mikilvægt og rannsóknir sýna að fæstir leiða hugann að því að makinn geti haldið fram hjá fyrr en ýmis augljós merki um að eitthvað sé að fara að koma í ljós. Þrátt fyrir slíka erfiðleika er fólk samt tregt til að trúa að þetta sé raunin og að komast að því að það sé einmitt raunin er yfirleitt mikið áfall.

   

  Fyrstu viðbrögð flestra eru að reka þann ótrúa á dyr og krefjast skilnaðar en stundum er það ekki besta lausnin. Sérfræðingar segja að það sé hægt að komast yfir framhjáhald. Samkvæmt rannsóknum er hægt að flokka algengustu ástarævintýri fram hjá maka í fjóra flokka:

  1. Einnar nætur gaman
  2. Hjákonan og viðhaldið
  3. Ég vil losna-framhjáhald

  Hver og einn þessara flokka hefur mismunandi áhrif á hjónabandið og ástæður framhjáhaldsins eru einnig mismunandi.

  Einnar nætur gaman

  Yfirleitt gerist einnar nætur gaman þegar makinn er einhvers staðar í burtu, til dæmis í viðskiptaferð eða á ráðstefnu. Oftar en ekki er áfengi með í spilinu og viðkomandi hefur ekki í hyggju að hitta aftur þann aðila sem hann fer í rúmið með eða bindast honum á nokkurn hátt. Þetta er stundarrómantík sem ætlað er að koma til móts við þörf sem hefur gripið manneskjuna en hverfur jafnskjótt og augnablikið er liðið.

  AUGLÝSING


  Rannsóknir hafa sýnt að flestir eiga auðvelt með að fyrirgefa slík hliðarspor og þótt sárindin nísti um tíma gera menn sér grein fyrir að mistök af þessu tagi endurtaka sig sjaldnast. Yfirleitt er nóg fyrir fólk að upplifa sársauka makans til að átta sig á að innantómt kynlíf og skemmtun er ekki þess virði. Það er einnig erfitt að byggja upp traust að nýju og undan tortryggni makans getur sviðið. Mörg hjón hafa líka getað nýtt sér hliðarspor af þessu tagi til að byggja upp betri samskipti og gæta þess að varðveita betur samband sitt eftir slíka uppákomu.

  Oftar en ekki er áfengi með í spilinu þegar einnar nætur gaman-framhjáhald gerist.

  Að vísu er til fólk sem nýtur spennunnar sem skyndikynni veita og það er líklegt til að endurtaka þetta mynstur aftur og aftur. Þá á viðkomandi við einhvern djúpstæðari vanda að etja og spurning um hversu mikið hann er fær um að gefa af sér. En ef maki þinn stígur eitt hliðarspor eina nótt er besta leiðin að ræða af mikilli hreinskilni um það sem gerðist og eins oft og þurfa þykir. Karlmönnum hættir til að vilja afgreiða hlutina í eitt skipti fyrir öll og telja að með því að játa og biðja fyrirgefningar séu þeir í raun og veru búnir að gera allt sem þarf. Konan þarf hins vegar að fá það staðfest að hann sé fullviss um ást sína og tryggð gagnvart henni og það sem gerðist sé búið og gert. Hann verður einnig að biðja fyrirgefningar af einlægni þess sem gerir sér grein fyrir hversu djúpt hann hefur sært aðra manneskju. Þegar kona heldur fram hjá manni sínum er hins vegar algengt að þeir þurfi tíma til að melta hlutina en fái þörf til að ræða þá seinna. Þá verður konan að virða það. Sá sem heldur fram hjá er brotlegur. Hann hefur rofið trúnað og eina leiðin til að bæta fyrir það er að sýna að vilji sé til að bæta skaðann.

  Hreinskilni og heiðarleiki

  Í öllum samböndum er einnig nauðsynlegt að ræða opinskátt og af hreinskilni um það þegar áhugi á öðrum aðilum kviknar sérstaklega ef þetta er eitthvað sem ekki líður fljótt hjá. Margir eru hræddir við að móðga eða særa makann með því að játa slíkt en allir finna fyrir þessu á einhverjum tíma. Ef þú játar hreinskilnislega fyrir maka þínum að stundum hafi draumórar um aðra verið þér spennandi dægradvöl glata þeir einhverju af spennunni. Hið sama gildir þegar maðurinn þinn dregur inn magann og blæs út brjóstkassann í hvert skipti sem glæsilega konan í næsta húsi gengur fram hjá. Ræðið þetta ykkar á milli, gerið góðlátlegt grín að því og virðið það að öll erum við mannleg.

  Hjákonan og viðhaldið

  Karlmaður sem á sér hjákonu hefur bundist henni tilfinningaböndum. Það kann vel að vera að hann meti eiginkonu sína meira en engu að síður er um að ræða ákveðnar skuldbindingar, loforð og drauma í hinu sambandinu. Slík ástarsambönd byrja oft þegar karlmönnum finnst þeir hjakka í sama hjólfarinu bæði í einkalífi og starfi. Lífið er leiðigjarnt og þeim finnst vanta bæði spennu og tilbreytingu í hversdagsleikann. Stundum er karlinn óttasleginn undir niðri og óöruggur með sig. Hugsanlega hefur öðrum verið veitt stöðuhækkun sem hann átti von á, aldurinn er tekinn að færast ískyggilega hratt yfir eða óvænt veikindi hafa vakið hann til vitundar um að hann muni líklega ekki verða eilífur.

  Stundirnar sem hann eyðir með hjákonunni verða í hans huga góð tilbreyting frá hversdagsleikanum. Lítið ævintýri sem engan á að saka en gefur honum svo mikið. Hann hlakkar til að komast til hennar líkt og aðrir karlmenn hlakka til golfsins eða líkamsræktartímans eftir vinnu. Hjákonan er líka fljót að finna að hjá henni vill hann fá slökun, skemmtun og hlýju. Hún gagnrýnir því ekki, gerir ekki kröfur og er aldrei þreytt eða illa fyrirkölluð (a.m.k. ekki til að byrja með).

  Þegar konur taka sér viðhald gildir hið sama hvað varðar tilfinningaböndin. Þær eru einnig leiðar, finnst sambandið við eiginmanninn ekki lengur gefandi og óánægðar með stefnuna sem líf þeirra hefur tekið. En helsti munurinn liggur í því að þær halda sambandinu við hinn manninn gangandi, leitast við dýpka það smátt og smátt og eru yfirleitt fyrri til að stíga það skref að yfirgefa maka sinn í trausti þess að viðhaldið geri það sama. Stundum bregst það hins vegar og þá getur verið of seint að byggja brú til baka.

  Að komast yfir þá staðreynd að maki þinn hafi átt sér hjákonu eða viðhald mánuðum og jafnvel árum saman er mjög erfitt. Það er þó mögulegt að komast yfir slíkt og laga sambandið en aðeins ef makinn er tilbúinn að axla ábyrgð. Hann verður að skilja að hann hefur valdið miklum skaða, bæði hefur hann sært djúpu sári en einnig valdið því að traust makans gagnvart öðrum manneskjum og tilverunni yfirleitt hefur beðið hnekki. Traust er áunnið, ekki eitthvað sem hægt er að gefa og taka að vild. Þess vegna geta liðið mörg ár áður en aftur næst jafnvægi í sambandinu og makinn lærir að treysta aftur að fullu. Sá brotlegi verður að vera undir það búinn og tilbúinn að lifa með þeim árekstrum sem upp kunna að koma þar til jafnvægi er náð.

  Vinátta og samkennd

  Besta ráðið til að koma í veg fyrir að makinn taki sér hjákonu eða eignist viðhald er að tryggja að þið séuð félagar. Það er ekki nóg að vera vinir, fólk þarf að hlakka til að koma heim og njóta samveru með hinum. Þú getur átt makann að besta vini en þið átt lítið sameiginlegt annað en heimilið, börnin og tilfinningaböndin á milli ykkar. Félagar leika sér saman, hafa svipuð viðhorf til hlutanna og sama húmor.

  Hvort þið séuð félagar eða ekki getur þú helst merkt af því hvort þú getir ekki beðið eftir að segja makanum frá einhverju skemmtilegu sem gerðist yfir daginn og þið getið enn þá vakað heila nótt bara til að spjalla. Þá er makinn sú persóna sem þér finnst mest gaman að tala við, frábært að sofa hjá og sá sem þú elskar að verða ástfangin af aftur og aftur.

  Ég vil losna-framhjáhald

  Algengt er að þegar fólk hefur þegar ákveðið að slíta sambandi við maka sinn að það fari að halda fram hjá til þess eins að ýta hlutunum úr vör eða tryggja að ekki verði aftur snúið. Viðkomandi sefur þá nánast hjá hverjum sem er og sambandið er eingöngu kynferðislegs eðlis. Framhjáhald af þessum toga er gagngert til að særa makann sem allra mest. Verið er að senda honum þau skilaboð að allar tilfinningar til hans séu dauðar og hér sé öllu lokið. Yfirleitt jafna sambönd sig ekki þegar makinn hefur tekið þessa örlagaríku ákvörðun en þó er til í dæminu að framhjáhald af þessum toga neyði hjón til að tala saman og gera upp sambandið.

  Eina ráðið til að komast yfir framhjáhald af þessu tagi er fara í gegnum um allt það sem skilur á milli í sambandinu. Stundum er hægt að snúa aftur með því að rifja upp það sem dró fólk hvort að öðru í upphafi og vinna út frá því. Yfirleitt nægir það þó ekki því ekki má gleyma að annar aðilinn er þegar búinn að gefa sambandið upp á bátinn. Þegar þannig er komið nást sættir ekki nema með mikilli hjálp.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is