Er Netið að drepa okkur?

Deila

- Auglýsing -

Æ oftar heyrir maður fólk tala um hversu háð það sé símanum sínum. Í honum sé að finna allar upplýsingar og afþreyingu sem það þarfnast og að týna honum sé nánast eins og að missa útlim. Svo ýkjukenndar lýsingar eru vissulega settar fram í hálfkæringi en meiri alvara leynist þó undirniðri en nokkurn grunar. Nútímamenn eru allt of háðir nettengdu tækjunum sínum og mættu alveg endurskoða venjur sínar hvað það varðar.

Dæmi eru um að unglingar og ungt fólk finni fyrir kvíða, óþægindum og eirðarleysi komist það ekki á Netið í ákveðinn tíma. Því finnst það vera að missa af einhverju. Hinir eldri höndla þetta betur, enda muna þeir tíma þegar engar tölvur voru til og sjónvarpslaust var á fimmtudögum. En eru tölvur og snjallsímar eins ávanabindandi og við höldum. Samkvæmt nýrri rannsókn Dr. Nichola Kalk og samstarfsmanna hennar við Institute of Psychiatry, Psychology and Neuroscience at King’s College eru það ekki tækin sjálf sem menn dragast ómótstæðilega að heldur öppin.

Öpp eru beinlínis hönnuð til að skapa spennu og væntingar og þar með örva dópamínframleiðslu í heilanaum. Þau geta þess vegna haldið manneskjum föngnum rétt eins og fjárhættuspil, alkóhól eða annað sem veldur fíkn. Fólk ánetjast og getur ekki beðið eftir að skoða næsta glugga. Fréttir og sögur af einkalífi annarra hafa þessi sömu áhrif. Mjög fljótt fer einstaklingum að finnast þeir ekki vera með á nótunum ef þeir sleppa því að skoða samfélagsmiðlana, Netið eða póstinn sinn.

Leggja allt í sölurnar fyrir „like“

Að undanförnu hafa umræður um þessar hliðarverkanir tækninnar orðið til þess að stafrænu risarnir hafa gert ýmsar smávægilegar breytingar á forritum sínum sem miða að því að draga úr fíkniáhrifum. Meðal annars má nefna að Instagram hefur gert tilraunir með falin „like“ í Ástralíu, Japan, Írlandi, Bandaríkjunum, Ítalíu, Kanada og Brasilíu. Þetta þýðir að þótt fylgjendur líki við færslu viðkomandi Instagram-eiganda sér hann það ekki. Þetta er beinlínis gert til að reyna að stemma stigu við sífellt hættulegri og skrýtnari uppátækjum sívaxandi fjölda ungs fólks sem er orðið háð því að sjá töluna við bláa þumalfingurinn hækka. Til er í dæminu að sjálfstraust og sjálfsvirðing ungmenna sé svo háð athyglinni sem þau fá á stafrænum miðlum að þau leggi sig í lífshættu til að fjölga „like-unum“. Instagram vill með þessum aðgerðum sýna ábyrgð og leitast við að stuðla að heilbrigðari notkun miðilsins.

 „Öpp eru beinlínis hönnuð til að skapa spennu og væntingar og þar með örva dópamínframleiðslu í heilanaum. Þau geta þess vegna haldið manneskjum föngnum rétt eins og fjárhættuspil, alkóhól eða annað sem veldur fíkn.“

Twitter og Facebook hafa enn ekki stigið skref á borð við þetta og axlað ábyrgð sína á tilfinningalegu heilbrigði notenda. Naomi Shimada módel, rithöfundur og álitsgjafi, og Sarah Raphael ritstjóri tóku þess vegna höndum saman og söfnuðu saman greinum og ritgerðum um hvernig Netið hefði áhrif á sjálfsmynd kvenna í bók sem ber titilinn Mixed Feelings: Exploring the Emotional Impact of our Digital Habits.

En það er í raun sama hvað okkur finnst um samfélagsmiðla og þá staðreynd að allir eru allan daginn með tæki í höndunum sem gerir þeim kleift að vera stöðugt í beinu sambandi við margvísleg og mismunandi áhrif í formi texta, mynda, kvikmynda, teikninga og skilaboða. Við berum öll þversagnakenndar tilfinningar til tækninnar, við elskum hana, hötum hana og getum ekki verið án hennar. Þess vegna hvetja þær Naomi og Sarah fólk til að taka netvenjur sínar til reglulegrar endurskoðunar. Draga sig í hlé af og til, fyrst og fremst til að komast aftur í tengsl við raunveruleikann og sjálft sig.

Dæmið og þér munið dæmdir verða

Þegar Instagram began in 2010 var því ætlað að vera vettvangur þar sem fólk gæti deilt myndum sínum og í byrjun var mest verið að sýna listaverk, fallegt landslag, mat, fjölskylduna og senur úr einkalífinu. Notendur takmörkuðu vinahópinn við fjölskyldu, vini og samstarfsfélaga. Nú er þetta hins vegar orðið að miðli, þar sem fólk skapar sér ákveðna ímynd eða gerir sjálft sig að vörumerki. Andlit sumra, líkamar, áhugamál og störf eru notuð til að auglýsa vörur eða koma á framfæri skilaboðum um hvað hægt sé að gera, hvernig menn eigi að vera og hvað sé æskilegt og hvað ekki. Áhrifavaldar urðu til, iðulega ungt fólk með marga fylgjendur og lífsstíl sem einhverjum hópi kann að þykja áhugaverður.

Í kjölfarið fylgdu svo alls konar filterar og photoshop-forrit sem gera áhrifavöldunum kleift að viðhalda og endurskapa líf þeirra til að halda ímyndinni gangandi. Þótt ýmsir sérfræðingar hafi bent á að myndavélin blekki dugar það ekki til. Margir áhrifavaldar hafa meira að segja sjálfir viðurkennt að hvernig þeir taka myndirnar og hvaða öpp þeir noti hafi gríðarleg áhrif á hvernig efni frá þeim lítur út. Enginn sé fullkominn og þeir sýna myndir því til sönnunar. Enn trúa samt fylgjendur þeirra að það sem þú sérð sé veruleikinn, að glansmyndin sé raunveruleg. Og það er einmitt þetta sem er farið að skekkja svo heimsmynd okkar og skapa hættulega vanlíðan meðal neytenda efnisins.

Þegar það fór svo að færast í vöxt að menn tækju og birtu sjálfsmyndir urðu þær fljótlega að keppnisíþrótt. Ungt fólk kepptist við að sýna bestu hliðar útlitsins, sjálft sig í ákveðinni glamúrumgjörð eða við athafnir sem sýndu hve djörf, sterk og dugleg það var. Það eru einkum slíkar sjálfsmyndir sem reynst hafa mönnum skeinuhættar. Farið er fram á ystu brún kletta, stokkið úr mikilli hæð eða farartæki notuð við varasamar aðstæður, allt til að heiminum megi vera ljóst að þar fari hæfileikríkt og hugrakkt fólk. Sumir hafa borgað hina fullkomnu sjálfsmynd með lífi sínu.

Nýjar ferðavenjur

Instagram hefur einnig gerbreytt ferðavenjum manna. Nú leitast menn við að fara á fjarlæga framandi staði, helst einhverja svo afskekkta og lítt þekkta að nánast enginn viti af þeim. Þetta hefur vissulega haft jákvæð áhrif á marga einangraða staði og skapað batnandi efnahag í ýmsum krummaskuðum heimsins en hefur þá neikvæðu hlið að ekki er alltaf gengið of vel um þegar á áfangastað er komið. Hér á Íslandi höfum við ekki farið varhluta af þessu og skemmst að minnast þess þegar rússneskur áhrifavaldur kom hingað og tók upp myndband af sér að aka utan vegar uppi á hálendi. Viðkomandi hló að viðleitni landvarða og lögreglu til að koma böndum á hann og borgaði umsvifalaust 500.000 kr. sekt. Skotið var þess virði.

Sumt fólk er einfaldlega svo sjálfhverft að allt siðferði skekkist og þegar miklir peningar flæða um vasa þess að auki er auðveldara að láta sér í léttu rúmi liggja verðmæti á borð við ósnortna náttúru og viðkvæmar tegundir dýra eða jurta. Hvert „like“ vegur þyngra.

Ástin á Netinu

Með auknum samskiptum manna í milli á Netinu var auðvitað óhjákvæmilegt að ástin og makaleitin tæki að færi sig þangað líka. Æ fleiri nota stefnumótaöpp til að komast í samband við áhugavert fólk og talið er að frá árinu 2016 hafi þeim sem nota slíkar miðlanir fjórfaldast. Rannsóknir sýna að rétt eins og flestir gera aðeins of mikið úr hæfileikum sínum í ferilskránni reynir flest fólk að draga upp aðeins of jákvæða mynd af sjálfu sér á slíkum síðum. Margir birta gamlar myndir, klípa nokkur ár af aldrinum og segjast vera í heldur betra formi en raunin er. Það er kannski saklaust en öllu verra þegar prófíllinn er bókstaflega allur skáldaður. Dæmi er um að óprúttnir aðilar komist í samband við aðra undir því yfirskini að vera læknar, lögfræðingar, kaupsýslumenn eða flugmenn. Viðkomandi segist gjarnan vera vel efnaður en er það alls ekki. Menn ljúga einnig til um fyrri sambönd og ýmsar viðvörunarbjöllur klingja því ekki fyrr en einhver hrekklaus er búinn að vera í samskiptum við viðkomandi lengi. Þá getur það verið orðið of seint því hinum samviskulausa hefur tekist að hafa fé af fórnarlambi sínu eða skapað því margvísleg vandræði önnur.

„Æ fleiri nota stefnumótaöpp til að komast í samband við áhugavert fólk og talið er að frá árinu 2016 hafi þeim sem nota slíkar miðlanir fjórfaldast.“

En þótt Netið sé varasamt og ekki alltaf á þær myndir sem þar eru dregnar upp að treysta hefur það skilað okkur margvíslegum ávinningi líka. Það er auðveldara að halda sambandi við vini og vandamenn sem búa langt frá okkur og þótt mörg öpp og samfélagsmiðlar séu til þess fallin að ýta undir minnimáttarkennd og skapa mönnum kvíða er í gegnum þá einnig hægt að nálgast jákvæðar upplifanir. Síður sem ýta undir heilbrigðan lífsstíl án öfga, skemmtilegt fólk sem kemur til dyranna eins og það er klætt og léttir okkur lífið í dagsins önn, áhugaverðar upplifanir í mat, drykk og á ferðalögum án ævintýramennsku eða eyðileggingar. Með því að breyta netvenjum sínum og velja slíkar umfram hinar geta menn umbreytt gersamlega upplifun sinni af Netinu og dregið úr líkum á að þeir ánetjist neikvæðum áhrifum.

- Advertisement -

Athugasemdir