2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Falleg og skemmtileg endurvinnsla

  Ýmislegt er til fellur á heimilum má endurskapa og gefa nýtt líf. Hér eru nokkrar einfaldar hugmyndir sem allir geta nýtt sér.

  Vinna inni á heimilum hefur alla tíð falið í sér nýtni og viðleitni til að fegra umhverfi sitt. Oft tekst þeim sem hafa úr litlu að spila að skapa mun hlýlegra og notalegra rými en hinum. Hönnun og rándýr efni eru ekki endilega mest heillandi. Persónulegur andi og handlagni getur skipt sköpum svo og gott auga fyrir fegurð og formum. Í því sambandi má endurnýta ansi margt fá hlutunum nýtt hlutverk.

  Glerkrukkur

  Glerkrukkur má nota undir blóm og kerti. Sumir hekla fallega poka utan um þær aðrir klæða þær í gegnsætt efni meðan enn aðrir leyfa þeim að njóta sín óbreyttum og kjósa að hengja þær upp í tré eða runna utandyra. Klassískt er svo að sjóða ofan í þær sultu á hverju ári, búa til flotta merkimiða og setja fallegt efni yfir lokið. Þá er komin frábær vinargjöf. Sumir mála lokin og merkja krúsirnar og setja í þær krydd, vítamín, hnetur eða annað.

  Minningar í teppi eða púða

  AUGLÝSING


  Bútasaumur er ákaflega fjölbreyttur og nánast hvað sem er má flétta inn i vinnsluna. Í Kína þekkist að sauma kápur og úlpur á þennan hátt en teppi, púðar veggmyndir, veggteppi og margt fleira má búa til úr margvíslegum efnisbútum. Mæður sem geyma gömul barnaföt geta nýtt úr þeim í teppi handa barnabörnum, gamall útsaumur frá ömmu eða afa er einnig tilvalinn miðja að sauma búta út frá og klippa má niður gamlar skyrtur og gera úr þeim töskur, púða eða hvað sem hugurinn girnist.

  Hresst upp á erfðagripi

  Víða á heimilum er að finna gamla gripi úr búi forfeðranna. Slíkir munir eru alltaf verðmætir en misslitnir eins og gengur. Séu þeir farnir að láta verulega á sjá er auðvelt að gefa þeim andlitslyftingu með málningu. Gamla trémuni þarf að pússa vel með sandpappír áður en hafist er handa og síðan grunnmála. Mjög fallegt getur verið að sprautalakka síðan yfir grunninn ef menn vilja háglans en mattari og eldri áferð er hægt að ná fram með kalkmálningu.

  Málm er auðvelt að mála. Fyrst er borinn á ætandi grunnur og hann látinn þorna vel en eftir það er hægt að nota nánast hvað málningu sem er því góð viðloðun næst fram með honum.

  Mósaík er skemmtilegt föndur

  Gamlir sprungnir og brotnir postulínsgripir geyma stundum góðar minningar frá því þeir voru upp á sitt besta. Hvers vegna ekki að nota þá í mósaík. Hamarinn kemur að góðu gagni við að mylja niður í rétta stærð og svo er brotunum raðað saman í mynstur á borðplötu eða annað. Nefna á að hægt er að bora gat í botninn á fallegri glerskál, klæða hana síðan með margvíslegum glerbrotum er mynda mósaíkmynd og að lokum þræða rafmangsnúru gegnum gatið og koma fyrir perustæði. Þar með er komin glæsileg ljósakróna.

  Texti: Steingerður Steinarsdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is