2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Fallegar og heilbrigðar neglur

  Gervineglur njóta mikilla vinsælda og margar leiðir eru til viðhalda fallegum nöglum með því móti. En það er gott að taka sér hvíld frá slíku af og til og enn kjósa margar konur að leggja rækt við sínar eigin neglur fremur en að láta byggja þær upp með hjálp fagfólks. Hvort sem konur kjósa að sinna vel um eigin neglur eða annað er gott að fylgjast vel með heilbrigði naglanna.

  Ef þú hefur áhyggjur af því að neglur þínar séu ekki í lagi ættir þú að leita til læknis. Neglurnar sýna oft fyrstu merki um undirliggjandi sjúkdóma og margt er auðvelt að meðhöndla ef fólk kemur snemma. Til að halda nöglunum heilbrigðum er gott að hafa eftirfarandi í huga:

  1. Haldið höndunum hreinum

  Á þessum tímum þegar sóttvarnir eru mikilvægar ætti þetta að vera auðvelt. Taktu að minnsta kosti einn handþvott á dag þar sem þú þværð vel í kringum neglurnar og burstar öll óhreinindi undan þeim. Notaðu mjúkan bursta. Veldu acetone-lausan naglalakkarhreinsi því acetone þurrkar neglurnar.

  2. Sýndu nöglunum umhyggju

  Neglur eru viðkvæmar og engin ástæða til að skrúbba þær af hörku. Aldrei nota máláhöld til að hreinsa undan nöglunum eða til að sverfa þær. Ef farið er of harkalega undir neglurnar með slíkum áhöldum getur það losað naglaplötuna frá húðinni og stækkað hvítu röndina efst.

  3. Klipptu neglurnar reglulega

  AUGLÝSING


  Að klippa neglurnar gerir það sama fyrir þær og hárið. Það örvar endurnýjun og þær vaxa hraðar. Sérfræðingar mæla með að klippa á tveggja vikna fresti.

  4. Leggðu meiri áherslu á heilbrigði en lengd

  Langar neglur eru vissulega fallegar en ef neglurnar á þér brotna auðveldlega eða rifna er það ekki fyrirhafnarinnar virði að reyna að láta þær vaxa fram. Leggðu heldur áherslu á að halda þeim heilbrigðum og fallegum. Þær styrkjast einnig smátt og smátt ef hægt er að halda þeim í tiltekinni lengd.

  5. Vertu alltaf með naglaþjöl meðferðis

  Þú getur alltaf búist við að nögl brotni eða klofni og þá er nauðsynlegt að sverfa hana niður og jafna strax, annars heldur ferlið áfram og veikir alla nöglina. Notaðu kristallaþjalir fremur en málmþjalir.

  6. Gleymdu ekki að hreinsa naglaáhöldin reglulega

  Það þarf að þvo og sótthreinsa reglulega öll áhöld sem notuð eru við snyrtingu. Rétt eins og konur hreinsa vel förðunarbursta sína ættu þær að þrífa naglaburstana, nota eingöngu hreina bómullahnoðra og spreyja naglaskæri, þjalir og klippur með sótthreinsivökva. Þeim þarf einnig að skipta reglulega út því ekkert af þessu endist að eilífu.

  Nokkur merki um heilbrigðar neglur

  Nöglin sjálf er með ljósan og fallegan lit. Gular neglur geta verið merki um sýkingar eða veikindi.

  Naglaböndin gegna ákveðnu hlutverki svo ekki klippa þau.

  Hvíta röndin fremst er falleg að lit og nokkurn veginn jafnbreið á öllum nöglum.

  Hálfmáninn við naglrótina er skýr og hvítur að lit.

  Nokkur merki um óheilbrigðar neglur:

  Neglur sem klofna auðveldlega og eru stökkar geta verið merki um vítamínskort. Ofþurrkur er einnig stundum ástæða og þá er gott að örva myndun náttúrulegrar olíu í nöglunum með því að pússa þær með þar til gerðum naglapúða.

  Litlir hvítir blettir koma oft í neglur til marks um að þær séu lakkaðar of þykkt og of oft.

  Rendur í nöglum geta verið til marks um streitu en þær koma einnig stundum fram eftir erfið veikindi.

  Roði í húð og bólgur í kringum neglurnar koma þegar naglaböndin eru fjarlægð og ekki leyft að gefa nöglinni þá vörn og aðhald sem þeim er ætlað,

  Skeiðarlaga neglur geta bent til járnskorts.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is