2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Fannst alltaf eitthvað vanta

  Sylvía Magnúsdóttir segir áhugaverða sögu sína í nýjasta blaði Vikunnar. Hún fæddist í Þýskalandi árið 1971 en var ættleidd til Íslands aðeins þriggja mánaða gömul. „Ég var níu ára þegar ég komst að því að foreldrar mínir væru ekki blóðforeldrar mínir,“ segir hún. „Mér var sagt það óvart af skyldmenni. Það var svolítið sjokk,“ segir Sylvía.

  Seinna kviknaði áhugi á að leita upprunans. „Þegar ég fór að eldast vildi ég komast að meiru enda fannst mér alltaf vanta eitthvað hjá mér. Ég vissi hvaða lögfræðingur sá um ættleiðinguna og talaði við hann. Þetta var árið 1987 og hann sagðist ekki geta hjálpað mér og fleira í þeim dúr. Lögin voru þannig þá.

  Þetta lá hins vegar þungt á mér og ég reyndi margar leiðir til að finna upplýsingar um blóðfjölskylduna mína.“

  Komst í samband við systkini sín

  AUGLÝSING


  Sylvíu var seinna gerð grein fyrir að hún ætti fimm systkini. Faðir hennar var Tyrki en móðirin þýsk. Hún gaf frá sér öll börnin sín en ekkert þeirra var samfeðra og fjölskyldan glímdi við ýmiss konar vanda. Sylvía tók þá ákvörðun að hún vildi ekki hitta foreldra sína. „Vildi ég kynnast systkinum mínum? Sú spurning vaknaði óneitanlega um leið. Ég var ekki viss en ég bað um þær upplýsingar sem þau höfðu um þau. Þá ég fékk að vita að lokað væri á þær vegna þess að fyrst þyrfti að tala við þau og spyrja hvort þau hefðu áhuga á að hitta mig. En sendiráðsfólkið hjálpaði mér og hringt var í þau og þeim gefið netfangið mitt. Þannig voru þau frjáls að því að skrifa mér. Þann 31. júlí 2013 leit ég á tölvupóstinn minn og sá þá stutt og laggott bréf frá blóðbróður mínum. Hann vildi hitta mig. Ég skrifaði strax á móti og sendi Facebook-nafnið mitt og þar addaði hann mér og við erum búin að vera í sambandi síðan.“

  Í ljós kom að öll systkini hennar höfðu átt við fíknivanda að stríða. Þau höfðu meira og minna alist upp á fósturheimilum en stundum verið í umsjá annars hvors foreldris síns. Þrjú þeirra voru það illa stödd að Sylvía treysti sér ekki til að reyna að setja sig í samband við þau. En auk bróðurins áðurnefnda kynntist hún einni systur sinni en komst fljótt að því að hún væri ekki fyllilega heiðarleg í samskiptum.

  „Þegar ég komst að því að hún væri óheiðarleg skrifaði ég henni og sagðist ekki hafa áhuga á að halda tengslum.“

  „Hún er lygari og ég hef ekkert að gera með þannig fólk. Þegar ég komst að því að hún væri óheiðarleg skrifaði ég henni og sagðist ekki hafa áhuga á að halda tengslum. Það er ekki mikill missir af slíkum úr mínu lífi. Ég held hins vegar líka tengslum við bróðurson minn og börn þessarar systur minnar. Hann er eins og snýttur út úr nösinni á mér,“ segir hún og hlær og sýnir blaðamanni mynd af sér með ungum manni sem vissulega gæti alveg verið sonur hennar.

  Viðtalið við Sylvíu er að finna í 1. tölublaði ársins.

  Lestu viðtalið við Sylvíu í heild sinni í nýjasta blaði Vikunnar.

  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Mynd / Hallur Karlsson

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is