2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Fátækt er afleiðing pólitískra ákvarðana“

  Hún segist alla tíð hafa verið fátæk, fyrst sem næstyngsta barn einstæðrar móður sex barna, sem fullorðin í láglaunastörfum og seinna einstæð með þrjú börn á framfæri. Eftir að hún varð öryrki heldur hún áfram að lifa í sífelldum afkomuótta. Geirdís Hanna Kristjánsdóttir á ekkert heimili en hefur kosið að búa í sendibíl sem breytt var í húsbíl til þess að geta lifað.

  „Ég skulda ekkert og hef ekki gert í þónokkuð mörg ár en ég er enn í þeirri stöðu að velta fyrir mér hverri krónu til að hámarka verðgildi hennar. Sem öryrki má ég hvorki eiga sparifé né fá greiðslur úr lífeyrissjóði án þess að það skerði örorkulífeyrinn frá Tryggingastofnun ríkisins. Ég þurft að velja á milli þess að borga reikningana eða kaupa í matinn, kaupa mat eða nauðsynleg lyf, kaupa föt á börnin eða mig, velja tannheilsu barnanna eða mína eigin, leyfa börnunum að æfa íþróttir eða fara með þeim í stutt frí innanlands og leigja mér húsnæði eða lifa án fjárhagsáhyggna,“ segir Geirdís Hanna og heldur áfram. „Í dag bý ég í sendibíl sem var breytt í húsbíl vegna þess að ég kýs að lifa, en ekki bara lifa af. Ég var fátæk áður en ég varð öryrki, vann láglaunastörf með þrjú börn á framfæri og í stöðugum afkomuótta. Ég hef glímdt við kvíða og þunglyndi frá barnæsku, lent í nokkrum bílslysum sem orsökuðu stoðkerfisvanda og lenti í líkamsárásum sem höfðu bæði andlegar og líkamlegar afleiðingar.“

  Finnurðu fyrir fordómum? „Já, að vera öryrki í dag er enn þá skammarstimpill, því miður. Ég er í 50% starfi og mörgum finnst að fyrst ég geti það þá geti ég alveg unnið 100% starf. Ég æfi og keppi í keilu og úr því ég geti það þá sé ég ekki öryrki. Ég stunda líkamsrækt og fyrst ég geti það þá geti ég alveg eins unnið meira. Ég sinni ýmis konar félagsstarfi og ef ég get það þá hljóti ég að geta unnið meira. En ég get ekki unnið meira vegna þess að ég er öryrki. Ég stunda þetta allt því það heldur mér gangandi og forðar mér frá félagslegri einangrun eins og hlutskipti mjög margra öryrkja er.“

  Dýrt að leigja húsnæði

  AUGLÝSING


  Geirdís Hanna er fædd og uppalin á Siglufirði, flutti til Akureyrar haustið 1988 og flutti þaðan til Reykjavíkur haustið 2018. Nú býrð þú í húsbíl, hvað varð til þess að þú ákvaðst að búa í bíl og verðurðu fyrir fordómum vegna þess? „Meginástæða þess að ég bý í húsbíl er að ég á hann og hvað leigumarkaðurinn er svívirðilegur. Sem dæmi má nefna að ég leigði herbergi með aðgangi að eldhúsi og baði á 75.000 kr. á mánuði fyrst eftir að ég flutti til borgarinnar. Og það var vel sloppið miðað við það sem ég sé auglýst í dag, tveggja herbergja íbúð er á 200.000 á kr. mánuði og fólk þarf að greiða 2-4 mánuði fyrirfram í tryggingu.“

  Hún segist ekki beint hafa orðið fyrir fordómum. „En margir undrast það að ég velji þennan lífsstíl, því þetta er utan við hið eðlilega. Ég hef t.d. ekkert fast heimilisfang þar sem maður getur ekki haft lögheimili í bíl. Vistin í bílnum er í megindráttum mjög góð. Ég er þó búin að sjá það að þessi bíll hentar mér ekki til langtímabúsetu, því hann er svo lítill að ekki er hægt  með góðu móti að koma öllu nauðsynlegu fyrir. Því jafnvel þótt ég þurfi ekki mikið þá eru ákveðnir hlutir sem taka sitt pláss og þegar búið er þröngt þarf að vera gott skipulag á hlutunum. Á veturna eru snjóbuxurnar og þykka úlpan á vísum stað, á meðan vöðlurnar og veiðidótið þurfa sitt pláss á sumrin. Það er líka annar munur á milli þessara árstíða og það er hitastigið. Á köldustu dögum og nóttum hefur orðið mjög kalt og einn morguninn voru rúðurnar hélaðar að innan. Það var kalt að fara á fætur þann daginn.“

  Geirdís Hanna Kristjánsdóttir. Mynd / Hákon Davíð

  Hvað hefurðu í hyggju varðandi húsnæðismál – sérðu einhverja möguleika?

  „Það sem ég hef í hyggju varðandi framtíðarbúsetu, er að halda áfram að minnka við mig veraldlega hluti. Ég vil byggja líf mitt með fólki, upplifunum, ferðalögum og góðum stundum, ekki dauðum hlutum. Markmiðið er að eignast stærri bíl sem ég get gert þægilegan fyrir mig, með nægu rými til að ég geti boðið fólkinu mínu í kaffi og eða mat, og átt með því kósí stundir.“

  Valdefling fátækra

  Geirdís Hanna hefur um nokkurt skeið starfað með Pepp á Íslandi sem er grasrótarhreyfing EAPN. EAPN á Íslandi eru regnhlífarsamtök félaga sem berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun og voru stofnuð í upphafi árs 2011. Samtökin eiga aðild að EAPN (European Anti Poverty Network) sem voru stofnuð árið 1990. Aðildarfélög EAPN á Íslandi eru Félag einstæðra foreldra, Hagsmunasamtök heimilanna, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn, Kærleiksþjónusta kirkjunnar, Samhjálp, Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra, Velferðarsjóður Suðurnesja og Öryrkjabandalag Íslands.

  Hvernig kynntist þú Pepp samtökunum? „Vinkona mín á Akureyri kynnti mig fyrir Pepp samtökum fólks í fátækt árið 2015. Ég varð strax mjög hrifin af samtökunum og fólkinu sem starfar með þeim og hef eignast marga góða vini í gegnum starfið. Ég hef í raun ekkert sérstakt hlutverk innan samtakanna en starfa með öðrum félögum innan þeirra að verkefnum sem eru fyrirliggjandi hverju sinni. En ég hef því miður ekki getað sinnt því sem skyldi í vetur vegna anna.“

  Hvað varð til þess að þú ákvaðst að taka þátt í Pepp? „Ég hef búið við fátækt allt mitt líf og hugmyndin um að valdefla fólk í fátækt heillaði mig. Það að geta skilað skömminni og hjálpað öðrum að gera slíkt hið sama er ótrúlega góð tilfinning því fátækt er afleiðing pólitískra ákvarðana, ekki val. Helstu meðlimir Pepp eru fólk sem hefur búið við fátækt og félagslega einangrun. Sem betur fer erum við alltaf að eignast fleiri málsvara fyrir okkar málstað og því ber að fagna. Við þurfum að berjast fyrir skilningi á okkar kjörum. Helstu meðlimir Pepp eru fólk sem hefur búið við fátækt og félagslega einangrun.“

  „Ég hef búið við fátækt allt mitt líf og hugmyndin um að valdefla fólk í fátækt heillaði mig.“

  Vel hægt að útrýma fátækt

  Hvernig hefur fátækt áhrif á sálarlífið?

  „Fátækt hefur afskaplega mikil og djúpstæð áhrif á andlega líðan,“ segir Geirdís „Ég hef oft upplifað mig sem misheppnaða að geta ekki verið eins og „venjulegt fólk“.  Og að þurfa endalaust að neita börnunum mínum um það sem þykir „sjálfsagt“ hefur í för með sér enn frekara niðurrif og tilfinningu um að hafa brugðist.“

  Hvað er að þínu mati hægt að gera til að útrýma fátækt á Íslandi?

  „Eins og ég hef áður sagt, þá er fátækt afleiðing pólitískra ákvarðana. Og til að hægt verði að útrýma fátækt þurfa stjórnvöld fyrst og fremst að viðurkenna að hún sé raunveruleg og taka ákvarðanir í samræmi við stærð vandans. Hækka örorkulífeyri og afnema allar skerðingar. Það væri til að mynda mjög gott skref í átt að bættum lífskjörum öryrkja, einnig hækkun atvinnuleysisbóta og lægstu launa.

  „Og til að hægt verði að útrýma fátækt þurfa stjórnvöld fyrst og fremst að viðurkenna að hún sé raunveruleg, og taka ákvarðanir í samræmi við stærð vandans.“

  Því tökum sem dæmi að ef allir landsmenn fá 10.000 krónur. Þá fer sá/sú sem ekki nær endum saman í hverjum mánuði, og eyðir aurnum í það sem viðkomandi vantar og hjálpar þannig við að halda hagkerfinu gangandi. Sá/sú sem aftur á móti hefur meira en nóg og á jafnvel góðan afgang í lok mánaðar, stingur 10.000 krónunum undir koddann og enginn græðir nema hann/hún,“ segir Geirdís að lokum en hún þjáist af áfallastreituröskun sem er afleiðing af einelti og ofbeldi sem hún upplifði sem barn og fullorðin manneskja. En hún er þrautseig og full baráttuvilja og segir að þótt margoft hafi hún verið komin að því að gefast upp þá hafi fólkið hennar haldið henni gangandi.

  Texti / Unnur H. Jóhannsdóttir
  Myndir / Hákon Davíð Björnsson

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is