Fékk innblástur frá börnum

Veröld Míu eftir Margréti Ýri Ingimarsdóttur segir af fuglsunganum Míu sem er uppátækjasöm, hjartagóð og nýtur þess að syngja og dansa. Hún á marga góða vini og þegar sjálfsefinn hellist yfir er gott að heyra að þeir taka eftir hennar góðu kostum.

Margrét Ýr er grunnskólakennari og fékk innblástur að bókinni frá börnunum í kringum sig. Áttu börn sjálf?„Tvær stelpur, Sölku og Kötlu, og þær voru meðal annars innblástur minn að bókinni. Mig langaði að sýna þeim að maður á að láta drauma sína rætast. Annars var reyndar nemandi hjá mér í gamla bekknum sem ég kenndi sem ýtti svolítið við mér. Ég legg mikla áherslu á að þau elti drauma sína og láti þá rætast. Einhverju sinni spurði hann mig hvort ég ætti mér einhvern draum og ég viðurkenndi að mig hefði alltaf langað að skrifa barnabók. Hann spurði þá: „Já og ertu búin að því?“ Ég gat auðvitað ekki svarað því játandi og þá var næsta skref að láta verða af því. Maður verður auðvitað að vera fyrirmynd. Svo ég kýldi á þetta.“

Margrét Ýr ákvað í kjölfarið að gefa bókina út sjálf. „Ég hef mikla trú á þessari bók,“ segir hún. „Í henni er fallegur og lærdómsríkur boðskapur. Henni er ætlað að opna augu barna fyrir sínum eiginleikum. Oft geta börn og náttúrlega líka við fullorðna fólkið, einblínt um of á hvað aðrir eru góðir í. Einbeitt okkur að því að dáðst að hæfni hinna í stað þess að horfa inn á við og skoða: Hvaða hæfileikum er ég gædd eða gæddur, hvernig á ég að njóta mín?

Ég legg mikið upp úr því í kennslunni að ýta undir styrkleika nemenda og leyfa þeim að njóta þeirra. Það er enginn góður í öllu en allir eru góðir í einhverju. Bókin er ætluð til þess að börn opni augun fyrir því og sjái að þau geti fundið sína styrkleika og blómstri á því sviði. Sagan snýst einnig um hve hollt það er að geta samglaðst öðrum og dáðst að þeirra kostum. Af og til falla börn í þá gryfju að verða svolítið öfundsjúk og óska þess að þau geti það sama og einhver annar. Þá er gott að geta hafið sig yfir það og fagnað með þeim.“

AUGLÝSING


Fleira áhugavert er að finna í viðtali við Margréti í nýjustu Vikunni.

Myndir: Hallur Karlsson

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is