Ferðalag Söndru til betri árangurs: „Allir góðir hlutir krefjast fyrirhafnar“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Sandra Jessen, atvinnumaður í fótbolta og liðsmaður íslenska landsliðsins segir sögu sína í bókinni Betri útgáfan eftir Inga Torfa og Lindu Rakel Jónsdóttur. Bókin Betri útgáfan kom út í byrjun árs og í henni er að finna skemmtilegar og fræðandi greinar frá mögnuðum einstaklingum um heilsu, hreyfingu, mataræði, markmiðasetningu og hugarfar.

„Allt frá því ég man eftir mér hef ég haft mikinn áhuga á íþróttum og hreyfingu. Ég var alltaf þessi orkumikli krakki, æfði allar íþróttir og snéri öllum leikjum yfir í keppni. Ég vildi alltaf vinna og lagði mikið á mig til að ná árangri í því sem ég tók mér fyrir hendur. Þegar ég hafði samband við Inga Torfa var ég að gera hið sama. Ég þráði bætingu, bæði fyrir mig sem atvinnukonu í íþróttum og ekki síður sem metnaðarfullur einstaklingur í lífinu almennt. Það tók Inga Torfa ekki langan tíma að sannfæra mig um að þetta væri mikilvægt skref í þá átt sem ég vildi stefna,“ segir Sandra.

„Áður en ég vissi af var ég byrjuð að vigta ofan í mig allt sem ég borðaði. Fyrstu dagarnir voru krefjandi, ég upplifði mig óörugga og ómeðvitaða um innhald þess matar sem ég var að setja ofan í mig, ólíkt því sem ég hélt áður en ég byrjaði að vinna með Inga Torfa. Ég vissi nokkurn veginn hvaða matvörur voru ríkar af kolvetnum, eins og kartöflur og hafrar, en áttaði mig ekki á hver hlutföll fitu og próteins voru í þeim vörum. Að sama skapi var ég ekki að dreifa kaloríunum nógu vel yfir daginn. En um leið og ég náði betri tökum á því fann ég strax mun á mér. Ég upplifði sjaldnar að fá „cravings“ yfir daginn eða að finna fyrir miklu hungri.“

Sandra Jessen og liðsfélagar hennar á æfingu
Mynd / Aðsend

Vinir og liðsfélagar fóru að taka eftir breyttum matarvenjum

„Eðlilega fóru vinir og liðsfélagar að taka eftir breyttum matarvenjum hjá mér. Ég fékk heilan helling af spurningum eins og: Hvernig nennir þú þessu? Af hverju ertu að þessu? Ertu ekki í nógu góðu standi nú þegar? Gerir þetta eitthvað gagn? Ertu örugglega að borða nóg?,“ segir Sandra.

„Það tók smá tíma að læra að svara þessum spurningum, en innst inni vissi ég alltaf að svarið var og er einfalt. Mig langaði að sjá hversu langt ég gæti náð ef ég myndi bókstaflega gera allt upp á 10,5. Mataræði, æfingar, svefn, hvíld og ýmislegt tengt andlegu hliðinni sem ég taldi geta hjálpað mér að ná árangri – ég tók bókstaflega allt í gegn. Að auki langaði mig að sjá hversu vel mér gæti liðið andlega. Af hverju ekki að prófa og sjá hvað ég kæmist langt ef ég myndi leggja mig 100% fram, og helst 110%. Þetta ferðalag með Inga Torfa er einfaldlega svo miklu meira en bara að taka mataræðið í gegn. Ég tekst á við nýjar áskoranir hvern einasta dag og það er stöðugt verið að minna mig á litlu hlutina sem eru svo mikilvægir þegar maður lítur á heildarmyndina, lífsgæðin.“

Sandra Jessen
Mynd / Aðsend

Áhrif jákvæð, andlega og líkamlega

„Eftir nokkrar vikur í prógramminu fannst mér ég vera orðin orkumeiri og fannst eiginlega lygilegt hvað þetta væri að hafa mikil jákvæð áhrif á mig, bæði andlega og líkamlega. Einn daginn upplifði ég augnablik sem var mjög mikilvægt á þessu ferðalagi mínu, en ég áttaði mig á því hvað þetta væri að gefa mér mikið forskot. Þannig upplifði ég þetta, sem gerði alla vinnuna fullkomlega þess virði og rúmlega það. Fyrst tók ég sjálf eftir breytingunum, líkaminn varð meira skorinn og almennt form tók framförum. Nokkrum vikum síðar fóru liðsfélagar og vinir að taka eftir bætingunum og loks fór það að skína í gegn á æfingum og í leikjum. Ég fór frá því að vera leikmaður sem var í byrjunarliðinu í sumum leikjum í það að vera leikmaður sem spilaði allar mínútur í öllum leikjum. Betri viðurkenningu gat ég ekki fengið. Síðast en ekki síst skinu framfarirnar í gegn í hefðbundnum frammistöðuprófum sem við í Leverkusen förum reglulega í hér í Þýskalandi. Þar eru skoðaðir þættir á borð við hámarksstyrk, snerpu, hraða, liðleika, úthald, myndun mjólkursýru og fituprósentu. Þegar liðið fór í próf tveimur mánuðum eftir að ég hóf ferðalagið hjá Inga Torfa, kom það mér ekki á óvart hvað ég náði miklum framförum í öllum áðurnefndum þáttum. Mér gekk meira að segja það vel í úthaldsprófinu að ég var ekki langt frá því að ná að hlaupa jafn lengi og leikmenn karlaliðsins í  Leverkusen. Það fannst mér magnað og setti punktinn yfir i-ið,“ segir Sandra.

„Ég ætla þó ekki að segja að þetta hafi alltaf verið dans á rósum. Það komu vissulega tímar þar sem þetta var erfitt, mig langaði að gefast upp eða ég gerði mistök.

Það var þó allt partur af ferðalaginu og að mínu mati mikilvægt. Þessir svokölluðu slæmu dagar kenndu mér að vera þakklát fyrir alla góðu dagana og minntu mig á að taka þeim ekki sem sjálfsögðum hlut. Ég reyndi líka alltaf að hafa á bakvið eyrað, að allir góðir hlutir krefjast fyrirhafnar. Allt sem vert er að hafa krefst vinnu, viljastyrks, skuldbindingar og þolinmæði. Að byrja að macrosa er eins og að fá nýtt áhugamál og til að ná árangri er mikilvægt að vera sinn eigin leiðtogi. Átta okkur á að við erum að gera þetta fyrir okkur sjálf, við munum misstíga okkur en svo erum það líka við sjálf sem upplifum framfarirnar.

Við stjórnum hversu vel og nákvæmlega við gerum þetta og því er árangurinn byggður á okkar eigin vinnu.

Þetta ferðalag mitt er ekki búið, markmiðið er að verða besta útgáfan af sjálfri mér. Ég vil hámarka almenna lífshamingju og gleði, læra að njóta dagsins í dag og vera bæði stolt og þakklát fyrir það sem ég hef og kann. Ég hef tamið mér þá venju að horfa ekki langt fram í tímann. Ég vil einfaldlega gera það besta sem ég mögulega get á hverjum degi og hætta að hugsa um hvað var og hvað verður en nýta og njóta hvers dags til fullnustu.“

Bókin Betri útgáfan inniheldur einnig fjölda einfaldra og bragðgóðra uppskrifta með næringarupplýsingum. Uppskriftirnar koma frá fólki úr ýmsum áttum sem þekkja það að breyta um lífsstíl.

Betri útgáfan

Kaflinn er birtur með leyfi Króniku útgefanda Betri útgáfan.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -