2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Fetaðu þig í átt að sjálfsást

  Það getur tekið tíma að elska sjálfan sig eins og maður er. Hér eru nokkur ráð sem gætu komið að góðum notum.

  Í heiminum búa milljarðar fólks. Ímyndaðu þér ef allir væru mótaðir í sama mót og nákvæmlega eins. Veröldin væri heldur einsleit. Við erum allt of oft að reyna að fylgja einhverju sem við teljum staðalímynd út frá því sem við sjáum á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum og svo framvegis. Og erum ekkert endilega óskaplega góð við okkur. Segjum jafnvel hluti við okkur sjálf sem við myndum aldrei segja við nokkurn þann sem okkur þykir vænt um. Það getur verið erfitt að sættast við líkama sinn og þykja vænt um hann, jafnvel eftir að hafa átt erfitt með að horfa á hann árum saman. Að elska sjálfan sig eins og maður er getur tekið tíma og verið erfitt en Guðrún Óla blaðamaður tók saman nokkur ráð sem gætu hjálpað í átt að sjálfsást.

  *Hugsaðu hlutina upp á nýtt og hvað það er dásamlegt að geta fundið frið þegar kemur að mat, vigtinni og líkamsímynd án þess að fara í megrun.

  *Á samfélagsmiðlum skaltu bara fylgja fólki sem lætur þér líða vel og er af öllum stærðum og gerðum.

  AUGLÝSING


  *Taktu eftir að fólk er í alvöru með alls konar líkamsvöxt, í öllum stærðum og öllum gerðum.

  *Hættu að meta þig út frá því hvernig þú lítur út. Skrifaðu niður allt sem er svo dásamlegt við þig og minntu þig á það reglulega.

  *Hreyfðu þig til að hafa gaman af því og af því að hreyfingin gerir þér gott. Einbeittu þér að því að öðlast styrk en ekki hugsa þetta út frá útlitinu.

  *Vertu góð/ur við þig og talaðu við sjálfa/n þig eins og þú myndir tala við bestu vinkonu þína eða besta vin þinn. Samband þitt við þig sjálfa/n er það mikilvægasta sem þú munt nokkurn tíma eiga.

  *Ekki trúa öllu sem þú hugsar því gagnrýnandinn sem býr í höfðinu getur verið óvæginn.

  *Gleðstu yfir sigrunum hvort sem þeir eru stórir eða smáir. Klappaðu þér á öxlina og leyfðu þér að njóta þess árangurs sem þú hefur náð.

  *Prófaðu að stíga út fyrir þægindaramman og gera eitthvað nýtt, jafnvel eitthvað sem þú varla þorir. Tilfinningin sem fylgir því að gera eitthvað sem maður vissi ekki eða trúði ekki að maður gæti gert er ólýsanleg.

  *Mundu að þetta tekur tíma og leiðin á áfangastað er hlykkjótt. Ef þér finnst þú ekki fær um að elska líkamann þinn akkúrat núna þá gæti verið betra að einbeita sér að því að sættast við hann, frekar en að einbeita sér að því að elska hann. Fyrir þau okkar sem höfum hatað líkama okkar lengi getur verið erfitt að öðlast ást á honum einn, tveir og þrír. Það getur verið gott að byrja á að sættast við líkama þinn og vinna svo í sjálfsástinni.

   

   

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is