Fimm fáfarin fjöll

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Fjallgöngur eru góð skemmtun. Þær gefa tækifæri til útivistar, náttúruskoðunar og líkamsræktar.

Ísland er ákaflega ríkt af fjöllum en svo virðist sem nokkur þeirra njóti mun meiri vinsælda meðal göngugarpa en önnur. Þannig ganga stórir hópar fólks á konunginn Hvannadalshnjúk á hverju ári, Snæfell, Herðubreið og Snæfellsjökull eru einnig fjölfarin og sömuleiðis fjöll í nágrenni höfuðborgarinnar. Hér ætlum við að skoða fimm tinda sem auðvelt og gaman er að ganga á og ekki þarf að búast við fjölmenni á þeim leiðum.

Grindaskörð á Reykjanesi

Fjallgöngur gefa tækifæri til líkamsræktar, útivistar og náttúruskoðunar. Mynd/pexels.com

- Auglýsing -

Hægt er að ganga Grindaskarðsgötu en þá er bílnum lagt við Bláfjallaveg og lagt upp yfir hraunið. Skilti við veginn bendir á Grindaskörð og gengið er beint frá því.

Fljótlega kemur fólk að vel troðnum stíg en hann er hluti hinnar gömlu Síldarmannagötu sem liggur frá Hafnarfirði til Selvogs en þessa leið fetuðu sjómenn í gamla daga á leið sinni á vertíð. Gatan hlykkjast upp hlíðina og endar við vörðu á hraunsöxl en þar hefur vatn einhvern tíma rofið hana. Hún kemur hins vegar aftur í ljós í næstefstu brekkunni. Þegar komið er upp blasir við dásamlegt útsýni yfir Selvog, Herdísarvík og jafnvel alla leið austur til Heklu en einnig yfir Hafnarfjörð, Kópavog og til Snæfellsness á heiðskírum degi.

Kolgrafarmúli á Snæfellsnesi … Fjallið er austan Kolgrafarfjarðar og auðþekkt af ríólíti … Sagan segir að óskasteinar leynist á toppnum svo það gæti verið vel þess virði að leggja á sig að klifra þangað.

Kolgrafarmúli á Snæfellsnesi

- Auglýsing -

Fjallið er austan Kolgrafarfjarðar og auðþekkt af ríólíti (Íslendingar kallað það líparít) í hlíðum þess. Múlinn er 427 m hár og nokkuð skriðurunninn. Það er nokkuð auðvelt að ganga á hann og hægt að ráðast til uppgöngu svo að segja hvar sem er. Hér er óhætt að hafa augun opin því hér hafa fundist djúpbergstegundir á borð við gabbró og granít en einnig geislasteinar, jaspísar og hrafntinna. Sagan segir að óskasteinar leynist á toppnum svo það gæti verið vel þess virði að leggja á sig að klifra þangað.

Tungustapi í Sælingsdal

Íslendingar eiga ótal fallegar, fyndnar, skemmtilegar og áhrifamiklar þjóðsögur. Fáar eru þó eins hjartnæmar og sagan af álfaprestinum í Tungustapa. Það er vel þess virði að rifja hana upp, gera sér síðan ferð upp í Sælingsdal og ganga stikaða leið á stapann. Hún liggur upp hann sunnanverðan og ofan af honum er fallegt útsýni um dalinn allan. Menn ættu þó að gæta þess að styggja ekki álfabiskupinn eða önnur sóknarbörn hans. Gönguna er svo frábært að enda með því að skoða Guðrúnarlaug í Sælingsdalstungu.

- Auglýsing -

Baula í Borgarfirði

Baula er eitt formfegursta fjall landsins en að ganga á hana er ekki á færi nema þeirra sem eru í góðu formi og vanir fjallgöngum. Mynd/commons.wikimedia.org

Baula er eitt formfegursta fjall landsins en að ganga á hana er ekki á færi nema þeirra sem eru í góðu formi og vanir fjallgöngum. Hún er 924 m á hæð úr ríólíti og víða brött og skriðurunnin. Best er að ganga á hana að suðvestan- eða suðaustanverðu. Þegar upp er komið er sagt að útsýni opnist til níu sýslna og það ætti að gera erfiðið við að klöngrast í stórgrýttum skriðunum þess virði.

Hlöðufell í Árnessýslu

Hinn rismikli móbergsstapi Hlöðufell er einstaklega glæsilegur tilsýndar og þeir sem hafa unun af fjallgöngum ættu að njóta þess að sigra hann. Hann er 1188 m á hæð og efst umgirtur hamrabelti og mjög fáar leiðir færar þar upp. Ein þeirra er hamragil upp af skála Ferðafélags Íslands á Hlöðuvöllum. Sunnan við Hlöðufellið er Rótarsandur en þar á Brúará upptök sín og mikið náttúruundur að sjá vatnið fossa úr hamraveggjunum og mynda þetta tæra fallega fljót.

Höfundur / Steingerður Steinarsdóttir

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -