Finnst gaman að para saman ólík föt

Deila

- Auglýsing -

Harpa Ósk Björnsdóttir, söngkona og verkfræðingur, segir að sér finnist gaman að para saman ólík föt sem hún kaupi í verslunum sem selja notuð föt. Hún segist reyna að klæða sig í hlý föt yfir vetrarmánuðina, því henni finnist ekki gott að vera kalt og sér líði best í föðurlandinu.

Harpa Ósk hefur í nógu að snúast. Hún var valin rödd ársins 2019 í Vox Domini, söngkeppni klassískt menntaðra söngvara og mun fara með hlutverk Barbarinu í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart, sem Íslenska óperan frumsýnir næsta haust. Hún útskrifaðist nýlega með B.Sc.-gráðu í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands og segist vona að hún þurfi aldrei að velja á milli söngsins og verkfræðinnar þótt hún viti að verkfræðin myndi ekki fara neitt ef hún ákvæði að gefa söngnum tækifæri í einhvern tíma.

Spurð hvort einhver flík sé á óskalistanum segir Harpa Ósk svo ekki vera. „Ég er að reyna að venja mig á nýja siði varðandi fatakaup. Í stað þess að fara og kaupa ný föt þá fer ég frekar í gegnum þau ógrynni af fötum sem ég hef sankað að mér. Oft rekst ég á flíkur sem ég hef ekki notað lengi eða var búin að gleyma að ég ætti. Það er til dæmis mjög gott trix að prófa að snúa kjólum, sem maður er kominn með leið á, öfugt, þ.e. þannig að bakið snúi fram og þannig koma þeir oft betur út. Ég hef líka verið að prófa að para saman ólík föt og að „layera“ í kuldanum, það kemur oft skemmtilega út.“

Oft rekst ég á flíkur sem ég hef ekki notað lengi eða var búin að gleyma að ég ætti.

Hún bætir við að góður sundbolur sé þó skyldueign í fataskápnum og ekki skemmi fyrir að hafa hann úr skemmtilegu efni. „Ég keypti uppáhaldssundbolinn minn í Goodwill í Los Angeles í fyrrasumar; himinbláan retro Speedo-sundbol.“

Harpa Ósk segir að sér finnist skemmtilegast að versla í second-hand-búðum.

„Hér á Íslandi kaupi ég aðallega í Rauða kross búðunum og Hertex. Ég verslaði mikið í Goodwill þegar ég var í Bandaríkjunum í fyrrasumar. Það er svo gaman að kaupa a í second-hand-búðum þar því það er svo lítið búið að grisja vörurnar og maður getur gleymt sér inni í þessum risastóru búðum klukkustundum saman. Svo kíki ég oft í í Monki þegar ég heimsæki systur mína sem býr úti í Gautaborg.“

Hún bætir við að flest húsgögnin í íbúðinni hennar séu keypt í Góða hirðinum eða á síðunni Bland.is. „Það gefur íbúðinni skemmtilegan blæ. Það er alveg magnað hvað er hægt að sanka að sér flottum húsgögnum án þess að kaupa ný.“

Hún segist stundum versla í netverslunum og hafi gert mikið af því þegar hún bjó í Los Angeles í tíu vikur í fyrrasumar þar sem hún vann að rannsókn við Caltech. „Það var eiginlega of auðvelt að versla á Netinu þar; ég t.d. keypti mér hulstur á símann minn í netverslun Apple og klukkutíma seinna var manneskja mætt í anddyrið á rannsóknarstofunni með pakkann minn.“

 

„Þessi kjóll frá Stine Goya í Kaupmannhöfn er sú flík sem ég keypti mér síðast. Mér finnst skemmtilegast að kaupa mér íslenska hönnun og mig langaði að vera í flík eftir íslenskan hönnuð þegar ég útskrifaðist úr rafmagnsverkfræðinni frá Háskóla Íslands í febrúar. Ég leitaði í góðan tíma en fann bara ekki réttu flíkina. Svo ég pantaði þennan kjól á Netinu og hann smellpassaði. Ég er mjög ánægð með hann.“

„Ég hef  keypt svolítið af eyrnalokkum frá Vanessa Mooney á Netinu. Fatastíllinn minn er frekar einfaldur og lágstemmdur en ég er eiginlega alltaf með einhverja sniðuga eyrnalokka til að lífga upp á heildarútlitið.“

Uppáhaldsflíkurnar mínar eru konsertkjólarnir mínir tveir. Þann dökkbláa keypti í pínulítilli brúðarkjólabúð úti í Gautaborg fyrir Unga einleikara 2019 þar sem ég söng með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg í janúar síðastliðnum. Þann ljósbláa keypti ég á ASOS fyrir útskriftartónleikana mína frá Söngskólanum í Reykjavík í maí 2018.

„Furðulegustu kaupin er þetta hálsmen úr hestatönnum sem ég keypti á markaði á Spáni þegar ég var 18 ára. Mér fannst það ótrúlega töff en núna finnst mér það bara frekar óhugnanlegt.“

„Uppáhaldsfylgihluturinn minn er Ýrúrarí-trefillinn minn sem mér þykir afskaplega vænt um. Ég fékk hann í jólagjöf frá bróður mínum í fyrra. Ýr bæði hannar og framleiðir treflana, ég mæli með að þið fylgist með henni, t.d. á Instagram.“

Myndir / Hákon Björnsson

 

 

- Advertisement -

Athugasemdir