Fjögur frábær fjöll

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Fjallgöngur eru skemmtileg tómstundaiðja og góð leið til að rækta heilsuna. Þrekið og þolið eykst þegar gengið er upp í mót og útiveran gefur ferskt loft í lungun. Margs er að njóta á slíkum göngum, allt frá smæstu blómum upp í víðfeðmt útsýni af hæstu tindum. Hér verður sagt frá fjórum fjöllum sem eiga það sameiginlegt að vera algjörlega frábær til útivistar.

 

Hrikalegt Horn

Hornvík er dásamlegur áfangastaður og þaðan er aðgengi að mörgum fegurstu gönguleiðum á Íslandi. Flestir ganga upp á Hornbjarg þegar þeir eru þar staddir á annað borð. Hrikalegt landslag Vestfjarða er í senn heillandi og ógnvekjandi. Hornbjarg rís úr djúpinu og Kálfatindur er hæsti punktur þess, 543 m, en það er ekki fyrir lofthrædda að standa þar á brúninni og skoða fuglalífið í berginu fyrir neðan. Miðfell er mjósti hluti bjargsins en þar má sitja klofvega með annan fótinn yfir hyldýpinu en hinn vísar inn á  landið, í öryggið. Göngustígar hangandi utan í snarbröttum hlíðum eru reglan en ekki undantekningin hér um slóðir og eins gott að menn treysti fótfimi sinni við slíkar aðstæður. Þegar haft er í huga að forfeður okkar bjuggu á þessum stað og ferðuðust um, jafnt á sumri sem vetri er ekki laust við að maður fyllist aðdáun. Við getum aðeins reynt að gera okkur í hugarlund hvernig það er að feta þessar leiðir í hálku og snjó. Sennilega hefur oft mátt litlu muna og kannski bara kraftaverk að ekki fórust fleiri í þess háttar háskaspili.

Við fordyri vítis

Allt fram á 19. öld var víða erlendis vottur af hjátrú varðandi Heklu og fram á okkar daga hefur mátt heyra frændur vora Svía segja mönnum að fara til fjandans með orðunum: „Dra åt Häcklefjäll“. Sú var nefnilega trúa manna að þarf væri að finna fordyri helvítis. Fyrstir manna til að ganga á Heklutind, að því talið er, voru þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson, aðfaranótt 20. júní 1750. Sú saga var lífsseig að bóndi á bæ við Heklurætur hafi varað þá eindregið við förinni og spurt þá þegar þeir komu niður hvort þeir hafi séð djöfulinn sjálfan. Svar upplýsingamannanna Eggerts og Bjarna var: „Já og hann bað að heilsa þér.“ En tilgangur þeirra var meðal annars að uppræta þessar hégiljur.  Hekla er næstvirkasta eldfjall landsins á sögulegum tíma og hefur gosið að meðaltali á 55 ára frest síðan land byggðist. Ekki er vitað hve margar jarðir Hekla hefur lagt í auðn en vitað er að það er umtalsvert og gos byrja oft snögglega þar. Þess vegna er fólk hvatt til að fara varlega ef það hyggst ganga á hana.

Þrekið og þolið eykst þegar gengið er upp í mót og útiveran gefur ferskt loft í lungun. Mynd / Amanda Sandlin

Njósnafjallið

Þríhyrningur kemur oft við sögu í Njálu. Þaðan er gott útsýni um alla sveitina og þangað fóru menn ef þeir þurftu að fylgjast með mannaferðum. Flosi Þórðarson faldi sig þar með brennumenn sína eftir að hafa kveikt í Bergþórshvoli. Þar eru örnefni eins og Flosahellir og Flosadalur. Þríhyrningur er óneitanlega tilkomumikill hvar sem á hann er litið og nokkuð auðvelt að ganga þar upp. Hæsti punktur er 675 m. Þarna er kjörið tækifæri til að rifja upp eina helstu perlu íslenskrar bókmenntasögu um leið og reynt er á vöðvana.

Auðveld og skemmtileg ganga

Rauðuskriður eða Stóri-Dímon er aðeins 174 m á hæð og uppgangan auðveld. Stórkostlegt útsýni er af fellinu. Vestmannaeyjar svífa í blámóðu úti við sjóndeildarhring og minna einna helst á dularfull ævintýralönd. Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull gnæfa yfir umhverfinu. Nafnið Stóri-Dímon af írskum uppruna og við hann áttu Gunnar og Njáll skóg, en talið að hlíðin ofan bæjanna hafi verið skógi vaxin og svo tún og akrar á flatlendinu, svo eyddi Þverá þeim þegar Markarfljót fór að renna í hennar farvegi. Þar létu Hallgerður og Bergþóra vega þræla hvor fyrir annarri.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira