Þriðjudagur 23. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Fjöllyndi faðirinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einn vetur fyrir mörgum árum kenndi ég í litlum framhaldsskóla úti á landi. Mér fannst kennslan skemmtileg og líkaði vel á staðnum. Margir nemendur mínir voru einstaklega skemmtilegir en einn þeirra átti ótrúlega sögu, sorglega en jafnframt svolítið fyndna.

 

Ég var nýhætt með sambýlismanni mínum til fjögurra ára. Ég var sátt við skilnaðinn en hann ekki. Hann reyndi mikið að fá mig til að taka saman við sig aftur en ég stóð föst á mínu. Þá tók hann upp á því að leggja mig í hálfgert einelti en þó án þess að beinlínis nokkur tæki eftir því. Hann forvitnaðist greinilega um ferðir mínar og hvar sem ég kom í heimsóknir til vina og vandamanna fékk ég iðulega að heyra: „Hann Jonni var hérna og er nýfarinn! Mikið er hann nú alltaf ljúfur og skemmtilegur, er enginn möguleiki á því að þið byrjið saman aftur?“ Ég var satt að segja orðin mjög pirruð á þessu og fljótlega fór hann að rekast „alveg óvænt“ á mig á förnum vegi. Við þekktumst orðið það vel að ég áttaði mig alveg á því að þessi leikræna þjáning hans átti að fá mig til að vorkenna honum en það virkaði alveg öfugt!

Einn daginn fékk ég nóg, nóg af Jonna, nóg af Reykjavík, vinnunni minni og bara öllu! Ég sá auglýsingu í dagblaði þar sem auglýst var eftir kennara í framhaldsskóla úti á landi. Ég er kennari að mennt en hafði gegnt skrifstofustarfi um tveggja ára skeið. Mig langaði að fara að kenna aftur og fann þarna leið til að slá tvær flugur í einu höggi. Með fín meðmæli í farteskinu flaug ég inn í starfið og var alsæl með það.

Sorgmæddur nemandi
Ég kenndi af krafti og fylgdist náið með nemendum mínum fóta sig, að vísu misvel, á námsbrautinni. Einn nemandinn vakti þó alveg sérstaklega athygli mína. Sá hét Kjartan, var afburðaklár, metnaðargjarn og frumlegur í tilsvörum. Mér þótti mikið til hans koma og alltaf var hann langhæstur á prófunum hjá mér. Þegar líða tók að vori fór ég þó að merkja að Kjartan var ansi daufur í tímum, lagði lítið til málanna, sem hann var ekki vanur, og einkunnir hans snarlækkuðu.

„Nei, þú skilur þetta ekki. Þegar ég sagði pabba frá trúlofuninni og hver sú heittelskaða væri skipaði hann mér að slíta trúlofuninni eins og skot.“

Að vonum hafði ég nokkrar áhyggjur af þessum breytingum, bæði á framkomu hans og námsárangri. Ég ákvað því að kalla Kjartan til fundar við mig í lok eins skóladagsins. Við settumst inn á kennarastofu sem var mannlaus þennan eftirmiðdag og ég tók til við að spyrja hann hverju þessi umskipti sættu. Þá greindi aumingja pilturinn mér frá því að hann hefði nýslitið trúlofun sinni og ungrar stúlku í plássinu. Hann væri gersamlega vængbrotinn og gæti því ekki einbeitt sér að neinu. Þar sem ég sat þarna gegnt Kjartani og horfði á sorgarsvipinn á andliti hans reyndi ég að slá á létta strengi, minnti hann á ungan aldur og það að ástin sækti hann án efa aftur heim áður en langt um liði.

Þá horfði fyrirmyndarnemandinn allt í einu beint í augun á mér og sagði strangur á svip: „Nei, þú skilur þetta ekki. Þegar ég sagði pabba frá trúlofuninni og hver sú heittelskaða væri skipaði hann mér að slíta trúlofuninni eins og skot. Sú sem ég hafði trúlofast væri nefnilega hálfsystir mín en ég mætti ekki segja mömmu frá því.“ Svo stundi Kjartan þungan. Sem von var varð mér svarafátt.

- Auglýsing -

Ný kærasta
Skólanum var slitið um vorið og þegar líða tók á sumarið rakst ég á Kjartan einn daginn þar sem hann kom gangandi út úr einu ísbúð bæjarins með unga fallega stúlku sér við hlið. Þau voru bæði brosandi út að eyrum. Ég þóttist skilja að tíminn hefði grætt sárin í ungu hjartanu og hann væri ástfanginn á nýjan leik. Þegar kennslan hófst aftur um haustið var Kjartan orðinn hann sjálfur og varð málefnalegur í kennslustundum að nýju. Það varði þó ekki lengi. Allt fór á sama veg þegar önnin var aðeins hálfnuð.

Kjartan varð þegjandalegur, þungur í skapi og einkunnir tóku að snarlækka. Enn boðaði ég hann því á fund til mín og viti menn! Hið sama var uppi teningnum. Í ljós kom að stúlkan sem hann hafði kynnst þá um sumarið og hafði, eins og hin fyrri, alist upp í bænum, var jafnframt hálfsystir hans. Mig tók nú að gruna að drengstaulinn væri einfaldlega að gera gys að mér en ákvað þó í framhaldinu að ræða málin við foreldra hans til að vera viss í minni sök. Annað væri óábyrgt af mér, enda þótt vera kynni að um trúnaðarbrest væri að ræða á milli mín og Kjartans. Andleg heilsa hans var í húfi og námsárangur, auk þess sem ég vildi vita hvort drengnum yrði fyrirmunað fyrir lífstíð að bindast nokkurri stúlku úr plássinu, sökum fjöllyndis föðurins.

Óvænt útspil móður
Foreldrar Kjartans mættu til mín á skrifstofu skólans strax daginn eftir. Ég var ansi hreint taugatrekkt þegar ég ætlaði að fara að bera upp erindið og byrjaði því á því að gera slakar einkunnir Kjartans að umtalsefni ásamt breyttu hátterni hans í kennslustundum. Síðan spurði ég hvort heimilisaðstæður hefðu eitthvað breyst, einhver áföll orðið í fjölskyldunni eða annað sem þeim dytti í hug að gæti valdið þessum stakkaskiptum á drengnum. Þau könnuðust ekki við að hagir fjölskyldunnar hefðu eitthvað breyst. Ég þagði þunnu hljóði en horfði stíft á föðurinn.

„Ég sá nú fram á að þurfa að stilla til friðar á milli þeirra hjóna og jafnvel stöðva stympingar.“

- Auglýsing -

Allt í einu tók pabbinn til máls, dálítið óstyrkur í röddinni og hræddur á svip. Kjartan hefði jú leitað tvisvar til sín vegna sitthvorrar stúlkunnar sem hann hefði kynnst í bænum og átt í ástarsambandi við. Sakbitnar játningar um blóðtengsl stúlknanna við soninn, framhjáhöld og hve hann iðraðist og allt það fylgdu í kjölfarið.

Ég sá nú fram á að þurfa að stilla til friðar á milli þeirra hjóna og jafnvel stöðva stympingar, enda hefði ég sannarlega gengið í skrokk á unnusta mínum, ef ég hefði átt hann til, hefði hann játað annað eins fyrir mér. En öðru nær. Móðirin leit fyrst á mig og síðan á mann sinn og spurði skömmustuleg hverjar þessar stúlkur væru sem hefðu átt vingott við Kjartan. Hann nefndi einhver nöfn og hún þagði um stund. Síðan sagði hún allt í einu ofurblíðri röddu: „Elskan mín, við getum alveg sagt honum Kjartani að hann megi trúlofast annarri hvorri því þú ert ekki faðir hans. Raunverulegur pabbi hans er að sunnan og ég hef ætlað að játa þetta fyrir þér í öll þessi ár.“

Hægt er að hlusta á Lífsreynslusögur Vikunnar á Storytel. Guðrún Óla Jónsdóttir, Gógó, blaðamaður hjá Vikunni, les upp lífsreynslusögur sem sendar hafa verið inn í blaðið í gegnum tíðina og sögurnar eru jafn ólíkar og þær eru margar. Ekki missa af því þegar nýr þáttur af Lífsreynslusögum fer í loftið í viku hverri – fylgstu með okkur á Facebook. https://www.facebook.com/lifsreynslusaga/

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -