2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Flagð undir fögru skinni

  Það er ekki endilega tekið út með sældinni að vera myndarleg, farsæl, einhleyp kona. Hvað þá þegar hún er í leit að ástinni. Því fékk Debra Newell svo sannarlega að kynnast og ótrúlega sögu hennar geta áhorfendur séð í sjónvarpsþáttunum Dirty John.

  Innanhússhönnuðurinn Debra Newell á þrjú börn og fjögur hjónabönd að baki. Hún er sjálfstæð og sterk kona, glæsileg og afar vel stæð. Eftir þónokkur misheppnuð stefnumót telur hún sig hafa dottið í lukkupottinn þegar hún hittir John Meehan eftir að hafa kynnst honum í gegnum stefnumótasíðu. Og hvern skyldi undra; maðurinn er myndarlegur og heillandi, vel gefinn og hlustar af athygli á það sem Debra hefur að segja. Auk þess segist hann vera læknir og segir spennandi sögur af afrekum sínum í Afganistan. Lái henni hver sem vill að telja að þarna sé mættur draumaprinsinn. Í lok fyrsta stefnumótsins ættu þó allar viðvörunarbjöllur að fara í gang hjá Debru en hún hunsar innsæið. Enda kemur glögglega í ljós að John kann að koma fyrir sig orði og áfram heldur rómantíkin með þeim afleiðingum að Debra kolfellur fyrir honum.

  Rándýrið kemur fram

  Hlutirnir gerast hratt hjá þeim skötuhjúum og fyrr en varir eru þau gift. Eins og ofbeldismönnum er tamt fer John fínt í andlega ofbeldið og stjórnsemina til að byrja með. Dætur Debru reyna að fá móður sína til að sjá að eitthvað er ekki eins og það á að vera en hún hlustar ekki á þær. Það verður til þess að þær fjarlægjast móður sína, sem hentar John vel því þar með fær hann enn meira svigrúm til að stjórna eiginkonu sinni. Þegar hið rétta eðli Johns fer að koma í ljós skilur maður ekkert í því að Debra sjái ekki hvaða mann hann hefur að geyma og forði sér hið snarasta. En John er snjall og mjög flinkur að tala sig út úr hlutunum og hann er ekki að gera þetta í fyrsta sinn svo hann veit vel hvað hann er að gera. Nei, Debra er ekki fyrsta konan til að lenda í klónum á honum. Og John er eins og rándýr sem sleppir ekki bráð sinni án þess að berjast með kjafti og klóm.

  Engin leið að hætta

  AUGLÝSING


  Þættirnir sem eru átta talsins voru frumsýndir á sjónvarpsstöðinni Bravo í lok síðasta árs og eru nú aðgengilegir á Netflix. Þeir byggjast á blaðagreinum og hljóðvarpi sem blaðamaðurinn Christopher Goffard gerði árið 2017. Hann fer mun ítarlegar yfir málið og kafar dýpra í persónurnar en sjónvarpsþættirnir gera og hafa handritshöfundar þeirra verið gagnrýndir fyrir það og að sýna ekki afleiðingar hins andlega ofbeldis.

  En hvað sem allri gagnrýni líður verð ég að segja að mér finnst Dirty John hin fínasta afþreying. Það er tilvalið að verja viðburðarlítilli helgi í áhorfið því það eru allar líkur á að það sé erfitt að hætta að horfa í lok hvers þáttar án þess að vita hvað gerist í þeim næsta. Saga Debru og Johns er eiginlega lygileg og það sem fyllti mig óhug eftir áhorfið er að þættirnir byggja á sönnum atburðum. Sérstaklega verandi einhleyp kona sem einhvern tíma prófaði Tinder. En það er á hreinu að þættirnir sanna hið fornkveðna: Betra er autt rúm en illa skipað.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is