2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Flókið að vera foreldri

  Stundum ráða tilviljanir meiru um líf manna en nokkurn grunar. Þær María Ólafsdóttir og Emma Björg Eyjólfsdóttir unnu á sama vinnustað í þrjú ár en kynntust ekki vegna þess að þær skiptust á að vera í fæðingarorlofi. Svo fóru þær að hittast í leikskólahliðinu og þá var sleginn þráður sem nú hefur verið spunninn í marga þætti af góðum ráðum fyrir foreldra.

  María er blaðamaður og Emma Björg fræðslu- og upplýsingafulltrúi ríkissáttasemjara. Báðar höfðu því mikinn áhuga á miðlun og báðum fannst þær skorta þekkingu og kannski styrkingu á vissum sviðum foreldrahlutverksins. Hvað varð til þess að þið ákváðuð að halda úti hlaðvarpi?
  „Okkur langaði að geta náð til foreldra sem allir eru í sömu súpunni, hjólandi daginn út og inn á fullri ferð í hamstrahjóli barnaláns eins og við kjósum að kalla það. Í samfélaginu eru mjög ríkar kröfur gerðar til þess að allt sé fullkomið sem elur á samviskubiti foreldra. Með Andvarpinu viljum við berjast gegn þessu með því að vekja athygli á því að það er ekki alltaf allt fullkomið og það er allt í lagi,“ segir María.

  Glundroði má ríkja í hlaðvarpi

  Hlaðvarp eða podcast er tiltölulega nýr miðill og kannski hafa ekki allir kveikt á því hve auðvelt er að nálgast það og hvar það er að finna. Hverjir eru kostir þess umfram aðra miðla?
  „Okkur fannst hlaðvarp tilvalinn miðill til að koma skilaboðum okkar á framfæri því hlaðvarp er bæði óformlegt og lifandi,“ segir Emma Björg. „Innan þess má ríkja glundroði rétt eins og gerist í barnauppeldi.“

  „Þetta hlutverk er það allrabesta í lífinu en getur um leið verið ótrúlega erfitt og lýjandi.“

  AUGLÝSING


  Andvarpið – hlaðvarp foreldra, er þetta vísun í að foreldrahlutverkið sé lýjandi? „Foreldrahlutverkið hefur ótal hliðar og því fylgja margslungnar tilfinningar,“ segir María. „Krafa er gerð um að við eigum sífellt að vera að njóta, skapa minningar og grípa augnablikið. En stundum drukknar augnablikið bara í pissupolli og því að lúskemba, reyna að fá börnin til að smakka grænmeti og stilla til friðar í systkinaerjum. Þetta getur verið lýjandi og rétt eins og með annað í lífinu þá getur ekki alltaf verið gaman og það er allt í lagi. Þetta hlutverk er það allrabesta í lífinu en getur um leið verið ótrúlega erfitt og lýjandi.“

  Allar hliðar foreldrahlutverksins

  Já, vissulega getur verið erfitt að halda sjó í daglegu amstri á tímum þar sem myndir af fullkomnum barnaafmælum skreytingasérfræðinga birtast á Netinu og rómantískar myndir af undurfögrum mæðrum með bústin brosandi börn flæða inn í tölvurnar manns óumbeðið. Þeir sem ekki eiga börn eru oft undarlega sérfróðir um uppeldi og hafa mikinn áhuga á að hjálpa til við að aga börn annarra. Hvað fjallið þið um?
  „Allar hliðar foreldrahlutverksins allt frá getnaði og meðgöngu, ófrjósemi, fæðingu og brjóstagjöf yfir í parasambandið, umhverfisvænt uppeldi og hversdagslegar raunir þriggja barna mæðra í úthverfi,“ segir Emma Björg.

  Er þetta eitthvað sem er komið til að vera?
  „Andvarpið hefur fengið góð viðbrögð og er greinilega þörf fyrir hreinskilna umræðu á borð við þá sem við höfum lagt áherslu á í Andvarpinu. Á meðan einhver er að hlusta ætlum við að tala,“ segir María og hlær.

  Eigið þið sjálfar börn? „Það eigum við svo sannarlega. Við eigum samtals sex börn á aldrinum 1-12 ára sem er hressandi, daglegur hrærigrautur,“ segir Emma Björg með kímniglampa í augunum.

  Að hitta allt það fólk sem þið hafið talað við, margt hvert sérfrótt um þroska og sálarlíf barna hefur það breytt einhverju um hvernig þið alið upp ykkar afkvæmi? „Við vijum meina að við séum meðvitaðri um það að stundum eigi maður erfiða daga og það er allt í lagi því þeir koma og fara. Eins að vera mildari við sjálfa sig í þessu stóra ábyrgðarhlutverki sem foreldrahlutverkið er því oft er maður allt of harður við sjálfa/n sig. Það er nauðsynlegt að klappa sér stundum á bakið og líka að hrósa öðrum. Við erum öll í sama liði og það skiptir miklu máli að hjálpast að frekar en að dæma,“ segir María en hlaðvarpið má nálgast á hlaðvarpsveitum meðal annars podtail. com, buzzsprout.com og podcast.apple.com. Einnig er þátturinn með Facebook-síðu.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is