2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Baksturinn og samveran með fjölskyldu og vinum það skemmtilegasta við jólin

  Hjördís Dögg Grímarsdóttir er mörgum að góðu kunn en hún hefur um nokkurt skeið verið andlit Betty Crocker á Íslandi, bloggað fyrir Gott í matinn og bakað eins og vindurinn með aðstoð bleiku KitchenAid-hrærivélanna sinna. Hún á ótal fylgjendur á Instagram sem fylgjast með þegar hún lætur til sín taka í eldhúsinu.

  „Áhugi minn á bakstri hófst þegar ég var lítil en mamma er klárlega fyrirmynd mín í bakstrinum. Ég elskaði líka að prófa mig áfram í heimilisfræði í Grundaskóla, lék mér svo heima að því að baka gómsæta skúffuköku fyrir vinkonurnar en við skiptumst á að baka og bjóða,“ segir Hjördís, þegar hún er spurð að því hvenær áhuginn á bakstri hafi kviknað.

  Hjördís segist róleg í jólaundirbúningnum og að allt hefjist með því að baka smákökurnar. „Það skemmtilegasta við jólin eru ljósin, baksturinn og samveran með fjölskyldu og vinum. Sá siður að hittast heima hjá foreldrum mínum á aðfangadagsmorgun og gæða sér á súkkulaði með rjóma og dýrindis morgunverði finnst mér fallegur. Já, og svo er ómissandi siður líka að leyfa yngri syninum að elda jólasteikina. Hann er snillingur á sínu sviði og hefur séð um hamborgarhrygginn með góðum árangri í þrjú ár, eða frá því hann var átta ára.“

  Hér gefur Hjördís uppskrift að köku sem hún segir að allir ættu að geta leikið eftir.

  AUGLÝSING


  Marensterta með eplum og karamellu.

  Marensterta með eplum og karamellu

  2 botnar

  8 eggjahvítur
  440 g sykur
  1 tsk. lyftiduft
  gelmatarlitur

  Þeytið eggjahvíturnar og bætið sykrinum saman við og stífþeytið blönduna. Blandið lyftiduftinu síðan varlega saman við ásamt matarlit. Til að móta hring er fínt að teikna með fram matardisk og öðrum minni á bökunarpappír. Setjið marensblönduna í þrjár skálar og litið hverja blöndu að vild. Setjið síðan blönduna í sprautupoka og notið stútinn 1M og franskan stút við að sprauta. Bakið við 130°C í um 1 ½ klst.

  Fylling

  ½ lítri rjómi
  2 epli
  15 stk. Dumle-karamellur

  Þeytið rjómann, skerið eplin í smáa bita og einnig Dumle-karamellurnar. Blandið varlega út í rjómann og setjið á milli marenshringjanna.

  Texti / Guðríður Haraldsdóttir
  Myndir / Aldís Pálsdóttir

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is